Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Þiggðu handleiðslu lifanda Guðs

Þiggðu handleiðslu lifanda Guðs

Þiggðu handleiðslu lifanda Guðs

„Þér skuluð hverfa . . . til lifanda Guðs, sem skapaði himin, jörð og haf og allt, sem í þeim er.“ — POSTULASAGAN 14:15.

1, 2. Hvers vegna er rétt að viðurkenna Jehóva sem ‚lifanda Guð‘?

EFTIR að Páll postuli og Barnabas höfðu læknað mann í Lýstru sagði Páll þeim sem á horfðu: „Menn erum vér sem þér, yðar líkar, og flytjum yður þau fagnaðarboð, að þér skuluð hverfa frá þessum fánýtu goðum til lifanda Guðs, sem skapaði himin, jörð og haf og allt, sem í þeim er.“ — Postulasagan 14:15.

2 Það eru orð að sönnu að Jehóva er ekki lífvana skurðgoð heldur ‚lifanda Guð‘. (Jeremía 10:10; 1. Þessaloníkubréf 1:9, 10) Og hann er ekki einasta lifandi heldur líka uppspretta lífs okkar. Hann „gefur öllum líf og anda og alla hluti“. (Postulasagan 17:25) Hann vill að við njótum þess að lifa, bæði núna og í framtíðinni. Páll bætti því við að Guð hafi ‚vitnað um sjálfan sig með velgjörðum sínum. Hann hafi gefið okkur regn af himni og uppskerutíðir, veitt okkur fæðu og fyllt hjörtu okkar gleði.‘ — Postulasagan 14:17.

3. Hvers vegna getum við treyst leiðsögn Guðs?

3 Þar sem Guð hefur slíkan áhuga á lífi okkar höfum við ríka ástæðu til að treysta leiðsögn hans. (Sálmur 147:8; Matteus 5:45) Sumir bregðast reyndar öðruvísi við ef þeir rekast á fyrirmæli í Biblíunni sem þeir skilja ekki eða þeim finnst setja sér þröngar skorður. Engu að síður hefur reynst viturlegt að treysta á handleiðslu Jehóva. Tökum dæmi: Jafnvel þó að Ísraelsmaður skildi ekki hvers vegna lögmálið lagði bann við því að snerta hræ dýra var það engu að síður til góðs fyrir hann að hlýða því. Annars vegar styrkti hann tengsl sín við lifanda Guð með því að hlýða, og hins vegar veitti það honum vissa vernd gegn sjúkdómum. — 3. Mósebók 5:2; 11:24.

4, 5. (a) Hvaða fyrirmæli gaf Jehóva um blóð fyrir daga kristninnar? (b) Hvernig vitum við að fyrirmæli Guðs um blóð ná til kristinna manna?

4 Hið sama er að segja um leiðsögn Guðs varðandi blóð. Hann sagði Nóa að menn mættu ekki neyta blóðs. Hann opinberaði síðan í lögmálinu að einungis mætti nota blóð á altarinu — til syndafyrirgefningar. Með þessum fyrirmælum var Guð að leggja grundvöllinn að miklu mikilvægari notkun blóðs — að björgun mannslífa með blóði Jesú. (Hebreabréfið 9:14) Já, leiðbeiningar Guðs tóku mið af velferð okkar. Adam Clarke, fræðimaður á 19. öld, skrifaði um 1. Mósebók 9:4: „Þetta boðorð [sem Nóa var gefið] er enn haldið samviskusamlega í austurkirkjunni . . . Ekkert blóð var etið meðan lögmálið var í gildi vegna þess að það vísaði til blóðsins sem átti að úthella fyrir synd heimsins; og þegar fagnaðarerindið tók við átti ekki að eta það því að alltaf átti að líta á það sem tákn blóðsins sem hefur verið úthellt til syndafyrirgefningar.“

5 Þessi fræðimaður mun hafa átt við fagnaðarerindið um Jesú. Í því felst að Guð sendi son sinn til að deyja fyrir okkur, til að úthella blóði sínu svo að við gætum hlotið eilíft líf. (Matteus 20:28; Jóhannes 3:16; Rómverjabréfið 5:8, 9) Orð hans ná einnig yfir síðari fyrirmæli þess efnis að fylgjendur Krists ættu að halda sig frá blóði.

