Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Að ástunda gæsku í óvinveittum heimi

Að ástunda gæsku í óvinveittum heimi

Að ástunda gæsku í óvinveittum heimi

„Unun mannsins er kærleiksverk hans.“ — ORÐSKVIÐIRNIR 19:22.

1. Hvers vegna getur verið erfitt að sýna gæsku í verki?

LÍTURÐU á þig sem góða manneskju? Þá getur það verið nokkur raun fyrir þig að búa í heimi samtímans. Gæska er vissulega hluti af ‚ávexti andans‘ að sögn Biblíunnar, en það er engu að síður erfitt að sýna hana í verki, jafnvel í löndum sem kallast kristin. (Galatabréfið 5:22) Hvers vegna? Eins og fram kom í greininni á undan má að hluta til leita svarsins í því að heimurinn er undir stjórn illrar andaveru, Satans djöfulsins, eins og Jóhannes postuli segir. (1. Jóhannesarbréf 5:19) Jesús Kristur kallaði Satan ‚höfðingja heimsins‘. (Jóhannes 14:30) Heimurinn hefur því sterka tilhneigingu til að líkjast höfðingja sínum sem er bæði uppreisnargjarn og grimmur með afbrigðum. — Efesusbréfið 2:2.

2. Hvað getur gert okkur erfitt fyrir að sýna gæsku?

2 Ónotaleg framkoma annarra getur haft slæm áhrif á okkur. Nágrannar eða ókunnugt fólk getur verið illgjarnt eða óvingjarnlegt og vinir eða ættingjar geta stundum verið tillitslausir við okkur. Það getur verið töluvert álag að eiga samskipti við fólk sem er dónalegt og hreytir ónotum og formælingum hvert í annað. Hryssingsleg framkoma annarra getur vakið með okkur óvild þannig að okkur langi einna helst til að gjalda illt með illu. Það getur jafnvel haft áhrif á andlega eða líkamlega heilsu okkar. — Rómverjabréfið 12:17.

3. Hvaða alvarleg vandamál er við að etja sem reynir á löngun fólks til að sýna gæsku?

3 Álagið sem fylgir ástandinu í heiminum getur einnig gert okkur erfiðara fyrir að vera gæskurík. Óttinn við hryðjuverk setur mark sitt á mannkynið í heild, svo dæmi sé tekið, og hið sama er að segja um óttann við að þjóðir eða þjóðabrot kunni að grípa til sýkla- eða kjarnavopna. Milljónir manna búa auk þess við fátækt og þurfa að draga fram lífið við rýran kost, lélegt húsnæði, klæðleysi og litla heilbrigðisþjónustu. Það er engan veginn auðvelt að sýna gæsku þegar aðstæður manns virðast vonlausar. — Prédikarinn 7:7.

4. Hvað gætu sumir ályktað ranglega varðandi gæskuna?

4 Það er hægðarleikur að hugsa sem svo að gæska sé ekki sérlega mikilvæg og hún sé jafnvel veikleikamerki. Okkur gæti fundist við órétti beitt, einkum ef aðrir traðka á okkur. (Sálmur 73:2-9) En Biblían bendir á réttu stefnuna þar sem stendur: „Mjúklegt andsvar stöðvar bræði, en meiðandi orð vekur reiði.“ (Orðskviðirnir 15:1) Gæska og hógværð eru náskyldir þættir í ávexti andans og eru mikilsverð hjálp til að bregðast rétt við erfiðum og ögrandi aðstæðum.

5. Á hvaða sviðum í lífinu þurfum við að sýna gæsku?

5 Þar sem það er ákaflega mikilvægt fyrir kristna menn að bera ávöxt heilags anda Guðs ættum við að hugleiða hvernig við getum sýnt einn þeirra, gæskuna, á sem bestan hátt. Er hægt að ástunda gæsku í heimi þar sem margt er manni mótdrægt? Ef það er hægt, á hvaða sviðum getum við þá sýnt að við látum ekki áhrif Satans yfirbuga gæskuna, sérstaklega þegar við erum undir álagi? Við skulum líta á leiðir til að sýna gæsku í verki innan fjölskyldunnar, á vinnustað, í skólanum, í samskiptum við nágrannana, í boðunarstarfinu og þegar við erum með trúsystkinum okkar.

