Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvað tákna dýrið og merki þess?

Hvað tákna dýrið og merki þess?

Hvað tákna dýrið og merki þess?

FINNST þér gaman að leysa gátur? Til þess þarftu að leita að vísbendingum sem hjálpa þér að finna lausnina. Í innblásnu orði sínu veitir Guð þær vísbendingar sem þarf til að ráða merkingu tölunnar 666, það er að segja nafn og merki dýrsins í 13. kafla Opinberunarbókarinnar.

Í þessari grein ætlum við að líta á fjórar mikilvægar vísbendingar sem sýna hvað merki dýrsins táknar. Við athugum (1) hvernig mannanöfn í Biblíunni eru stundum valin, (2) hvað dýrið er, (3) við hvað er átt þegar sagt er að 666 sé „tala manns“ og (4) merkingu tölunnar sex og hvers vegna hún er þrítekin, það er að segja 666. — Opinberunarbókin 13:18.

Merking nafna í Biblíunni

Nöfn í Biblíunni hafa oft ákveðna merkingu, sérstaklega ef Guð gefur þau. Sem dæmi má nefna að Guð breytti nafni ættföðurins Abrams í Abraham, sem þýðir „faðir margra“, vegna þess að hann átti eftir að verða faðir margra þjóða. (1. Mósebók 17:5) Guð sagði Jósef og Maríu að nefna ófætt barn hennar Jesú en það þýðir „Jehóva er hjálpræði“. (Matteus 1:21; Lúkas 1:31) Í samræmi við merkingu nafnsins gerði Jehóva okkur kleift að öðlast hjálpræði vegna lausnarfórnar og boðunarstarfs Jesú. — Jóhannes 3:16.

Nafnið 666, sem Guð gaf dýrinu, hlýtur því að tákna það sem hann álítur einkenna dýrið. Til að skilja hvað einkennir dýrið þurfum við því að sjálfsögðu að vita hvað dýrið er og hvað það hefur gert.

Hvað táknar dýrið?

Í Daníelsbók í Biblíunni er margt sem varpar ljósi á merkingu táknrænna dýra. Í 7. kafla er dregin upp ljóslifandi mynd af ‚fjórum stórum dýrum‘, það er að segja ljóni, birni, pardusdýri og ógurlegu dýri með stórar járntennur. (Daníel 7:2-7) Daníel segir að þessi dýr tákni ‚konunga‘, það er að segja stjórnvöld sem réðu yfir miklum heimsveldum hver á fætur öðru. — Daníel 7:17, 23.

Orðabók bendir á að dýrið í Opinberunarbókinni 13:1, 2 „hafi einkenni allra hinna fjögurra dýranna í sýn Daníels . . . Þetta fyrsta dýr [Opinberunarbókarinnar] táknar því sameinað afl allra stjórnvalda í heiminum sem eru andsnúin Guði.“ (The Interpreter’s Dictionary of the Bible) Opinberunarbókin 13:7 staðfestir þetta og segir um dýrið: „Því var gefið vald yfir sérhverri kynkvísl og lýð, tungu og þjóð.“ *

Hvers vegna notar Biblían dýr sem tákn fyrir stjórnir manna? Fyrir því eru að minnsta kosti tvær ástæður. Í fyrsta lagi hafa dýrslegar blóðsúthellingar einkennt stjórnvöld í aldanna rás. „Stríð eru einn af föstu þáttum mannkynssögunnar og aukin siðmenning eða lýðræði hefur ekki dregið úr þeim,“ skrifuðu sagnfræðingarnir Will og Ariel Durant. Það hefur sýnt sig að „einn maðurinn drottnar yfir öðrum honum til ógæfu“. (Prédikarinn 8:9) Önnur ástæðan er sú að „drekinn [Satan] gaf því [dýrinu] mátt sinn og hásæti sitt og vald mikið“. (Opinberunarbókin 12:9; 13:2) Stjórnir manna eru þar af leiðandi komnar frá drekanum Satan og endurspegla því dýrslegt viðmót hans. — Jóhannes 8:44; Efesusbréfið 6:12.

Þetta þýðir hins vegar ekki að hver einasti mennski stjórnandi sé verkfæri Satans. Í vissum skilningi eru stjórnir manna meira að segja „þjónn Guðs“ þar sem þær veita þjóðfélaginu stöðugleika og koma í veg fyrir óstjórn. Sumir stjórnendur hafa einnig varið grundvallarréttindi manna eins og þau að iðka sanna tilbeiðslu en það er nokkuð sem Satan vill alls ekki. (Rómverjabréfið 13:3, 4; Esrabók 7:11-27; Postulasagan 13:7) En vegna áhrifa Satans hafa hvorki menn né stofnanir manna getað komið á varanlegum friði og öryggi. * — Jóhannes 12:31.

