Reiddu þig á anda guðs þegar aðstæður breytast
Reiddu þig á anda guðs þegar aðstæður breytast
„Legg kapp á að reynast hæfur fyrir Guði.“ — 2. TÍMÓTEUSARBRÉF 2:15.
1. Hvaða breytingar geta reynt á andlegt hugarfar okkar?
HEIMURINN í kringum okkur tekur stöðugum breytingum. Við sjáum bæði tilkomumiklar tækni- og vísindaframfarir og mikla siðferðishnignun. Eins og við ræddum um í greininni á undan verða kristnir menn að standa gegn óguðlegum anda heimsins. En eins og heimurinn breytumst við líka á ýmsa vegu. Við breytumst úr börnum í fullorðið fólk. Við gætum eignast efnislega hluti eða glatað þeim, verið hraust eða tapað heilsunni, eignast ástvini eða misst þá. Margar slíkar breytingar eru þess eðlis að við fáum engu um þær ráðið og þær geta reynt mikið á andlegt hugarfar okkar.
2. Hvernig breyttust aðstæður í lífi Davíðs?
2 Fáir upplifa jafnmiklar breytingar í lífinu og Davíð Ísaíson. Þessi óþekkti fjárhirðir varð á skömmum tíma fræg þjóðhetja. Seinna varð hann flóttamaður sem öfundsjúkur konungur elti á röndum. Eftir það varð hann sigursæll konungur. Hann glímdi við sársaukafullar afleiðingar alvarlegrar syndar, þurfti að þola harmleik og sundrungu innan fjölskyldunnar, eignaðist auð, varð aldraður og bjó við hrumleika ellinnar. En þrátt fyrir margar breytingar í lífi sínu treysti hann ávallt á Jehóva og anda hans. Hann lagði sig allan fram um að „reynast hæfur fyrir Guði“ og Guð blessaði hann. (2. Tímóteusarbréf 2:15) Þótt við búum við aðrar aðstæður en Davíð getum við lært af því hvernig hann tókst á við það sem upp kom í lífi hans. Með því að skoða fordæmi hans sjáum við hvernig við getum haldið áfram að njóta aðstoðar heilags anda Guðs þótt aðstæður í lífi okkar breytist.
Lítillæti Davíðs er okkur til fyrirmyndar
3, 4. Hvernig breytist Davíð úr óþekktum fjárhirði í þjóðhetju?
3 Það fór ekki mikið fyrir Davíð þegar hann var ungur drengur, jafnvel ekki innan fjölskyldunnar. Þegar Samúel spámaður kom til Betlehem leiddi faðir Davíðs sjö af átta sonum sínum fram fyrir hann. Davíð, yngsti sonurinn, var látinn gæta sauðanna á meðan. En Jehóva hafði ákveðið að hann skyldi vera næsti konungur Ísraels. Hann var sóttur út í haga. Síðan segir frásagan í Biblíunni: „Þá tók Samúel olíuhornið og smurði hann mitt á meðal bræðra hans. Og andi Drottins kom yfir Davíð upp frá þeim degi.“ (1. Samúelsbók 16:12, 13) Davíð setti traust sitt á anda Guðs alla ævi.
4 Fljótlega varð þessi fjárhirðir þjóðfrægur. Hann var kallaður í þjónustu konungs og lék fyrir hann tónlist. Hann drap risann Golíat sem var svo ógnvænlegur að reyndustu hermenn Ísraels þorðu ekki að berjast við hann. Síðan var hann settur yfir hermennina og sigraði í orustum gegn Filistum. Fólkið dáði hann og samdi lofsöngva um hann. Áður hafði ráðsmaður Sáls konungs 1. Samúelsbók 16:18; 17:23, 24, 45-51; 18:5-7.
sagt að Davíð kynni „að leika á“ hörpu og að hann væri „hreystimenni og bardagamaður, vel máli farinn og vaxinn vel“. —5. Hvað hefði getað gert Davíð hrokafullan en hvernig vitum við að hann varð það ekki?
