Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

,Farið og gerið menn að lærisveinum‘

,Farið og gerið menn að lærisveinum‘

,Farið og gerið menn að lærisveinum‘

„Allt vald er mér gefið á himni og jörðu. Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum.“ — MATTEUS 28:18, 19.

1, 2. (a) Hvaða verkefni fól Jesús fylgjendum sínum? (b) Við hvaða spurningum verður leitað svara?

ÞAÐ var einn vordag í Ísrael árið 33 að lærisveinar Jesú voru saman komnir á fjalli í Galíleu. Upprisinn Drottinn þeirra var í þann mund að stíga upp til himna. En fyrst ætlaði hann að segja þeim frá mikilvægu verkefni sem þeir áttu að vinna. Hvert var verkefnið? Hvernig sinntu lærisveinarnir því? Og eigum við líka að vinna þetta verk?

2 Það sem Jesús sagði er skráð í Matteusi 28:18-20: „Allt vald er mér gefið á himni og jörðu. Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður, sonar og heilags anda, og kennið þeim að halda allt það, sem ég hef boðið yður. Sjá, ég er með yður alla daga allt til enda veraldar.“ Jesús talaði um „allt vald“, „allar þjóðir“, ,allt það sem hann hafði boðið þeim‘ og „alla daga“. Þessi fjögur atriði vekja fjórar spurningar sem mætti draga saman í eftirfarandi: Hvers vegna? Hvar? Hvað? Og hvenær? Leitum svara við þessum spurningum, einni í einu. *

„Allt vald er mér gefið“

3. Hvers vegna ættum við að hlýða fyrirmælunum um að gera menn að lærisveinum?

3 Í fyrsta lagi ætlum við að athuga hvers vegna við ættum að hlýða fyrirmælunum um að gera menn að lærisveinum. Jesús sagði: „Allt vald er mér gefið á himni og jörðu. Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum.“ Orðið „því“ vísar í eina af aðalástæðunum fyrir því að við ættum að hlýða þessum fyrirmælum. Það er vegna þess að Jesús, sá sem gaf fyrirmælin, hefur „allt vald“. Hversu víðtækt er vald hans?

4. (a) Hversu víðtækt er vald Jesú? (b) Hvernig ættum við að líta á fyrirmælin um að gera menn að lærisveinum með hliðsjón af valdi Jesú?

4 Jesús hefur vald yfir söfnuði sínum og síðan 1914 hefur hann haft vald yfir ríki Guðs sem þá var stofnsett. (Kólossubréfið 1:13; Opinberunarbókin 11:15) Hann er höfuðengillinn og sem slíkur ræður hann yfir himneskum hersveitum engla sem teljast í hundruðum milljóna. (1. Þessaloníkubréf 4:16; 1. Pétursbréf 3:22; Opinberunarbókin 19:14-16) Hann hefur fengið vald frá föður sínum til að gera að engu „sérhverja tign, sérhvert veldi og kraft“ sem er í andstöðu við réttlátar meginreglur. (1. Korintubréf 15:24-26; Efesusbréfið 1:20-23) Vald Jesú nær lengra en til hinna lifandi. Hann er „dómari lifenda og dauðra“ og hefur vald frá Guði til að reisa upp þá sem hafa sofnað dauðasvefni. (Postulasagan 10:42; Jóhannes 5:26-28) Hvílíkt vald! Það hlýtur að vera ákaflega mikilvægt að hlýða honum. Þess vegna hlýðum við fúslega og af virðingu fyrirmælum Krists um að ,fara og gera menn að lærisveinum‘.

5. (a) Hvernig hlýddi Pétur orðum Jesú? (b) Til hvers leiddi hlýðni Péturs?

