Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Fólk Guðs á að ástunda gæsku

Fólk Guðs á að ástunda gæsku

Fólk Guðs á að ástunda gæsku

„Hvað heimtar Drottinn annað af þér en að gjöra rétt, ástunda kærleika [„gæsku“, NW] og fram ganga í lítillæti fyrir Guði þínum?“ — MÍKA 6:8.

1, 2. (a) Af hverju er eðlilegt að Jehóva skuli vænta þess að þjónar hans sýni gæsku? (b) Hvaða spurningar um gæskuna eru athugunar verðar?

JEHÓVA er gæskuríkur Guð. (Rómverjabréfið 2:4; 11:22) Fyrstu hjónin, þau Adam og Eva, hljóta að hafa verið innilega þakklát fyrir gæsku hans. Þau voru umkringd sköpunarverkum Guðs í Edengarðinum sem vitnuðu hvert og eitt um gæsku hans við mennina sem gátu notið þeirra. Og Guð er enn þá gæskuríkur við alla, jafnvel vanþakkláta og vonda.

2 Mennirnir eru færir um að endurspegla eiginleika Guðs vegna þess að þeir eru skapaðir eftir mynd hans. (1. Mósebók 1:26) Það er því ofur eðlilegt að Jehóva skuli vænta þess af okkur að við séum góð og gæskurík. Eins og kemur fram í Míka 6:8 verða þjónar Guðs að ástunda gæsku. En hvað er gæska? Hvað á hún skylt við aðra eiginleika Guðs? Hvers vegna er heimurinn svona grimmur og harður fyrst mennirnir eru færir um að sýna gæsku? Og af hverju ættum við, sem erum kristin, að leitast við að sýna gæsku í samskiptum við aðra?

Hvað er gæska?

3. Skilgreindu hvað gæska er.

3 Gæska birtist í vakandi áhuga á velferð annarra. Hún birtist í hjálpsemi og nærgætnum orðum. Gæska merkir að gera öðrum gott en ekki illt. Gæskuríkur maður er vingjarnlegur, mildur, skilningsríkur og viðfelldinn. Hann er örlátur og tillitssamur. Páll postuli hvatti kristna menn til að ‚íklæðast hjartans meðaumkun, góðvild, auðmýkt, hógværð og langlyndi‘. (Kólossubréfið 3:12) Gæska er því hluti af táknrænum klæðnaði allra kristinna manna.

4. Hvernig hefur Jehóva átt frumkvæðið að því að sýna mannkyninu gæsku?

4 Jehóva Guð á frumkvæðið að gæskunni. Eins og Páll sagði var það þegar „gæska Guðs frelsara vors birtist og elska hans til mannanna“ að hann „frelsaði . . . oss . . . í þeirri laug, þar sem vér endurfæðumst og heilagur andi gjörir oss nýja“. (Títusarbréfið 3:4, 5) Guð ‚laugar‘ eða hreinsar andasmurða kristna menn í blóði Jesú með því að beita andvirði lausnarfórnar hans í þágu þeirra. Hann notar einnig heilagan anda til að ‚gera þá nýja‘ með því að ‚skapa þá á ný‘ sem andagetna syni sína. (2. Korintubréf 5:17) Gæska Guðs nær jafnframt til múgsins mikla sem hefur „þvegið skikkjur sínar og hvítfágað þær í blóði lambsins“. — Opinberunarbókin 7:9, 14; 1. Jóhannesarbréf 2:1, 2.

5. Hvers vegna ættu þeir sem láta anda Guðs leiða sig að sýna gæsku?

5 Gæska er hluti af ávexti heilags anda Guðs. Páll sagði: „Ávöxtur andans er: Kærleiki, gleði, friður, langlyndi, gæska, góðvild, trúmennska, hógværð og bindindi. Gegn slíku er lögmálið ekki.“ (Galatabréfið 5:22, 23) Ættu þeir sem láta anda Guðs leiða sig þá ekki að sýna öðrum gæsku?

