Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Mynd þessa heims breytist“

„Mynd þessa heims breytist“

„Mynd þessa heims breytist“

„Það segi ég, bræður, tíminn er orðinn stuttur.“ — 1. KORINTUBRÉF 7:29.

1, 2. Hvaða breytingum hefurðu orðið vitni að á ævinni?

HVAÐA breytingum hefurðu orðið vitni að á ævinni? Geturðu nefnt nokkrar þeirra? Til dæmis má nefna framfarir sem orðið hafa í læknavísindum. Við upphaf 20. aldar voru lífslíkur fólks víða um lönd innan við 50 ár. Nú orðið má fólk búast við að lifa langt fram yfir sjötugt sums staðar í heiminum. Svo er rannsóknum í læknisfræði fyrir að þakka. Og hugsaðu þér það gagn sem hafa má af útvarpi, sjónvarpi, bréfasímum og farsímum. Gleymum ekki heldur framförum í menntun, samgöngum og mannréttindum sem hafa bætt hlutskipti milljóna manna.

2 Ekki hafa þó allar breytingar verið til batnaðar. Við getum ekki horft fram hjá vaxandi glæpum, hnignandi siðferði, aukinni fíkniefnaneyslu, tíðari hjónaskilnuðum, vaxandi verðbólgu og sífellt meiri hættu á hryðjuverkum. Hvernig sem á málin er litið tekurðu sennilega undir orð Páls postula sem hann skrifaði endur fyrir löngu: „Mynd þessa heims breytist.“ — 1. Korintubréf 7:31, NW.

3. Hvað átti Páll við þegar hann skrifaði að ‚mynd þessa heims breytist‘?

3 Þegar Páll skrifaði þetta var hann að líkja heiminum við leiksvið. Leikendurnir koma fram — frægt fólk á vettvangi stjórnmála, trúmála og menningarmála — leika hlutverk sín og víkja svo fyrir öðrum. Þannig hefur þetta gengið fyrir sig um aldaraðir. Áður fyrr gat sama konungsætt setið að völdum áratugum eða jafnvel öldum saman. Breytingar gengu hægt fyrir sig. En nú getur gangur sögunnar breyst á örskoti, jafnhratt og byssukúla launmorðingja hittir skotmark sitt. Já, þetta eru ólgutímar og enginn veit hvað morgundagurinn ber í skauti sínu.

4. (a) Hvaða yfirvegaða afstöðu þurfa kristnir menn að hafa gagnvart heimsatburðum? (b) Hvaða tvenns konar sannanir ætlum við að skoða?

4 Sé heimurinn leiksvið og forystumenn hans leikendurnir sitja kristnir menn á áhorfendabekkjunum. * Kristnir menn tilheyra hins vegar ekki heiminum þannig að þeir hafa hóflegan áhuga á því hvernig leikendurnir standa sig og jafnvel hverjir þeir eru. (Jóhannes 17:16) Þess í stað fylgjast þeir af brennandi áhuga með því hvort þess sjáist merki að leikritið sé að ná hámarki — að komið sé að leikslokum — því að þeir vita að þetta heimskerfi verður að líða undir lok áður en hinn réttláti, nýi heimur Guðs, sem þeir hafa þráð svo lengi, gengur í garð. * Við skulum því kynna okkur tvenns konar sannanir fyrir því að við lifum á tímum endalokanna og að nýr heimur er framundan. Þetta eru (1) tímatal Biblíunnar og (2) versnandi ástand í heiminum. — Matteus 24:21; 2. Pétursbréf 3:13.

