Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Þegar vilji Guðs verður á jörðinni

Þegar vilji Guðs verður á jörðinni

Þegar vilji Guðs verður á jörðinni

ÞEGAR JESÚS kenndi lærisveinum sínum að biðja: „Verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni,“ talaði hann af eigin reynslu því að hann hafði búið á himnum hjá föðurnum. (Matteus 6:10; Jóhannes 1:18; 3:13; 8:42) Áður en Jesús varð maður hafði hann kynnst þeim tíma þegar allt sem gerðist, bæði á himni og jörð, var í samræmi við vilja Guðs. Þetta voru ánægjulegir tímar og allt var eins og það átti að vera. — Orðskviðirnir 8:27-31.

Fyrstu sköpunarverk Guðs voru andaverur, ,englar hans, voldugar hetjur er framkvæma boð hans‘. Þær voru og eru ,þjónar hans er framkvæma vilja hans‘. (Sálmur 103:20, 21) Hafði hver og ein þeirra frjálsan vilja? Já, og þegar jörðin var grundvölluð ,fögnuðu allir þessir guðssynir‘. (Jobsbók 38:7) Þeir höfðu yndi af vilja Guðs. Þeir létu það í ljós með fögnuði sínum og löguðu vilja sinn að vilja hans.

Eftir að Guð hafði grundvallað jörðina undirbjó hann hana fyrir ábúð manna og skapaði síðan fyrsta manninn og fyrstu konuna. (1. Mósebók, 1. kafli) Var einnig ástæða til að fagna núna? Hin innblásna frásögn segir: „Guð leit allt, sem hann hafði gjört, og sjá, það var harla gott,“ já, lýtalaust, fullkomið. — 1. Mósebók 1:31.

En hver var vilji Guðs með foreldra mannkyns og afkomendur þeirra? Samkvæmt 1. Mósebók 1:28 var hann líka harla góður: „Guð blessaði þau, og Guð sagði við þau: ,Verið frjósöm, margfaldist og uppfyllið jörðina og gjörið ykkur hana undirgefna og drottnið yfir fiskum sjávarins og yfir fuglum loftsins og yfir öllum dýrum, sem hrærast á jörðinni.‘“ Til að inna þetta ánægjulega verkefni af hendi þyrftu foreldrar mannkyns og afkomendur þeirra að lifa að eilífu. Ekkert benti til hörmunga, óréttlætis, sorgar eða dauða.

Þá var vilji Guðs gerður bæði á himni og jörð og það myndi hafa mikla ánægju í för með sér að gera vilja hans. Hvað fór úrskeiðis?

Vilja Guðs var óvænt ögrað. Það var vissulega hægt að svara ögruninni en það myndi kosta langvinnar þjáningar og sorgir og mikla óvissu um það hver vilji Guðs með mannkynið væri. Við höfum öll verið fórnarlömb þessa. Hver var þessi ögrun?

Vilji Guðs á uppreisnartíma

Einn af andasonum Guðs sá möguleika á að skara eld að sinni köku með því að hindra að vilji Guðs með manninn næði fram að ganga. Því meira sem þessi andasonur hugleiddi málið þeim mun ákjósanlegra virtist það vera og líklegra að það myndi takast. (Jakobsbréfið 1:14, 15) Ef til vill hefur hann hugsað sem svo að ef hann gæti fengið fyrstu hjónin til að hlusta á sig frekar en Guð myndi Guð neyðast til að umbera samkeppni um æðstu völd. Hann hefur kannski gert ráð fyrir að Guð myndi ekki taka þau af lífi þar sem það hefði merkt að honum hefði mistekist það sem hann ætlaði sér. Jehóva Guð myndi þurfa að breyta fyrirætlunum sínum og viðurkenna stöðu þessa andasonar sem mennirnir myndu nú hlýða. Síðar var þessi uppreisnarseggur réttilega kallaður Satan sem merkir ,andstæðingur‘. — Jobsbók 1:6.

Satan lét undan löngun sinni, kom að máli við konuna og hvatti hana til að hunsa vilja Guðs og verða siðferðilega óháð. Hann sagði: „Vissulega munuð þið ekki deyja! . . . Þið munuð verða eins og Guð og vita skyn góðs og ills.“ (1. Mósebók 3:1-5) Konunni virtist þetta veita sér frelsi og trúði að hún myndi bæta hlutskipti sitt með því. Síðar fékk hún eiginmann sinn í lið með sér. — 1. Mósebók 3:6.

