Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Andlegt hugarfar og góð líðan

Andlegt hugarfar og góð líðan

Andlegt hugarfar og góð líðan

OFT fer mikill tími í að hugsa um heilsuna. Á hverjum degi eyðum við kannski átta klukkustundum í svefn og nokkrum í matargerð og máltíðir, og átta klukkustundir eða meira fara í að vinna fyrir fæði og húsnæði. Ef við verðum veik notum við tíma og peninga í að leita læknis eða ráða bót á meinum okkar eftir hefðbundnum leiðum. Við gætum hreinlætis, förum í bað og stundum jafnvel líkamsrækt, allt í þeim tilgangi að halda góðri heilsu.

Ef halda á góðri heilsu þarf meira til en hugsa aðeins um líkamlegar þarfir. Það er annað sem ræður líka miklu um gott heilsufar. Læknisrannsóknir hafa sýnt fram á að líkamleg heilsa er nátengd andlegri líðan, hvort maður sé andlega sinnaður eða ekki.

Skýr tengsl

„Niðurstöður flestra frumrannsókna sýna að skýr tengsl séu á milli aukinna andlegra iðkana og betra heilsufars,“ segir Hedley G. Peach, prófessor við Melbourne-háskóla í Ástralíu. Í tímaritinu The Medical Journal of Australia segir um þessar niðurstöður: „Tengsl hafa einnig fundist milli trúhneigðar og . . . lægri blóðþrýstings, lægra kólesteróls . . . og minni áhættu á ristilkrabbameini.“

Í rannsókn, sem gerð var árið 2002 á 6545 manns í Bandaríkjunum á vegum Kaliforníuháskóla í Berkeley, kom fram að „þeir sem sóttu trúarsamkomur einu sinni í viku voru langlífari en þeir sem sóttu þær sjaldnar eða aldrei“. Doug Oman, sem vann að rannsókninni og er lektor við lýðheilsudeild Kaliforníuháskóla í Berkeley, sagði: „Þessi mismunur kom jafnvel fram þegar tekið hafði verið tillit til þátta eins og félagslegra tengsla og heilbrigðisvenja, þar á meðal reykinga og líkamsþjálfunar.“

Varðandi aðra kosti þess að vera andlega sinnaður segir í tímaritinu The Medical Journal of Australia: „Í áströlskum rannsóknum kemur fram að hjónabönd eru traustari meðal þeirra sem eru trúhneigðir, að minna er um neyslu áfengis og ólöglegra vímuefna, sjálfsvíg og sjálfsvígshugleiðingar eru fátíðari, minna um kvíða og þunglyndi og umhyggja fyrir öðrum meiri.“ Þar að auki segir í tímaritinu BMJ (áður nefnt The British Medical Journal ): „Andlega sinnað fólk virðast ráða fyrr fram úr sorginni og vinna fyrr úr henni eftir lát nákomins ættingja eða vinar heldur en þeir sem sinna ekki andlegum málum.“

Ólíkar skoðanir eru uppi um hvað sé trúhneigð og andlegt hugarfar en það hefur bæði áhrif á líkamlega og andlega heilsu. Það kemur heim og saman við það sem Jesús sagði fyrir um 2000 árum: „Eigi lifir maðurinn á einu saman brauði, heldur á hverju því orði, sem fram gengur af Guðs munni.“ (Matteus 4:4) Að vera andlega sinnaður hefur áhrif á heilsu og hamingju þannig að það er skynsamlegt að spyrja hvar sé að finna áreiðanlega leiðsögn í trúarlegum efnum. Hvað er að vera andlega sinnaður?