Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Stattu gegn anda heimsins

Stattu gegn anda heimsins

Stattu gegn anda heimsins

„Vér höfum ekki hlotið anda heimsins, heldur andann, sem er frá Guði.“ — 1. KORINTUBRÉF 2:12.

1. Hvernig blekkti Satan Evu?

„HÖGGORMURINN tældi mig.“ (1. Mósebók 3:13) Með þessum fáu orðum reyndi Eva, fyrsta konan, að útskýra af hverju hún gerði uppreisn gegn Jehóva Guði. Orð hennar voru sönn en þau réttlættu ekki verk hennar. Páli postula var seinna innblásið að skrifa að Eva hefði ‚látið tælast‘. (1. Tímóteusarbréf 2:14) Satan blekkti hana með því að telja henni trú um að hún gæti hagnast og orðið eins og Guð, ef hún óhlýðnaðist og borðaði forboðna ávöxtinn. Hann blekkti hana einnig með því að þykjast vera annar en hann var. Hún vissi ekki að Satan djöfullinn hefði talað fyrir höggorminn. — 1. Mósebók 3:1-6.

2. (a) Hvernig blekkir Satan fólk nú á dögum? (b) Hvað er ‚andi heimsins‘ og hvaða spurningar ætlum við að athuga?

2 Frá tímum Adams og Evu hefur Satan haldið áfram að blekkja fólk. Hann „afvegaleiðir alla heimsbyggðina“. (Opinberunarbókin 12:9) Aðferðir hans hafa ekki breyst. Þótt hann noti ekki lengur bókstaflegan höggorm fer hann áfram huldu höfði. Hann notar skemmtanaiðnaðinn, fjölmiðla og aðrar leiðir til að telja fólki trú um að það þurfi hvorki á kærleiksríkri leiðsögn Guðs að halda né njóti góðs af henni. Blekkingar Satans hafa orðið til þess að uppreisnarandi gegn lögum og meginreglum Biblíunnar er ríkjandi alls staðar. Biblían kallar þetta „anda heimsins“. (1. Korintubréf 2:12) Þessi andi hefur sterk áhrif á trúarskoðanir, viðhorf og hegðun þeirra sem þekkja ekki Guð. Í hverju birtist þessi andi og hvernig getum við staðið gegn spillandi áhrifum hans? Við skulum athuga það.

Hnignandi siðferði

3. Af hverju verður andi heimsins sífellt meira áberandi nú á tímum?

3 Andi heimsins verður sífellt meira áberandi nú á tímum. (2. Tímóteusarbréf 3:1-5) Þú hefur sennilega tekið eftir því að siðferði manna er á niðurleið. Í Ritningunni er útskýrt hvers vegna. Þegar Guðsríki var stofnsett árið 1914 braust út stríð á himnum. Satan og illir englar hans voru bornir ofurliði og þeim var varpað niður í nágrenni jarðarinnar. Satan fylltist bræði og tók að blekkja alla heimsbyggðina af enn meiri ákafa. (Opinberunarbókin 12:1-9, 12, 17) Hann beitir öllum brögðum til að „leiða afvega jafnvel hina útvöldu, ef orðið gæti“. (Matteus 24:24) Við, þjónar Jehóva, erum aðalskotspónn hans. Hann reynir að spilla andlegu hugarfari okkar og fá okkur til að glata velþóknun Guðs og voninni um eilíft líf.

4. Hvernig líta þjónar Jehóva á Biblíuna og hvernig lítur heimurinn á hana?

4 Satan reynir að grafa undan trausti til hinnar verðmætu bókar, Biblíunnar, sem fræðir okkur um kærleiksríkan skapara okkar. Þjónar Jehóva meta Biblíuna mikils og þeim þykir afar vænt um hana. Við vitum að hún er ekki verk manna heldur innblásið orð Guðs. (1. Þessaloníkubréf 2:13; 2. Tímóteusarbréf 3:16) En heimur Satans reynir að telja okkur trú um að svo sé ekki. Í formála bókar, sem ræðst gegn Biblíunni, segir til dæmis: „Það er ekkert ‚heilagt‘ við Biblíuna og hún er ekki ‚orð Guðs‘. Hún var ekki skrifuð af dýrlingum, sem voru innblásnir af Guði, heldur valdagráðugum prestum.“ Þeir sem taka mark á slíkum fullyrðingum gætu gleypt við þeirri ranghugmynd að þeim sé frjálst að tilbiðja Guð á hvern þann hátt sem þeim þóknast — eða jafnvel að tilbiðja hann ekki. — Orðskviðirnir 14:12.