Sönn gæska er ekki veikleiki

6. Hvenær er gæska veikleiki og hvers vegna?

6 Sumir líta á gæsku sem veikleika. Þeim finnst maður þurfa að vera harður í horn að taka, jafnvel ruddalegur á stundum, til að sýna öðrum skapfestu sína. Í raun réttri er það þó merki um skapfestu en ekki veiklyndi að vera gæskuríkur en forðast gæsku byggða á röngum forsendum. Þar sem sönn gæska er hluti af ávexti anda Guðs getur hún ekki verið veiklunduð og undanlátssöm gagnvart rangri breytni. Það er hins vegar veikleiki að sýna gæsku ef hún er byggð á röngum forsendum því að það gerir mann undanlátssaman gagnvart rangri breytni.

7. (a) Hvaða vanrækslu sýndi Elí? (b) Hvers vegna mega öldungar ekki sýna gæsku á röngum forsendum?

7 Elí, æðstiprestur í Ísrael, er dæmi um þetta. Hann vanrækti að aga syni sína, þá Hofní og Pínehas, en þeir þjónuðu sem prestar í tjaldbúðinni. Þeir gerðu sig ekki ánægða með þann hluta fórnanna sem tiltekinn var í lögmáli Guðs þannig að áður en fitu fórnardýrsins var brennt á altarinu létu þeir musterissvein heimta hrátt kjöt af þeim sem kom með fórnargjöfina. Synir Elí áttu enn fremur siðlaus mök við konur sem þjónuðu við dyr tjaldbúðarinnar. En í stað þess að víkja Hofní og Pínehasi úr embætti ávítaði Elí þá ósköp mildilega. (1. Samúelsbók 2:12-29) Það er engin furða að „orð frá Drottni var sjaldgæft á þeim dögum“. (1. Samúelsbók 3:1) Kristnir öldungar mega ekki freistast til að sýna gæsku á röngum forsendum því að hún gæti stofnað andlegum styrk safnaðarins í hættu. Sönn gæska er ekki blind fyrir vondum orðum og verkum sem brjóta gegn meginreglum Guðs.

8. Hvernig sýndi Jesús sanna gæsku?

8 Jesús Kristur, fyrirmynd okkar, gerði sig aldrei sekan um að sýna gæsku á röngum forsendum. Hann var ímynd sannrar gæsku. Til dæmis segir frá því að hann hafi ‚kennt í brjósti um fólk því að það var hrjáð og umkomulaust eins og sauðir er engan hirði hafa‘. Hjartahreint fólk hikaði ekki við að koma til hans og tók jafnvel börnin með sér. Hugsaðu þér gæsku hans og hlýju þegar hann ‚tók börnin sér í faðm, lagði hendur yfir þau og blessaði þau‘. (Matteus 9:36; Markús 10:13-16) En þó að Jesús væri brjóstgóður var hann óhagganlegur í því sem var rétt í augum föðurins á himnum. Jesú stóð aldrei á sama um hið illa og hann bjó yfir guðlegu hugrekki til að fordæma hina hræsnisfullu trúarleiðtoga. Eins og fram kemur í Matteusi 23:13-26 endurtók hann nokkrum sinnum fordæminguna: „Vei yður, fræðimenn og farísear, hræsnarar!“

Gæska og aðrir eiginleikar andans

9. Hvernig er gæska tengd langlyndi og góðvild?

9 Gæska er nátengd öðrum eiginleikum sem andi Guðs kallar fram. Hún stendur á milli langlyndis og góðvildar í upptalningunni. Sá sem temur sér gæsku sýnir hana með því að vera langlyndur. Hann er meira að segja þolinmóður við þá sem eru óvingjarnlegir. Gæska er náskyld góðvild því að hún birtist gjarnan í hjálpsemi. Gríska orðið, sem þýtt er „gæska“, má reyndar einnig þýða „góðvild“. Að sögn Tertúllíanusar var þessi eiginleiki frumkristinna manna heiðnum mönnum slíkt undrunarefni að þeir kölluðu fylgjendur Jesú ‚fólk gæskunnar‘.

