Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Að annast hina öldruðu — kristin skylda

Að annast hina öldruðu — kristin skylda

Að annast hina öldruðu — kristin skylda

„Allt til elliára er ég hinn sami, og ég vil bera yður, þar til er þér verðið gráir fyrir hærum.“ — JESAJA 46:4.

1, 2. Hvernig er umhyggja himnesks föður okkar ólík umhyggju mennskra foreldra?

TRYGGIR foreldrar hlúa að börnum sínum allt frá fæðingu og fram yfir unglingsárin. Jafnvel þegar unga fólkið nær fullorðinsaldri og eignast sína eigin fjölskyldu halda foreldrar þess áfram að sýna því ást og umhyggju.

2 En þó svo að það sé takmarkað sem menn geta gert fyrir börnin sín er himneskur faðir okkar ávallt fær um að sýna trúföstum þjónum sínum ást og umhyggju. Jehóva sagði við útvalda þjóð sína til forna: „Allt til elliára er ég hinn sami, og ég vil bera yður, þar til er þér verðið gráir fyrir hærum.“ (Jesaja 46:4) Þetta er einkar hughreystandi fyrir aldraða kristna menn. Jehóva yfirgefur ekki þá sem eru honum trúir heldur lofar hann að styðja þá og leiða alla ævi þeirra, jafnvel fram á gamals aldur. — Sálmur 48:15.

3. Um hvað verður fjallað í þessari grein?

3 Hvernig getum við sýnt öldruðum ást og umhyggju líkt og Jehóva? (Efesusbréfið 5:1, 2) Við skulum athuga hvernig uppkomin börn, safnaðaröldungar og aðrir í kristna söfnuðinum geta sinnt þörfum hinna öldruðu í bræðrafélaginu um allan heim.

Ábyrgð uppkominna barna

4. Hvaða skyldur hafa kristin börn gagnvart foreldrum sínum?

4 „Heiðra föður þinn og móður.“ (Efesusbréfið 6:2; 2. Mósebók 20:12) Með þessari einföldu en djúpstæðu tilvitnun í Hebresku ritningarnar minnti Páll postuli börn á þá ábyrgð sem þau hafa gagnvart foreldrum sínum. En hvernig eiga þessi orð við það að annast aldraða? Hjartnæmt dæmi frá forkristnum tíma hjálpar okkur að svara þessari spurningu.

5. (a) Hvað gefur til kynna að Jósef hafði ekki gleymt skyldum sínum við föður sinn? (b) Hvað merkir það að heiðra foreldra okkar og hvaða góða fordæmi setti Jósef?

5 Í meira en 20 ár var Jósef ekki í neinu sambandi við aldraðan föður sinn, ættföðurinn Jakob. En Jósef hafði augljóslega ekki glatað ást sinni á föður sínum. Þegar hann sagði bræðrum sínum deili á sér spurði hann: „Er faðir minn enn á lífi?“ (1. Mósebók 43:7, 27; 45:3) Þegar þetta gerist er mikil hungursneyð í Kanaanlandi. Jósef kemur því eftirfarandi boðum til föður síns: „Kom þú til mín og tef eigi. Og þú skalt búa í Gósenlandi og vera í nánd við mig. . . . En ég skal sjá þér þar fyrir viðurværi.“ (1. Mósebók 45:9-11; 47:12) Já, að heiðra aldraða foreldra felur í sér að vernda þá og sjá fyrir efnislegum þörfum þeirra þegar þeir eru ekki færir um það sjálfir. (1. Samúelsbók 22:1-4; Jóhannes 19:25-27) Jósef var fús til að axla þessa ábyrgð.

6. Hvernig sýndi Jósef að hann elskaði föður sinn og hvernig getum við líkt eftir honum?

6 Jósef var orðinn einn ríkasti og voldugasti maður Egyptalands með hjálp Jehóva. (1. Mósebók 41:40) En hann taldi sig ekki of mikilvægan eða of upptekinn til að heiðra föður sinn sem var 130 ára að aldri. Þegar hann frétti að Jakob (eða Ísrael) væri að nálgast lét hann „beita fyrir vagn sinn og fór á móti Ísrael föður sínum til Gósen, og er fundum þeirra bar saman, féll hann um háls honum og grét lengi um háls honum“. (1. Mósebók 46:28, 29) Þessar móttökur voru annað og meira en formlegur virðingarvottur. Jósef elskaði föður sinn heitt og skammaðist sín ekki fyrir að sýna það. Ef við eigum aldraða foreldra, erum við þá óspör á að sýna þeim ástúð?

