Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Aldraðir þjónar Guðs eru söfnuðinum verðmætir

Aldraðir þjónar Guðs eru söfnuðinum verðmætir

Aldraðir þjónar Guðs eru söfnuðinum verðmætir

„Þeir eru gróðursettir í húsi Drottins. . . . Jafnvel í hárri elli bera þeir ávöxt.“ — SÁLMUR 92:14, 15.

1. Hvernig líta margir á aldraða?

JEHÓVA elskar alla trúfasta þjóna sína, þar á meðal þá sem eldri eru. Það er hins vegar áætlað að um hálf milljón aldraðra séu beittir harðræði á ári hverju í Bandaríkjunum eða þeir vanræktir. Svipaðar fréttir annars staðar frá benda til að aldraðir sæti illri meðferð víða um heim. Samtök nokkur tala um að rót vandans sé „hið ríkjandi viðhorf meðal margra . . . að gamla fólkið sé orðið gagnslaust, afkastalítið og allt of háð öðrum“.

2. (a) Hvernig lítur Jehóva á trúfasta aldraða þjóna sína? (b) Hvaða uppörvandi lýsingu er að finna í Sálmi 92:13-16?

2 Jehóva Guð metur aldraða þjóna sína mikils. Hann horfir á okkar ,innri mann‘, hinn andlega, en ekki líkamlegar takmarkanir. (2. Korintubréf 4:16) Í orði hans, Biblíunni, er að finna þessi hlýlegu orð: „Hinir réttlátu gróa sem pálminn, vaxa sem sedrustréð á Líbanon. Þeir eru gróðursettir í húsi Drottins, gróa í forgörðum Guðs vors. Jafnvel í hárri elli bera þeir ávöxt, þeir eru safamiklir og grænir. Þeir kunngjöra, að Drottinn er réttlátur.“ (Sálmur 92:13-16) Umfjöllun um þessi vers leiðir í ljós hve verðmætt það er sem þið eldra fólkið getið lagt af mörkum innan kristna bræðrafélagsins.

„Í hárri elli bera þeir ávöxt“

3. (a) Hvers vegna er réttlátum líkt við pálmatré? (b) Hvernig geta aldraðir ,borið ávöxt‘?

3 Sálmaritarinn líkir hinum réttlátu við pálmatré sem „gróa í forgörðum Guðs vors“. „Í hárri elli bera þeir ávöxt.“ Finnst þér þetta ekki hughreystandi? Há og tíguleg pálmatré voru algeng sjón í húsagörðum Austurlanda á biblíutímanum. Auk þess að vera til skrauts voru pálmar í hávegum hafðir fyrir ríkulegan ávöxt þeirra. Sum tré voru frjósöm í meira en hundrað ár. * Þú getur „borið ávöxt í öllu góðu verki“ með því að vera rótfastur í sannri tilbeiðslu. — Kólossubréfið 1:10.

4, 5. (a) Hvaða mikilvægan ávöxt verða kristnir menn að bera? (b) Nefndu dæmi úr Biblíunni um eldra fólk sem bar „ávöxt vara“.

4 Jehóva væntir þess að þjónar sínir beri „ávöxt vara“ — orð sem lofa hann og fyrirætlanir hans. (Hebreabréfið 13:15) Væntir hann þess af þér þó að þú sért kominn á efri ár? Svo sannarlega.

5 Biblían segir frá öldruðum þjónum Jehóva sem báru óttalaust vitni um nafn hans og fyrirætlanir. Móse var meira en ,sjötíu ára‘ þegar Jehóva fól honum að vera spámaður sinn og fulltrúi. (Sálmur 90:10; 2. Mósebók 4:10-17) Hár aldur kom ekki í veg fyrir að Daníel spámaður vitnaði óttalaust um drottinvald Jehóva. Daníel var líklega á tíræðisaldri þegar Belsasar fékk hann til að ráða fram úr hinni dularfullu áletrun á veggnum. (Daníel, 5. kafli) Og hvað um hinn aldraða Jóhannes postula? Er leið að lokum langrar þjónustu hans var hann fangi á eynni Patmos „fyrir sakir Guðs orðs og vitnisburðar Jesú“. (Opinberunarbókin 1:9) Eflaust manst þú eftir mörgum fleiri sem Biblían talar um og báru „ávöxt vara“ á efri æviárum. — 1. Samúelsbók 8:1, 10; 12:2; 1. Konungabók 14:4, 5; Lúkas 1:7, 67-79; 2:22-32.

