Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Þreytt en gefumst ekki upp

Þreytt en gefumst ekki upp

Þreytt en gefumst ekki upp

„Drottinn . . . er skapað hefir endimörk jarðarinnar . . . veitir kraft hinum þreytta og gnógan styrk hinum þróttlausa.“ — JESAJA 40:28, 29.

1, 2. (a) Hvaða hlýlegu hvatningu fá allir sem vilja stunda sanna tilbeiðslu? (b) Hvað getur stofnað andlegu hugarfari okkar í mikla hættu?

VIÐ sem erum lærisveinar Jesú þekkjum vel hvatningu hans: „Komið til mín, allir þér sem erfiði hafið og þungar byrðar, og ég mun veita yður hvíld. . . . Því að mitt ok er ljúft og byrði mín létt.“ (Matteus 11:28-30) Kristnum mönnum bjóðast einnig „endurlífgunartímar frá augliti Drottins“. (Postulasagan 3:20) Þú hefur örugglega fundið hve endurnærandi það er að læra sannleika Biblíunnar, hafa bjarta framtíðarvon og fara eftir meginreglum Jehóva í lífinu.

2 Sumir þjónar Jehóva ganga samt sem áður í gegnum erfið tímabil þar sem þeir eru þreyttir eða jafnvel niðurdregnir. Hjá sumum varir þetta stutta stund en hjá öðrum lengur. Með tímanum gætu sumir farið að líta á kristnar skyldur sínar sem byrði frekar en endurnærandi ok eins og Jesús lofaði. Slíkar neikvæðar hugsanir geta stofnað sambandi kristins manns við Jehóva í mikla hættu.

3. Hvers vegna gaf Jesús ráðleggingarnar í Jóhannesi 14:1?

3 Skömmu áður en Jesús var handtekinn og líflátinn sagði hann við lærisveina sína: „Hjarta yðar skelfist ekki. Trúið á Guð og trúið á mig.“ (Jóhannes 14:1) Jesús sagði þessi orð skömmu áður en postularnir upplifðu hörmulega atburði. Í kjölfarið myndu koma miklar ofsóknir. Jesús vissi að postularnir gætu orðið svo niðurdregnir að trú þeirra væri í hættu. (Jóhannes 16:1) Ef ekkert væri að gert gæti depurð veikt þá í trúnni og valdið því að þeir glötuðu trausti sínu til Jehóva. Þetta á líka við um kristna menn nú á tímum. Langvarandi depurð getur íþyngt hjörtum okkar og valdið okkur mikilli sálarkvöl. (Jeremía 8:18) Okkar innri maður gæti orðið veikburða. Undir slíku álagi gætum við orðið andlega og tilfinningalega lömuð og jafnvel misst löngunina til að þjóna Jehóva.

4. Hvað getur hjálpað okkur að koma í veg fyrir að táknrænt hjarta okkar verði þreytt?

4 Í Biblíunni er okkur gefið mjög viturlegt ráð: „Varðveit hjarta þitt framar öllu öðru, því að þar eru uppsprettur lífsins.“ (Orðskviðirnir 4:23) Biblían veitir okkur góð ráð sem hjálpa okkur að vernda hið táknræna hjarta fyrir depurð og andlegri þreytu. En fyrst þurfum við að koma auga á það sem dregur úr okkur kraft.

Kristið líferni er ekki íþyngjandi

5. Hvað gæti virst vera mótsögn í sambandi við það að vera lærisveinn Jesú?

5 Við þurfum vissulega að leggja hart að okkur til að lifa kristnu lífi. (Lúkas 13:24) Jesús sagði meira að segja: „Hver sem ber ekki sinn kross og fylgir mér, getur ekki verið lærisveinn minn.“ (Lúkas 14:27) Við fyrstu sýn gætu þessi orð virst stangast á við það sem Jesús sagði um að byrði hans væri létt og endurnærandi, en í raun og veru er þetta engin mótsögn.

6, 7. Hvers vegna má segja að tilbeiðsla okkar sé ekki lýjandi?