5. (a) Hvað sagði rithöfundur nokkur um trúarbrögð sem tengjast Biblíunni? (b) Hver er munurinn á algengum hugmyndum heimsins og því sem Biblían segir? (Takið með rammagrein á næstu blaðsíðu.)

5 Beinar og óbeinar árásir á Biblíuna og trúarhræsni þeirra sem segjast styðja hana hefur orðið til þess að sífellt fleiri hafa vanþóknun á trúarbrögðum og þar með talið trúarbrögðum sem tengjast Biblíunni. Trúarbrögð sæta árásum fjölmiðla og menntamanna. Rithöfundur nokkur segir: „Í flestum menningarsamfélögum ríkir neikvætt viðhorf til gyðingdómsins og kristininnar. Í besta falli eru þessi trúarbrögð álitin skemmtilega gamaldags; í versta falli eru þau talin ýta undir forneskjulegan hugsunarhátt sem hindrar vitsmunaþroska og vinnur gegn vísindaframförum. Á liðnum árum hefur fyrirlitning breyst í fjandskap og spott.“ Þessi fjandskapur á oft upptök sín hjá þeim sem viðurkenna ekki tilvist Guðs og hafa gerst „hégómlegir í hugsunum sínum“. — Rómverjabréfið 1:20-22.

6. Hvernig lítur heimurinn á kynhegðun sem Guð fordæmir?

6 Það kemur því ekki á óvart að fólk skuli fjarlægjast siðferðiskröfur Guðs sífellt meir. Biblían segir til dæmis að samkynhneigð sé „skömm“. (Rómverjabréfið 1:26, 27) Hún segir líka að saurlífismenn og hórkarlar muni ekki erfa Guðsríki. (1. Korintubréf 6:9) En í mörgum löndum er þess konar kynhegðun ekki aðeins viðurkennd heldur einnig dásömuð í bókum, tímaritum, dægurlögum, bíómyndum og sjónvarpsþáttum. Þeir sem gagnrýna slíka hegðun eru álitnir þröngsýnir, fordómafullir og gamaldags í hugsun. Í stað þess að líta á hegðunarreglur Guðs sem merki um kærleika hans og umhyggju lítur heimurinn svo á að þær komi í veg fyrir að fólk njóti frelsis og ánægju. — Orðskviðirnir 17:15; Júdasarbréfið 4.

7. Hvaða spurninga ættum við að spyrja okkur?

7 Við búum í heimi þar sem andstaða gegn Guði fer sífellt vaxandi og því er viturlegt af okkur að athuga viðhorf okkar og gildismat. Við ættum reglulega að gera heiðarlega sjálfsrannsókn og biðja til Jehóva til að ganga úr skugga um að við séum ekki smám saman að fjarlægjast hugsunarhátt hans og staðla. Við gætum til dæmis spurt okkur: „Stunda ég skemmtun eða afþreyingu sem ég hefði forðast fyrir nokkrum árum? Er ég orðinn umburðarlyndari gagnvart hegðun sem Guð fordæmir? Hættir mér til að leggja minna upp úr andlegum málum nú en ég gerði áður fyrir? Ber lífsstefna mín vitni um að ég setji hagsmuni Guðsríkis framar öðru í lífinu?“ (Matteus 6:33) Hugleiðingar sem þessar geta hjálpað okkur að standa gegn anda heimsins.

