Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Verum hugrökk eins og Jeremía

Verum hugrökk eins og Jeremía

Verum hugrökk eins og Jeremía

„Vona á Drottin, ver öruggur og hugrakkur, já, vona á Drottin.“ — SÁLMUR 27:14.

1. Hvaða ríkulegu blessana njóta vottar Jehóva?

VOTTAR JEHÓVA búa í andlegri paradís. (Jesaja 11:6-9) Í þessum hrjáða heimi njóta þeir þess að vera í hlýju andlegu umhverfi með trúsystkinum sínum sem eiga frið við Jehóva Guð og hvert annað. (Sálmur 29:11; Jesaja 54:13) Þessi andlega paradís breiðist stöðugt út. Allir sem „gjöra vilja Guðs af heilum huga“ stuðla að vexti hennar. (Efesusbréfið 6:6) Hvernig gera þeir það? Með því að fara eftir meginreglum Biblíunnar og kenna öðrum að gera slíkt hið sama. Þannig bjóða þeir öðrum að njóta ríkulegra blessana þessarar paradísar. — Matteus 28:19, 20; Jóhannes 15:8.

2, 3. Fyrir hvaða prófraunum verða sannkristnir menn?

2 En þó að við búum í andlegri paradís verðum við samt fyrir prófraunum. Við erum enn um sinn ófullkomin og verðum veik, finnum fyrir áhrifum ellinnar og deyjum. Auk þess eru spádómarnir um hina ,síðustu daga‘ að rætast. (2. Tímóteusarbréf 3:1) Stríð, glæpir, sjúkdómar, hungursneyðir og önnur alvarleg vandamál þjaka mannkynið og vottar Jehóva eru ekki ónæmir fyrir því. — Markús 13:3-10; Lúkas 21:10, 11.

3 Þar að auki blása kaldir andófsvindar fyrir utan andlegu paradísina. Jesús aðvaraði fylgjendur sína: „Heimurinn hatar yður af því að þér eruð ekki af heiminum, heldur hef ég útvalið yður úr heiminum. Minnist orðanna, sem ég sagði við yður: Þjónn er ekki meiri en herra hans. Hafi þeir ofsótt mig, þá munu þeir líka ofsækja yður.“ (Jóhannes 15:18-21) Það er eins nú á tímum. Flestir hvorki skilja tilbeiðslu okkar né kunna að meta hana. Sumir gagnrýna, spotta og jafnvel hata okkur eins og Jesús varaði við. (Matteus 10:22) Oft er röngum upplýsingum um okkur eða illgjörnum áróðri komið á framfæri í fjölmiðlum. (Sálmur 109:1-3) Já, við mætum öll andstöðu og sum okkar gætu misst móðinn. En hvernig getum við verið þolgóð?

4. Hvert sækjum við styrk?

4 Jehóva hjálpar okkur. Sálmaritaranum var innblásið að skrifa: „Margar eru raunir réttláts manns, en Drottinn frelsar hann úr þeim öllum.“ (Sálmur 34:20; 1. Korintubréf 10:13) Mörg okkar geta staðfest að þegar við reiðum okkur algerlega á Jehóva styrkir hann okkur svo að við getum staðist allar raunir. Kærleikur til hans og gleðin, sem við eigum í vændum, hjálpa okkur að sigrast á ótta og kjarkleysi. (Hebreabréfið 12:2) Við höldum því áfram að vera staðföst þrátt fyrir erfiðleika.

Orð Guðs styrkti Jeremía

5, 6. (a) Hverjir hafa gefið okkur gott fordæmi í þolgæði? (b) Hvernig brást Jeremía við þegar honum var falið að vera spámaður?

5 Í gegnum tíðina hafa dyggir þjónar Jehóva verið glaðir þrátt fyrir erfiðar aðstæður. Sumir lifðu á dómstíma þegar Jehóva úthellti reiði sinni yfir þá sem voru ekki trúfastir. Meðal þessara dyggu þjóna voru Jeremía, fáeinir samtíðarmenn hans sem og kristnir menn á fyrstu öld. Frásögur af þeim eru skráðar í Biblíunni okkur til hvatningar og við getum lært mikið af því að gefa þeim gaum. (Rómverjabréfið 15:4) Tökum Jeremía sem dæmi.