5 Snemma á þjónustuferli sínum kenndi Jesús lærisveinunum á áhrifaríkan hátt að það myndi hafa laun í för með sér að viðurkenna vald hans og hlýða fyrirmælum hans. Eitt sinn sagði hann við Pétur sem var fiskimaður: „Legg þú út á djúpið, og leggið net yðar til fiskjar.“ Pétur var viss um að engan fisk væri að fá og sagði því við Jesú: „Meistari, vér höfum stritað í alla nótt og ekkert fengið.“ Pétur var samt auðmjúkur og bætti við: „En fyrst þú segir það, skal ég leggja netin.“ Eftir að hann hafði gert eins og Jesús sagði veiddi hann „mikinn fjölda fiska“. Pétur var frá sér numinn og féll „fyrir kné Jesú og sagði: ,Far þú frá mér, herra, því að ég er syndugur maður.‘“ En Jesús svaraði: „Óttast þú ekki, héðan í frá skalt þú menn veiða.“ (Lúkas 5:1-10; Matteus 4:18) Hvað getum við lært af þessari frásögn?

6. (a) Hvers konar hlýðni krefst Jesús eins og frásagan um undraverða fiskaflann sýnir? (b) Hvernig getum við líkt eftir Jesú?

6 Jesús lét Pétur, Andrés og hina postulana ekki fá það verkefni að ,veiða menn‘ fyrr en eftir að þeir höfðu fengið þennan undraverða fiskafla. (Markús 1:16, 17) Jesús fór greinilega ekki fram á að þeir hlýddu í blindni. Hann kom með sannfærandi rök fyrir því að þeir ættu að hlýða sér. Ef þeir hlýddu fyrirmælum Jesú um að ,veiða menn‘ myndi mikil blessun falla þeim í skaut, rétt eins og netin fylltust af fiski þegar þeir lögðu þau eins og hann hafði sagt þeim. Postularnir sýndu trú og gerðu eins og hann bauð. Frásögunni lýkur þannig: „Þeir lögðu bátunum að landi, yfirgáfu allt og fylgdu honum.“ (Lúkas 5:11) Við erum að líkja eftir Jesú þegar við hvetjum aðra til að taka þátt í því að gera menn að lærisveinum. Við ætlumst ekki til að fólk geri einfaldlega eins og við segjum því heldur komum við með sannfærandi rök fyrir því að hlýða fyrirmælum Krists.

Sannfærandi rök og rétt tilefni

7, 8. (a) Nefndu nokkur biblíuleg rök fyrir því að boða fagnaðarerindið og gera menn að lærisveinum. (b) Hvaða ritningarstaður hvetur þig sérstaklega til að halda áfram í boðunarstarfinu? (Sjá einnig neðanmáls.)

7 Við boðum fagnaðarerindið og gerum menn að lærisveinum vegna þess að við viðurkennum vald Krists. Hvaða önnur biblíuleg rök fyrir því að vinna þetta verk getum við gefið þeim sem við viljum hvetja til góðra verka? Taktu eftir hvað trúfastir vottar frá nokkrum löndum hafa að segja og hvernig ritningarstaðirnir, sem vísað er í, styðja það.

8 Roy, skírður 1951: „Þegar ég vígði mig Jehóva lofaði ég að þjóna honum ávallt. Ég vil standa við orð mín.“ (Sálmur 50:14; Matteus 5:37) Heather, skírð 1962: „Þegar ég hugsa um allt sem Jehóva hefur gert fyrir mig langar mig að sýna honum þakklæti með því að þjóna honum trúfastlega.“ (Sálmur 9:2, 10-12; Kólossubréfið 3:15) Hannelore, skírð 1954: „Við fáum alltaf stuðning engla þegar við erum í boðunarstarfinu. Hvílíkur heiður.“ (Postulasagan 10:30-33; Opinberunarbókin 14:6, 7) Honor, skírð 1969: „Þegar tími Jehóva er kominn til að fullnægja dómi sínum vil ég ekki að nokkur í hverfinu mínu geti ásakað Jehóva og votta hans fyrir vanrækslu og sagt: ,Ég var aldrei varaður við.‘“ (Esekíel 2:5; 3:17-19; Rómverjabréfið 10:16, 18) Claudio, skírður 1974: „Þegar við erum í boðunarstarfinu erum við ,fyrir augliti Guðs‘ og í félagi við Krist. Að hugsa sér, í boðunarstarfinu njótum við félagsskapar bestu vina okkar.“ — 2. Korintubréf 2:17. *

9. (a) Hvað leiðir frásagan af fiskveiðum Péturs og annarra postula í ljós um rétta tilefnið til að hlýða Kristi? (b) Hvert er rétta tilefnið til að hlýða Guði og Kristi og hvers vegna?