Berumst ekki afleiðis

8. Hvernig getur fólk fjarlægst Jehóva?

8 Páll postuli skrifaði trúbræðrum sínum: „[Oss] ber að gefa því enn betur gaum, er vér höfum heyrt, svo að eigi berumst vér afleiðis.“ (Hebreabréfið 2:1) Skip sem berst afleiðis kemst ekki á áfangastað. Ef skipstjóri gefur engan gaum að vindum og straumum getur skipið auðveldlega borist fram hjá öruggri höfn og strandað á klettóttri strönd. Eins getum við auðveldlega borist frá Jehóva og liðið andlegt skipbrot ef við gefum ekki gaum að hinum dýrmætu sannindum í orði hans. Við þurfum ekki endilega að hafna sannleikanum algerlega til að verða fyrir slíku tjóni. Fæstir hafna Jehóva snögglega og vísvitandi. Oftar en ekki verða þeir smám saman uppteknir af einhverju sem beinir athygli þeirra frá orði Guðs. Síðan leiðast þeir út í synd nánast án þess að taka eftir því. Þeir eru eins og sofandi skipstjóri sem vaknar ekki fyrr en það er um seinan.

9. Hvernig blessaði Jehóva Salómon?

9 Tökum Salómon sem dæmi. Jehóva fól honum konungsvald yfir Ísrael. Hann leyfði honum að byggja musterið og leiðbeindi honum við ritun hluta Biblíunnar. Jehóva talaði tvisvar til hans og veitti honum auð, frægð og friðsæla stjórnartíð. Umfram allt veitti Jehóva honum mikla visku. Í Biblíunni segir: „Guð veitti Salómon afar mikla speki og visku og djúpsæi andans, sem sandur er margur á sjávarströnd, og speki Salómons var meiri en speki allra austurbyggja og öll speki Egyptalands.“ (1. Konungabók 4:21, 29, 30; 11:9) Halda mætti að ef einhver hefði verið líklegur til að vera Jehóva trúfastur hefði það svo sannarlega verið Salómon. En hann leiddist út í fráhvarf. Hvernig gerðist það?

10. Hvaða leiðbeiningar hunsaði Salómon og hver varð afleiðingin?

10 Salómon þekkti og skildi lögmál Guðs mjög vel. Hann hefur eflaust gefið sérstakan gaum að þeim leiðbeiningum sem konungar Ísraels fengu. Þar kom meðal annars fram: „[Konungurinn] skal og eigi hafa margar konur, svo að hjarta hans gjörist eigi fráhverft.“ (5. Mósebók 17:14, 17) En þrátt fyrir þessar skýru leiðbeiningar eignaðist Salómon sjö hundruð eiginkonur og þrjú hundruð hjákonur. Margar þessara kvenna tilbáðu útlenda guði. Við vitum ekki hvers vegna Salómon eignaðist svona margar konur né hvernig hann réttlætti það. En það sem við vitum er að hann fór ekki að skýrum leiðbeiningum Guðs. Afleiðingin varð nákvæmlega sú sem Jehóva hafði sagt fyrir. Við lesum: „Konur [Salómons] sneru hjarta hans . . . til annarra guða.“ (1. Konungabók 11:3, 4) Smám saman dvínaði viskan sem hann hafði fengið frá Guði. Hann barst afleiðis. Með tímanum varð löngun hans til að þóknast heiðnum konum sínum sterkari en löngun hans til að þóknast Guði. Þetta voru sorgleg málalok fyrir Salómon sem hafði áður skrifað þessi orð: „Vertu vitur, sonur minn, og gleð hjarta mitt, svo að ég geti svarað þeim orði, sem smána mig.“ — Orðskviðirnir 27:11.

Andi heimsins er öflugur

11. Hvernig hefur það sem við nærum hugann á áhrif á hugsunarhátt okkar?

11 Frásagan af Salómon kennir okkur að það er varasamt að telja sjálfum okkur trú um að þar sem við þekkjum sannleikann hafi heimurinn lítil áhrif á hugsunarhátt okkar. Það sem við nærum hugann á mótar hugsunarhátt okkar og hefur áhrif á viðhorf okkar alveg eins og bókstafleg fæða hefur áhrif á líkamann. Fyrirtæki gera sér grein fyrir þessu og því eyða þau milljörðum á ári í að auglýsa vörur sínar. Í vel heppnuðum auglýsingum eru notuð grípandi orð og myndir til að höfða til langana neytandans. Auglýsendur vita einnig að fólk hleypur yfirleitt ekki út í búð og kaupir ákveðna vöru eftir að hafa séð auglýsingu einu sinni eða tvisvar. En ef það sér auglýsingu aftur og aftur á löngu tímabili fer það oft að líta vöruna jákvæðum augum. Auglýsingar virka — annars myndi enginn fjárfesta í þeim. Þær hafa kröftug áhrif á hugsunarhátt og viðhorf almennings.