6 Þegar Jeremía var ungur að aldri var honum falið að vera spámaður í Júda. Það var ekki auðvelt verkefni þar sem margir tilbáðu falsguði. Þó að Jósía, sem var konungur þegar Jeremía hóf þjónustu sína, hafi verið trúfastur voru konungarnir á eftir honum ótrúir og fæstir spámennirnir og prestarnir, sem áttu að fræða fólkið, stóðu sannleikans megin. (Jeremía 1:1, 2; 6:13; 23:11) Hvernig leið Jeremía þegar Jehóva sagði honum að hann skyldi verða spámaður? Hann varð óttasleginn. (Jeremía 1:8, 17) Jeremía minnist fyrstu viðbragða sinna: „Þá sagði ég: Æ, herra Drottinn! Sjá, ég kann ekki að tala, því að ég er enn svo ungur.“ — Jeremía 1:6.

7. Hvaða viðbrögð fékk Jeremía frá fólki á svæðinu og hvernig brást hann við?

7 Fæstir á svæði Jeremía tóku við boðskapnum og hann sætti oft harðri andstöðu. Eitt sinn húðstrýkti Pashúr prestur hann og lét setja hann í stokkinn. Jeremía lét í ljós hvernig honum leið á þeim tíma: „Ég hugsaði: ‚Ég skal ekki minnast hans [Guðs] og eigi framar tala í hans nafni.‘“ Ef til vill hefur þér einhvern tíma liðið þannig og langað til að gefast upp. En taktu eftir því hvað hjálpaði Jeremía að sýna þolgæði. Hann sagði: „Þá var sem eldur brynni í hjarta mínu, er byrgður væri inni í beinum mínum. Ég reyndi að þola það, en ég gat það ekki.“ (Jeremía 20:9) Hafa orð Guðs sömu áhrif á þig?

Félagar Jeremía

8, 9. (a) Hvaða veikleiki kom í ljós hjá Úría og hverjar voru afleiðingarnar? (b) Hvers vegna varð Barúk kjarklítill og hvað hjálpaði honum?

8 Jeremía var ekki einn í spámannsstarfinu. Hann átti félaga og það hlýtur að hafa uppörvað hann. En stundum breyttu þeir ekki viturlega. Úría er dæmi um það. Hann var iðinn við að aðvara íbúa Jerúsalem og Júda „alveg á sama hátt og Jeremía“. En þegar Jójakím konungur fyrirskipaði að Úría skyldi tekinn af lífi flúði hann hræddur til Egyptalands. Það varð honum ekki til björgunar. Menn konungs eltu hann uppi og fóru með hann aftur til Jerúsalem þar sem hann var drepinn. Þetta hlýtur að hafa verið mikið áfall fyrir Jeremía. — Jeremía 26:20-23.

9 Annar félagi Jeremía var Barúk, ritari hans. Barúk var honum góður aðstoðarmaður en við eitt tækifæri varð andleg sjón hans óskýr. Hann fór að kvarta og sagði: „Vei mér, því að Drottinn bætir harmi við kvöl mína. Ég er þreyttur orðinn af andvörpum mínum, og hvíld finn ég enga!“ Barúk varð kjarklítill og missti sjónar á hinu andlega. En Jehóva gaf honum viturleg ráð og hann tók þau til sín. Hann var síðan fullvissaður um að hann fengi að lifa af eyðingu Jerúsalem. (Jeremía 45:1-5) Það hlýtur að hafa verið mjög uppörvandi fyrir Jeremía þegar Barúk náði aftur andlegu jafnvægi.

Jehóva styrkti spámann sinn

10. Hvernig lofaði Jehóva að styrkja Jeremía?

10 Mestu máli skipti að Jehóva yfirgaf Jeremía ekki. Hann skildi hvernig honum leið og veitti honum þann styrk og stuðning sem hann þurfti. Þegar Jeremía efaðist um eigin hæfni við upphaf þjónustu sinnar sagði Jehóva við hann: „Þú skalt ekki óttast þá, því að ég er með þér til þess að frelsa þig!“ Jehóva fræddi hann svo um verkefnið og sagði síðan: „Þótt þeir berjist gegn þér, þá munu þeir eigi fá yfirstigið þig, því að ég er með þér til þess að frelsa þig.“ (Jeremía 1:8, 19) Þetta hefur svo sannarlega verið hughreystandi loforð. Og Jehóva stóð við orð sín.

11. Hvernig vitum við að Jehóva stóð við loforð sitt um að styrkja Jeremía?

11 Eftir að Jeremía hafði verið settur í stokkinn, hæddur og svívirtur sagði hann hughraustur: „Drottinn er með mér eins og voldug hetja. Fyrir því munu ofsóknarmenn mínir steypast og engu áorka. Þeir skulu verða herfilega til skammar.“ (Jeremía 20:11) Á seinni árum, þegar reynt var að myrða Jeremía, hélt Jehóva áfram að styrkja hann og hann lifði af eyðingu Jerúsalem sem frjáls maður eins og Barúk. Ofsækjendurnir og þeir sem hunsuðu viðvaranirnar létu hins vegar lífið eða voru herleiddir til Babýlonar.