9 Frásagan af hinum undraverðu fiskveiðum sýnir einnig hversu mikilvægt er að hlýða Kristi af réttu tilefni, það er að segja af kærleika. Þegar Pétur sagði: „Far þú frá mér, herra, því að ég er syndugur maður,“ fór Jesús hvorki frá honum né ásakaði hann fyrir nokkra synd. (Lúkas 5:8) Jesús gagnrýndi ekki einu sinni Pétur fyrir að biðja sig að fara heldur svaraði vingjarnlega: „Óttast þú ekki.“ Það hefði verið rangt að hlýða Kristi sökum hræðslu. Jesús sagði Pétri og félögum hans að þeir myndu verða notaðir til að veiða menn. Nú á dögum spilum við ekki heldur á ótta eða neikvæðar tilfinningar eins og sektarkennd og skömm til að þvinga fólk til að hlýða Kristi. Það gleður hjarta Jehóva að sjá menn hlýða sér af allri sálu og af kærleika til sín og Jesú Krists. — Matteus 22:37.

„Gjörið allar þjóðir að lærisveinum“

10. (a) Hvað var það í fyrirmælum Jesú sem kallaði á aukið starf fyrir lærisveinana? (b) Hvernig brugðust lærisveinarnir við fyrirmælum Jesú?

10 Önnur spurningin, sem við gætum spurt í tengslum við fyrirmæli Krists, er: Hvar átti að gera menn að lærisveinum? Jesús sagði fylgjendum sínum: „Gjörið allar þjóðir að lærisveinum.“ Áður en Jesús hóf þjónustu sína bauðst fólki af þjóðunum að þjóna Jehóva ef það kom til Ísraels. (1. Konungabók 8:41-43) Jesús prédikaði sjálfur aðallega meðal Gyðinga en núna sagði hann fylgjendum sínum að fara til fólks af öllum þjóðum. Í raun höfðu fiskimið lærisveinanna, það er að segja starfssvæðið, verið bundin við litla „tjörn“, Gyðingana, en bráðlega áttu þau eftir að verða heilt „haf“, allt mannkynið. Þrátt fyrir að þetta væri ekki auðvelt verk hlýddu lærisveinarnir fyrirmælum Jesú fúslega. Innan við 30 árum eftir dauða Jesú gat Páll postuli skrifað að fagnaðarerindið hefði ekki aðeins verið prédikað fyrir Gyðingum að holdinu heldur „fyrir öllu, sem skapað er undir himninum“. — Kólossubréfið 1:23.

11. Hvernig hafa „fiskimiðin“ stækkað frá því snemma á 20. öldinni?

11 Nú á dögum höfum við líka séð hvernig boðunarsvæðið hefur stækkað með svipuðum hætti. Við upphaf 20. aldarinnar náðu „fiskimiðin“ aðeins til fárra landa. En fylgjendur Krists í þá daga líktu eftir frumkristnum mönnum og stækkuðu boðunarsvæðið af miklu kappi. (Rómverjabréfið 15:20) Snemma á fjórða áratugnum kenndu þeir fólki í um hundrað löndum. Núna ná „fiskimið“ okkar til 235 landa. — Markús 13:10.