Gæska innan fjölskyldunnar

6. Hvers vegna er gæska mjög mikilvæg innan fjölskyldunnar og hvernig er hægt að sýna hana?

6 Ávöxtur andans er nauðsynlegur og þarf að vera fullþroskaður til að við getum notið blessunar Jehóva og handleiðslu. (Efesusbréfið 4:32) Það er ákaflega mikilvægt að allir í fjölskyldunni séu góðir og gæskuríkir hver við annan. Í öllum daglegum samskiptum ættu hjón að vera góð og umhyggjusöm hvort við annað og við börnin. (Efesusbréfið 5:28-33; 6:1, 2) Þessi gæska þarf að birtast í því hvernig fólk talast við innan fjölskyldunnar, í því að börnin heiðri og virði foreldra sína og að foreldrarnir komi rétt fram við börnin. Verið fljót til að hrósa en sein til að finna að.

7, 8. (a) Hvers konar framkomu forðumst við ef við viljum sýna sanna gæsku í fjölskyldunni? (b) Hvernig stuðla góð tjáskipti að sterkum fjölskylduböndum? (c) Hvernig geturðu sýnt gæsku innan fjölskyldunnar?

7 Til að sýna gæsku innan fjölskyldunnar þurfum við að fara eftir leiðbeiningum Páls postula: „Nú skuluð þér segja skilið við allt þetta: Reiði, bræði, vonsku, lastmæli, svívirðilegt orðbragð.“ Kristnar fjölskyldur ættu að sýna virðingu í daglegum tjáskiptum sínum vegna þess að góð tjáskipti eru lífæð sterkra og heilbrigðra fjölskyldna. Þegar ósætti verður í fjölskyldunni ætti að reyna að setja það niður með því að leysa vandann í stað þess að reyna að sigra í þrætunni. Þegar öllum í fjölskyldunni líður vel reyna þeir eftir fremsta megni að sýna hver öðrum gæsku og tillitssemi. — Kólossubréfið 3:8, 12-14.

8 Gæska er jákvæður eiginleiki og vekur hjá okkur löngun til að gera öðrum gott. Við leitumst þess vegna við að vera hjálpfús, tillitssöm og viðfelldin í samskiptum við hina í fjölskyldunni. Hver og einn þarf að leggja sitt af mörkum og allir þurfa að leggjast á eitt til að sýna af sér þá gæsku sem er fjölskyldunni til hróss. Þá nýtur fjölskyldan blessunar Jehóva, sem er Guð gæskunnar, og er honum til lofs bæði í söfnuðinum og samfélaginu. — 1. Pétursbréf 2:12.

Gæska á vinnustað

9, 10. Lýstu vandamálum sem gætu komið upp á vinnustað og hvernig hægt er að láta gæskuna ráða ferðinni.

9 Það getur verið hægara sagt en gert að sýna vinnufélögum gæsku við dagleg störf. Samkeppnisandi á vinnustað getur orðið til þess að vinnufélagi beiti brögðum til að rýra álit manns hjá vinnuveitandanum, með þeim afleiðingum að maður eigi á hættu að missa vinnuna. (Prédikarinn 4:4) Það er ekki auðvelt að sýna af sér gæsku þegar svo háttar til. Engu að síður ætti þjónn Jehóva að gera sér far um að ávinna sér velvild þeirra sem eru honum mótsnúnir, minnugur þess að gæska er ávallt til góðs. Hann getur stuðlað að þessu með því að vera umhyggjusamur. Ef til vill geturðu sýnt umhyggju ef vinnufélagi er veikur eða þá einhver í fjölskyldu hans. Það getur jafnvel haft jákvæð áhrif að spyrja hvernig fjölskyldan hafi það. Já, kristnir menn ættu að stuðla að sátt og samlyndi að svo miklu leyti sem það er á þeirra valdi. Stundum geta vingjarnleg orð, sem vitna um áhuga og umhyggju, gert sitt.

10 Þá gæti sú staða komið upp að vinnuveitandi þröngvi skoðunum sínum upp á starfsmennina og vilji að allir taki þátt í einhverri þjóðernislegri hátíð eða óbiblíulegum fagnaði. Til árekstra getur komið þegar samviska kristins manns leyfir honum ekki að taka þátt í slíku. Sennilega er ekki skynsamlegt á þeirri stundu að útlista hvers vegna það væri rangt að fara að óskum vinnuveitandans. Þeim sem aðhyllast aðrar trúarskoðanir finnst kannski fullkomlega rétt að halda þennan fagnað eða hátíð. (1. Pétursbréf 2:21-23) Ef til vill gætirðu útskýrt vingjarnlega hvers vegna þú viljir ekki sjálfur taka þátt í þessu. Láttu vera að svara kaldhæðnum orðum í sömu mynt. Kristinn maður ætti að fylgja hinum góðu leiðbeiningum í Rómverjabréfinu 12:18: „Hafið frið við alla menn að því leyti sem það er unnt og á yðar valdi.“