5 Lífið virtist leika við Davíð. Hann var frægur, myndarlegur, ungur, vel máli farinn og hæfur bardagamaður, hafði tónlistarhæfileika og velþóknun Guðs. Þetta hefði allt getað gert hann hrokafullan en það gerði það samt ekki. Taktu eftir viðbrögðum Davíðs þegar Sál konungur bauð honum að kvænast dóttur sinni. Hann sýndi sanna auðmýkt og sagði: „Hver er ég og hvert er kyn mitt, ætt föður míns í Ísrael, að ég skuli verða tengdasonur konungsins?“ (1. Samúelsbók 18:18) Fræðimaður sagði um þetta vers: „Með þessu átti Davíð við að hvorki hæfileikar hans, þjóðfélagsstétt né ætterni gerði hann verðugan þess að hljóta þann heiður að verða tengdasonur konungsins.“
6. Af hverju ættum við að rækta með okkur lítillæti?
6 Davíð sýndi lítillæti af því að hann gerði sér grein fyrir að Jehóva er að öllu leyti æðri ófullkomnum mönnum. Hann dáðist meira að segja að því að Guð gæfi yfirhöfuð gaum að manninum. (Sálmur 144:3) Davíð vissi einnig að næði hann langt á einhverju sviði væri það aðeins vegna þess að Jehóva sýndi það lítillæti að styðja hann, annast og vernda. (Sálmur 18:36) Hann er okkur svo sannarlega til fyrirmyndar. Hæfileikar okkar, afrek eða þjónustuverkefni ættu aldrei að gera okkur hrokafull. „Hvað hefur þú, sem þú hefur ekki þegið?“ spurði Páll postuli. „En hafir þú nú þegið það, hví stærir þú þig þá eins og þú hefðir ekki fengið það að gjöf?“ (1. Korintubréf 4:7) Við verðum stöðugt að rækta með okkur lítillæti ef við viljum fá heilagan anda Guðs og njóta velþóknunar hans. — Jakobsbréfið 4:6.
„Hefnið yðar ekki“
7. Hvaða tækifæri fékk Davíð til að vega Sál konung?
7 Frægð Davíðs gerði hann ekki stoltan en vakti hins vegar heiftarlega afbrýði Sáls konungs sem andi Guðs hafði yfirgefið. Þótt Davíð hefði ekki gert neitt af sér þurfti hann að flýja út í óbyggðir og setjast þar að til að bjarga lífi sínu. Dag einn, eftir að Sál konungur hafði elt Davíð linnulaust, gekk hann óaðvitandi inn í helli þar sem Davíð og menn hans földu sig. Menn Davíðs hvöttu hann til að nýta sér þetta tækifæri sem Guð virtist hafa gefið honum til að vega Sál. Við sjáum þá fyrir okkur í myrkrinu hvísla að Davíð: „Nú er dagurinn kominn, sá er Drottinn talaði um við þig: ‚Sjá, ég mun gefa óvin þinn í hendur þér, svo að þú getir við 1. Samúelsbók 24:2-6.
hann gjört það, er þér vel líkar.‘“ —8. Af hverju tók Davíð málin ekki í sínar hendur?
8 En Davíð vildi ekki vinna Sál mein. Hann sýndi trú og þolinmæði og var sáttur við að láta málið liggja í höndum Jehóva. Eftir að konungurinn yfirgaf hellinn kallaði Davíð á eftir honum: „Drottinn dæmi milli mín og þín, og Drottinn hefni mín á þér, en hendur legg ég ekki á þig.“ (1. Samúelsbók 24:13) Þótt Davíð vissi að Sál hefði beitt hann órétti hefndi hann sín hvorki sjálfur né var dónalegur við Sál eða talaði illa um hann. Oftar en einu sinni neitaði Davíð að taka málin í sínar hendur. Hann treysti því að Jehóva myndi taka á málinu. — 1. Samúelsbók 25:32-34; 26:10, 11.
