Er vilji Guðs gerður?
Er vilji Guðs gerður?
„Verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni.“ — Matteus 6:10.
JULIO og Christina horfðu með hryllingi á fjögur af börnum sínum brenna til bana. Þau höfðu lagt bílnum þegar ölvaður ökumaður ók á hann. Á augabragði varð bíllinn eitt eldhaf. Marcosi, sem var fimmta barnið, var bjargað úr eldinum en hann brenndist svo illa að hann var afmyndaður til frambúðar. Hann var níu ára. Faðir hans var harmi sleginn. Hann huggaði sjálfan sig og fjölskylduna með orðunum: „Þetta er Guðs vilji. Við verðum að skilja það í blíðu og stríðu.“
Margir bregðast þannig við þegar þeir verða fyrir öðrum eins áföllum. „Ef Guð er almáttugur og er annt um okkur,“ hugsa þeir með sér, „hlýtur það sem hefur gerst að vera okkur til góðs á einhvern hátt, þó að það sé ofvaxið skilningi okkar.“ Ert þú sammála?
Það viðhorf að allt sem gerist, hvort sem það er gott eða illt, sé vilji Guðs er oft byggt á orðum Jesú í faðirvorinu svokallaða sem vitnað er í að ofan. Er ekki vilji Guðs gerður á himni? Þegar við biðjum ,verði þinn vilji á jörðu‘ erum við þá ekki að fallast á að það sem gerist á jörðinni sé vilji Guðs?
Margir eru á báðum áttum hvað þetta viðhorf varðar. Að þeirra mati gefur það þá mynd af Guði að hann sé ónæmur fyrir tilfinningum mannanna. „Hvernig getur ástríkur Guð viljað að hörmungar hendi saklaust fólk?“ spyrja þeir. „Ef það er hægt að draga einhvern lærdóm af þessu, hver í ósköpunum getur hann þá verið?“ Kannski er þér þannig innanbrjósts.
Lærisveinninn Jakob, hálfbróðir Jesú, skrifaði í þessu sambandi: „Enginn má segja, er hann verður fyrir freistingu: ,Guð freistar mín.‘ Guð getur eigi orðið fyrir freistingu af hinu illa, enda freistar hann sjálfur einskis manns.“ (Jakobsbréfið 1:13) Guð er ekki uppspretta hins illa. Það er því augljóst að það er ekki allt vilji Guðs sem gerist á jörðinni. Í Biblíunni er líka talað um vilja manna, vilja þjóðanna og jafnvel vilja djöfulsins. (Jóhannes 1:13; 2. Tímóteusarbréf 2:26; 1. Pétursbréf 4:3) Ert þú sammála því að það sem henti fjölskyldu Julios og Christinar hafi ekki getað verið vilji ástríks föður á himnum?
Hvað meinti Jesús þá þegar hann kenndi lærisveinum sínum að biðja: „Verði þinn vilji“? Var þetta aðeins beiðni um að Guð léti til sín taka í einstökum tilfellum eða var Jesús að kenna okkur að biðja um eitthvað stærra og betra, um breytingu sem er öllum til hagsbóta? Skoðum nánar hvað Biblían hefur að segja.
[Mynd rétthafi á blaðsíðu 3]
Bíll: Dominique Faget-STF/AFP/Getty Images. Barn: FAO photo/B. Imevbore.