7. Hvers vegna vildi Jakob láta jarða sig í Kanaanlandi?

7 Jakob var hollur Jehóva allt til dauðadags. (Hebreabréfið 11:21) Hann bað um að jarðneskar leifar sínar yrðu grafnar í Kanaanlandi þar sem hann treysti á loforð Guðs. Jósef heiðraði föður sinn með því að fara að beiðni hans þrátt fyrir kostnað og fyrirhöfn. — 1. Mósebók 47:29-31; 50:7-14.

8. (a) Hver er aðalástæðan fyrir því að annast aldraða foreldra? (b) Hvað gerði bróðir í fullu starfi til að annast aldraða foreldra sína? (Sjá rammagrein á bls. 15.)

8 Hvers vegna langaði Jósef til að annast föður sinn? Jósef elskaði hann vissulega og fannst hann standa í þakkarskuld við hann fyrir að gefa sér lífið og ala sig upp. En Jósef langaði efalaust líka að þóknast Jehóva. Þannig ætti það líka að vera hjá okkur. Páll skrifaði: „Ef einhver ekkja á börn eða barnabörn, þá læri þau fyrst og fremst að sýna rækt eigin heimili og endurgjalda foreldrum sínum, því að það er þóknanlegt fyrir augliti Guðs.“ (1. Tímóteusarbréf 5:4) Já, ef við elskum Jehóva og óttumst hann önnumst við aldraða foreldra okkar, hversu erfitt sem það kann að vera. *

Hvernig geta öldungar sýnt umhyggju?

9. Hverjum hefur Jehóva falið að vera hirðar hjarðarinnar, þar á meðal aldraðra kristinna manna?

9 Undir lok langrar ævi talaði Jakob um Jehóva sem ,hirði sinn frá barnæsku allt til þessa dags‘. (1. Mósebók 48:15, Biblíurit, ný þýðing 1998) Núna notar Jehóva kristna umsjónarmenn, undir umsjón sonar síns Jesú Krists, ,hins æðsta hirðis‘, til að gæta þjóna sinna á jörð. (1. Pétursbréf 5:2-4) Hvernig geta umsjónarmenn líkt eftir Jehóva þegar þeir annast þá sem eldri eru í hjörðinni?

10. Hvernig hefur öldruðum kristnum mönnum verið hjálpað efnislega? (Sjá rammagrein á bls. 17.)

10 Stuttu eftir að kristni söfnuðurinn var stofnaður útnefndu postularnir „sjö vel kynnta menn . . . sem fullir [voru] anda og visku“ til að hafa umsjón með ,daglegri úthlutun‘ á mat meðal þurfandi ekkna í söfnuðinum. (Postulasagan 6:1-6) Seinna sagði Páll Tímóteusi að setja aldraðar ekkjur, sem væru til fyrirmyndar, á skrá yfir þá sem ættu rétt á efnislegri aðstoð. (1. Tímóteusarbréf 5:3, 9, 10) Umsjónarmenn nú á dögum sjá fúslega til þess að aldraðir safnaðarmenn fái aðstoð þegar þörf krefur. En það er meira fólgið í því að annast trúfast aldrað fólk.

11. Hvað sagði Jesús um bágstöddu ekkjuna sem gaf tvo smápeninga?

11 Þegar stutt var eftir af þjónustu Jesú á jörð settist hann niður við musterið og „horfði á fólkið leggja peninga“ í fjárhirsluna. Ein manneskja vakti athygli hans. Frásagan segir: „Þá kom ekkja ein fátæk og lét þar tvo smápeninga, eins eyris virði.“ Jesús kallaði lærisveinana til sín og sagði: „Sannlega segi ég yður, þessi fátæka ekkja gaf meira en allir hinir, er lögðu í fjárhirsluna. Allir gáfu þeir af allsnægtum sínum, en hún gaf af skorti sínum allt sem hún átti, alla björg sína.“ (Markús 12:41-44) Peningalega séð var framlag ekkjunnar lítið en Jesús vissi hve mikils himneskur faðir hans metur heilshugar hollustu sem birtist í verkum af þessu tagi. Jesús leit ekki fram hjá því sem þessi fátæka ekkja gerði þrátt fyrir aldur hennar.