6. Hvaða fyrirmæli fengu kristnir menn um blóð og hvers vegna?

6 Guð setti Ísraelsmönnum hundruð reglna eins og þú veist. Eftir að Jesús dó var lærisveinum hans ekki skylt að halda þær allar. (Rómverjabréfið 7:4, 6; Kólossubréfið 2:13, 14, 17; Hebreabréfið 8:6, 13) Síðar vaknaði hins vegar spurning um eitt mikilvægt ákvæði — um umskurn karla. Þurftu þeir sem ekki voru af Gyðingaættum og vildu njóta góðs af blóði Krists að láta umskerast, til merkis um að þeir væru enn undir lögmálinu? Hið stjórnandi ráð kristinna manna tók þetta mál fyrir árið 49. (Postulasagan, 15. kafli) Undir leiðsögn anda Guðs komust postularnir og öldungarnir að þeirri niðurstöðu að umskurnarskyldan hefði fallið úr gildi samtímis lögmálinu. Ýmsar aðrar kröfur Guðs voru eftir sem áður í fullu gildi fyrir kristna menn. Hið stjórnandi ráð sagði í bréfi til safnaðanna: „Það er ályktun heilags anda og vor að leggja ekki frekari byrðar á yður en þetta, sem nauðsynlegt er, að þér haldið yður frá kjöti fórnuðu skurðgoðum, blóði, kjöti af köfnuðum dýrum og saurlifnaði. Ef þér varist þetta, gjörið þér vel.“ — Postulasagan 15:28, 29.

7. Hve mikilvægt er það fyrir kristna menn að ‚halda sig frá blóði‘?

7 Ljóst er að hið stjórnandi ráð áleit það jafnmikilvægt siðferðilega að kristnir menn ‚héldu sig frá blóði‘ eins og frá kynferðislegu siðleysi eða skurðgoðadýrkun. Þetta sannar að bannið við neyslu blóðs er háalvarlegt. Ef kristinn maður dýrkar skurðgoð eða gerist sekur um siðleysi án þess að iðrast mun hann „ekki Guðs ríki erfa“ og „hinn annar dauði“ verður hlutskipti hans. (1. Korintubréf 6:9, 10; Opinberunarbókin 21:8; 22:15) Taktu eftir andstæðunum: Að virða ekki fyrirmæli Guðs um heilagleika blóðsins getur haft í för með sér eilífan dauða en virðing fyrir fórn Jesú getur leitt til eilífs lífs.

8. Af hverju má sjá að frumkristnir menn tóku fyrirmæli Guðs um blóð alvarlega?

8 Hvernig skildu frumkristnir menn fyrirmæli Guðs um blóð og hvernig fóru þeir eftir þeim? Eins og þú manst sagði Clarke: „Þegar fagnaðarerindið tók við átti ekki að eta það því að alltaf átti að líta á það sem tákn blóðsins sem hefur verið úthellt til syndafyrirgefningar.“ Sagan staðfestir að frumkristnir menn tóku þetta mál alvarlega. Tertúllíanus skrifaði: „Lítið á þá sem taka með græðgisþorsta ferskt blóð óguðlegra glæpamanna á sýningu á leikvanginum . . . og fara með það til að læknast af flogaveiki.“ Tertúllíanus segir að kristnir menn hafi ekki einu sinni neytt „blóðs dýranna við máltíðir [sínar]“, ólíkt heiðnum mönnum sem neyttu blóðs. Hann heldur áfram: „Við réttarhöld yfir kristnum mönnum bjóðið þið þeim blóðpylsur. Þið vitið auðvitað að það er ólöglegt fyrir þá [að neyta þess].“ Já, kristnir menn neyttu ekki blóðs þó að lífið lægi við. Svo alvarlega tóku þeir fyrirmæli Guðs.