6 Það getur verið ánægjulegt og endurnærandi að leggja hart að sér við erfiða vinnu, jafnvel þótt hún sé líkamlega þreytandi, sérstaklega ef unnið er að góðu málefni. (Prédikarinn 3:13, 22) Hvað er mikilvægara en að segja nágrönnum okkar frá yndislegum biblíusannindum? Og þótt við þurfum að leggja hart að okkur til að lifa eftir háleitum siðferðisreglum Guðs er það ekki erfitt í samanburði við það sem við hljótum að launum. (Orðskviðirnir 2:10-20) Jafnvel þótt við séum ofsótt lítum við á það sem heiður að þjást vegna Guðsríkis. — 1. Pétursbréf 4:14.

7 Byrði Jesú er mjög endurnærandi, sérstaklega þegar hún er borin saman við andlegt myrkur þeirra sem eru undir oki falskra trúarbragða. Guð elskar okkur heitt og gerir aldrei ósanngjarnar kröfur til okkar. „Boðorð hans eru ekki þung.“ (1. Jóhannesarbréf 5:3) Kristið líferni, eins og Biblían boðar, er ekki íþyngjandi. Tilbeiðsla okkar veldur sannarlega ekki þreytu eða depurð.

„Léttum . . . af oss allri byrði“

8. Hvað veldur oft andlegri þreytu?

8 Andleg þreyta stafar oft af aukabyrðum sem þessi spillti heimur leggur á herðar okkar. Þar sem „allur heimurinn er á valdi hins vonda“ erum við umkringd neikvæðum áhrifum sem geta þreytt okkur og truflað kristið líferni okkar. (1. Jóhannesarbréf 5:19) Óþarfa hlutir geta flækt líf okkar og sett kristnar venjur úr skorðum. Þessar aukabyrðar geta íþyngt okkur og jafnvel dregið úr okkur allan kraft. Biblían hvetur okkur því til að ,létta af okkur allri byrði‘. — Hebreabréfið 12:1-3.

9. Hvernig getur eftirsókn eftir efnislegum hlutum íþyngt okkur?

9 Fólk í heiminum er oft upptekið af frama, peningum, skemmtiefni, ferðalögum og öðrum efnislegum hlutum. Þetta gæti haft áhrif á hugarfar okkar. (1. Jóhannesarbréf 2:15-17) Sumir kristnir menn á fyrstu öldinni flæktu líf sitt mikið með því að sækjast eftir auðæfum. Páll postuli segir: „Þeir, sem ríkir vilja verða, falla í freistni og snöru og alls kyns óviturlegar og skaðlegar fýsnir, er sökkva mönnunum niður í tortímingu og glötun. Fégirndin er rót alls þess, sem illt er. Við þá fíkn hafa nokkrir villst frá trúnni og valdið sjálfum sér mörgum harmkvælum.“ — 1. Tímóteusarbréf 6:9, 10.

10. Hvað lærum við um auðæfi af dæmisögu Jesú um sáðmanninn?

10 Ef við erum þreytt eða okkur finnst við hafa lítinn kraft til að þjóna Guði gætum við spurt okkur hvort það sé vegna þess að eftirsókn eftir efnislegum hlutum sé að kæfa okkar andlega mann. Þessi hætta er vissulega til staðar eins og fram kemur í dæmisögu Jesú um sáðmanninn. Jesús líkir ‚áhyggjum heimsins, táli auðæfanna og öðrum girndum‘ við þyrna sem kæfa sæði orðs Guðs í hjörtum okkar. (Markús 4:18, 19) Þess vegna hvetur Biblían: „Sýnið enga fégirni í hegðun yðar, en látið yður nægja það, sem þér hafið. Guð hefur sjálfur sagt: ‚Ég mun ekki sleppa af þér hendinni né yfirgefa þig.‘“ — Hebreabréfið 13:5.

11. Hvernig getum við losnað við það sem íþyngir okkur?

11 Stundum er það ekki endilega eftirsókn eftir fleiri efnislegum hlutum sem flækir líf okkar heldur það sem við gerum við þá hluti sem við eigum nú þegar. Sumir hafa séð þörf á því að gera breytingar af og til. Þeir gætu verið tilfinningalega þreyttir vegna alvarlegra heilsufarsvandamála, ástvinamissis eða annarra erfiðleika. Hjón nokkur ákváðu að leggja sum áhugamál og ónauðsynleg verkefni til hliðar. Þau fóru meira að segja í gegnum eigur sínar og pökkuðu öllu niður sem tengdist áhugamálunum og komu því úr augsýn. Við höfum öll gott af því að hugsa af og til um venjur okkar og eigur og losa okkur við allar óþarfa byrðar svo að við þreytumst ekki og látum hugfallast.