10. Hvað er skylt með gæsku og kærleika?

10 Gæska er náskyld kærleika. Jesús sagði um fylgjendur sína: „Á því munu allir þekkja, að þér eruð mínir lærisveinar, ef þér berið elsku hver til annars.“ (Jóhannes 13:35) Og Páll sagði að ‚kærleikurinn væri langlyndur og góðviljaður‘. (1. Korintubréf 13:4) Gæska á einnig skylt við ástúðlega umhyggju en hún á rætur sínar í tryggum kærleika. Hebreska nafnorðið, sem merkir „ástúðleg umhyggja“, lýsir gæsku sem binst einhverju með ástúð uns markmiðinu með því er náð. Ástúðleg umhyggja Jehóva og tryggur kærleikur hans birtist með ýmsum hætti, til dæmis þegar hann frelsar þjóna sína og verndar þá. * — Sálmur 6:5; 40:12; 143:12.

11. Hvaða trygging er fólgin í ástúðlegri umhyggju Guðs?

11 Ástúðleg umhyggja Jehóva er traust og laðar fólk að honum. (Jeremía 31:3) Þegar trúir þjónar Jehóva þarfnast hjálpar eða frelsunar vita þeir að ástúðleg umhyggja hans er trygg og traust. Hún bregst þeim ekki. Þess vegna geta þeir beðið til hans í trú eins og sálmaskáldið: „Ég treysti á miskunn þína; hjarta mitt fagnar yfir hjálp þinni.“ (Sálmur 13:6) Kærleikur Guðs er tryggur þannig að þjónar hans geta treyst algerlega á hann. Þeim er lofað: „Drottinn hrindir eigi burt lýð sínum og yfirgefur eigi arfleifð sína.“ — Sálmur 94:14.

Hvers vegna er heimurinn svona grimmur?

12. Hvenær og hvernig kom illt stjórnarfar til skjalanna?

12 Svarsins við þessari spurningu er að leita í atburðum sem áttu sér stað í Eden, snemma í sögu mannkyns. Andavera, sem var orðin eigingjörn og hrokafull, hrinti þá í framkvæmd fyrirætlun sinni um að ná heimsyfirráðum. Með ráðabruggi sínu varð þessi andi ‚höfðingi þessa heims‘ og gerðist harðráður mjög. (Jóhannes 12:31) Hann er erkiandstæðingur Guðs og manna, þekktur sem Satan djöfullinn. (Jóhannes 8:44; Opinberunarbókin 12:9) Skömmu eftir sköpun Evu var flett ofan af eigingjörnu samsæri hans að keppa við kærleiksríka stjórn Jehóva. Ill stjórn hans kom því til skjalanna þegar Adam kaus að vera óháður stjórn Guðs og hafnaði gæsku hans með öllu. (1. Mósebók 3:1-6) En í stað þess að ráða sér sjálf lentu Adam og Eva undir stjórn Satans, undirorpin hroka hans og eigingirni.

13-15. (a) Lýstu afleiðingum þess að hafna réttlátri stjórn Jehóva. (b) Hvers vegna er heimurinn harðneskjulegur?

13 Lítum á afleiðingarnar. Adam og Eva voru rekin burt af því svæði jarðar sem var paradís. Þau sáu á bak gróskumiklum garði með gnóttum heilnæmra jurta og ávaxta og við tóku erfið lífsskilyrði utan Edenar. Guð sagði Adam: „Af því að þú hlýddir röddu konu þinnar og ást af því tré, sem ég bannaði þér, er ég sagði: ‚Þú mátt ekki eta af því,‘ þá sé jörðin bölvuð þín vegna. Með erfiði skalt þú þig af henni næra alla þína lífdaga. Þyrna og þistla skal hún bera þér.“ Bölvun jarðar þýddi að það yrði mjög erfitt að yrkja hana. Afkomendur Adams fundu óþyrmilega fyrir áhrifunum af bölvun jarðar, þyrnum hennar og þistlum, svo óþyrmilega að Lamek, faðir Nóa, talaði um ‚erfiði og strit handa þeirra er jörðin, sem Drottinn bölvaði, bakaði þeim‘. — 1. Mósebók 3:17-19; 5:29.