6. Hvernig hefur Jehóva notað „gamalmenni“ til að spá á síðustu dögum?

6 Pétur postuli var að vitna í hebreska spámanninn Jóel er hann sagði: „Það mun verða á efstu dögum, segir Guð, að ég mun úthella anda mínum yfir alla menn [þar á meðal „gamalmenni“] . . . og þau munu spá.“ (Postulasagan 2:17, 18; Jóel 3:1) Nú á dögum hefur Jehóva á svipaðan hátt notað aldraða þjóna sína, bæði af andasmurða hópnum og ,öðrum sauðum‘, til að boða fyrirætlanir sínar. (Jóhannes 10:16) Sumir þeirra hafa borið trúfastlega ávöxt í boðun Guðsríkis svo áratugum skiptir.

7. Nefndu dæmi um það hvernig eldra fólk heldur áfram að bera ávöxt í boðun Guðsríkis þrátt fyrir líkamlegar takmarkanir.

7 Tökum Soniu sem dæmi. Hún gerðist boðberi í fullu starfi árið 1941. Þrátt fyrir langvinn veikindi hélt hún að staðaldri biblíunámskeið á heimili sínu. „Boðunarstarfið er hluti af lífi mínu,“ sagði Sonia. „Eiginlega er það líf mitt. Ég hætti ekki störfum.“ Sonia og Olive, systir hennar, hittu dauðvona sjúkling, Janet að nafni, á biðstofu spítala ekki alls fyrir löngu og sögðu henni frá vonarboðskap Biblíunnar. Móðir Janetar, sem var heittrúaður kaþólikki, var svo snortin af áhuganum sem dóttur hennar var sýndur að hún þáði biblíunámskeið og tekur núna miklum framförum. Getur þú notað svipuð tækifæri til að bera ávöxt í boðun Guðsríkis?

8. Hvernig sýndi hinn aldraði Kaleb að hann treysti á Jehóva og hvernig geta aldraðir kristnir menn líkt eftir honum?

8 Með því að sækja hugrakkir fram í boðun Guðsríkis þrátt fyrir þær takmarkanir sem aldurinn setur eru aldraðir kristnir menn að feta í fótspor hins trúfasta Kalebs. Hann var Ísraelsmaður sem fylgdi Móse í eyðimörkinni í fjóra áratugi. Kaleb var 79 ára þegar hann fór yfir Jórdanána inn í fyrirheitna landið. Hann hefði getað lifað á fornri frægð eftir að hafa barist í sex ár með sigursælum her Ísraels. En hann settist ekki í helgan stein heldur bað hann hugrakkur um það erfiða verkefni að hertaka hinar ,stóru, víggirtu borgir‘ í fjallahéraði Júda. Þar bjuggu Anakítar sem voru óvenjuhávaxnir. Og Kaleb stökkti þeim í burtu með hjálp Jehóva rétt eins og Jehóva hafði heitið. (Jósúabók 14:9-14; 15:13, 14) Þú getur verið fullviss um að Jehóva sé með þér, eins og hann var með Kaleb, þegar þú heldur áfram að bera ávöxt í boðun Guðsríkis á efri árum. Og ef þú ert trúfastur mun hann gefa þér samastað í fyrirheitnum nýjum heimi sínum. — Jesaja 40:29-31; 2. Pétursbréf 3:13.

„Þeir eru safamiklir og grænir“

9, 10. Hvernig halda aldraðir kristnir menn áfram að vera heilbrigðir í trúnni og andlega þróttmiklir? (Sjá rammagrein á bls. 11.)

9 Sálmaritarinn var að benda á hvernig aldraðir þjónar Jehóva bera ríkulegan ávöxt er hann söng: „Hinir réttlátu gróa sem pálminn, vaxa sem sedrustréð á Líbanon. Jafnvel í hárri elli bera þeir ávöxt, þeir eru safamiklir og grænir.“ — Sálmur 92:13, 15.

10 Hvernig geturðu viðhaldið andlegu þreki þrátt fyrir að aldurinn færist yfir? Stöðug fegurð pálmatrésins veltur á því að það hafi nóg af vatni. Á svipaðan hátt getur þú nærst af sannleiksvatni orðs Guðs með því að nema það og hafa samneyti við skipulag hans. (Sálmur 1:1-3; Jeremía 17:7, 8) Andlegur þróttur þinn gerir þig að verðmætum einstaklingi meðal trúsystkina þinna. Taktu eftir hvernig þetta sýndi sig varðandi hinn aldraða Jójada æðsta prest.