12. Hvernig geta öldungar sýnt að þeir kunni að meta framlag hinna öldruðu í söfnuðinum?

12 Kristnir umsjónarmenn líkja eftir Jesú og horfa ekki fram hjá því sem hinir öldruðu gera til að efla sanna tilbeiðslu. Öldungar hafa ástæðu til að hrósa þeim sem eldri eru fyrir þátt þeirra í boðunarstarfinu, þátttöku í samkomum, góð áhrif í söfnuðinum og þolgæði þeirra. Nokkur einlæg uppörvunarorð geta hjálpað hinum öldruðu að gleðjast í heilagri þjónustu sinni í stað þess að letja sjálfa sig með því að bera sig saman við aðra í söfnuðinum eða við það sem þeir sjálfir gerðu áður. — Galatabréfið 6:4.

13. Á hvaða hátt geta öldungar nýtt hæfileika og reynslu hinna öldruðu?

13 Öldungar geta viðurkennt verðmætt framlag aldraðra safnaðarmanna með því að nýta sér reynslu þeirra og hæfileika. Hægt er að biðja aldrað fólk, sem er til fyrirmyndar, um að taka þátt í sýnikennslu og viðtölum annað slagið. „Áheyrendur hlusta af athygli þegar ég á viðtal við eldri bróður eða systur sem hefur alið upp börn í sannleikanum,“ segir öldungur nokkur. Öldungar í öðrum söfnuði segja frá því að systir á áttræðisaldri hafi náð góðum árangri í að hjálpa boðberum að verða reglulegir í boðunarstarfinu. Hún hvetur þá líka til að sinna „grundvallaratriðunum“ eins og að lesa í Biblíunni og dagstextabæklingnum og hugleiða það sem þeir lesa.

14. Hvernig sýndi öldungaráð eitt að það kunni að meta aldraðan samöldung sinn?

14 Öldungar kunna líka vel að meta það sem aldraðir samöldungar þeirra gera. José, sem er á áttræðisaldri, hefur verið öldungur í áratugi. Nýlega gekkst hann undir stóra skurðaðgerð. Hann hafði í hyggju að segja af sér sem umsjónarmaður í forsæti þar sem hann sá fram á að verða lengi að jafna sig. „Viðbrögð hinna öldunganna komu mér á óvart,“ segir José. „Í stað þess að fallast á tillögu mína spurðu þeir mig hvaða aðstoðar ég þyrfti við til að geta sinnt skyldum mínum áfram.“ Með hjálp yngri öldungs gat José haldið áfram að þjóna með gleði sem umsjónarmaður í forsæti og söfnuðurinn hefur notið góðs af. Samöldungur segir: „Söfnuðurinn metur starf José mjög mikils. Hann er elskaður og virtur fyrir reynslu sína og trúarfordæmi. Hann auðgar söfnuðinn.“

Berum umhyggju hvert fyrir öðru

15. Hvers vegna ætti öllum kristnum mönnum að vera umhugað um velferð hinna öldruðu á meðal þeirra?

15 Það eru ekki aðeins börn aldraðra foreldra og útnefndir bræður sem ætti að vera umhugað um hina öldruðu. Páll líkti kristna söfnuðinum við mannslíkamann er hann skrifaði: „Guð setti líkamann svo saman, að hann gaf þeim, sem síðri var, því meiri sæmd, til þess að ekki yrði ágreiningur í líkamanum, heldur skyldu limirnir bera sameiginlega umhyggju hver fyrir öðrum.“ (1. Korintubréf 12:24, 25) Til að söfnuðurinn sé samstilltur verður hverjum og einum að vera umhugað um velferð trúsystkina sinna, þar á meðal hinna öldruðu. — Galatabréfið 6:2.