Leyndardómur loksins upplýstur

5. Hvað eru „tímar heiðingjanna“ og hvers vegna vekja þeir áhuga okkar?

5 Tímatal snýst meðal annars um það hvernig atburðir eru tímasettir í sögunni. Jesús talaði um það tímaskeið þegar leiðtogar heims myndu fara með aðalhlutverk án afskipta ríkis Guðs. Hann kallaði það ‚tíma heiðingjanna‘. (Lúkas 21:24) Þegar þetta tímabil væri á enda myndi himneskt ríki Guðs taka völd með Jesú sem lögmætan valdhafa. Í byrjun myndi hann ‚drottna mitt á meðal óvina sinna‘. (Sálmur 110:2) Síðan myndi ríkið „knosa og að engu gjöra“ allar stjórnir manna en sjálft standa að eilífu eins og fram kemur í Daníelsbók 2:44.

6. Hvenær hófust „tímar heiðingjanna“, hve langir voru þeir og hvenær lauk þeim?

6 Hvenær áttu „tímar heiðingjanna“ að taka enda og Guðsríki að taka völd? Þar kemur tímatal Biblíunnar til skjalanna en svarið átti að vera ‚innsiglað‘ þar til endalokatíminn rynni upp. (Daníel 12:9) Þegar þessi tími nálgaðist gerði Jehóva ráðstafanir til að opinbera þetta hópi auðmjúkra biblíunemenda. Með hjálp anda Guðs komust þeir að raun um að „tímar heiðingjanna“ hefðu hafist þegar Jerúsalem var eytt árið 607 f.o.t. og ættu að vera 2520 ára langir. Þannig gátu þeir reiknað út að „tímar heiðingjanna“ myndu enda árið 1914. Þeir áttuðu sig jafnframt á því að árið 1914 markaði upphafið að endalokum þessa heimskerfis. Geturðu notað Biblíuna til að sýna fram á hvernig þetta ártal er fundið út? *

7. Hvaða ritningarstaði getum við notað til að reikna út hvenær tíðirnar sjö, sem nefndar eru í Daníelsbók, hófust, hve langar þær eru og hvenær þær hafi endað?

7 Ein vísbendingin leynist í Daníelsbók. Jehóva notaði Nebúkadnesar, konung Babýlonar, til að eyða Jerúsalem þegar „tímar heiðingjanna“ hófust árið 607 f.o.t. Hann notaði hann jafnframt til að opinbera að þjóðirnar myndu stjórna án íhlutunar sinnar í samtals sjö táknrænar tíðir. (Esekíel 21:26, 27; Daníel 4:16, 23-25) Hve langar eru þessar sjö tíðir? Þrjár og hálf tíð samsvara 1260 dögum samkvæmt Opinberunarbókinni 11:2, 3 og 12:6, 14. (Biblían 1912) Sjö tíðir hljóta þá að vera helmingi lengri eða 2520 dagar. Er það allt og sumt? Nei, því að Jehóva gaf Esekíel, sem var samtíða Daníel, reglu til að túlka þetta táknmál: „Tel ég þér dag fyrir ár hvert.“ (Esekíel 4:6) Tíðirnar sjö samsvöruðu því 2520 árum. Með því að telja þetta mörg ár frá 607 f.o.t. má sem sagt álykta að tímum heiðingjanna hafi átt að ljúka árið 1914.

Endalokatíminn staðfestur

8. Hvaða rök geturðu bent á fyrir því að heimsástandið hafi versnað frá 1914?

8 Heimsatburðirnir frá 1914 staðfesta að það sé réttur skilningur á tímatali Biblíunnar sem hér er lýst. Jesús sagði að tímabilið, sem kallað er ‚endalok veraldar‘, myndi einkennast af styrjöldum, hungursneyð og drepsóttum. (Matteus 24:3-8; Opinberunarbókin 6:2-8) Sú hefur verið raunin frá 1914. Páll postuli jók við útlistun Jesú og sagði að viðhorf fólks til náungans myndi breytast verulega. Lýsing hans á þeim umskiptum, sem við höfum séð, hittir beint í mark. — 2. Tímóteusarbréf 3:1-5.