„Af þjóðum ýmissa tungna“

12. Hvaða erfiða verkefni leggur Sakaría 8:23 áherslu á?

12 Það er ekkert áhlaupaverk að gera menn af öllum þjóðum að lærisveinum. Ástæðan er ekki aðeins stærð svæðisins heldur einnig öll tungumálin sem töluð eru. Jehóva spáði fyrir munn spámannsins Sakaría: „Á þeim dögum munu tíu menn af þjóðum ýmissa tungna taka í kyrtilskaut eins Gyðings og segja: ,Vér viljum fara með yður, því að vér höfum heyrt, að Guð sé með yður.‘“ (Sakaría 8:23) Í víðtækari uppfyllingu þessa spádóms táknar ,Gyðingurinn‘ leifar andasmurðra kristinna manna en ,mennirnir tíu‘ tákna ,múginn mikla‘. * (Opinberunarbókin 7:9, 10; Galatabréfið 6:16) Þennan mikla múg kristinna lærisveina yrði að finna meðal margra þjóða og myndu þeir tala ýmis tungumál eins og Sakaría sagði. Er þessi þáttur spádómsins að uppfyllast nú á dögum meðal fólks Guðs? Já, svo sannarlega.

13. (a) Hvernig hefur skipting þjóna Guðs eftir tungumálum þróast á síðustu áratugum? (b) Hvernig hefur trúi þjónshópurinn annað eftirspurn eftir andlegri fæðu á ýmsum tungumálum? (Takið með rammagreinina „Rit fyrir blinda“.)

13 Árið 1950 var enska móðurmál um þriggja af hverjum fimm vottum Jehóva í heiminum. Árið 1980 var þetta hlutfall orðið um tveir af fimm en núna er enska móðurmál aðeins eins af hverjum fimm vottum. Hvernig hefur trúi og hyggni þjónshópurinn brugðist við þessu? Með því að gefa út andlega fæðu á sífellt fleiri tungumálum. (Matteus 24:45) Til dæmis voru rit okkar gefin út á 90 tungumálum árið 1950 en núna er talan orðin um 400. Hefur þessi aukna athygli, sem hinir ýmsu málhópar hafa fengið, skilað árangri? Svo sannarlega. Að meðaltali gerast 5000 manns „af þjóðum ýmissa tungna“ lærisveinar Krists í hverri viku allt árið um kring. (Opinberunarbókin 7:9) Og ekkert lát er á aukningunni. Í sumum löndum kemur mjög góður afli í „netin“. — Lúkas 5:6; Jóhannes 21:6.

Gefandi starf — geturðu tekið þátt í því?

14. Hvernig getum við aðstoðað fólk á svæðinu okkar sem talar annað tungumál? (Takið með rammagreinina „Táknmál heyrnarlausra og kennslustarfið“.)

14 Víða á Vesturlöndum hefur tilkoma innflytjenda fært okkur heim að dyrum það krefjandi verkefni að gera fólk af ,öllum tungum‘ að lærisveinum. (Opinberunarbókin 14:6) Hvernig getum við aðstoðað fólk á svæðinu okkar sem talar annað tungumál? (1. Tímóteusarbréf 2:4) Við getum notað réttu veiðarfærin ef svo má að orði komast. Bjóddu þessum einstaklingum rit á þeirra máli. Sjáðu til þess að vottur, sem talar þeirra tungumál, heimsæki þá, ef þess er kostur. (Postulasagan 22:2) Nú er það orðið auðveldara þar sem margir vottar hafa lært annað tungumál til að hjálpa útlendingum að gerast lærisveinar Krists. Frásögur sýna að það er gefandi að veita slíka aðstoð.

15, 16. (a) Hvaða dæmi sýna að það er ánægjulegt að hjálpa þeim sem tala erlent mál? (b) Hvaða spurningar varðandi starf meðal þeirra sem tala erlent tungumál gætum við velt fyrir okkur?