9. Af hverju ættum við ekki að svara í sömu mynt ef við verðum fyrir andstöðu?
9 Þú gætir lent í erfiðum aðstæðum eins og Davíð. Þú gætir til dæmis mætt andstöðu skóla- eða vinnufélaga, fjölskyldunnar eða annarra sem eru ekki sömu trúar og þú. En svaraðu ekki í sömu mynt. Sýndu biðlund og biddu Jehóva að styrkja þig með heilögum anda sínum. Hinir vantrúuðu gætu tekið trú þegar þeir sjá góða hegðun þína. (1. Pétursbréf 3:1) En hvernig sem fer geturðu verið viss um að Jehóva sér aðstæður þínar og lætur til sín taka í fyllingu tímans. Páll postuli skrifaði: „Hefnið yðar ekki sjálfir, þér elskaðir, heldur lofið hinni refsandi reiði Guðs að komast að, því að ritað er: ‚Mín er hefndin, ég mun endurgjalda, segir Drottinn.‘“ — Rómverjabréfið 12:19.
„Hlýðið á aga“
10. Hvernig syndgaði Davíð og hvernig reyndi hann að breiða yfir syndina?
10 Árin liðu. Davíð varð ástsæll konungur og naut mikillar velgengni. Lífsstefna hans einkenndist af trúfesti og hann orti fagra lofgerðarsálma um Jehóva. Við gætum haldið að þetta væri maður sem myndi aldrei drýgja alvarlega synd. En það gerði hann. Dag einn, þegar konungurinn var á húsþaki sínu, sá hann fallega konu baða sig. Hann spurðist fyrir um hana. Þegar hann komst að því að hún hét Batseba og að Úría, maður hennar, væri á vígvellinum lét hann sækja hana og hafði kynmök við hana. Seinna komst hann að því að hún var ófrísk. Ef þetta fréttist yrði það mikið hneyksli. Samkvæmt Móselögunum lá dauðarefsing við hjúskaparbroti. Konungurinn hélt greinilega að hann gæti breitt yfir synd sína. Því sendi hann boð til hersins og lét senda Úría heim til Jerúsalem. Davíð vonaði að Úría myndi eyða nóttinni með Batsebu en það gerði hann ekki. Nú var Davíð orðinn örvæntingarfullur og sendi Úría aftur á vígvöllinn með bréf til Jóabs yfirhershöfðingja. Í bréfinu voru fyrirmæli um að setja Úría í aðstöðu sem myndi leiða til þess að hann yrði drepinn. Jóab hlýddi og Úría týndi lífi. Eftir að Batseba hafði syrgt í ákveðinn dagafjölda kvæntist Davíð henni. — 2. Samúelsbók 11:1-27.
11. Hvaða sögu sagði Natan Davíð og hvernig brást Davíð við?
11 Svo virtist sem bragðið hefði virkað en Davíð hefði átt á vita að Jehóva sæi þetta allt. (Hebreabréfið 4:13) Mánuðir liðu og Batseba eignaðist barnið. En þá fékk Natan spámaður fyrirmæli frá Guði um að fara til Davíðs. Spámaðurinn sagði konunginum frá ríkum manni sem átti marga sauði en slátraði hjartfólgnum einkasauði fátæks manns. Sagan vakti réttlætiskennd Davíðs en hann grunaði ekki hvað hún táknaði. Davíð kvað strax upp dóm yfir ríka manninum. Fullur bræði sagði hann við Natan: „Sá maður, sem slíkt hefir aðhafst, er dauðasekur.“ — 2. Samúelsbók 12:1-6.
12. Hvaða dóm kvað Jehóva upp yfir Davíð?
12 „Þú ert maðurinn!“ sagði spámaðurinn. Davíð hafði fellt dóm yfir sjálfum sér. Reiði hans breytist án efa snögglega í djúpa iðrun og skömm. Hann hlustaði agndofa á Natan kveða upp óumflýjanlegan dóm Jehóva. Þar var ekki að finna nein huggunar- eða uppörvunarorð. Davíð hafði fyrirlitið orð Jehóva með því að fremja þetta illskuverk. Hann hafði fellt Úría með sverði óvinarins og því myndi sverðið aldrei víkja burt frá húsi hans. Hann hafði einnig tekið eiginkonu Úría til sín með launung. Fyrir því myndi svipuð ógæfa henda hann, ekki með launung heldur í allra augsýn. — 2. Samúelsbók 12:7-12.
