Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Sælir eru þeir sem segja frá dýrð Guðs

Sælir eru þeir sem segja frá dýrð Guðs

Sælir eru þeir sem segja frá dýrð Guðs

„Allar þjóðir . . . munu koma og falla fram fyrir þér, Drottinn, og tigna nafn þitt.“ — SÁLMUR 86:9.

1. Hvers vegna getum við tignað Guð enn meir en hið lífvana sköpunarverk?

JEHÓVA er þess verður að allt sköpunarverk hans lofi hann. Hið lífvana sköpunarverk segir frá dýrð hans þöglum rómi en við mennirnir getum rökhugsað og skilið hlutina, og við getum haft mætur á honum og tilbeðið hann. Sálmaritarinn er því að tala til okkar þegar hann segir: „Fagnið fyrir Guði, gjörvallt jarðríki, syngið um hans dýrlega nafn, gjörið lofstír hans vegsamlegan.“ — Sálmur 66:1, 2.

2. Hverjir hafa hlýtt boðinu um að tigna nafn Guðs og hvers vegna?

2 Meiri hluti mannkyns neitar að viðurkenna Guð og segja frá dýrð hans. Vottar hans, sem eru yfir sex milljónir í 235 löndum, sýna hins vegar að þeir sjá ‚ósýnilegt eðli hans‘ af verkum hans, og láta í ljós að þeir hafa ‚heyrt‘ hljóðan vitnisburð sköpunarverksins. (Rómverjabréfið 1:20; Sálmur 19:3, 4) Þeir hafa líka kynnst Jehóva af Biblíunni og lært að elska hann. Í Sálmi 86:9, 10 segir: „Allar þjóðir, er þú hefir skapað, munu koma og falla fram fyrir þér, Drottinn, og tigna nafn þitt. Því að þú ert mikill og gjörir furðuverk, þú einn, ó Guð!“

3. Hvernig þjónar ‚múgurinn mikli‘ Guði „dag og nótt“?

3 Opinberunarbókin 7:9, 15 segir sömuleiðis frá ‚miklum múgi‘ tilbiðjenda Guðs sem „þjóna honum dag og nótt í musteri hans“. Það er ekki svo að hann heimti bókstaflega að þjónar hans lofi hann linnulaust heldur er ástæðan sú að þeir eru starfandi um allan heim. Þegar nótt er öðrum megin á hnettinum eru þjónar Guðs önnum kafnir að vitna um hann hinum megin á hnettinum. Það má því með sanni segja að sólin setjist aldrei hjá þeim sem segja frá dýrð Jehóva. Innan skamms mun „allt sem andardrátt hefir“ hefja upp raustina og lofa hann. (Sálmur 150:6) En hvað getum við gert til að tigna hann þangað til? Hvað gæti reynst okkur þrándur í götu? Og hvaða blessun bíður þeirra sem segja frá dýrð Guðs? Við skulum leita svars í frásögu Biblíunnar af ættkvísl Gaðs í Ísrael.

Erfitt verkefni forðum daga

4. Hvað þurftu Gaðítar að takast á við?

4 Áður en Ísraelsmenn héldu inn í fyrirheitna landið fór ættkvísl Gaðs fram á að mega setjast að austan Jórdanar en landið hentaði vel til nautgriparæktar. (4. Mósebók 32:1-5) Það fylgdu því þó ýmsir erfiðleikar að búa þar. Jórdandalurinn veitti ættkvíslunum vestan við hann nokkra vernd því að hann myndaði eins konar náttúrlega vörn gegn innrásum. (Jósúabók 3:13-17) En um löndin austan Jórdanar segir í bók um staðhætti og sögu landsins: „[Þau] eru öll flöt og þar eru næstum engir tálmar af náttúrunnar hendi á hinni miklu arabísku hásléttu. Þau hafa því um allar aldir verið berskjalda fyrir innrásum soltinna hirðingja sem hafa, sumir hverjir, streymt þangað árlega með búfé til beitar.“ — George Adam Smith. The Historical Geography of the Holy Land.

5. Hvernig hvatti Jakob afkomendur Gaðs til að bregðast við árásum?

5 Hvernig ætli Gaðítum hafi vegnað undir þessu stöðuga álagi? Öldum áður hafði Jakob, forfaðir þeirra, spáð á dánarbeðinu: „Gað — ræningjaflokkur fer að honum, en hann rekur þá á flótta.“ (1. Mósebók 49:19) Við fyrstu sýn virðast þetta ekki hafa verið nein gleðitíðindi en í reynd voru þetta fyrirmæli til Gaðíta um að verja hendur sínar. Jakob fullvissaði þá um að ef þeir gerðu það myndu árásarmennirnir hörfa sneyptir og Gaðítar reka flóttann.