Gæska í skólanum

11. Hvers vegna er ekki hlaupið að því að sýna skólafélögum gæsku?

11 Það er ekki alltaf hlaupið að því fyrir unga fólkið að sýna skólafélögum gæsku. Börn og unglingar þrá gjarnan viðurkenningu bekkjarfélaganna. Strákar eru stundum með karlmennskutilburði í von um að vekja aðdáun annarra nemenda og eiga jafnvel til að leggja aðra í einelti. (Matteus 20:25) Sumum finnst gaman að gorta af árangri sínum í námi, íþróttum eða öðru. Oft koma þeir illa fram við bekkjarfélagana og aðra nemendur þegar þeir auglýsa yfirburði sína. Þeir virðast halda að það geri þá eitthvað meiri. Kristnir unglingar verða að gæta sín að líkja ekki eftir þessum krökkum. (Matteus 20:26, 27) Páll postuli sagði að ‚kærleikurinn væri langlyndur og góðviljaður og hreykti sér ekki upp‘. Kristinn maður má því ekki líkja eftir þeim sem eru óvingjarnlegir í framkomu heldur er honum skylt að fylgja leiðbeiningum Biblíunnar í samskiptum við skólafélagana. — 1. Korintubréf 13:4.

12. (a) Hvers vegna getur verið erfitt fyrir börn og unglinga að sýna kennurum gæsku? (b) Hvar geta börn og unglingar leitað hjálpar þegar reynt er að þvinga þau til að breyta illa?

12 Börn og unglingar ættu einnig að koma vel fram við kennara. Sumir nemendur hafa yndi af því að angra kennara sína. Þeir halda víst að það sé sniðugt að grafa undan virðingu fyrir kennurunum með því að brjóta reglur skólans á einn eða annan hátt. Og síðan reyna þeir að þvinga aðra til að leggjast á sveif með sér. Þegar kristin ungmenni vilja ekki taka þátt í leiknum geta þau kallað yfir sig háðsglósur eða svívirðingar. Á heilu skólaári getur þetta reynt töluvert á vilja kristinna ungmenna til að sýna gæsku. En hafðu hugfast hve mikilvægt það er að vera trúfastur þjónn Jehóva. Þú mátt treysta að hann styður þig með anda sínum á þessum erfiðu stundum í lífinu. — Sálmur 37:28.

Gæska gagnvart nágrönnum

13-15. Hvað getur tálmað okkur að sýna nágrönnum gæsku og hvernig getum við brugðist við því?

13 Hvort sem þú býrð í einbýli eða fjölbýli hefurðu ýmsar leiðir til að sýna nágrönnum þínum gæsku og umhyggju. En það getur verið þrautin þyngri.

14 Segjum að nágrannarnir séu haldnir fordómum gegn þér vegna kynþáttar þíns, þjóðernis eða trúar. Hvað er til ráða ef þeir eru stundum ókurteisir eða hreinlega hunsa þig? Þú ert þjónn Jehóva og það er alltaf til góðs að vera vingjarnlegur í viðmóti eftir því sem kostur er. Þá skerðu þig skemmtilega úr fjöldanum og ert Jehóva til lofs. Hver veit nema nágranninn taki sinnaskiptum seinna meir vegna góðmennsku þinnar. Kannski verður hann jafnvel dýrkandi Jehóva. — 1. Pétursbréf 2:12.

15 Hvernig geturðu sýnt nágrönnunum gæsku? Til dæmis getur hver og einn í fjölskyldunni borið ávöxt andans og sýnt af sér góða breytni. Ef til vill taka nágrannarnir eftir því. Stundum færðu kannski tækifæri til að gera granna þínum greiða. Hafðu hugfast að gæska er fólgin í því að sýna áhuga á velferð annarra. — 1. Pétursbréf 3:8-12.

Gæska í boðunarstarfinu

16, 17. (a) Hvers vegna er mikilvægt að sýna gæsku í boðunarstarfinu meðal almennings? (b) Hvernig getum við sýnt gæsku í öðrum greinum boðunarstarfsins?

16 Boðunarstarf okkar ætti einnig að einkennast af gæsku og góðmennsku. Þegar við reynum með skipulegum hætti að ná sambandi við fólk á heimilum þess, vinnustöðum eða annars staðar ættum við alltaf að hafa hugfast að við erum fulltrúar Jehóva sem er góður og gæskuríkur. — 2. Mósebók 34:6.