13. Hvernig brást Davíð við aganum sem hann fékk frá Jehóva?
13 Það er Davíð til hróss að hann viðurkenndi sök sína. Hann reiddist ekki Natan spámanni og kenndi ekki öðrum um eða kom með afsakanir. Þegar syndir hans voru afhjúpaðar tók hann ábyrgð á þeim og sagði: „Ég hefi syndgað móti Drottni.“ (2. Samúelsbók 12:13) Í 51. sálminum sjáum við hve djúpt iðrun hans risti og hve mikil eftirsjáin var. Hann sárbað Jehóva: „Varpa mér ekki burt frá augliti þínu og tak ekki þinn heilaga anda frá mér.“ Hann trúði því að Jehóva myndi sýna miskunn og ekki fyrirlíta hjarta sem væri „sundurmarið og sundurkramið“ vegna syndar. (Sálmur 51:13, 19) Davíð reiddi sig áfram á anda Guðs og Guð fyrirgaf honum þótt hann hlífði honum ekki við afleiðingum syndarinnar.
14. Hvernig ættum við að bregðast við ef Jehóva agar okkur?
14 Öll erum við ófullkomin og syndug. (Rómverjabréfið 3:23) Við gætum drýgt alvarlega synd eins og Davíð. Jehóva leiðréttir þá sem vilja þjóna honum eins og ástríkur faðir agar börn sín. En þó að agi geri okkur gott er ekki auðvelt að taka við honum. Hann getur jafnvel verið okkur til „hryggðar“. (Hebreabréfið 12:6, 11) En ef við ‚hlýðum á aga‘ getur Jehóva tekið okkur í sátt. (Orðskviðirnir 8:33) Til að Jehóva haldi áfram að blessa okkur með anda sínum verðum við að taka við leiðréttingu og vinna að því að vera Jehóva velþóknanleg.
Treystu ekki fallvöltum auði
15. (a) Hvernig nota sumir auðævi sín? (b) Hvernig vildi Davíð nota auð sinn?
15 Ekkert gefur til kynna að fjölskylda Davíðs hafi verið auðug eða hátt sett í þjóðfélaginu. Í stjórnartíð sinni eignaðist Davíð hins vegar gífurlegan auð. Eins og þú veist sanka margir að sér auði, reyna stöðugt að græða meira eða eyða peningum af sjálfselsku. Aðrir nota peninga til að heiðra sjálfan sig. (Matteus 6:2) Davíð notaði auð sinn á annan hátt. Hann vildi heiðra Jehóva. Davíð sagði Natan að hann vildi byggja musteri fyrir Jehóva til að geyma sáttmálsörkina sem þá var „undir tjalddúk“ í Jerúsalem. Fyrirætlanir Davíðs glöddu Jehóva en fyrir munn Natans sagði Jehóva að Salómon, sonur hans, myndi byggja musterið. — 2. Samúelsbók 7:1, 2, 12, 13.
16. Hvernig undirbjó Davíð byggingu musterisins?
16 Davíð safnaði saman byggingarefni til að nota við þessa miklu framkvæmd. Hann sagði við Salómon: „Ég [hefi] dregið að til musteris Drottins hundrað þúsund talentur gulls, milljón talentur silfurs, og svo mikið af eiri og járni, að eigi verður vegið, því að afar mikið er af því. Viða og steina hefi ég einnig aflað, og mátt þú þar enn við auka.“ Hann gaf úr eigin sjóði 3.000 talentur gulls og 7.000 talentur silfurs. * (1. Kroníkubók 22:14; 29:3, 4) Örlæti Davíðs var ekki sýndarmennska heldur bar það vitni um trú hans og tryggð við Jehóva Guð. Hann gerði sér grein fyrir því hvaðan auður hans var kominn og sagði við Jehóva: „Frá þér er allt, og af þínu höfum vér fært þér gjöf.“ (1. Kroníkubók 29:14) Örlæti Davíðs fékk hann til að gera allt sem hann gat til að efla sanna tilbeiðslu.