Baráttan sem við eigum í

6, 7. Að hvaða leyti eru kristnir menn í svipaðri aðstöðu núna og Gaðítar forðum daga?

6 Kristnir menn þurfa að bera ýmsar byrðar og þola álag frá heimi Satans, líkt og Gaðítar þurftu að gera. Það gerast engin kraftaverk þannig að við komumst undan því. (Jobsbók 1:10-12) Mörg okkar búa við það álag sem fylgir því að sækja skóla, vinna fyrir sér og ala upp börn, og ekki má heldur gleyma því álagi sem kemur innan frá, frá sjálfum okkur. Sumir eiga við alvarlega fötlun eða veikindi að stríða sem er þeim eins og ‚fleinn í holdinu‘. (2. Korintubréf 12:7-10) Sumir eru þjakaðir af neikvæðri sjálfsmynd. Og „vondu dagarnir“ í ellinni geta hindrað suma í að þjóna Jehóva af sama krafti og áður. — Prédikarinn 12:1.

7 Páll postuli minnir einnig á að við eigum í baráttu „við andaverur vonskunnar í himingeimnum“. (Efesusbréfið 6:12) ‚Andi heimsins‘ umkringir okkur alla daga, andi uppreisnar og siðspillingar sem Satan og illir andar hans ýta undir sí og æ. (1. Korintubréf 2:12; Efesusbréfið 2:2, 3) Við erum kannski mædd út af siðlausum orðum og verkum fólks allt í kringum okkur, líkt og hinn guðhræddi Lot forðum daga. (2. Pétursbréf 2:7) Auk þess sætum við beinum árásum Satans. Hann heyr stríð við leifar hinna andasmurðu sem „varðveita boð Guðs og hafa vitnisburð Jesú“. (Opinberunarbókin 12:17) ‚Aðrir sauðir‘ Jesú finna líka fyrir árásum Satans sem birtast í bönnum og ofsóknum. — Jóhannes 10:16.

Að gefast upp eða berjast?

8. Hvernig ættum við að bregðast við árásum Satans og hvers vegna?

8 Hvað ættum við að gera þegar Satan ræðst á okkur? Við þurfum að vera andlega sterk og berjast á móti honum í samræmi við leiðbeiningar Guðs, líkt og Gaðítar gerðu. Því miður hafa sumir látið undan álagi lífsins og tekið að vanrækja andlegar skyldur sínar. (Matteus 13:20-22) Aðspurður hvers vegna samkomur væru illa sóttar í söfnuði hans svaraði vottur nokkur: „Bræðurnir eru hreinlega farnir að þreytast. Álagið er svo mikið.“ Vissulega hefur fólk margar ástæður til að vera þreytt og það er hægur vandi að líta á tilbeiðsluna á Guði sem viðbótarálag og íþyngjandi skyldukvöð. En er það rétt eða heilbrigt sjónarmið?

9. Hvers vegna er það hvíld að taka á sig ok Krists?

9 Jesús sagði samtíðarfólki sínu sem var líka að bugast undan álagi lífsins: „Komið til mín, allir þér sem erfiði hafið og þungar byrðar, og ég mun veita yður hvíld.“ Gaf Jesús í skyn að hvíldin væri fólgin í því að hægja á sér í þjónustu Guðs? Nei, hann sagði: „Takið á yður mitt ok og lærið af mér, því að ég er hógvær og af hjarta lítillátur, og þá munuð þér finna hvíld sálum yðar.“ Ok er klafi eða slá úr tré eða málmi sem auðveldar manni eða skepnu að bera þunga byrði. Hví skyldi nokkur maður vilja taka á sig slíkt ok? Eru ekki byrðarnar nógu þungar fyrir? Jú, en það má líka þýða gríska textann: „Gangið undir ok mitt með mér.“ Hugsaðu þér: Jesús býðst til að hjálpa okkur að bera byrðina! Við þurfum ekki að bera hana ein. — Matteus 9:36; 11:28, 29; 2. Korintubréf 4:7.