9. Hvað annað en að borða ekki blóð beint fólst í ákvæðinu að halda sig frá blóði?

9 Sumir halda kannski að hið stjórnandi ráð hafi einfaldlega átt við að kristnir menn mættu ekki drekka eða borða blóð beint og ekki heldur kjöt af óblóðguðum dýrum eða mat sem blóði var blandað í. Þetta var vissulega aðalatriðið í fyrirmælum Guðs til Nóa. Úrskurður postulanna var sömuleiðis á þá lund að kristnir menn ættu að ‚halda sig frá kjöti af köfnuðum dýrum‘ því að blóðið var enn í því. (1. Mósebók 9:3, 4; Postulasagan 21:25) En frumkristnir menn vissu að það var fleira fólgið í þessu ákvæði. Stundum neyttu menn blóðs í lækningaskyni. Tertúllíanus nefnir að heiðnir menn hafi, sumir hverjir, drukkið ferskt blóð í von um að læknast af flogaveiki. Og blóð kann að hafa verið notað við öðrum sjúkdómum eða til heilsubótar. Kristnir menn neyttu því ekki heldur blóðs „í lækningaskyni“. Þeir létu ekki haggast, jafnvel þó að þeir settu sig í lífshættu með því.

Blóð til lækninga

10. Lýstu hvernig blóð er notað við lækningar. Hvaða spurningu vekur það?

10 Nú á dögum er algengt að nota blóð til lækninga. Þegar blóðgjafir komu fyrst til sögunnar var gefið heilblóð sem var dregið úr blóðgjafanum, geymt og síðan gefið sjúklingi, til dæmis særðum hermanni. Síðar lærðist vísindamönnum að aðskilja helstu blóðhlutana. Með því að gefa blóðhluta gátu læknar dreift gjafablóðinu til fleiri sjúklinga. Hægt var að gefa einum særðum manni blóðvökva en öðrum rauðkorn. Frekari rannsóknir leiddu í ljós að hægt var að vinna allmarga þætti úr blóðhlutunum, til dæmis blóðvökvanum, sem var þá hægt að gefa enn fleiri sjúklingum. Unnið er að því að einangra fleiri blóðþætti og greint er frá nýjum leiðum til að nota þá. Hvaða afstöðu á kristinn maður að taka? Hann hefur afráðið að þiggja aldrei blóðgjöf en læknir hvetur hann kannski til að þiggja blóðhlutagjöf, til dæmis rauðkornaþykkni. Eins gæti meðferðin falist í því að gefa einn smáan þátt sem unninn er úr einhverjum blóðhlutanum. Hvernig getur þjónn Guðs tekið afstöðu til þessa með hliðsjón af því að blóð er heilagt og að blóð Krists er lífgjafi í fyllsta skilningi?

11. Hvaða afstöðu hafa Vottar Jehóva haft lengi sem kemur heim og saman við læknisfræðilegar staðreyndir?

11 Áratugir eru liðnir síðan Vottar Jehóva gerðu grein fyrir afstöðu sinni. Þeir fengu til dæmis birta grein í The Journal of the American Medical Association (27. nóvember 1981; endurprentuð í bæklingnum How Can Blood Save Your Life? bls. 27-9). * Í greininni var vitnað í 1. Mósebók, 3. Mósebók og Postulasöguna. Þar sagði: „Þó að ekki séu notuð læknisfræðileg orð í þessum versum líta Vottar Jehóva svo á að þau útiloki gjöf heilblóðs, rauðkornaþykknis og blóðvökva, auk hvítfrumna og blóðflagna.“ Í kennslubókinni Emergency Care (frá 2001) segir undir fyrirsögninni „Samsetning blóðs“: „Blóð er samsett úr nokkrum blóðhlutum, það er að segja blóðvökva, rauðum og hvítum blóðkornum og blóðflögum.“ Það er því í samræmi við læknisfræðilegar staðreyndir sem vottar Jehóva þiggja ekki heilblóð eða einhvern af fjórum aðalblóðhlutunum.

12. (a) Hvaða afstaða hefur verið tekin til blóðþátta sem unnir eru úr aðalblóðhlutunum? (b) Hvar má finna nánari upplýsingar um þetta?