16. Hvernig getum við sýnt áhuga á hinum öldruðu þegar við sækjum safnaðarsamkomur?

16 Á safnaðarsamkomum gefst okkur kjörið tækifæri til að sýna hinum öldruðu áhuga. (Filippíbréfið 2:4; Hebreabréfið 10:24, 25) Gefum við okkur tíma til að ræða við þá? Það getur auðvitað verið viðeigandi að spyrja um líðan þeirra. En gætum við gefið andlegar gjafir eins og að segja uppbyggjandi frásögu eða nefna eitthvað úr Biblíunni sem okkur finnst áhugavert? Sumir hinna öldruðu eiga erfitt með gang svo að það væri fallegt af okkur að fara til þeirra í stað þess að ætlast til þess að þeir komi til okkar. Ef heyrnin hjá þeim er slæm getur verið að við þurfum að tala hægt og skýrt. Og ef uppörvunin á að vera gagnkvæm verðum við að hlusta með athygli á það sem hinir öldruðu segja. — Rómverjabréfið 1:11, 12.

17. Hvernig getum við sýnt umhyggju fyrir öldruðum trúsystkinum sem eiga ekki heimangengt?

17 Hvað nú ef einhverjir aldraðir boðberar geta ekki sótt safnaðarsamkomur? Jakobsbréfið 1:27 bendir á að það sé skylda okkar „að vitja munaðarlausra og ekkna í þrengingu þeirra“. Hinir öldruðu meta heimsóknir okkar mikils. Þegar „Páll gamli“ var í fangelsi í Róm um árið 65 var hann í raun aleinn. Hann þráði að sjá Tímóteus, samverkamann sinn, og skrifaði: „Reyndu að koma sem fyrst til mín.“ (Fílemonsbréfið 9; 2. Tímóteusarbréf 1:3, 4; 4:9) Sumt eldra fólk á ekki heimangengt sökum heilsubrests þó að það sé kannski ekki bókstaflegir fangar. Það gæti í raun verið að segja: Gerðu þitt besta til að heimsækja mig fljótt. Svörum við kallinu?

18. Hvernig geta hinir öldruðu notið góðs af heimsóknum okkar?

18 Vanmetum aldrei þau gagnlegu áhrif sem það getur haft að heimsækja öldruð trúsystkini. Þegar kristinn maður að nafni Ónesífórus var í Róm leitaði hann ákaft að Páli, fann hann og ,hressti hann oft‘. (2. Tímóteusarbréf 1:16, 17) „Mér finnst ómetanlegt að vera með þeim sem yngri eru,“ segir öldruð systir. „Það sem mér finnst best er að þau koma fram við mig eins og ég sé ein af fjölskyldunni. Það léttir mér lund.“ Önnur eldri systir segir: „Ég er mjög þakklát fyrir það þegar einhver sendir mér kort, talar við mig í símann í nokkrar mínútur eða heimsækir mig í smástund. Það er eins og að anda að sér fersku lofti.“

Jehóva launar þeim sem eru umhyggjusamir

19. Hvaða blessun fylgir því að annast hina öldruðu?

19 Það hefur mikla blessun í för með sér að annast hina öldruðu. Í raun er það einstakt tækifæri að fá að eiga félagsskap við þá og njóta góðs af reynslu þeirra og þekkingu. Þeir sem annast aldraða upplifa þá miklu gleði sem fylgir því að gefa og finna til friðar og fullnægju yfir því að hafa uppfyllt biblíulegar skyldur sínar. (Postulasagan 20:35) Og þeir þurfa ekki að óttast að þeir sjálfir verði yfirgefnir á efri árum. Orð Guðs lofar: „Velgjörðasöm sál mettast ríkulega, og sá sem gefur öðrum að drekka, mun og sjálfur drykk hljóta.“ — Orðskviðirnir 11:25.

20, 21. Hvernig lítur Jehóva á þá sem annast hina öldruðu og hvað ættum við að vera staðráðin í að gera?