10. Hvaða áhrif hefur það þegar við leggjum okkur fram um að segja frá dýrð Guðs?

10 Við erum að berjast gegn Satan þegar við tökum á okkur það ok að vera lærisveinar. Jakobsbréfið 4:7 lofar að Satan flýi frá okkur ef við stöndum gegn honum. Þetta merkir ekki að það sé auðvelt því að það kostar töluvert erfiði að þjóna Guði. (Lúkas 13:24) En Biblían lofar í Sálmi 126:5 að ‚þeir sem sái með tárum muni uppskera með gleðisöng‘. Við þjónum ekki vanþakklátum Guði heldur Guði sem ‚umbunar þeim er hans leita‘, og hann blessar þá sem segja frá dýrð hans. — Hebreabréfið 11:6.

Vegsömum Guð sem boðberar ríkis hans

11. Hvernig veitir boðunarstarfið vörn gegn árásum Satans?

11 „Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum,“ sagði Jesús. Boðunarstarfið er helsta leiðin til að færa Guði „lofgjörðarfórn“. (Matteus 28:19; Hebreabréfið 13:15) Að vera „skóaðir á fótunum með fúsleik til að flytja fagnaðarboðskap friðarins“ er ómissandi hluti af „alvæpni Guðs“ sem veitir okkur vörn gegn árásum Satans. (Efesusbréfið 6:11-15) Við nærum trúna með því að lofa Guð í boðunarstarfinu. (2. Korintubréf 4:13) Það hjálpar okkur að bægja neikvæðum hugsunum frá okkur. (Filippíbréfið 4:8) Auk þess býður boðunarstarfið upp á uppbyggilega samveru með trúsystkinum.

12, 13. Hvernig getur regluleg þátttaka í boðunarstarfinu verið fjölskyldum til góðs? Sýndu fram á það með dæmi.

12 Boðunarstarfið getur líka verið heilnæmt, sameiginlegt fjölskylduverkefni. Börn og unglingar þurfa auðvitað að fá hóflega afþreyingu, en það þarf ekki að vera þjakandi byrði fyrir fjölskylduna að vera saman í boðunarstarfinu. Foreldrarnir geta gert það ánægjulegra fyrir börnin með því að kenna þeim árangursríkar aðferðir til að nota í boðunarstarfinu. Hafa ekki börn yfirleitt gaman af því sem þau eru góð í? Foreldrarnir geta hjálpað þeim að hafa ánægju af boðunarstarfinu með því að forðast öfgar og krefjast ekki meira af krökkunum en þeir ráða við. — 1. Mósebók 33:13, 14.

13 Það styrkir einnig fjölskylduböndin að lofa Guð í sameiningu. Systir nokkur sat ein eftir með fimm börn á framfæri þegar vantrúaður eiginmaður hennar fór frá henni. Hún stóð frammi fyrir því að þurfa að fara út á vinnumarkaðinn til að sjá fyrir sér og börnunum. Var hún svo úrvinda að hún vanrækti andlegt uppeldi þeirra? „Ég var dugleg að lesa í Biblíunni og biblíunámsritum og reyndi að fara eftir því sem ég lærði,“ segir hún. „Ég tók börnin reglulega með mér á samkomur og í boðunarstarfið. Þau eru nú skírð, öll fimm.“ Heilshugar þátttaka í boðunarstarfinu getur líka hjálpað þér að ala börnin upp „með aga og umvöndun Drottins“. — Efesusbréfið 6:4.

14. (a) Hvernig geta börn og unglingar sagt frá dýrð Guðs í skólanum? (b) Hvað getur hjálpað börnum og unglingum að ‚fyrirverða sig ekki fyrir fagnaðarerindið‘?

14 Þið börn og unglingar, segið þið frá dýrð Guðs með því að vitna í skólanum ef það má lögum samkvæmt, eða veigrið þið ykkur við því sökum ótta við menn? (Orðskviðirnir 29:25) Þrettán ára stúlka á Púertóríkó skrifar: „Ég hef aldrei skammast mín fyrir að prédika í skólanum vegna þess að ég veit að þetta er sannleikurinn. Ég rétti alltaf upp höndina í bekknum og segi frá því sem ég hef lært í Biblíunni. Ef ég er í eyðu fer ég á bókasafnið og les í bókinni Spurningar unga fólksins.“ * Hefur Jehóva blessað viðleitni hennar? „Stundum spyrja bekkjarfélagarnir spurninga og biðja jafnvel um eintak af bókinni,“ segir hún. Ef þú hefur veigrað þér við að segja frá trú þinni í skólanum þarftu kannski að kynnast af eigin raun „hver sé vilji Guðs, hið góða, fagra og fullkomna“, með því að leggja þig vel fram við einkanám í Biblíunni. (Rómverjabréfið 12:2) Ef þú ert sannfærður um að það sé sannleikurinn sem þú hefur lært ættirðu aldrei að ‚fyrirverða þig fyrir fagnaðarerindið‘. — Rómverjabréfið 1:16.