12. Hvað ættum við að hafa í huga þegar við verðum fyrir raunum?

12 Margir vottar Jehóva nú á tímum verða fyrir raunum líkt og Jeremía. Eins og fram hefur komið stafa sumar raunirnar af eigin ófullkomleika, aðrar koma til vegna ringulreiðarinnar í heiminum og enn aðrar eru af völdum þeirra sem berjast gegn starfsemi okkar. Slíkar raunir geta dregið úr okkur kjark. Líkt og Jeremía gætum við jafnvel farið að efast um að við getum haldið áfram. Við megum reyndar búast við því að verða kjarklítil af og til en þá höfum við tækifæri til að sýna hve heitt við elskum Jehóva. Við skulum því aldrei leyfa kjarkleysi að verða til þess að við hættum að þjóna Jehóva eins og Úría gerði. Fylgjum heldur fordæmi Jeremía og treystum á stuðning Jehóva.

Hvernig getum við barist gegn kjarkleysi?

13. Hvernig getum við fylgt fordæmi Davíðs og Jeremía?

13 Jeremía hafði regluleg samskipti við Jehóva Guð. Hann tjáði honum dýpstu tilfinningar sínar og sárbað hann um styrk. Þannig gaf hann okkur gott fordæmi til eftirbreytni. Davíð Ísraelskonungur sótti einnig styrk til Jehóva og skrifaði: „Heyr orð mín, Drottinn, gef gaum að andvörpum mínum. Hlýð þú á kveinstafi mína, konungur minn og Guð minn, því að til þín bið ég.“ (Sálmur 5:2, 3) Af innblásnu frásögunni af ævi Davíðs sést að Jehóva bænheyrði hann hvað eftir annað. (Sálmur 18:2, 3; 21:2-6) Þegar við erum undir miklu álagi eða vandamálin virðast óyfirstíganleg getur verið mjög hughreystandi að snúa sér til Jehóva í bæn og úthella hjarta sínu fyrir honum. (Filippíbréfið 4:6, 7; 1. Þessaloníkubréf 5:16-18) Jehóva neitar ekki að hlusta á okkur heldur fullvissar okkur um að ,hann beri umhyggju fyrir okkur‘. (1. Pétursbréf 5:6, 7) Það væri hins vegar ekki skynsamlegt að biðja til Jehóva og hunsa síðan það sem hann segir.

14. Hvaða áhrif höfðu orð Jehóva á Jeremía?

14 Hvernig talar Jehóva til okkar? Hugsum aftur um Jeremía. Þar sem hann var spámaður átti Jehóva bein samskipti við hann. Jeremía lýsir áhrifunum sem orð Guðs höfðu á hjarta hans: „Kæmu orð frá þér, gleypti ég við þeim, og orð þín voru mér unun og fögnuður hjarta míns, því að ég er nefndur eftir nafni þínu, Drottinn, Guð allsherjar.“ (Jeremía 15:16) Já, Jeremía gladdist yfir því að vera nefndur eftir nafni Guðs og orð Guðs voru honum hjartfólgin. Jeremía var því eins og Páll postuli, óðfús að boða boðskapinn sem honum var falinn. — Rómverjabréfið 1:15, 16.

15. Hvernig getum við látið orð Jehóva festa rætur í hjörtum okkar og hvað fær okkur til að kunngera nafn hans?

15 Jehóva hefur ekki bein samskipti við neinn nú á tímum. Við höfum hins vegar orð hans rituð á síðum Biblíunnar. Ef við tökum biblíunám alvarlega og hugleiðum vel það sem við lærum verða orð Guðs einnig „unun og fögnuður hjarta“ okkar. Við gleðjumst líka yfir því að fá að bera nafn Jehóva þegar við komum orðum hans á framfæri við aðra. Gleymum aldrei að engir aðrir í heiminum kunngera nafn Jehóva. Aðeins vottar hans boða fagnaðarerindið um stofnsett ríki hans og kenna auðmjúkum mönnum að verða lærisveinar Jesú Krists. (Matteus 28:19, 20) Okkur er svo sannarlega veittur mikill heiður. Þegar við hugsum um það sem Jehóva hefur í kærleika sínum treyst okkur fyrir ættum við að finna okkur knúin til að kunngera nafn hans og ríki.