12 Í greininni sagði enn fremur: „Trúarskilningur Votta Jehóva útilokar ekki með öllu að nota megi [blóðþætti] svo sem albúmín, ónæmisglóbúlín og dreyrasýkilyf. Hver einstakur vottur þarf að ákveða hvort hann getur þegið þá.“ Margir blóðþættir hafa verið einangraðir síðan 1981 en þetta eru smáir efnisþættir sem unnir eru úr einhverjum af blóðhlutunum fjórum. Gagnlegar upplýsingar voru birtar um þetta mál í greininni „Spurningar frá lesendum“ í Varðturninum 1. júlí 2000. Þar er að finna margvíslegar upplýsingar og röksemdir, en eins og sjá má eru þær að öllu leyti í samræmi við grundvallaratriðin í greininni frá 1981.

Hlutverk samviskunnar

13, 14. (a) Hvað er samviska og hvert er hlutverk hennar þegar blóð á í hlut? (b) Hvaða leiðbeiningar gaf Guð Ísraelsmönnum um neyslu kjöts en hvaða spurningar hafa ef til vill vaknað?

13 Hér kemur samviskan til skjalanna. Hvers vegna? Kristnir menn eru á einu máli um að þeir þurfi að fylgja leiðbeiningum Guðs en sumt þurfa þeir að vega og meta sjálfir og þar kemur til kasta samviskunnar. Samviskan er eðlislægur hæfileiki okkar til að vega og meta hlutina og taka ákvarðanir, oft um siðferðileg efni. (Rómverjabréfið 2:14, 15) En samviska manna er breytileg eins og þú veist. * Biblían nefnir að samviska sumra sé ‚óstyrk‘ og gefur þar með í skyn að samviska annarra sé styrk. (1. Korintubréf 8:12) Það er breytilegt hve langt kristnir menn hafa náð í að tileinka sér það sem Guð segir, vera næmir fyrir sjónarmiðum hans og taka ákvarðanir með hliðsjón af því. Það má lýsa þessu með afstöðu Gyðinga til kjötneyslu.

14 Ljóst er af Biblíunni að þeir sem hlýddu Guði borðuðu ekki kjöt nema það væri blóðgað. Svo alvarlegt var þetta að þegar ísraelskir hermenn átu óblóðgað kjöt í neyðartilfelli voru þeir engu að síður sekir um alvarlega synd. (5. Mósebók 12:15, 16; 1. Samúelsbók 14:31-35) Þó kunna að hafa vaknað ýmsar spurningar. Hve fljótt þurfti Ísraelsmaður, sem slátraði kind, að blóðga hana? Þurfti hann að skera dýrið á háls til þess? Var nauðsynlegt að hengja skrokkinn upp á afturfótunum? Hve lengi þurfti hann að hanga? Hvernig átti að fara með stóra kú? Jafnvel þó að skepnan væri blóðguð gat verið eitthvað af blóði eftir í kjötinu. Mátti hann borða slíkt kjöt? Hver gat skorið úr um það?

15. Hvaða afstöðu tóku sumir Gyðingar til neyslu kjöts en hvaða leiðbeiningar hafði Guð gefið?

15 Hugsum okkur dyggan Gyðing sem þurfti að taka afstöðu til þessara mála. Kannski hugsaði hann með sér að öruggast væri að forðast kjöt sem selt var á kjötmarkaðinum, rétt eins og annar Gyðingur neytti ekki kjöts ef möguleiki var á að það hefði verið notað sem skurðgoðafórn. Sumir Gyðingar borðuðu ef til vill ekki kjöt nema fylgt væri ákveðnum trúarsiðum í þeim tilgangi að draga úr því blóðið. * (Matteus 23:23, 24) Hvað finnst þér um þessi ólíku viðbrögð? Hefði kannski verið best fyrir Gyðinga að senda spurningar í stríðum straumum til einhvers rabbínaráðs til að fá úrskurð í hverju einstöku tilviki, úr því að Guð gerði ekki kröfu um ákveðna trúarsiði? Þessi siður þróaðist reyndar í gyðingdómnum en við megum vera þakklát fyrir að Jehóva krafðist þess ekki að sannir tilbiðjendur sínir tækju ákvarðanir varðandi blóð með þessum hætti. Guð setti fram leiðbeiningar um slátrun og blóðgun hreinna dýra en lét þar við sitja. — Jóhannes 8:32.