14 Adam og Eva glötuðu ró sinni og friðsæld. Við tóku þjáningar og mæða. Guð sagði Evu: „Mikla mun ég gjöra þjáningu þína, er þú verður barnshafandi. Með þraut skalt þú börn fæða, og þó hafa löngun til manns þíns, en hann skal drottna yfir þér.“ Seinna meir framdi Kain, frumgetinn sonur Adams og Evu, það grimmdarverk að myrða Abel, bróður sinn. — 1. Mósebók 3:16; 4:8.

15 „Allur heimurinn er á valdi hins vonda,“ sagði Jóhannes postuli. (1. Jóhannesarbréf 5:19) Líkt og höfðingi sinn sýnir heimurinn ill einkenni á borð við eigingirni og hroka. Það er engin furða að hann skuli vera uppfullur af harðneskju og grimmd! En svo verður það ekki um alla framtíð. Jehóva sér til þess að gæska og umhyggja taki við af harðneskju og grimmd þegar ríki hans hefur tekið völd.

Gæska verður allsráðandi í Guðsríki

16. Hvers vegna er stjórn Guðs í höndum Jesú gæskurík og hvaða skyldu leggur það okkur á herðar?

16 Jehóva og Jesús Kristur, tilnefndur konungur ríkis hans, krefjast þess að þegnar sínir séu þekktir fyrir að ástunda kærleika og gæsku. (Míka 6:8) Jesús Kristur gaf okkur forsmekk af því hvernig stjórnin, sem faðir hans hefur falið honum, muni einkennast af gæsku. (Hebreabréfið 1:3) Þetta má sjá af orðum hans þegar hann afhjúpaði falstrúarleiðtogana sem lögðu þungar byrðar á fólk. Hann sagði: „Komið til mín, allir þér sem erfiði hafið og þungar byrðar, og ég mun veita yður hvíld. Takið á yður mitt ok og lærið af mér, því að ég er hógvær og af hjarta lítillátur, og þá munuð þér finna hvíld sálum yðar. Því að mitt ok er ljúft og byrði mín létt.“ (Matteus 11:28-30) Allt of margir jarðneskir valdhafar, bæði trúarlegir og annars konar, níðast á fólki með því að leggja á það lýjandi byrðar með endalausum reglum og vanþakklátum skyldum. Kröfur Jesú eru hins vegar þess eðlis að þær fullnægja þörfum fylgjenda hans og þeir rísa vel undir þeim. Það er ljúft ok og létt byrði! Langar okkur ekki til að líkjast honum með því að sýna öðrum gæsku? — Jóhannes 13:15.

17, 18. Hvers vegna getum við treyst að þeir sem stjórna með Kristi á himnum og þjóna sem fulltrúar hans á jörð sýni af sér gæsku?

17 Jesús dró greinilega fram muninn á stjórnarfari Guðsríkis og manna með sláandi orðum sem hann sagði við postula sína. Biblían segir svo frá: „Þeir [lærisveinarnir] fóru að metast um, hver þeirra væri talinn mestur. En Jesús sagði við þá: ‚Konungar þjóða drottna yfir þeim og valdhafar þeirra kallast velgjörðamenn. En eigi sé yður svo farið, heldur sé hinn mesti yðar á meðal sem væri hann yngstur og foringinn sem þjónn. Því hvort er sá meiri, sem situr til borðs, eða hinn, sem þjónar? Er það ekki sá sem situr til borðs? Samt er ég meðal yðar eins og þjónninn.‘“ — Lúkas 22:24-27.