Þetta var ekki vilji Guðs með hjónin. Þetta var vilji sjálfra þeirra. Og afleiðingarnar yrðu hörmulegar. Guð hafði þegar sagt þeim að þau myndu deyja ef þau tækju þessa stefnu. (1. Mósebók 3:3) Þau voru ekki sköpuð til að lifa farsællega án Guðs. (Jeremía 10:23) Þar að auki yrðu þau ófullkomin og afkvæmi þeirra myndu fá ófullkomleika og dauða í arf. (Rómverjabréfið 5:12) Satan fengi engu um það ráðið.

Breytti þessi framvinda fyrirætlunum eða vilja Guðs með mannkynið og jörðina um alla framtíð? Alls ekki. (Jesaja 55:9-11) En upp komu spurningar sem svara þurfti: Getur mannkynið ,verið eins og Guð og vitað skyn góðs og ills‘, eins og Satan hafði haldið fram? Getum við með öðrum orðum sjálf fundið út hvað sé rétt og rangt, gagnlegt og skaðlegt á öllum sviðum lífsins ef okkur er gefinn nægur tími? Eru stjórnarhættir Guðs bestir þannig að hann verðskuldi algera hlýðni? Er vilji hans þess verður að hlýða honum? Hvernig svarar þú?

Það var aðeins ein leið til að svara þessum spurningum frammi fyrir öllum vitibornum sköpunarverum: Að leyfa þeim sem vildu vera sjálfstæðir að reyna að spjara sig sjálfir. Spurningunum hefði ekki verið svarað með því einu að deyða þá. Að leyfa mannkyninu að ráða sér sjálft nægilega lengi myndi útkljá málið þar sem afleiðingarnar yrðu augljósar. Guð gaf til kynna að hann myndi taka þannig á málum þegar hann sagði konunni að hún myndi eignast börn og væri það upphaf að mannkyni. Það er þessu fyrir að þakka að við erum til núna. — 1. Mósebók 3:16, 20.

Þetta merkti hins vegar ekki að Guð myndi leyfa mönnunum og uppreisnargjörnum andasyni sínum að gera algerlega eins og þeim sýndist. Guð hvorki afsalaði sér alvaldi sínu né hvarf frá fyrirætlunum sínum. (Sálmur 83:19) Hann gaf þetta skýrt til kynna með því að segja fyrir að forsprakka uppreisnarinnar yrði tortímt og allar afleiðingar hennar yrðu að engu gerðar. (1. Mósebók 3:15) Allt frá byrjun hafði mannkynið því loforð um betri tíma.

Í millitíðinni höfðu foreldrar mannkyns slitið tengsl sín og afkomenda sinna við stjórn Guðs. Ef Guð hefði átt að koma í veg fyrir allar slæmar afleiðingar ákvarðana þeirra hefði hann þurft að neyða vilja sinn upp á þau öllum stundum. Það væri það sama og að láta alls ekki reyna á sjálfstæðið.

Auðvitað gætu menn valið að lúta stjórn Guðs. Þeir gætu lært hver vilji hans er með mennina á þessu tímabili og lagað sig eftir honum að því marki sem þeim væri unnt. (Sálmur 143:10) Þeir myndu samt ekki vera lausir við vandamál meðan deilan um algert sjálfstæði mannkynsins væri enn óleyst.

Áhrifin af frjálsu vali mannsins komu snemma í ljós. Kain, fyrsta barnið í mannkynssögunni, drap Abel, bróður sinn, „af því að verk hans [Kains] voru vond, en verk bróður hans réttlát“. (1. Jóhannesarbréf 3:12) Þetta var ekki vilji Guðs enda hafði hann aðvarað Kain og síðar refsaði hann honum. (1. Mósebók 4:3-12) Kain hafði valið sjálfstæðið sem Satan bauð og því ,heyrði hann hinum vonda til‘. Aðrir fóru að dæmi hans.

Eftir að mannkynið hafði verið til í yfir 1500 ár varð jörðin „spillt í augsýn Guðs, og jörðin fylltist glæpaverkum“. (1. Mósebók 6:11) Róttækra aðgerða var þörf til að forða jörðinni frá eyðileggingu. Guð tók á málunum með því að láta flóð koma yfir heiminn og vernda einu réttlátu fjölskylduna sem eftir var — Nóa, konu hans, syni og konur þeirra. (1. Mósebók 7:1) Við erum öll afkomendur þeirra.