16. Hvers vegna geta kristnir menn haft ólíkar skoðanir á því að þiggja sprautur með smáum blóðþætti?

16 Eins og bent var á í 11. og 12. tölugrein þiggja vottar Jehóva ekki heilblóð eða blóðhlutana fjóra — blóðvökva, rauðkorn, hvítfrumur eða blóðflögur. En hvað um smáa efnisþætti sem unnir eru úr einhverjum af blóðhlutunum, til dæmis stungulyf með mótefnum gegn sjúkdómum eða höggormseitri? (Sjá Varðturninn 1. júlí 2000, bls. 30, grein 4) Sumir hugsa sem svo að þessir smáu blóðþættir séu í rauninni ekki blóð þannig að fyrirmælin um að ‚halda sig frá blóði‘ nái ekki yfir þá. (Postulasagan 15:29; 21:25; Varðturninn 1. júlí 2000, bls. 31, grein 2) Það er þeirra ábyrgð. Samviska annarra meinar þeim að þiggja nokkuð sem unnið er úr blóði (manna eða dýra), jafnvel agnarsmáan þátt sem unninn er úr einum aðalblóðhlutanum. * Sumir þiggja sprautur með blóðvökvaprótíni til að vinna gegn sjúkdómum eða höggormseitri en þiggja ekki aðra smáa blóðþætti. Og sumt sem unnið er úr einhverjum aðalblóðhlutanum hefur svo líka verkun og blóðhlutinn sjálfur og gegnir svo nauðsynlegu hlutverki í starfsemi líkamans að fæstir kristnir menn myndu telja rétt að þiggja það.

17. (a) Hvernig getur samviskan hjálpað okkur að taka afstöðu til notkunar blóðþátta? (b) Hvers vegna eru ákvarðanir um þessi mál alvarlegs eðlis?

17 Biblían hefur sitthvað um samviskuna að segja sem hjálpar okkur að taka ákvarðanir um þessi mál. Fyrst þarf að kynna sér hvað orð Guðs segir og láta það hafa mótandi áhrif á samviskuna. Þá ertu fær um að taka ákvörðun í samræmi við leiðsögn Guðs en þarft ekki að biðja einhvern annan að gera það fyrir þig. (Sálmur 25:4, 5) Sumir hafa hugsað sem svo að blóðþættirnir séu smáatriði fyrst það sé samviskumál hvort maður þiggur þá. En það er mikill misskilningur. Þó að eitthvað sé samviskumál þýðir það ekki að það skipti litlu máli. Það getur verið mjög þýðingarmikið, meðal annars vegna þess að það getur haft áhrif á fólk sem tekur aðra afstöðu en við. Þetta má sjá af ráðleggingum Páls um kjöt sem hafði hugsanlega verið fært skurðgoði að fórn en var svo selt á kjötmarkaðinum. Kristinn maður ætti að láta sér annt um að ‚særa ekki óstyrka samvisku‘ annarra. Ef hann hneykslar aðra gæti það orðið til þess að ‚bróðirinn, sem Kristur dó fyrir, glatist‘ og það væri synd gegn Kristi. Þess vegna ætti að taka ákvarðanir varðandi smáa blóðþætti mjög alvarlega, þó svo að það sé persónulegt mál hvers og eins hvort hann þiggur þá. — 1. Korintubréf 8:8, 11-13; 10:25-31.

18. Hvernig getur kristinn maður komið í veg fyrir að samviskan verði ónæm gagnvart ákvörðunum um notkun blóðs?

18 Það er líka annað sem undirstrikar að ákvarðanir varðandi blóð eru mjög alvarlegar. Það eru þau áhrif sem slíkar ákvarðanir geta haft á þig. Ef það myndi særa biblíufrædda samvisku þína að þiggja smáan blóðþátt ættirðu ekki að hunsa rödd hennar. Þú ættir ekki heldur að þagga niður í samviskunni þó að einhver annar segi: „Það er allt í lagi að þiggja þetta, margir aðrir hafa gert það.“ Mundu að milljónir manna þagga niður í samviskunni þannig að hún verður ónæm og leyfir þeim að ljúga eða gera eitthvað annað rangt, án þess að þeir sjái nokkuð eftir því. Kristnir menn vilja tvímælalaust forðast það. — 2. Samúelsbók 24:10; 1. Tímóteusarbréf 4:1, 2.