15 Skoðum tvö dæmi frá Hollandi þar sem prédikað er að staðaldri á 34 tungumálum. Vottahjón buðust til að gera menn að lærisveinum meðal pólskumælandi innflytjenda. Viðbrögðin voru slík að eiginmanninum fannst hann knúinn til að minnka við sig vinnu svo að hann gæti notað einn dag til viðbótar í hverri viku til að hjálpa áhugasömum að kynna sér Biblíuna. Áður en langt um leið héldu hjónin yfir 20 biblíunámskeið í hverri viku. Þau segja: „Þjónustan gerir okkur mjög hamingjusöm.“ Boðberum finnst sérstaklega ánægjulegt þegar þeir sem heyra biblíusannindi á sínu eigin máli láta í ljós þakklæti sitt. Á samkomu, sem haldin var á víetnömsku, stóð aldraður maður upp og bað um leyfi til að tala. Hann sagði við vottana með tárvot augun: „Þakka ykkur fyrir það sem þið leggið á ykkur til að læra þetta erfiða tungumál. Ég er svo þakklátur fyrir að læra alla þessa dásamlegu hluti úr Biblíunni á gamals aldri.“

16 Þeim sem þjóna í söfnuðum þar sem töluð eru erlend mál finnst þeir eðlilega fá mikla umbun fyrir þjónustu sína. Hjón í Bretlandi sögðu: „Boðunarstarfið meðal þeirra sem tala erlent tungumál er eitt af því skemmtilegasta sem við höfum fengið að reyna á þeim 40 árum sem við höfum boðað fagnaðarerindið.“ Gætir þú hagrætt málum þannig að þú getir tekið þátt í þessari örvandi þjónustu? Ef þú ert enn í skóla, gætirðu þá lært erlent mál til að undirbúa þig fyrir þetta starf? Það gæti opnað dyrnar að ánægjulegu og umbunarríku lífi. (Orðskviðirnir 10:22) Hvers vegna ekki að ræða þetta við foreldra þína?

Notum breytilegar aðferðir

17. Hvernig getum náð til fleira fólks á safnaðarsvæðinu?

17 Af skiljanlegum ástæðum geta ekki allir lagt „net“ sín meðal þeirra sem tala erlent mál. En við gætum kannski náð til fleira fólks á safnaðarsvæðinu en við gerum núna. Hvernig? Ekki með því að breyta boðskapnum heldur aðferðunum. Á mörgum svæðum búa sífellt fleiri í fjölbýlishúsum þar sem óboðnum gestum er ekki leyfilegt að fara um. Og margir eru ekki heima þegar við bönkum upp á hjá þeim í starfinu hús úr húsi. Ef til vill þurfum við að leggja „netin“ á mismunandi tímum og stöðum. Þannig líkjum við eftir Jesú. Hann fann leiðir til að tala við fólk við ýmsar aðstæður. — Matteus 9:9; Lúkas 19:1-10; Jóhannes 4:6-15.

18. Hvernig hefur reynst árangursríkt að prédika við ýmsar aðstæður? (Takið með rammagreinina „Kennslustarf á viðskiptasvæðum“.)

18 Í sumum heimshlutum er sérstaklega mikilvægt að prédika hvar sem fólk er að finna. Reyndir kennarar hafa lagt enn meiri áherslu á að vitna á ýmsum stöðum. Auk þess að taka þátt í boðunarstarfinu hús úr húsi vitna boðberar núna á flugvöllum, á skrifstofum, í verslunum, á bílastæðum, á biðstöðvum, á götum úti, í almenningsgörðum, á ströndinni og annars staðar. Stór hópur nýskírðra votta á Hawaii komst fyrst í samband við vottana á slíkum stöðum. Með því að nota breytilegar aðferðir eigum við auðveldara með að hlýða fyrirmælum Jesú til hins ýtrasta. — 1. Korintubréf 9:22, 23.

19. Hvaða hliðar á fyrirmælum Jesú til okkar verða skoðaðar í næstu grein?

19 Fyrirmæli Jesú um að gera menn að lærisveinum snerust ekki eingöngu um það hvers vegna og hvar við ættum að vinna þetta verk heldur líka hvað við ættum að boða og hve lengi. Þessar tvær hliðar á fyrirmælum Jesú verða skoðaðar í næstu grein.

[Neðanmáls]

^ gr. 2 Við skoðum fyrstu tvær spurningarnar í þessari grein en hinar tvær í þeirri næstu.

^ gr. 8 Fleiri ástæður til að prédika er að finna í Orðskviðunum 10:5; Amosi 3:8; Matteusi 24:42; Markúsi 12:17; Rómverjabréfinu 1:14, 15.