9. Hvað segja fróðir menn um ástandið í heiminum upp frá 1914?

9 Hefur „mynd þessa heims“ breyst í raun og veru frá 1914? Robert Wohl, prófessor, segir í bókinni The Generation of 1914: „Þeir sem lifðu stríðið losnuðu aldrei við þá tilfinningu að einn heimur hefði endað og annar gengið í garð í ágúst 1914.“ Dr. Jorge A. Costa e Silva, forstöðumaður geðheilsusviðs hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni, tekur í sama streng: „Við lifum á tímum gífurlega hraðra breytinga sem valda á endanum þvílíkum kvíða og streitu að annað eins hefur ekki þekkst í sögu mannkyns.“ Þekkir þú þetta af eigin raun?

10. Hvað upplýsir Biblían um orsök þess að ástandið í heiminum hefur versnað frá 1914?

10 Hverjum er um að kenna að ástandið hefur versnað svona? Opinberunarbókin 12:7-9 afhjúpar sökudólginn: „Þá hófst stríð á himni: Míkael [Jesús Kristur] og englar hans fóru að berjast við drekann [Satan djöfulinn]. Drekinn barðist og englar hans, en þeir fengu eigi staðist og eigi héldust þeir heldur lengur við á himni. Og drekanum mikla var varpað niður, . . . honum sem afvegaleiðir alla heimsbyggðina.“ Það er sem sagt Satan djöfullinn sem ber sökina á erfiðleikunum. Brottrekstur hans af himni árið 1914 hafði í för með sér hörmungar fyrir jörðina og hafið því að hann er „stiginn niður til yðar í miklum móð, því að hann veit, að hann hefur nauman tíma“. — Opinberunarbókin 12:10, 12.

Lokaþáttur sjónleiksins

11. (a) Hvaða aðferðir notar Satan til að afvegaleiða „alla heimsbyggðina“? (b) Hvað á Satan eftir að gera sem Páll postuli vekur athygli á?

11 Satan veit að endalokin eru skammt undan þannig að hann hefur hert sig til muna við að afvegaleiða „alla heimsbyggðina“ síðan 1914. Þessi snjalli blekkingameistari starfar bak við tjöldin og skákar leiðtogum og menningarfrömuðum fram á sviðið til að fara með hlutverk. (2. Tímóteusarbréf 3:13; 1. Jóhannesarbréf 5:19) Eitt af markmiðum hans er að telja mannkyninu trú um að stjórnarhættir sínir geti komið á sönnum friði. Áróður hans hefur borið árangur því að fólk er bjartsýnt á heildina litið, þrátt fyrir að öllum eigi að vera ljóst að það sígur jafnt og þétt á ógæfuhliðina. Páll postuli sagði fyrir að rétt áður en þessu heimskerfi yrði eytt myndi áróður Satans birtast með sérstökum hætti. Hann skrifaði: „Þegar menn segja: ‚Friður og engin hætta‘, þá kemur snögglega tortíming yfir þá, eins og jóðsótt yfir þungaða konu.“ — 1. Þessaloníkubréf 5:3; Opinberunarbókin 16:13.

12. Hvernig hefur verið reynt að koma á friði á okkar tímum?

12 Á síðustu árum hafa stjórnmálamenn býsna oft talað um „frið og öryggi“ í sambandi við hin ýmsu áform mannanna. Meira að segja nefndu þeir árið 1986 alþjóðlegt friðarár þó að það risi hvergi nærri undir nafni. Er þessi viðleitni helstu leiðtoga heims fullnaðaruppfylling 1. Þessaloníkubréfs 5:3 eða var Páll að vísa til ákveðins atburðar sem er svo stór í sniðum að hann vekur heimsathygli?

13. Við hvað líkti Páll eyðingunni sem kemur í kjölfar þess að lýst er yfir friði og engri hættu og hvaða lærdóm má draga af því?