Alla tíð síðan hefur Guð leiðbeint þeim sem langar í einlægni til að kynnast vilja hans. Hann blés trúum mönnum í brjóst að skrá niður leiðbeiningar sínar þannig að hver sem er gæti leitað leiðsagnar hjá honum. Þessar leiðbeiningar eru skráðar í Biblíunni. (2. Tímóteusarbréf 3:16) Í kærleika sínum leyfði hann trúföstum mönnum að eiga samband við sig og verða jafnvel vinir sínir. (Jesaja 41:8) Hann veitti þeim styrk til að þola þær erfiðu raunir sem gengið hafa yfir mannkynið á þeim árþúsundum sem það hefur verið óháð honum. (Sálmur 46:2; Filippíbréfið 4:13) Við getum verið afar þakklát fyrir allt þetta.

„Verði þinn vilji“ — fullkomlega

Það sem Guð hefur gert hingað til er aðeins hluti af því sem hann ætlar sér að gera fyrir mannkynið. Kristni postulinn Pétur skrifaði: „Eftir fyrirheiti hans væntum vér nýs himins og nýrrar jarðar, þar sem réttlæti býr.“ (2. Pétursbréf 3:13) Þetta táknmál vísar til nýrrar stjórnar yfir mannkyni og nýs mannfélags undir þeirri stjórn.

Daníel spámaður var ómyrkur í máli er hann skrifaði: „Á dögum þessara konunga mun Guð himnanna hefja ríki, sem aldrei skal á grunn ganga. . . . Það mun knosa og að engu gjöra öll þessi ríki, en sjálft mun það standa að eilífu.“ (Daníel 2:44) Þessi spádómur segir fyrir endalok hins ómögulega heimskerfis sem nú er og að í staðinn komi ríki eða stjórn Guðs. Þetta eru fagnaðartíðindi. Ágreiningurinn og eigingirnin, sem fylla heiminn ofbeldi og hafa stórspillt jörðinni, munu heyra fortíðinni til.

Hvenær gerist þetta? Lærisveinar Jesú spurðu: „Hvenær verður þetta? Og hvert mun tákn komu þinnar og endaloka veraldar?“ Jesús svaraði þeim meðal annars: „Þetta fagnaðarerindi um ríkið verður prédikað um alla heimsbyggðina öllum þjóðum til vitnisburðar. Og þá mun endirinn koma.“ — Matteus 24:3, 14.

Það er á allra vitorði að þetta boðunarstarf er núna framkvæmt um heim allan. Að öllum líkindum hefurðu tekið eftir því í hverfinu þínu. Charles S. Braden, prófessor, segir í bók sinni These Also Believe: „Vottar Jehóva hafa bókstaflega borið vitni um alla jörðina. . . . Enginn trúarhópur í heiminum hefur sýnt meiri kostgæfni og þrautseigju við útbreiðslu fagnaðarerindisins um Guðsríki en vottar Jehóva.“ Vottarnir boða fagnaðarerindið ötullega í meira en 230 löndum og á næstum 400 tungumálum. Þetta verk, sem Jesús sagði fyrir, hefur aldrei fyrr verið unnið í slíkum mæli um allan heim. Það er ein af mörgum sönnunum fyrir því að þetta ríki muni bráðlega koma í stað mennskra stjórna.

Ríkið, sem Jesús sagði að yrði boðað, er einmitt það sem hann kenndi okkur að biðja um í fyrirmyndarbæn sinni: „Til komi þitt ríki, verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni.“ (Matteus 6:10) Guð notar þetta ríki til að hrinda fyrirætlunum sínum með mannkynið og jörðina í framkvæmd.

Hvaða þýðingu hefur það? Látum Opinberunarbókina 21:3, 4 svara því: „Ég heyrði raust mikla frá hásætinu, er sagði: ,Sjá, tjaldbúð Guðs er meðal mannanna og hann mun búa hjá þeim, og þeir munu vera fólk hans og Guð sjálfur mun vera hjá þeim, Guð þeirra. Og hann mun þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til. Hið fyrra er farið.‘“ Þá verður vilji Guðs svo sannarlega gerður fullkomlega, bæði á himni og jörð. * Langar þig ekki til að upplifa það?

[Neðanmáls]

^ gr. 26 Ef þig langar til að læra meira um Guðsríki hafðu þá vinsamlegast samband við votta Jehóva í þínu byggðarlagi eða notaðu viðeigandi heimilisfang á bls. 2.

[Mynd á blaðsíðu 5]

Það hafði hörmulegar afleiðingar að vera óháð vilja Guðs.