„Víðar dyr“ til verka

15, 16. Inn um hvaða ‚víðu og verkmiklu dyr‘ hafa sumir gengið og hvað hafa þeir uppskorið fyrir vikið?

15 Páll postuli skrifaði að sér hefðu opnast „víðar dyr og verkmiklar“. (1. Korintubréf 16:9) Standa þér hugsanlega opnar dyr til að gera meira í boðunarstarfinu? Reglulegir brautryðjendur nota 70 klukkustundir til boðunarstarfs í mánuði og aðstoðarbrautryðjendur 50. Brautryðjendur eru eðlilega mikils metnir af trúsystkinum sínum fyrir dygga þjónustu sína. En þeir telja sig ekki yfir trúsystkini sín hafna þó að þeir noti meiri tíma til boðunarstarfsins en þau heldur hugsa eins og Jesús hvatti til: „Ónýtir þjónar erum vér, vér höfum gjört það eitt, sem vér vorum skyldir að gjöra.“ — Lúkas 17:10.

16 Brautryðjandastarf útheimtir sjálfsaga, fórnfýsi og góða skipulagningu. En umbunin er slík að það er vel þess virði. „Það er mikil blessun að geta farið rétt með sannleiksorð Guðs,“ segir ungur brautryðjandi sem heitir Tamika. „Maður notar Biblíuna mikið í brautryðjandastarfinu. Þegar ég fer hús úr húsi núna koma upp í hugann ritningarstaðir sem höfða til húsráðenda.“ (2. Tímóteusarbréf 2:15) Mica, sem er brautryðjandi, segir: „Það er ótrúleg blessun að sjá hvaða áhrif sannleikurinn hefur á líf fólks.“ Matthew, sem er ungur vottur, minnist einnig á gleðina sem fylgi því að „sjá aðra manneskju taka við sannleikanum. Þetta er óviðjafnanleg gleði.“

17. Hvernig komst ung systir yfir neikvæðni gagnvart brautryðjandastarfinu?

17 Standa þér hugsanlega opnar dyr til að gerast brautryðjandi? Þig langar kannski til þess en finnst þú ekki hafa hæfileika til. „Ég var neikvæð gagnvart brautryðjandastarfinu,“ viðurkennir ung systir sem heitir Kenyatte. „Mér fannst ég ekki hæf til þess. Ég kunni ekki að undirbúa inngangsorð eða rökræða með hjálp Biblíunnar.“ Öldungarnir báðu þroskaða brautryðjandasystur að starfa með henni. „Það var gaman að starfa með henni,“ segir Kenyatte. „Mig fór að langa til að gerast brautryðjandi.“ Ef til vill langar þig líka til að gerast brautryðjandi ef þú færð svolitla hvatningu og kennslu.

18. Hvaða blessun er hægt að hljóta í trúboðsstarfi?

18 Brautryðjandastarf getur opnað dyr að öðrum þjónustuverkefnum. Einstaka hjón gætu til dæmis átt kost á sérstakri þjálfun til trúboðsstarfa erlendis. Trúboðar þurfa að laga sig að nýju landi, ef til vill nýrri menningu og öðrum mat en þeir eru vanir og læra nýtt tungumál. En það er smáræði í samanburði við blessunina sem fylgir trúboðsstarfinu. Mildred á að baki langt trúboðsstarf í Mexíkó. „Ég hef aldrei séð eftir því að gerast trúboði,“ segir hún. „Mig langaði til þess frá því að ég var lítil.“ Hvaða umbun hefur hún hlotið? „Heima var erfitt að hefja ný biblíunámskeið. Hérna hafa allt að fjórir biblíunemendur mínir byrjað samtímis í boðunarstarfinu.“

19, 20. Hvernig hefur Betelstarf, alþjóðastarf og Þjónustuþjálfunarskólinn verið mörgum til blessunar?