„Tala manns“

Þriðja vísbendingin um merkingu tölunnar 666 felst í því að hún skuli vera kölluð „tala manns“. Þessi orð gætu ekki átt við einn mann þar sem það er Satan en ekki maður sem hefur vald yfir dýrinu. (Lúkas 4:5, 6; 1. Jóhannesarbréf 5:19; Opinberunarbókin 13:2, 18) Þar sem dýrið hefur ‚tölu manns‘ eða merki gefur það til kynna að það sé í eðli sínu mannlegt en ekki andlegt eða djöfullegt og sýni því ákveðin mannleg einkenni. Hvaða einkenni ætli þetta séu? Biblían svarar: „Allir [menn] hafa syndgað og skortir Guðs dýrð.“ (Rómverjabréfið 3:23) Þar sem dýrið hefur tölu manns bendir það til þess að stjórnvöld einkennist af sama ófullkomleika og syndugu eðli og mennirnir.

Sagan rennir stoðum undir þetta. „Öll menningarsamfélög sögunnar hafa fyrr eða síðar liðið undir lok,“ sagði Henry Kissinger, fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna. „Mannkynssagan segir frá tilraunum sem mistókust og væntingum sem aldrei urðu að veruleika . . . Sem sagnfræðingur verður maður því að lifa með þeirri vitneskju að harmleikir eru óumflýjanlegir.“ Heiðarleg mat hans styður þessi grundvallarsannindi Biblíunnar: „Örlög mannsins eru ekki á hans valdi, né það heldur á valdi gangandi manns að stýra skrefum sínum.“ — Jeremía 10:23.

Fyrst við höfum komist að því hvað dýrið táknar og hvernig Guð lítur á það getum við snúið okkur að síðasta hluta ráðgátunnar — tölunni sex og hvers vegna hún er þrítekin, það er að segja 666.

Hvers vegna er talan sex þrítekin?

Sumar tölur í Biblíunni hafa táknræna merkingu. Talan sjö táknar til dæmis oft það sem er fullkomið eða algert í augum Guðs. Sköpunarvika Guðs er sjö ‚dagar‘ eða löng tímabil þar sem Guð nær markmiðum sínum algerlega varðandi sköpun jarðarinnar. (1. Mósebók 1:3–2:3) „Orð“ Guðs eru eins og „sjöhreinsað gull“ og því fullkomlega hrein. (Sálmur 12:7; Orðskviðirnir 30:5, 6) Hinum holdsveika Naaman var sagt að lauga sig sjö sinnum í Jórdan en þá læknaðist hann algerlega. — 2. Konungabók 5:10, 14.

Sex er einum minna en sjö. Væri það ekki viðeigandi tákn fyrir það sem er ófullkomið eða gallað í augum Guðs? Jú, vissulega. (1. Kroníkubók 20:6, 7) Með því að þrítaka töluna sex er lögð sérstök áhersla á þennan ófullkomleika. Sú staðreynd að 666 er „tala manns“, eins og við höfum þegar séð, styður þessa hugmynd. Saga dýrsins, það að dýrið skulu hafa ‚tölu manns‘ og sjálf talan 666 bendir því greinilega allt til sömu niðurstöðu — mikils ófullkomleika í augum Jehóva.

Lýsingin á annmörkum dýrsins minnir okkur á það sem sagt var um Belsasar Babýloníukonung til forna. Jehóva sagði við hann fyrir milligöngu Daníels: „Þú ert veginn á skálum og léttvægur fundinn.“ Þessa sömu nótt var Belsasar drepinn og heimsveldi Babýloníumanna féll. (Daníel 5:27, 30) Dómur Guðs yfir pólitíska dýrinu og þeim sem hafa merki þess er einnig til marks um endalok dýrsins og stuðningsmanna þess. En í þetta skipti mun Guð ekki aðeins eyða einu stjórnmálaveldi heldur stjórnum manna í heild sinni. (Daníel 2:44; Opinberunarbókin 19:19, 20) Það er því mjög mikilvægt að gæta þess að vera ekki merktur hinu banvæna merki dýrsins.

Hvað táknar merkið?

Strax eftir að hafa nefnt töluna 666 talar Opinberunarbókin um 144.000 fylgjendur lambsins Jesú Krists sem hafa nafn hans og nafn Jehóva, föður hans, skrifað á ennum sér. Nöfnin gefa til kynna að þeir tilheyri Jehóva og syni hans sem þeir vitna stoltir um. Þeir sem hafa merki dýrsins sýna á svipaðan hátt að þeir þjóna dýrinu. Hvort sem táknræna merkið er á hægri hendinni eða enninu sýnir það að þeir styðja og tilbiðja dýrsleg stjórnmálaveldi heimsins. Þeir sem hafa merkið gefa „keisaranum“ það sem tilheyrir Guði. (Lúkas 20:25; Opinberunarbókin 13:4, 8; 14:1) Hvernig gera þeir það? Með því að heiðra og tilbiðja stjórnvöld og merki þeirra og treysta að hernaðarmáttur þeirra veiti þeim von og hjálpræði. Þeir þjóna hinum sanna Guði aðeins með vörunum ef þá nokkuð.

