Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvernig er hægt að svala andlegri þörf sinni?

Hvernig er hægt að svala andlegri þörf sinni?

Hvernig er hægt að svala andlegri þörf sinni?

„Á SÍÐASTA áratug hafa meira en 300 bækur, sem fjalla um gildi andlegs hugarfars á vinnustað, flætt yfir bókabúðir, bækur allt frá Jesus CEO til The Tao of Leadership,“ segir í blaðinu U.S.News & World Report. Þetta sýnir einkum að löngunin eftir andlegri leiðsögn í lífinu er sífellt að aukast í mörgum velmegunarlöndum. Í viðskiptablaðinu Training & Development stendur: „Á tímum tæknivæðingar, sem stjórnar orðið flestum sviðum lífsins, leitum við að dýpri merkingu og tilgangi í lífinu og meiri lífshamingju.“

Hvar er hægt að finna fullnægjandi andlega leiðsögn? Áður fyrr leitaði fólk á náðir stóru kirkjudeildanna til að finna „dýpri merkingu“ og „tilgang“ í lífinu. Núna hafa margir snúið baki við þeim. Könnun, sem tók til 90 háttsettra forstjóra og stjórnenda, leiddi í ljós að „fólk greinir mikinn mun á trúarbrögðum og andlegum iðkunum“, segir í blaðinu Training & Development. Þeir sem svöruðu í könnuninni litu svo á að trúarbrögð væru „umburðarlaus og sundrandi“ en andlegar iðkanir töldu þeir vera „altækar og algildar“.

Þar sem þjóðfélög eru frekar veraldlega sinnuð eins og á Nýja Sjálandi, í Ástralíu, Bretlandi og Evrópu finnst mörgu ungu fólki vera munur á trúarbrögðum og andlegum iðkunum. Ruth Webber, prófessor, sem skrifar í tímaritið Youth Studies Australia, fullyrðir að „meiri hluti ungs fólks trúi á Guð eða einhvers konar yfirnáttúrulegan kraft en telji kirkjuna ekki vera það þýðingarmikla að hún skipti máli eða komi að gagni við að svala trúarþörf sinni“.

Sönn trú stuðlar að andlegu hugarfari

Vantraust gagnvart trúarbrögðum er skiljanleg. Mörg trúfélög eru á kafi í pólitísku leynimakki og siðferðilegri hræsni og blóði drifin eftir ótalmargar trúarbragðastyrjaldir. En með því að hafna þessum trúfélögum, sem eru flekkuð af hræsni og blekkingum, hafa sumir gert þau mistök að hafna einnig Biblíunni og halda að hún hallist á sveif með slíkri hegðun.

Í Biblíunni eru hræsni og lögleysi fordæmd. Jesús sagði trúarleiðtogunum á sínum tíma: „Vei yður, fræðimenn og farísear, hræsnarar! Þér líkist hvítum kölkuðum gröfum, sem sýnast fagrar utan, en innan eru fullar af dauðra manna beinum og alls kyns óþverra. Þannig eruð þér, sýnist hið ytra réttlátir í augum manna, en eruð hið innra fullir hræsni og ranglætis.“ — Matteus 23:27, 28.

Í Biblíunni er enn fremur brýnt fyrir kristnum mönnum að vera hlutlausir í öllu er varðar stjórnmál. Þeir eiga að vera fúsir til að láta lífið hver fyrir annan en ekki drepa hver annan. (Jóhannes 15:12, 13; 18:36; 1. Jóhannesarbréf 3:10-12) Sönn trú, sem grundvölluð er á Biblíunni, er ‚algild‘ og er hvorki ‚umburðarlaus né sundrandi‘. Pétur postuli sagði: „Guð fer ekki í manngreinarálit. Hann tekur opnum örmum hverjum þeim, sem óttast hann og ástundar réttlæti, hverrar þjóðar sem er.“ — Postulasagan 10:34, 35.

Biblían er öruggur vegvísir til andlegrar velferðar

Í Biblíunni er sagt að mennirnir séu skapaðir í Guðs mynd. (1. Mósebók 1:26, 27) Það merkir ekki að mennirnir líkist Guði að útliti til heldur að þeir séu færir um að endurspegla persónuleika hans, þar á meðal hæfileikann til að hugsa um andleg málefni, vera andlega sinnaðir.

Fyrst því er svo farið er rökrétt að trúa að Guð sjái okkur fyrir því sem þarf til að við fáum andlegri þörf okkar svalað, og hann veiti okkur jafnframt réttar leiðbeiningar svo að við getum greint á milli þess sem er gagnlegt og þess sem er hættulegt andlegu hugarfari. Guð skapaði líkama okkar með óviðjafnanlega vel hönnuðu ónæmiskerfi sem berst gegn sjúkdómum og stuðlar að heilbrigði. Hann lét okkur í té samvisku eða innri rödd svo að við eigum auðveldara með að taka réttar ákvarðanir og forðast venjur sem eru líkamlega og andlega skaðlegar. (Rómverjabréfið 2:14, 15) Eins og vitað er verður ónæmiskerfið að fá rétta næringu til að starfa rétt. Á svipaðan hátt þarf samviskan að fá heilnæma, andlega fæðu til þess að starfa rétt.