11, 12. (a) Hvaða mikilvæga hlutverki gegndi Jójada í sögu Júdaríkis? (b) Hvernig notaði Jójada áhrif sín til að efla sanna tilbeiðslu?

11 Jójada var líklega kominn yfir tírætt þegar hin metnaðargjarna Atalía drottning hrifsaði til sín völdin í Júda með því að myrða barnabörn sín. Hvað gat hinn aldraði Jójada gert? Hann og kona hans földu Jóas, eina eftirlifandi ríkiserfingjann, í musterinu í sex ár. Síðan, þegar Jóas var orðinn sjö ára, lýsti Jójada hann konung öllum að óvörum og lét lífláta Atalíu. — 2. Kroníkubók 22:10-12; 23:1-3, 15, 21.

12 Jójada var verndari konungs og notaði áhrif sín til að efla sanna tilbeiðslu. Hann „gjörði sáttmála milli sín og alls lýðsins og konungs, að þeir skyldu vera lýður Drottins“. Að tilskipun Jójada reif fólkið niður hús falsguðsins Baals og fjarlægði ölturu hans, skurðgoð og prest. Það var einnig vegna leiðsagnar Jójada að Jóas kom aftur á musterisþjónustu og lét gera við musterið en það var orðið mjög aðkallandi. „Jóas gjörði það, sem rétt var í augum Drottins alla ævi sína, af því að Jójada prestur hafði kennt honum.“ (2. Kroníkubók 23:11, 16-19; 24:11-14; 2. Konungabók 12:2) Þegar Jójada lést, 130 ára að aldri, fékk hann þann einstaka heiður að vera grafinn meðal konunganna vegna þess að „hann hafði breytt vel í Ísrael, svo og gagnvart Guði og musteri hans“. — 2. Kroníkubók 24:15, 16.

13. Hvernig geta aldraðir kristnir menn ,breytt vel gagnvart Guði og musteri hans‘?

13 Ef til vill takmarkar slæm heilsa eða aðrar aðstæður hvað þú getur gert til að efla sanna tilbeiðslu. Þó að svo sé geturðu samt ,breytt vel gagnvart Guði og musteri hans‘. Þú getur haft brennandi áhuga á andlegu musteri Jehóva með því að mæta á safnaðarsamkomur og taka þátt í þeim og með því að fara í boðunarstarfið hvenær sem kostur er. Þú styrkir kristna bræðrafélagið með því að þiggja biblíuleg ráð fúslega og styðja söfnuðinn og hinn ,trúa og hyggna þjón‘ dyggilega. (Matteus 24:45-47) Þú getur líka hvatt trúsystkini þín „til kærleika og góðra verka“. (Hebreabréfið 10:24, 25; Fílemonsbréfið 8, 9) Og þú verður öðrum til blessunar ef þú ferð eftir ráðleggingu Páls postula: „Aldraðir menn skulu vera bindindissamir, heiðvirðir, hóglátir, heilbrigðir [„þróttmiklir“, An American Translation] í trúnni, kærleikanum og þolgæðinu. Svo eiga og aldraðar konur að vera í háttalagi sínu eins og heilögum sæmir. Þær skulu ekki vera rógberar og ekki heldur í ánauð ofdrykkjunnar, heldur kenni þær gott frá sér.“ — Títusarbréfið 2:2-4.

14. Hvað geta gamalreyndir umsjónarmenn gert til að efla sanna tilbeiðslu?

14 Hefurðu þjónað sem safnaðaröldungur til fjölda ára? „Notaðu viskuna, sem kemur með árunum, á óeigingjarnan hátt,“ ráðleggur gamalreyndur safnaðaröldungur. „Dreifðu verkefnum og láttu þá sem eru námfúsir njóta góðs af reynslu þinni. . . . Komdu auga á hæfileika annarra. Þroskaðu þá og hlúðu að þeim. Byggðu til framtíðar.“ (5. Mósebók 3:27, 28) Einlægur áhugi þinn á hinu sívaxandi boðunarstarfi er öðrum í kristna bræðrafélaginu til góðs á margan hátt.