19. Hvað ættum við að hafa efst í huga varðandi notkun blóðs í lækningaskyni?

19 Undir lok svarsins við spurningunni frá lesendum í Varðturninum 1. júlí 2000 segir: „Skiptir þetta kannski litlu máli úr því að skoðanir manna og samviska er ólík hvað þetta varðar? Nei, þetta er alvörumál.“ Ástæðan er ekki síst sú að það snertir samband þitt við ‚lifanda Guð‘. Þetta er eina sambandið sem getur leitt til eilífs lífs, byggt á úthelltu blóði Krists og bjargandi mætti þess. Þroskaðu með þér djúpa virðingu fyrir blóði vegna þess sem Guð áorkar með því, það er að segja að bjarga mannslífum. Páll skrifaði: „Þér voruð . . . vonlausir og guðvana í heiminum. Nú þar á móti eruð þér, sem eitt sinn voruð fjarlægir, orðnir nálægir í Kristi, fyrir blóð hans.“ — Efesusbréfið 2:12, 13.

[Neðanmáls]

^ gr. 11 Gefinn út af Vottum Jehóva.

^ gr. 13 Einhverju sinni fór Páll ásamt fjórum öðrum kristnum mönnum í musterið til að hreinsa sig trúarlega. Lögmálið var fallið úr gildi en Páll fór þarna að ráði öldunganna í Jerúsalem. (Postulasagan 21:23-25) Hins vegar hefur sumum kristnum mönnum ef til vill fundist að þeir þyrftu ekki að fara í musterið eða hreinsa sig með þessum hætti. Samviska manna var breytileg þá eins og nú.

^ gr. 15 Encyclopaedia Judaica lýsir „flóknum og ítarlegum“ reglum um meðhöndlun kjöts samkvæmt helgisiðum Gyðinga. Þar er tiltekið hve margar mínútur kjöt þarf að liggja í vatni, hvernig eigi að láta renna af því á bretti, um gerð salts sem skal núa það með og að síðustu hve mörgum sinnum skuli þvo það í köldu vatni.

^ gr. 16 Það verður æ algengara að aðalþátturinn eða virki efnisþátturinn í stungulyfjum sé framleiddur með efnasmíði en ekki unninn úr blóði. Í sumum tilfellum getur hins vegar verið lítið eitt af einhverjum blóðþætti, svo sem albúmíni, í lyfinu. — Sjá „Spurningar frá lesendum“ í Varðturninum 1. febrúar 1995.

Manstu?

• Hvaða leiðbeiningar um blóð gaf Guð Nóa, Ísraelsmönnum og kristnum mönnum?

• Hvaða notkun blóðs kemur ekki til greina hjá vottum Jehóva?

• Í hvaða skilningi er það samviskumál hvort maður þiggur smáan blóðþátt sem er unninn úr aðalblóðhluta en hvað þýðir það þó ekki?

• Hvers vegna ættum við að hafa sambandið við Guð efst í huga þegar við tökum ákvarðanir?

[Spurningar]

[Skýringarmynd á blaðsíðu 26]

(Sjá uppraðaðann texta í blaðið)

AFSTAÐA OKKAR TIL BLÓÐS

HEILBLÓÐ

VIÐ ÞIGGJUM EKKI

Rauðkorn

Hvítfrumur

Blóðflögur

Blóðvökvi

HVER OG EINN ÁKVEÐUR

Rauðkornaþættir

Hvítfrumuþættir

Blóðflöguþættir

Blóðvökvaþættir

[Mynd á blaðsíðu 24]

Hið stjórnandi ráð komst að þeirri niðurstöðu að kristnir menn yrðu að ‚halda sig frá blóði‘.

[Mynd á blaðsíðu 27]

Þaggaðu ekki niður í samviskunni ef þú þarft að taka ákvörðun um notkun á blóðþætti.