Jesús tilgreindi hvers konar fæða stuðlaði að andlegri velferð og sagði: „Eigi lifir maðurinn á einu saman brauði, heldur á hverju því orði, sem fram gengur af Guðs munni.“ (Matteus 4:4) Jehóva tjáir sig í skráðu orði sínu, Biblíunni, og það sem hann segir er ‚nytsamt til fræðslu, til umvöndunar og til leiðréttingar‘. (2. Tímóteusarbréf 3:16) Það er því undir okkur komið hvort við leggjum það á okkur að taka á móti þessari andlegu næringu. Allt sem við gerum til þess að afla okkur þekkingar í Biblíunni og fara eftir meginreglum hennar í lífinu kemur okkur að gagni, bæði andlega og líkamlega. — Jesaja 48:17, 18.

Borgar það sig?

Vissulega þarf að gefa sér tíma til að bæta andlegt heilsufar með því að rannsaka Biblíuna og svo virðist sem hann liggi sífellt sjaldnar á lausu. En það borgar sig þegar litið er til launanna. Við skulum sjá hvernig önnum kafið fagfólk útskýrir hvers vegna það telur mikilvægt að gefa sér tíma til að sinna andlegum málum í þágu heilsunnar.

Marina, sem er læknir, segir: „Ég leiddi í raun aldrei hugann að andlegri líðan minni fyrr en ég fór að starfa á sjúkrahúsi og þjáningar annarra fóru að hafa djúp áhrif á mig. Ég gerði mér þá ljóst að ég yrði að viðurkenna andlega þörf mína og svala henni ef ég ætti að öðlast gleði og frið þar sem daglega lífið og umönnunarkröfur fólks geta verið yfirþyrmandi fyrir þá sem sinna svipuðu starfi og ég.

Ég er að kynna mér Biblíuna með aðstoð votta Jehóva. Með þessu námi á ég auðveldara með að rannsaka á uppbyggilegan hátt hegðun mína og hvatir og venja mig á að hafa jákvætt hugarfar svo að jafnvægi skapist í lífinu. Ég hef mikla ánægju af því sem ég starfa við. En það er biblíunámið sem hefur bætt andlegt heilsufar mitt með því að hjálpa mér að hafa stjórn á neikvæðum tilfinningum, draga úr spennu og sýna fólki meiri þolinmæði og samúð. Með því að fara eftir meginreglum Biblíunnar hefur hjónabandið einnig styrkst. Það sem skiptir þó mestu máli er að ég hef kynnst Jehóva og getað nýtt mér að nokkru leyti takmarkalausan anda hans. Það hefur gert líf mitt tilgangsríkara.“

Nicholas, sem er arkitekt, segir: „Áður en ég byrjaði að kynna mér Biblíuna með aðstoð votta Jehóva hafði ég engan áhuga á andlegum málum. Eina markmiðið í lífinu var að ná árangri í starfi. Námið í Biblíunni hefur kennt mér að lífið snýst um miklu meira en vinnuna og það að gera vilja Jehóva leiðir til sannrar og varanlegrar hamingju.

Vinnan veitir mér á vissan hátt ánægju en það er af Biblíunni sem ég hef lært hve mikilvægt er að lifa einföldu lífi með því að setja andlegu málin í öndvegi. Með því móti höfum við hjónin komist að mestu leyti hjá því álagi sem fylgir lífsstíl efnishyggjunnar. Við höfum einnig eignast marga sanna vini með því að hafa samskipti við þá sem hafa svipuð andleg lífsviðhorf.“

Vincent, sem er lögfræðingur, segir: „Velgengni í starfi getur að vissu marki veitt ánægju. Ég hef samt komist að raun um að miklu meira þarf til þess að öðlast hamingju og ánægju. Áður en ég kynntist kenningum Biblíunnar minnist ég þess þegar tilgangsleysi lífsins rann skyndilega upp fyrir mér — fæðast, vaxa úr grasi, kvænast, fara í vinnuna til þess að sjá fyrir efnislegum nauðsynjum við uppeldi barnanna, kenna þeim að fylgja nákvæmlega sama lífsmynstrinu og verða að lokum gamall og deyja.

Það var fyrst eftir að ég kynnti mér Biblíuna með aðstoð votta Jehóva að ég fékk viðunandi svör við spurningunum um tilgang lífsins. Biblíunámið hefur gert mér kleift að kynnast Jehóva sem persónu og þroska með mér djúpstæðan kærleika til hans. Þetta gefur mér grundvöll til að varðveita heilnæmt, andlegt viðhorf og ég reyni að haga lífinu í samræmi við það sem ég veit að er vilji hans. Núna erum við hjónin ánægð þar sem við vitum að við lifum á eins tilgangsríkan hátt og við mögulega getum.“

Þú getur einnig öðlast skilning á tilgangi lífsins þegar þú kynnist Biblíunni. Vottar Jehóva munu aðstoða þig með ánægju. Þú getur öðlast sömu gleði og Marina, Nicholas og Vincent með því að læra um Jehóva og ráðstafanir hans fyrir mannkynið almennt og fyrir þig sem einstakling. Þú munt bæði fá andlegum þörfum svalað núna og einnig eignast von um að njóta eilífs lífs og fullkominnar heilsu en það stendur aðeins þeim til boða „sem eru sér meðvita um andlega þörf sína“. — Matteus 5:3, NW.

Bænin er ein leið til að þroska með sér andlegt hugarfar. Jesús gaf sér tíma til að kenna lærisveinunum að biðjast fyrir með því að kenna þeim bænina sem almennt er kölluð faðirvorið. Hvaða þýðingu hefur þessi bæn fyrir þig? Hvaða gagn hefur þú af henni? Svörin er að finna í næstu tveim greinum.

[Myndir á blaðsíðu 6]

Marina

[Myndir á blaðsíðu 7]

Nicholas

[Myndir á blaðsíðu 7]

Vincent