17. Hvernig má heimfæra 1. Tímóteusarbréf 6:17-19 bæði upp á ríka og fátæka?
17 Eins getum við notað efnislegar eigur okkar til að gera gott. Í stað þess að láta efnishyggju stjórna lífi okkar ættum við að leita velþóknunar Guðs því að það veitir okkur sanna visku og hamingju. Páll skrifaði: „Bjóð ríkismönnum þessarar aldar að hreykja sér ekki né treysta fallvöltum auði, heldur Guði, sem lætur oss allt ríkulega í té til nautnar. Bjóð þeim að gjöra gott, vera ríkir af góðum verkum, örlátir, fúsir að miðla öðrum, með því safna þeir handa sjálfum sér fjársjóði sem er góð undirstaða til hins ókomna, og munu geta höndlað hið sanna líf.“ (1. Tímóteusarbréf 6:17-19) Við skulum því reiða okkur á anda Guðs hver sem fjárhagur okkar kann að vera og lifa lífi sem gerir okkur rík „hjá Guði“. (Lúkas 12:21) Ekkert er verðmætara en að hafa velþóknun ástríks föður okkar á himnum.
Leggjum kapp á að reynast hæf fyrir Guði
18. Hvernig gaf Davíð kristnum mönnum gott fordæmi?
18 Alla ævi lagði Davíð sig fram um að vera Guði velþóknanlegur. Í ljóði ákallaði hann Guð og sagði: „Ver mér náðugur, ó Guð, ver mér náðugur! Því að hjá þér leitar sál mín hælis.“ (Sálmur 57:2) Traustið sem hann bar til Jehóva var ekki til einskis. Davíð varð gamall og „saddur lífdaga“. (1. Kroníkubók 23:1) Þrátt fyrir að hafa gert alvarleg mistök er hann einn af fjölmörgum vottum Guðs sem minnst er fyrir að hafa sýnt framúrskarandi trú. — Hebreabréfið 11:32.
19. Hvernig getum við reynst hæf fyrir Guði?
19 Ef aðstæður í lífi þínu breytast skaltu minnast þess að Jehóva styrkti og leiðrétti Davíð og hann getur gert það sama fyrir þig. Páll postuli þurfti að takast á við margar breytingar eins og Davíð. En hann sýndi trúfesti með því að reiða sig á anda Guðs. Hann skrifaði: „Allt megna ég fyrir hjálp hans, sem mig styrkan gjörir.“ (Filippíbréfið 4:12, 13) Ef við reiðum okkur á Jehóva getur hann hjálpað okkur að ná árangri. Hann vill að okkur vegni vel. Ef við hlýðum á hann og nálægjum okkur honum veitir hann okkur styrk til að gera vilja sinn. Við getum orðið ‚hæf fyrir Guði‘ núna og um alla eilífð ef við höldum áfram að reiða okkur á anda hans. — 2. Tímóteusarbréf 2:15.
[Neðanmáls]
^ gr. 16 Áætla má að núvirði framlaga Davíðs sé meira en 82.000.000.000 íslenskra króna.
Hvert er svarið?
• Hvernig getum við forðast hroka?
• Hvers vegna ættum við ekki að hefna okkar?
• Hvernig ættum við að líta á aga?
• Af hverju ættum við að reiða okkur á Guð en ekki peninga?
[Spurningar]
[Mynd á blaðsíðu 29]
Davíð reiddi sig á anda Guðs og leitaðist við að fá velþóknun hans. Gerir þú hið sama?
[Mynd á blaðsíðu 31]
„Frá þér er allt, og af þínu höfum vér fært þér gjöf.“