^ gr. 12 Meiri upplýsingar um þennan spádóm er að finna í Varðturninum 1. júlí 2001, bls. 20-21 og í Spádómi Jesaja — ljós handa öllu mannkyni, 2. bindi, bls. 407, gefin út af Vottum Jehóva.

Manstu?

• Af hvaða ástæðu prédikum við og gerum menn að lærisveinum og hver er hvötin að baki því?

• Að hvaða marki hafa þjónar Jehóva hlýtt fyrirmælum Jesú um að gera menn af öllum þjóðum að lærisveinum?

• Hvaða breytilegar „veiðiaðferðir“ getum við notað og hvers vegna ættum við að nýta okkur þær?

[Spurningar]

[Rammi/myndir á blaðsíðu 10]

Rit fyrir blinda

Albert býr í Bandaríkjunum. Hann er safnaðaröldungur og þjónar í fullu starfi. Hann er blindur. Biblíurit með blindraletri hjálpa honum að sinna þjónustu sinni á áhrifaríkari hátt, þar á meðal skyldum sínum sem starfshirðir. Hvernig tekst honum til með verkefni sín í söfnuðinum?

„Við höfum aldrei haft eins skilvirkan starfshirði í söfnuðinum og Albert,“ segir James sem er öldungur í forsæti. Albert er einn af um 5000 einstaklingum í Bandaríkjunum sem hafa fengið biblíutengd rit með ensku eða spænsku blindraletri í áranna rás. Alla tíð síðan 1912 hefur trúi þjónshópurinn gefið út meira en hundrað mismunandi rit með blindraletri. Nútímatækni er notuð í prentsmiðjum Votta Jehóva og því er hægt að framleiða milljónir blaðsíðna á hverju ári á yfir tíu tungumálum og er þeim dreift til meira en 70 landa. Veist þú um einhvern sem gæti haft gagn af biblíutengdum ritum fyrir blinda?

[Rammi/mynd á blaðsíðu 11]

Táknmál heyrnarlausra og kennslustarfið

Þúsundir votta víðs vegar um heiminn, þar á meðal margir unglingar, hafa lært táknmál til að hjálpa heyrnarlausum að gerast lærisveinar Krists. Árangurinn er sá að í Brasilíu létu 63 heyrnarlausir skírast á einu ári og 35 heyrnarlausir vottar þjóna núna í fullu starfi við boðun fagnaðarerindisins. Yfir 1200 táknmálssöfnuðir og -hópar eru í heiminum. Eina táknmálssvæðið í Rússlandi er, landfræðilega séð, stærsta farandsvæðið í heiminum en það nær yfir allt Rússland.

[Rammi á blaðsíðu 12]

Kennslustarf á viðskiptasvæðum

Þegar vottur á Hawaii var að prédika fyrir skrifstofufólki hitti hann framkvæmdastjóra flutningafyrirtækis. Þrátt fyrir annríki féllst maðurinn á að kynna sér Biblíuna í hálftíma í hverri viku á skrifstofunni. Á hverjum miðvikudagsmorgni segir hann starfsfólkinu að hann vilji ekki taka við símtölum og síðan einbeitir hann sér að náminu. Annar vottur á Hawaii fræðir eiganda skóverkstæðis um Biblíuna einu sinni í viku. Biblíunámskeiðið er haldið við búðarborðið. Þegar viðskiptavinur kemur inn færir votturinn sig til hliðar og þegar viðskiptavinurinn fer halda þeir námskeiðinu áfram.

Bæði framkvæmdastjórinn og eigandi verkstæðisins komust í samband við vottana vegna þess að vottarnir tóku frumkvæðið og lögðu „net“ sín á mismunandi stöðum. Detta þér í hug einhverjir staðir á safnaðarsvæðinu þar sem þú gætir hitt fólk sem er sjaldan heima?

[Mynd á blaðsíðu 12]

Gætirðu boðað fagnaðarerindið meðal þeirra sem tala erlent mál?