12. (a) Hvernig hefur Satan áhrif á hugsunarhátt fólks? (b) Hvað sýnir að það er hægt að hafa áhrif á kristna menn?

12 Satan er eins og auglýsandi. Hann kemur hugmyndum sínum á framfæri með því að gera þær aðlaðandi og veit að með tímanum getur hann fengið fólk til að hugsa eins og hann. Hann notar skemmtanaiðnaðinn og aðrar leiðir til að telja fólki trú um að hið góða sé illt og hið illa gott. (Jesaja 5:20) Sannkristnir menn hafa jafnvel fallið fyrir blekkingum Satans. Biblían gefur þessa viðvörun: „Andinn segir berlega, að á síðari tímum muni sumir ganga af trúnni og gefa sig að villuöndum og lærdómum illra anda. Þessu valda hræsnisfullir lygarar, sem eru brennimerktir á samvisku sinni.“ — 1. Tímóteusarbréf 4:1, 2; Jeremía 6:15.

13. Hvað er vondur félagsskapur og hvaða áhrif hefur félagsskapur á okkur?

13 Enginn er ónæmur fyrir anda heimsins. Í heimskerfi Satans eru öflugir vindar og straumar. Í Biblíunni er þessi viturlega viðvörun: „Villist ekki. Vondur félagsskapur spillir góðum siðum.“ (1. Korintubréf 15:33) Vondur félagsskapur getur verið hvað sem er eða hver sem er — jafnvel innan safnaðarins — sem endurspeglar anda heimsins. Ef við höldum því fram að slæmur félagsskapur geti ekki skaðað okkur, verðum við þá ekki líka að álykta að góður félagsskapur geti ekki hjálpað okkur? Það væri óviturlegt. Biblían segir mjög skýrt: „Haf umgengni við vitra menn, þá verður þú vitur, en illa fer þeim, sem leggur lag sitt við heimskingja.“ — Orðskviðirnir 13:20.

14. Hvernig getum við staðið gegn anda heimsins?

14 Við getum staðið gegn anda heimsins með því að umgangast þá sem eru vitrir og þjóna Jehóva. Við ættum að fylla hugann af því sem styrkir trúna. Páll postuli skrifaði: „Allt sem er satt, allt sem er göfugt, rétt og hreint, allt sem er elskuvert og gott afspurnar, hvað sem er dyggð og hvað sem er lofsvert, hugfestið það.“ (Filippíbréfið 4:8) Við höfum frjálsan vilja og ráðum því hvað við hugfestum. Við skulum alltaf hugfesta það sem færir okkur nær Jehóva.

Andi Guðs er öflugri

15. Hver var munurinn á kristnum mönnum í Korintu og öðrum íbúum borgarinnar?

15 Heilagur andi Guðs leiðir sannkristna menn, ólíkt þeim sem láta anda heimsins blekkja sig. Páll skrifaði söfnuðinum í Korintu: „Vér höfum ekki hlotið anda heimsins, heldur andann, sem er frá Guði, til þess að vér skulum vita, hvað oss er af Guði gefið.“ (1. Korintubréf 2:12) Andi heimsins gegnsýrði Korintuborg til forna. Flestir borgarbúar voru svo lauslátir að hugtakið „að korintast“ fékk merkinguna „að stunda siðleysi“. Satan hafði blindað huga fólksins. Þess vegna skildi það lítið sem ekkert um hinn sanna Guð. (2. Korintubréf 4:4) En Jehóva notaði heilagan anda sinn til að opna augu sumra Korintubúa og gerði þeim kleift að fá þekkingu á sannleikanum. Andi hans hreyfði við þeim og hjálpaði þeim að gera verulegar breytingar á lífi sínu svo að þeir gætu hlotið velþóknun hans og blessun. (1. Korintubréf 6:9-11) Þótt andi heimsins væri sterkur var andi Jehóva sterkari.