,Kunngerðu að Drottinn er réttlátur‘

15. Hvernig kunngera aldraðir kristnir menn „að Drottinn er réttlátur“?

15 Eldri þjónar Guðs rækja fúslega þá skyldu sína að „kunngjöra, að Drottinn er réttlátur“. Ef þú ert aldraður kristinn maður geta orð þín og verk sýnt öðrum að Jehóva sé ,klettur þinn sem ekkert ranglæti er hjá‘. (Sálmur 92:16) Pálmatréð er þögull vitnisburður um afburðaeiginleika skaparans. En Jehóva hefur gefið þér það einstaka tækifæri að bera sér vitni meðal sannra tilbiðjenda. (5. Mósebók 32:7; Sálmur 71:17, 18; Jóel 1:2, 3) Hvers vegna er það mikilvægt?

16. Hvaða dæmi frá biblíutímanum sýnir mikilvægi þess að „kunngjöra, að Drottinn er réttlátur“?

16 Þegar Jósúa, leiðtogi Ísraelsmanna, var orðinn „gamall og hniginn að aldri“ kallaði hann „saman allan Ísrael, öldunga hans og höfðingja, dómendur hans og tilsjónarmenn“, og minnti þá á hvernig Jehóva hafði verið réttlátur í öllum samskiptum sínum við þá. Hann sagði: „Ekkert hefir brugðist af öllum þeim fyrirheitum, er Drottinn Guð yðar hefir gefið yður. Öll hafa þau rætst.“ (Jósúabók 23:1, 2, 14) Um tíma styrktu þessi orð þann ásetning þjóðarinnar að vera trúföst. En eftir dauða Jósúa „reis upp önnur kynslóð . . . er eigi þekkti Drottin né þau verk, er hann hafði gjört fyrir Ísrael. Þá gjörðu Ísraelsmenn það, sem illt var í augum Drottins, og þjónuðu Baölum.“ — Dómarabókin 2:8-11.

17. Hvað hefur Jehóva gert fyrir fólk sitt á síðari tímum?

17 Ráðvendni kristna safnaðarins nú á dögum veltur ekki á vitnisburði aldraðra þjóna Guðs. En trú okkar á Jehóva og loforð hans styrkist þegar við heyrum frásagnir milliliðalaust af þeim ,miklu verkum‘ sem hann hefur unnið í þágu fólks síns á síðustu dögum. (Dómarabókin 2:7; 2. Pétursbréf 1:16-19) Ef þú hefur tilheyrt skipulagi Jehóva í mörg ár manstu kannski eftir því þegar mjög fáir boðberar Guðsríkis voru á svæðinu eða í landinu þínu eða mikil andstaða var gegn prédikunarstarfinu. Í tímans rás hefurðu séð Jehóva fjarlægja vissar hindranir og „hraða“ vexti bræðrafélagsins. (Jesaja 54:17; 60:22) Þú hefur fylgst með þegar nánari skýringar hafa komið á sannleika Biblíunnar og séð hvernig sýnilegur hluti skipulags Guðs hefur verið fágaður jafnt og þétt. (Orðskviðirnir 4:18; Jesaja 60:17) Leitast þú við að hvetja aðra með því að segja þeim frá því hvernig þú hefur upplifað réttlæti Jehóva í samskiptum við þjóna sína? Þetta getur haft jákvæð og styrkjandi áhrif á kristna bræðrafélagið.

18. (a) Lýstu langtímaáhrifunum af því að „kunngjöra, að Drottinn er réttlátur“. (b) Hvernig hefur þú fengið að reyna réttlæti Jehóva?

18 Eflaust hefurðu kynnst umhyggju og handleiðslu Jehóva af eigin raun. (Sálmur 37:25; Matteus 6:33; 1. Pétursbréf 5:7) Öldruð systir, Martha að nafni, var vön að uppörva aðra með því að segja: „Yfirgefðu Jehóva aldrei, sama hvað gerist. Hann mun styðja þig.“ Þetta heilræði hafði djúpstæð áhrif á Tolminu, eina af biblíunemendum Mörthu, sem lét skírast snemma á sjöunda áratugnum. „Ég var mjög niðurdregin þegar eiginmaður minn dó,“ segir Tolmina, „en þessi orð gerðu mig ákveðna í að missa ekki af einni einustu samkomu. Og Jehóva styrkti mig þannig að ég gat haldið áfram.“ Tolmina hefur gefið mörgum biblíunemendum sínum þetta sama heilræði í gegnum tíðina. Já, með því að hvetja aðra í söfnuðinum og segja þeim frá hvernig þú hefur upplifað réttlæti Jehóva geturðu átt stóran þátt í að byggja upp trú þeirra.