Gætum að félagsskap okkar

16, 17. Hvaða viðhorf hafði Jeremía til félagsskapar og hvernig getum við líkt eftir honum?

16 Jeremía greinir frá öðru sem hjálpaði honum að vera hugrakkur. Hann segir: „Ég sat ekki í hóp hlæjandi manna til þess að skemmta mér. Gripinn af þinni hendi sat ég einsamall, af því að þú fylltir mig helgri reiði.“ (Jeremía 15:17) Jeremía vildi frekar vera einn en að láta slæman félagsskap spilla sér. Við lítum málin sömu augum og gleymum aldrei viðvörun Páls um að ‚vondur félagsskapur spilli góðum siðum‘, jafnvel góðum siðum sem við höfum haft um áraraðir. — 1. Korintubréf 15:33.

17 Vondur félagsskapur getur gert anda heimsins kleift að spilla huga okkar. (1. Korintubréf 2:12; Efesusbréfið 2:2; Jakobsbréfið 4:4) Temjum því skilningarvitin til að koma auga á vondan félagsskap og forðumst hann algerlega. (Hebreabréfið 5:14) Ef Páll væri á lífi núna, hvað heldur þú að hann myndi segja við kristinn mann sem horfir á siðlausar og ofbeldisfullar kvikmyndir eða ofbeldisfullar íþróttir? Hvaða ráð myndi hann gefa bróður sem vingast við algerlega ókunnugt fólk á Netinu? Hvað fyndist honum um þann sem væri tímunum saman í tölvuleikjum eða fyrir framan sjónvarpið en hefði ekki góðar einkanámsvenjur? — 2. Korintubréf 6:14b; Efesusbréfið 5:3-5, 15, 16.

Höldum okkur í andlegu paradísinni

18. Hvað getur styrkt okkur í trúnni?

18 Andlega paradísin er okkur mjög kær. Ekkert í heiminum kemst nálægt því að líkjast henni. Jafnvel vantrúaðir tala um kærleikann, hugulsemina og góðvildina sem kristnir menn sýna hver öðrum. (Efesusbréfið 4:31, 32) Samt sem áður þurfum við meira en nokkru sinni fyrr að berjast gegn kjarkleysi. Góður félagsskapur, bænir og góðar einkanámsvenjur styrkja okkur í trúnni og hjálpa okkur að treysta algerlega á Jehóva þegar við tökumst á við prófraunir. — 2. Korintubréf 4:7, 8.

19, 20. (a) Hvað hjálpar okkur að vera þolgóð? (b) Til hverra er talað í næstu grein og hverjir hafa einnig gagn af henni?

19 Við ættum aldrei að leyfa þeim sem eru á móti boðskap Biblíunnar að hræða okkur eða veikja trú okkar. Þeir sem berjast á móti okkur eru að berjast á móti Guði eins og þeir sem ofsóttu Jeremía. Þeir geta ekki sigrað. Jehóva er mun sterkari en andstæðingar okkar og hann segir við okkur: „Vona á Drottin, ver öruggur og hugrakkur, já, vona á Drottin.“ (Sálmur 27:14) Við skulum láta traust til Jehóva festa djúpar rætur í hjartanu og vera staðráðin í að gefast ekki upp við að gera það sem gott er. Eins og Jeremía og Barúk getum við verið viss um að við uppskerum ríkulega ef við gefumst ekki upp. — Galatabréfið 6:9.

20 Margir kristnir menn eiga í stöðugri baráttu við kjarkleysi. Ungt fólk verður hins vegar sérstaklega fyrir prófraunum. En það hefur líka frábæra möguleika. Í næstu grein er talað beint til unglinganna okkar á meðal. Hún gagnast einnig foreldrum og öllum vígðum kristnum mönnum sem geta hjálpað unglingum innan safnaðarins með því að hvetja þá, styðja og gefa þeim gott fordæmi.

Hvert er svarið?

• Hvers vegna megum við búast við mótlæti og hvar ættum við að leita hjálpar?

• Hvernig sigraðist Jeremía á kjarkleysi þó að honum væri falið erfitt verkefni?

• Hvað getur verið „unun og fögnuður“ hjarta okkar þrátt fyrir erfiðleika?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 19]

Jeremía fannst hann vera of ungur og óreyndur til að verða spámaður.

[Mynd á blaðsíðu 20]

Þótt Jeremía væri ofsóttur vissi hann að Jehóva væri með honum „eins og voldug hetja“.