18 Mennskir stjórnendur reyna að sýna hve miklir þeir séu með því að „drottna yfir“ fólki og hlaða á sig háum titlum, rétt eins og nafnbætur geri þá eitthvað æðri þegnunum. Jesús sagði hins vegar að sá maður væri mikill sem þjónaði öðrum, sem legði sig stöðuglega og dyggilega fram við að þjóna. Allir sem eiga eftir að stjórna með honum á himnum eða vera fulltrúar hans á jörð verða að leggja sig fram um að líkja eftir gæsku hans og auðmýkt.

19, 20. (a) Hvernig lýsti Jesús gæsku Jehóva? (b) Hvernig getum við líkt eftir gæsku Jehóva?

19 Lítum á aðrar leiðbeiningar sem Jesús gaf í kærleika sínum. Hann benti á hve umfangsmikil gæska Guðs væri og sagði: „Þótt þér elskið þá, sem yður elska, hvaða þökk eigið þér fyrir það? Syndarar elska þá líka, sem þá elska. Og þótt þér gjörið þeim gott, sem yður gjöra gott, hvaða þökk eigið þér fyrir það? Syndarar gjöra og hið sama. Og þótt þér lánið þeim, sem þér vonið að muni borga, hvaða þökk eigið þér fyrir það? Syndarar lána einnig syndurum til þess að fá allt aftur. Nei, elskið óvini yðar, og gjörið gott og lánið án þess að vænta nokkurs í staðinn, og laun yðar munu verða mikil, og þér verða börn hins hæsta, því að hann er góður við vanþakkláta og vonda. Verið miskunnsamir, eins og faðir yðar er miskunnsamur.“ — Lúkas 6:32-36.

20 Gæska er óeigingjörn. Hún heimtar ekkert og ætlast ekki til endurgjalds. Í gæsku sinni lætur Jehóva „sól sína renna upp yfir vonda sem góða og rigna yfir réttláta sem rangláta“. (Matteus 5:43-45; Postulasagan 14:16, 17) Við líkjum eftir föður okkar á himnum og forðumst ekki aðeins að gera þeim mein sem eru vanþakklátir heldur gerum þeim gott, jafnvel fólki sem hefur hegðað sér eins og óvinir okkar. Með gæsku okkar sýnum við Jehóva og Jesú að við þráum að búa í Guðsríki þar sem gæska og aðrir góðir eiginleikar munu einkenna öll mannleg samskipti.

Hvers vegna að sýna gæsku?

21, 22. Hvers vegna ættum við að sýna gæsku?

21 Það er sérstaklega mikilvægt fyrir sannkristna menn að sýna gæsku. Það er merki þess að andi Guðs starfi í okkur. Og þegar við sýnum sanna gæsku líkjum við eftir Guði og Jesú Kristi. Enn fremur er hennar krafist af þegnum Guðsríkis. Við verðum því að ástunda gæsku og læra að sýna hana.

22 Hvernig getum við sýnt gæsku í verki í daglega lífinu? Við skoðum nokkur dæmi í næstu grein.

[Neðanmáls]

^ gr. 10 Í lok þessarar tölugreinar og í þeirri næstu er vitnað í nokkra ritningarstaði þar sem orðin ‚elska‘, ‚náð‘, ‚trúfesti‘ og ‚miskunn‘ koma fyrir. Þau eru öll þýðing sama hebreska orðsins sem er þýtt „ástúðleg umhyggja“ í Nýheimsþýðingu Heilagrar ritningar.

Hvert er svarið?

• Hvað er gæska?

• Hvers vegna er heimurinn harður og grimmur?

• Hvernig vitum við að gæska verður allsráðandi undir stjórn Guðs?

• Hvers vegna er mikilvægt fyrir alla sem þrá að lifa í Guðsríki að sýna gæsku?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 23]

Safnaðaröldungar leggja sig fram um að sýna gæsku í samskiptum við hjörðina.

[Mynd á blaðsíðu 25]

Ástúðleg umhyggja Jehóva bregst ekki þjónum hans á erfiðum tímum.

[Myndir á blaðsíðu 26]

Í gæsku sinni gefur Jehóva öllum mönnum sólskin og regn af himni.