19 Það er líka gefandi og auðgandi að starfa á deildarskrifstofum Votta Jehóva. Sven, sem er ungur bróðir, segir um starf sitt á Betel í Þýskalandi: „Mér finnst það sem ég geri hafa varanlegt gildi. Ég hefði getað notað hæfileika mína í heiminum en það hefði verið eins og að leggja peninga inn í banka sem er að verða gjaldþrota.“ Víst þarf að færa fórnir til að starfa sem ólaunaður sjálfboðaliði. Sven segir hins vegar: „Þegar ég kem heim veit ég að allt sem ég vann yfir daginn vann ég fyrir Jehóva, og það er frábær tilfinning.“

20 Einstaka bræður hafa getað þjónað á alþjóðavettvangi við að byggja deildarskrifstofur annars staðar í heiminum. Hjón nokkur skrifuðu eftir að hafa þjónað á átta stöðum: „Bræðurnir hérna eru frábærir. Það verður erfitt að kveðja — í áttunda sinn. En þetta hefur verið stórkostleg lífsreynsla!“ Þá er Þjónustuþjálfunarskólinn ónefndur en í honum eiga einhleypir bræður, sem uppfylla hæfniskröfurnar, kost á kennslu meðal annars í umsjónar- og safnaðarstörfum. Nemandi skrifaði: „Mig vantar orð til að þakka fyrir þennan frábæra skóla. Hvaða önnur samtök myndu leggja annað eins á sig til að kenna fólki?“

21. Á hvað reynir hjá öllum kristnum mönnum í þjónustunni við Guð?

21 Já, það standa margar dyr opnar. Auðvitað eru fæst okkar í aðstöðu til að þjóna erlendis eða á Betel. Jesús benti á að kristnir menn myndu bera mismikinn „ávöxt“ þar sem aðstæður fólks eru ólíkar. (Matteus 13:23) Það reynir því á okkur að nýta sem best þau tækifæri sem við höfum — að gera eins mikið í þjónustu Jehóva og aðstæður leyfa. Þegar við gerum það tignum við Jehóva og við getum treyst að hann hefur velþóknun á okkur. Ethel er öldruð systir sem býr á hjúkrunarheimili. Hún vitnar reglulega fyrir öðrum vistmönnum og vitnar einnig í síma. Hún þjónar Jehóva af allri sálu þrátt fyrir takmarkanir sínar. — Matteus 22:37.

22. (a) Á hvaða aðra vegu getum við verið Jehóva til lofs? (b) Hvaða dýrðartími er fram undan?

22 Við skulum þó hafa hugfast að boðunarstarfið er aðeins ein af þeim leiðum sem við höfum til að vera Jehóva til lofs. Við gleðjum hjarta hans líka með góðri breytni og snyrtimennsku á vinnustað, í skólanum og á heimilinu. (Orðskviðirnir 27:11) Orðskviðirnir 28:20 lofa að ‚áreiðanlegur maður blessist ríkulega‘. Við ættum þess vegna að ‚sá ríflega‘ í þjónustunni við Guð, vitandi að við uppskerum ríkulega í samræmi við það. (2. Korintubréf 9:6) Þá fáum við að lifa þá dýrðartíma þegar „allt sem andardrátt hefir“ lofar Jehóva eins og hann verðskuldar sannarlega. — Sálmur 150:6.

[Neðanmáls]

^ gr. 14 Bókin Spurningar unga fólksins — svör sem duga er gefin út af Vottum Jehóva.

Manstu?

• Hvernig þjónar fólk Jehóva honum „dag og nótt“?

• Hvaða erfiða verkefni blasti við Gaðítum og hvaða lærdóm getum við dregið af því?

• Hvernig veitir boðunarstarfið vernd gegn árásum Satans?

• Hvaða „víðar dyr“ hafa sumir gengið inn um og hvaða blessun hafa þeir hlotið?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 15]

Kristnir menn verða að verjast árásum Satans líkt og Gaðítar börðust gegn ræningjaflokkum.

[Mynd á blaðsíðu 16]

Við eigum uppbyggi- legan félagsskap í boðunarstarfinu.

[Myndir á blaðsíðu 17]

Brautryðjandastarf getur opnað dyr að öðrum þjónustuverkefnum svo sem:

1. Alþjóðlegu sjálfboðastarfi.

2. Betelþjónustu.

3. Trúboðsstarfi.