17 Hvernig sýnum við gæsku í boðunarstarfinu? Ef þú talar við fólk á götum úti geturðu haft í huga að vera stuttorður og tillitssamur. Gættu þess að trufla ekki umferð gangandi vegfarenda eftir fjölförnum gangstéttum. Sértu að heimsækja verslanir og fyrirtæki skaltu vera stuttorður því að verslunarfólk þarf að sinna viðskiptavinunum.

18. Hvers vegna er góð dómgreind þáttur í því að sýna gæsku í boðunarstarfinu?

18 Vertu nærgætinn þegar þú starfar hús úr húsi. Staldraðu ekki of lengi við, einkum í slæmu veðri. Áttarðu þig á því þegar viðmælandinn gerist óþolinmóður eða jafnvel ergilegur yfir nærveru þinni? Kannski eru vottar Jehóva tíðir gestir hjá fólki þar sem þú býrð. Ef svo er skaltu vera sérstaklega tillitssamur og gæta þess að vera alltaf vingjarnlegur og þægilegur í viðmóti. (Orðskviðirnir 17:14) Reyndu að virða og viðurkenna að húsráðandi kann að hafa sínar ástæður fyrir því að hlusta ekki á þig þann daginn. Mundu að trúsystkini þín eiga sennilega eftir að banka á þessar sömu dyr einhvern tíma í náinni framtíð. Ef viðmælandinn reynist ókurteis eða dónalegur skaltu leggja þig sérstaklega fram við að vera vingjarnlegur. Hækkaðu ekki róminn og hleyptu ekki brúnum heldur talaðu rólega og vinsamlega. Kristinn maður vill ekki koma af stað orðastælum við húsráðanda. (Matteus 10:11-14) Ef til vill hlustar hann á fagnaðarerindið einhvern tíma síðar.

Gæska á safnaðarsamkomum

19, 20. Hvers vegna er gæska nauðsynleg innan safnaðarins og hvernig er hægt að sýna hana?

19 Það er ekki síður mikilvægt að sýna gæsku í samskiptum við trúsystkini. (Hebreabréfið 13:1) Við tilheyrum alþjóðlegu bræðrafélagi þannig að við verðum að vera alúðleg í samskiptum hvert við annað.

20 Ef tveir eða fleiri söfnuðir nota sama ríkissalinn er mikilvægt að vera vingjarnleg í framkomu við bræður og systur í hinum söfnuðunum og sýna þeim virðingu í öllum samskiptum. Samkeppni eða metingur er ekki til þess fallinn að greiða fyrir samvinnu varðandi skiptingu samkomutíma eða ræstingu og viðhald salarins. Verið góðviljuð og tillitssöm þó að einhver skoðanamunur geri vart við sig. Þá gengur gæskan með sigur af hólmi og Jehóva blessar áhuga þinn á velferð annarra.

Haltu áfram að ástunda gæsku

21, 22. Hvað ættum við að gera í samræmi við Kólossubréfið 3:12?

21 Gæska er svo víðtækur eiginleiki að hún kemur inn á öll svið í lífinu. Hún ætti því að vera sterkur þáttur hins kristna persónuleika og við ættum að temja okkur hana dags daglega.

22 Leggjum okkur öll fram um að sýna hvert öðru gæsku dag hvern og fylgja þar hvatningu Páls postula: „Íklæðist því eins og Guðs útvaldir, heilagir og elskaðir, hjartans meðaumkun, góðvild, auðmýkt, hógværð og langlyndi.“ — Kólossubréfið 3:12.

Manstu?

• Hvers vegna getur verið erfitt fyrir kristinn mann að sýna gæsku?

• Hvers vegna er mikilvægt að sýna gæsku í fjölskyldunni?

• Hvað getur gert okkur erfitt fyrir að sýna gæsku í skólanum, í vinnunni og í samskiptum við nágrannana?

• Hvernig geta kristnir menn sýnt gæsku í boðunarstarfinu?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 28]

Gæska stuðlar að einingu og samheldni í fjölskyldunni.

[Mynd á blaðsíðu 29]

Þú getur sýnt vinnufélaga gæsku þegar veikindi leggjast á hann eða fjölskyldu hans.

[Mynd á blaðsíðu 30]

Jehóva styður þá sem sýna gæsku þó að þeir séu hæddir og spottaðir.

[Mynd á blaðsíðu 31]

Við sýnum nágrönnum okkar gæsku með því að rétta þeim hjálparhönd.