20 Jehóva umbunar guðhræddum börnum, umsjónarmönnum og öðrum kristnum mönnum sem sinna þörfum aldraðra trúsystkina sinna á óeigingjarnan hátt. Þetta hugarfar er í samræmi við eftirfarandi orðskvið: „Sá lánar Drottni, er líknar fátækum, og hann mun launa honum góðverk hans.“ (Orðskviðirnir 19:17) Ef við hjálpum lítilmagnanum eða hinum fátæku sökum kærleika lítur Jehóva á slíkar gjafir sem lán sem hann endurgeldur með blessun. Hann endurgeldur okkur líka fyrir að annast öldruð trúsystkini sem mörg hver eru ,fátæk í augum heimsins en auðug í trú‘. — Jakobsbréfið 2:5.

21 Jehóva endurgeldur örlátlega, meðal annars með eilífu lífi. Flestir þjónar Jehóva fá eilíft líf á paradísarjörð þar sem áhrif erfðasyndarinnar verða þurrkuð út og trúfast eldra fólk endurheimtir æskuþróttinn. (Opinberunarbókin 21:3-5) Höldum áfram að sinna kristnum skyldum okkar að annast hina öldruðu meðan við bíðum eftir þessum hamingjutíma.

[Neðanmáls]

^ gr. 8 Hagnýtar leiðbeiningar um hvernig hægt er að annast aldraða foreldra er að finna í Vaknið! (á ensku) 8. febrúar 1994, bls. 3-10.

Hverju svarar þú?

• Hvernig geta börn heiðrað aldraða foreldra sína?

• Hvernig sýna öldungar að þeir kunna að meta þá sem eldri eru í hjörðinni?

• Hvernig geta aðrir í kristna söfnuðinum sýnt einlægan áhuga á hinum öldruðu?

• Hvaða blessun fylgir því að annast aldraða kristna menn?

[Spurningar]

[Rammi á blaðsíðu 15]

Foreldrar hans þörfnuðust hjálpar

Philip var í sjálfboðastarfi við byggingaframkvæmdir í Líberíu árið 1999 þegar hann fékk þau tíðindi að faðir sinn væri alvarlega veikur. Hann var sannfærður um að móðir sín réði ekki við þetta ein og ákvað að snúa heim og sjá um að faðir sinn fengi læknishjálp.

„Það var ekki auðvelt að fara heim,“ segir Philip, „en mér fannst ég fyrst og fremst skuldbundinn foreldrum mínum.“ Á næstu þrem árum flutti hann foreldra sína á þægilegra heimili og aðlagaði íbúðina að sérþörfum föður síns með hjálp trúsystkina.

Móðir Philips er núna í betri aðstöðu til að annast alvarlega veikan föður hans. Ekki alls fyrir löngu gat Philip þegið boð um að vinna sem sjálfboðaliði á deildarskrifstofu Votta Jehóva í Makedóníu.

[Rammi á blaðsíðu 17]

Þau hafa sinnt þörfum hennar

Ada er 85 ára vottur Jehóva í Ástralíu. Þegar hún átti ekki lengur heimangengt vegna heilsunnar gerðu safnaðaröldungar ráðstafanir til að hjálpa henni. Þeir söfnuðu saman hópi trúsystkina til að aðstoða hana. Þessum bræðrum og systrum fannst ánægjulegt að vinna hin ýmsu verk eins og að þrífa, þvo þvott, elda og fara í sendiferðir.

Þessu fyrirkomulagi var komið á fót fyrir næstum áratug. Hingað til hafa fleiri en 30 vottar hjálpað til við að annast Ödu. Þeir halda áfram að heimsækja hana, lesa upp úr biblíutengdum ritum, upplýsa hana um andlega framför safnaðarmanna og biðja reglulega með henni.

Öldungur í söfnuðinum sagði: „Þeir sem annast Ödu líta á það sem heiður að hjálpa henni. Áratugalöng trúföst þjónusta hennar hefur verið mörgum hvatning og þeim kom einfaldlega ekki annað til hugar en að sinna þörfum hennar.“

[Mynd á blaðsíðu 14]

Berum við ríka umhyggju fyrir öldruðum foreldrum?

[Myndir á blaðsíðu 16]

Allir í söfnuðinum geta sýnt öldruðum trúsystkinum kærleika.