Jehóva metur aldraða þjóna sína mikils

19, 20. (a) Hvernig lítur Jehóva á það sem aldraðir þjónar hans gera? (b) Um hvað verður fjallað í næstu grein?

19 Heimur nútímans einkennist af vanþakklæti og gefur sér lítinn tíma fyrir hina öldruðu. (2. Tímóteusarbréf 3:1, 2) Þegar aðrir hugsa til þeirra er það oft vegna fyrri afreka, fyrir það sem þeir voru en ekki það sem þeir eru. Biblían segir hins vegar: „Guð er ekki ranglátur. Hann gleymir ekki verki yðar og kærleikanum, sem þér auðsýnduð nafni hans, er þér veittuð hinum heilögu þjónustu og veitið enn.“ (Hebreabréfið 6:10) Jehóva Guð man auðvitað eftir trúarverkum sem þú hefur unnið í gegnum tíðina. En hann kann líka að meta það sem þú heldur áfram að gera í þjónustu hans. Já, hann lítur svo á að aldraðir þjónar sínir séu þróttmiklir kristnir menn sem bera ávöxt og eru heilbrigðir í trúnni. Þeir eru lifandi vitnisburður um mátt hans. — Filippíbréfið 4:13.

20 Lítur þú hina öldruðu í kristna bræðrafélaginu sömu augum og Jehóva? Ef svo er langar þig eflaust til að sýna að þér þykir vænt um þá. (1. Jóhannesarbréf 3:18) Í næstu grein verður fjallað um nokkrar leiðir til að sýna slíkan kærleika þegar við sinnum þörfum þeirra.

[Neðanmáls]

^ gr. 3 Hver döðluklasi getur samanstaðið af allt að þúsund ávöxtum og getur vegið átta kíló eða meira. Rithöfundur einn áætlar að „hvert frjósamt [pálmatré] gefi eigendum sínum tvö til þrjú tonn af döðlum á æviskeiði sínu“.

Hverju svarar þú?

• Hvernig bera aldraðir ávöxt?

• Hvers vegna er andlegur þróttur aldraðra kristinna manna verðmætur?

• Hvernig geta þeir sem eldri eru ,kunngert að Jehóva sé réttlátur‘?

• Hvers vegna metur Jehóva þá mikils sem hafa þjónað honum lengi?

[Spurningar]

[Rammi á blaðsíðu 11]

Hvernig hafa þau verið heilbrigð í trúnni?

Hvað hefur hjálpað gamalreyndum kristnum mönnum að vera heilbrigðir í trúnni og viðhalda andlegum þrótti sínum? Hér eru ummæli nokkurra:

„Það er afar mikilvægt að lesa ritningarstaði sem fjalla um samband okkar við Jehóva. Flestöll kvöld les ég Sálm 23 og 91 upphátt.“ — Olive, skírð 1930.

„Ég hef sett mér það markmið að vera viðstaddur allar skírnarræður og hlusta af athygli eins og þetta væri mín eigin skírn. Að hafa vígsluna ljóslifandi í huga hefur reynst mikilvæg hjálp til að vera trúfastur.“ — Harry, skírður 1946.

„Það er nauðsynlegt að biðja til Jehóva á hverjum degi um hjálp hans, vernd og blessun, að ,muna til hans á öllum vegum okkar‘.“ (Orðskviðirnir 3:5, 6) — Antônio, skírður 1951.

„Það styrkir ásetning minn að vera Jehóva trú þegar ég hlusta á frásögur þeirra sem hafa verið trúfastir í fjöldamörg ár.“ — Joan, skírð 1954.

„Maður má ekki hugsa of mikið um sjálfan sig. Við eigum allt undir óverðskuldaðri góðvild Guðs. Þetta sjónarmið hjálpar okkur að leita á réttum stað að andlegri næringu sem við þurfum til að vera þolgóð allt til enda.“ — Arlene, skírð 1954.

[Mynd á blaðsíðu 9]

Hinir öldruðu bera verðmætan ávöxt í boðun Guðsríkis.

[Mynd á blasíðu 12]

Andlegur þróttur hinna öldruðu er verðmætur.