13 Við verðum að bíða og sjá til því að oft skiljast spádómar Biblíunnar ekki að fullu fyrr en eftir að þeir hafa ræst eða meðan þeir eru að rætast. Hins vegar er það athyglisvert að Páll skyldi líkja hinni skyndilegu eyðingu í kjölfar yfirlýsingarinnar um frið og enga hættu við fæðingarhríðir. Þá níu mánuði, sem kona gengur með barn, finnur hún æ betur fyrir barninu sem er að þroskast í kviði hennar. Kannski getur hún heyrt hjartslátt þess og finnur það hreyfast. Það getur jafnvel sparkað. Merkin færast jafnt og þétt í aukana uns hún finnur skyndilegan sársaukasting sem bendir til þess að nú sé runninn upp hinn langþráði dagur að barnið komi í heiminn. Eins er það með yfirlýsinguna um frið og enga hættu. Hvernig sem hún á eftir að koma fram verður hún undanfari atburðar sem brestur snögglega á með sársaukafullum hætti en leiðir gott af sér þegar yfir lýkur því að illskunni verður eytt og nýr heimur gengur í garð.

14. Lýstu atburðarásinni og lokum leikritsins.

14 Eyðingin verður ógnvekjandi fyrir trúa kristna menn sem horfa á hana álengdar. Fyrst snúast konungar jarðar (pólitískur armur skipulags Satans) gegn stuðningsmönnum Babýlonar hinnar miklu (trúarlega arminum) og tortíma þeim. (Opinberunarbókin 17:1, 15-18) Söguþráðurinn tekur þannig óvænta stefnu þegar ríki Satans snýst gegn sjálfu sér og einn armur þess ræðst á annan. Satan horfir vanmátta á. (Matteus 12:25, 26) Jehóva leggur konungum jarðar það í brjóst að „gjöra vilja sinn“, það er að segja að losa jörðina við trúarlega fjandmenn sína. Eftir að falstrúarbrögðunum hefur verið eytt fer Jesús Kristur fyrir himneskum hersveitum sínum þegar þær gereyða því sem eftir er af skipulagi Satans, það er að segja viðskipta- og stjórnmálaöflunum. Að síðustu verður Satan sjálfur tekinn úr umferð. Tjaldið fellur. Langdregið leikrit er á enda. — Opinberunarbókin 16:14-16; 19:11-21; 20:1-3.

15, 16. Hvaða áhrif ætti það að hafa á líf okkar að „tíminn er orðinn stuttur“?

15 Hvenær gerist allt þetta? Við vitum ekki daginn né stundina. (Matteus 24:36) Við vitum hins vegar að „tíminn er orðinn stuttur“. (1. Korintubréf 7:29) Það er því áríðandi að nota vel þann tíma sem eftir er. Hvernig? Eins og Páll postuli bendir á þurfum við að nota hverja stund og kaupa tíma frá því sem minna máli skiptir til að sinna því sem mikilvægara er. Við þurfum að nota hvern dag vel. Hvers vegna? Vegna þess að „dagarnir eru vondir“. Við viljum ekki sóa þeim dýrmæta tíma sem eftir er því að við ‚skiljum hver er vilji Drottins‘. — Efesusbréfið 5:15-17; 1. Pétursbréf 4:1-4.

16 Hvaða áhrif ætti vitneskjan um yfirvofandi endalok alls heimskerfisins að hafa á okkur? Pétur postuli ráðleggur okkur eftirfarandi: „Þar eð allt þetta ferst þannig, hversu ber yður þá ekki að ganga fram í heilagri breytni og guðrækni.“ (2. Pétursbréf 3:11) Já, þannig ættum við að ganga fram. Í samræmi við viturleg ráð Péturs þurfum við (1) að hafa nákvæma gát á breytni okkar til að tryggja að hún sé heilög og (2) gæta þess að það sem við gerum í þjónustu Jehóva endurspegli alltaf djúpan kærleika okkar til hans.