16. Hvernig getum við fengið anda Guðs?

16 Hið sama gildir núna. Heilagur andi Jehóva er sterkasta afl í alheiminum og Jehóva gefur hann örlátlega hverjum þeim sem biður um hann í trú. (Lúkas 11:13) En til að fá anda Guðs verðum við hins vegar að gera meira en að standa gegn anda heimsins. Við verðum einnig að lesa og hugleiða orð Guðs reglulega og heimfæra það á líf okkar svo við getum lagað hugarfar okkar að hugarfari hans. Ef við gerum það gefur Jehóva okkur styrk til að standast allar tilraunir Satans til að spilla andlegu hugarfari okkar.

17. Hvernig getur frásagan af Lot hughreyst okkur?

17 Þótt kristnir menn séu ekki hluti af heiminum búa þeir í honum. (Jóhannes 17:11, 16) Ekkert okkar getur forðast anda heimsins algerlega því að við vinnum kannski eða búum með fólki sem elskar hvorki Guð né leiðbeiningar hans. Líður okkur eins og Lot sem „mæddist“ mikillega vegna löglausra verka nágranna sinna í Sódómu? (2. Pétursbréf 2:7, 8) Ef svo er getum við fengið hughreystingu. Jehóva verndaði og frelsaði Lot og hann getur gert það sama fyrir okkur. Kærleiksríkur faðir okkar þekkir kringumstæður okkar og hann getur veitt okkur þá hjálp og þann styrk sem við þurfum til að viðhalda andlegu hugarfari. (Sálmur 33:18, 19) Ef við reiðum okkur á Jehóva og áköllum hann hjálpar hann okkur að standa gegn anda heimsins, sama hversu erfiðar aðstæður okkar eru. — Jesaja 41:10.

18. Af hverju ættum við að varðveita samband okkar við Jehóva?

18 Við búum í heimi sem er fjarlægur Guði og blekktur af Satan. En við, þjónar Jehóva, njótum þeirrar blessunar að þekkja sannleikann. Þess vegna erum við glöð og njótum friðar sem heimurinn nýtur ekki. (Jesaja 57:20, 21; Galatabréfið 5:22) Við metum mikils vonina um eilíft líf í paradís þar sem andi þessa deyjandi heims verður ekki framar til. Varðveitum dýrmætt samband okkar við Guð og gætum þess að fjarlægjast aldrei sannleikann. Nálægjum okkur Jehóva og þá hjálpar hann okkur að standa gegn anda heimsins. — Jakobsbréfið 4:7, 8.

Geturðu útskýrt?

• Hvernig hefur Satan blekkt og afvegaleitt fólk?

• Hvernig getum við gætt þess að fjarlægjast ekki Jehóva?

• Hvað ber vitni um að andi heimsins er öflugur?

• Hvernig getum við fengið anda Guðs?

[Spurningar]

[Listi á blaðsíðu 25]

MUNURINN Á VISKU HEIMSINS OG VISKU GUÐS

Sannleikurinn er afstæður — fólk býr til sinn eigin sannleika.

„Orð [Guðs] er sannleikur.“ — Jóhannes 17:17.

Treystu tilfinningunni til að greina rétt frá röngu.

„Svikult er hjartað fremur öllu öðru, og spillt er það.“ — Jeremía 17:9.

Gerðu það sem þér þóknast.

„Það [er ekki] á valdi gangandi manns að stýra skrefum sínum.“ — Jeremía 10:23.

Peningar eru lykillinn að hamingju.

„Fégirndin er rót alls þess, sem illt er.“ — 1. Tímóteusarbréf 6:10.

[Mynd á blaðsíðu 24]

Salómon fjarlægðist sanna tilbeiðslu og sneri sér að falsguðum.

[Mynd á blaðsíðu 26]

Satan er eins og auglýsandi sem ýtir undir anda heimsins. Stendur þú gegn honum?