Biblían hvetur okkur hins vegar: „Treystið eigi tignarmennum, mönnum sem enga hjálp geta veitt. Andi þeirra líður burt, þeir verða aftur að jörðu, á þeim degi verða áform þeirra að engu.“ (Sálmur 146:3, 4) Þeir sem fara eftir þessum viturlegu ráðum verða ekki fyrir vonbrigðum þótt stjórnvöld standi ekki við gefin loforð eða vinsælir leiðtogar falli í áliti. — Orðskviðirnir 1:33.

Þetta þýðir samt ekki að sannkristnir menn séu aðgerðarlausir og geri ekki neitt til að greiða úr vandamálum mannkynsins. Þeir boða meðal almennings að Guðsríki sé eina stjórnin sem geti leyst vandamál manna. — Matteus 24:14.

Guðsríki er eina von mannkynsins

Ríki Guðs var aðalstef Jesú þegar hann prédikaði hér á jörð. (Lúkas 4:43) Í fyrirmyndarbæninni, sem stundum er kölluð faðirvorið, kenndi Jesús fylgjendum sínum að biðja þess að þetta ríki kæmi og vilji Guðs yrði hér á jörð. (Matteus 6:9, 10) Guðsríki er stjórn sem mun ríkja yfir allri jörðinni frá himnum en ekki frá einhverjum jarðneskum höfuðstöðvum. Þess vegna kallaði Jesús það „ríki himnanna“. — Matteus 11:12.

Hver væri betur til þess fallinn að vera konungur í þessu ríki en Jesús Kristur sem fórnaði lífinu fyrir væntanlega þegna sína? (Jesaja 9:6, 7; Jóhannes 3:16) Bráðlega mun þessi fullkomni stjórnandi, sem nú er voldug andavera, kasta dýrinu, konungum þess og hersveitum í „eldsdíkið, sem logar af brennisteini“ og táknar algera eyðingu. En það er ekki allt og sumt. Jesús útrýmir einnig Satan en það gæti enginn maður gert. — Opinberunarbókin 11:15; 19:16, 19-21; 20:2, 10.

Guðsríki færir öllum hlýðnum þegnum sínum frið. (Sálmur 37:11, 29; 46:9, 10) Jafnvel sársauki, sorg og dauði verða ekki framar til. Þetta eru dásamlegar framtíðarhorfur fyrir þá sem hafa gætt þess að fá ekki á sig merki dýrsins. — Opinberunarbókin 21:3, 4.

[Neðanmáls]

^ gr. 9 Nánari umfjöllun um þessi vers er að finna í 28. kafla bókarinnar Revelation — Its Grand Climax At Hand!, gefin út af Vottum Jehóva.

^ gr. 11 Þótt sannkristnir menn geri sér grein fyrir því að stjórnir manna séu oft dýrslegar eru þeir yfirvöldum undirgefnir eins og Biblían býður. (Rómverjabréfið 13:1) En þegar yfirvöld fyrirskipa þeim að brjóta gegn lögum Guðs ‚hlýða þeir Guði framar en mönnum‘. — Postulasagan 5:29.

[Rammi á blaðsíðu 5]

Vísbendingar um merkingu tölunnar 666

1. Mannanöfn í Biblíunni segja oft eitthvað um eiginleika eða líf viðkomandi, eins og nafn Abrahams, Jesú og margra annarra. Á svipaðan hátt lýsir tala dýrsins eiginleikum þess.

2. Dýrin Í Daníelsbók tákna ríki eða heimsveldi sem ríktu hvert á fætur öðru. Dýrið í Opinberunarbókinni 13:1, 2 táknar stjórnmálakerfi um alla jörð sem Satan stjórnar og hefur gefið vald.

3. Þar sem dýrið hefur tölu manns gefur það til kynna að það sé í eðli sínu mannlegt en ekki djöfullegt. Það endurspeglar því veikleika manna sem stafa af synd og ófullkomleika.

4. Talan sex er einum minni en sjö sem í Biblíunni táknar algerleika eða fullkomleika. Hún gefur því til kynna ófullkomleika í augum Guðs. Þessi ófullkomleiki er undirstrikaður í merkinu 666 þar sem talan er þrítekin.

[Myndir á blaðsíðu 6]

Stjórnir manna hafa brugðist hrapallega og því á talan 666 vel við þær.

[Rétthafi]

Vannært barn: UNITED NATIONS/Mynd: F. GRIFFING

[Myndir á blaðsíðu 7]

Jesús Kristur mun stjórna jörðinni fullkomlega.