17. Hvaða snörur Satans verða trúir kristnir menn að varast?

17 Með því að elska Guð fyrirbyggjum við að við förum að láta okkur þykja vænt um heiminn. Í ljósi þess sem bíður núverandi heims er hættulegt að heillast af glysi hans og glaumi og láta nautnalíf hans toga í okkur. Þó að við lifum og störfum í heiminum ættum við að fylgja því viturlega ráði að nota hann ekki til fulls. (1. Korintubréf 7:31) Við verðum að gera okkar besta til að láta ekki afvegaleiðast af áróðri hans. Heiminum tekst ekki að leysa vandamál sín. Hann getur ekki haldið sér gangandi um ókomna framtíð. Hvers vegna getum við verið svona viss um það? Vegna þess að innblásið orð Guðs segir það: „Heimurinn fyrirferst og fýsn hans, en sá, sem gjörir Guðs vilja, varir að eilífu.“ — 1. Jóhannesarbréf 2:17.

Það besta er ókomið enn

18, 19. Hvaða breytingar hlakkarðu til að sjá í nýja heiminum og hvers vegna verður það þess virði að bíða eftir þeim?

18 Jehóva gefur bráðlega merki um að tjaldið skuli falla á Satan og þá sem styðja hann. Hinir trúuðu, sem eftir lifa, geta þá byrjað að færa „sviðsmyndina“ í varanlegt form, með blessun Guðs. Hann „stöðvar styrjaldir til endimarka jarðar“ þannig að þær fá ekki að spilla ásýnd hennar framar. (Sálmur 46:10) Í stað matarskorts verða „gnóttir korns . . . í landinu“. (Sálmur 72:16) Fangelsi verða horfin, svo og lögreglustöðvar, samræðissjúkdómar, fíkniefnabarónar, hjónaskilnaðir, gjaldþrot og hryðjuverk. — Sálmur 37:29; Jesaja 33:24; Opinberunarbókin 21:3-5.

19 Minningargrafirnar munu tæmast og milljarðar upprisinna manna koma fram á sviðið — fleiri leikarar. Það verður unaðslegt fyrir kynslóðirnar að sameinast á ný og sjá ástvini fallast í faðma eftir langan aðskilnað. Að síðustu munu allir sem lifa tilbiðja Jehóva. (Opinberunarbókin 5:13) Þegar breytingarnar eru afstaðnar lyftist tjaldið og við blasir paradís sem nær um allan hnöttinn. Hvernig ætli þér muni líða þegar þú horfir yfir sviðið? Kannski hróparðu af gleði: Ég hef beðið lengi eftir þessu en það var þess virði!

[Neðanmáls]

^ gr. 4 Í öðru samhengi tók Páll svo til orða að andasmurðir kristnir menn væru „á leiksviði, frammi fyrir öllum heiminum, bæði englum og mönnum“. — 1. Korintubréf 4:9.

^ gr. 4 Sjá til dæmis bókina Gefðu gaum að spádómi Daníelsbókar, bls. 280-1, en þar er fjallað um hver sé „konungurinn norður frá“ sem nefndur er í Daníelsbók 11:40, 44, 45.

^ gr. 6 Af Biblíunni sést að Jerúsalem féll 70 árum áður en hinir útlægu Gyðingar sneru heim á ný sem var árið 537 f.o.t. (Jeremía 25:11, 12; Daníel 9:1-3) Ítarlega umfjöllun um ‚tíma heiðingjanna‘ er að finna í bókinni Reasoning From the Scriptures, bls. 95-7, gefin út af Vottum Jehóva.

Hvert er svarið?

• Hvernig hafa þau orð Páls postula ræst að „mynd þessa heims breytist“?

• Hvernig tímasetur Biblían lok heiðingjatímanna?

• Hvernig vitna breytingar á ástandi heimsins frá 1914 um að tími endalokanna hafi runnið upp það ár?

• Hvaða áhrif ætti það að hafa á okkur að „tíminn er orðinn stuttur“?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 20]

Leyndadómurinn er loksins ráðinn.