Sýnum skynsemi og auðmýkt

12. Hverju ættum við að gera okkur grein fyrir í sambandi við mistök okkar?

12 Mistök okkar, jafnvel í smávægilegum málum, geta smátt og smátt flækt líf okkar. Orð Davíðs eru vissulega sönn: „Misgjörðir mínar ganga mér yfir höfuð, sem þung byrði eru þær mér of þungar orðnar.“ (Sálmur 38:5) Oft geta nokkrar gagnlegar breytingar létt af okkur þungri byrði.

13. Hvernig hjálpar skynsemi okkur að sjá boðunarstarfið í réttu ljósi?

13 Biblían hvetur okkur til að temja okkur „visku og gætni“. (Orðskviðirnir 3:21, 22) „Spekin að ofan er . . . sanngjörn,“ segir í Biblíunni. (Jakobsbréfið 3:17, NW ) Sumum finnst þeir þurfa að gera jafnmikið og aðrir í boðunarstarfinu. En Biblían ráðleggur: „Sérhver rannsaki breytni sjálfs sín og þá mun hann hafa hrósunarefni í samanburði við sjálfan sig, en ekki miðað við aðra, því að sérhver mun verða að bera sína byrði.“ (Galatabréfið 6:4, 5) Gott fordæmi trúsystkina okkar getur vissulega hvatt okkur til að þjóna Jehóva af öllu hjarta en viska og skynsemi hjálpa okkur að setja okkur raunsæ markmið miðað við okkar eigin aðstæður.

14, 15. Hvernig getum við sýnt visku þegar við hugsum um líkamlegar og tilfinningalegar þarfir okkar?

14 Ef við erum skynsöm, jafnvel í því sem virðist smávægilegt, er ólíklegra að við verðum þreytt. Tileinkum við okkur til dæmis venjur sem stuðla að góðri heilsu? Tökum dæmi um hjón sem vinna á einni af deildarskrifstofum Votta Jehóva. Þau hafa gert sér grein fyrir því hvernig viska getur komið í veg fyrir að þau verði þreytt. Eiginkonan segir: „Við reynum að fara að sofa á svipuðum tíma á hverju kvöldi, sama hve mikið við höfum að gera. Við stundum líka reglulega líkamsrækt. Þetta hefur hjálpað okkur mikið. Við höfum lært að þekkja og virða takmörk okkar. Við reynum að bera okkur ekki saman við þá sem virðast hafa óþrjótandi orku.“ Borðar þú hollan mat og færðu næga hvíld? Með því að gefa hæfilegan gaum að heilsunni er hægt að draga úr andlegri og tilfinningalegri þreytu.

15 Sum okkar búa við sérstakar aðstæður. Sem dæmi má nefna trúsystur okkar sem hefur þjónað í fullu starfi á ýmsum erfiðum svæðum. Hún hefur þurft að glíma við alvarlega sjúkdóma eins og krabbamein. Hvað hjálpar henni að takast á við erfiðar aðstæður? Hún svarar: „Mér finnst mikilvægt að hafa tíma fyrir sjálfa mig þar sem ég get verið ein í algerri kyrrð. Því þreyttari og áhyggjufyllri sem ég verð því meira þarf ég á því að halda að eiga rólega einverustund til að lesa og hvíla mig.“ Með visku og skynsemi getum við gert okkur grein fyrir þörfum okkar og sinnt þeim svo að við verðum ekki andlega þreytt.

Jehóva Guð veitir okkur kraft

16, 17. (a) Hvers vegna er mjög mikilvægt að leggja okkur fram um að vera heilbrigð í trúnni? (b) Hvað ætti að vera hluti af daglegum venjum okkar?

16 Það er vitaskuld mjög mikilvægt að leggja okkur fram um að vera heilbrigð í trúnni. Ef við eigum náið samband við Jehóva Guð getum við orðið líkamlega þreytt en við verðum aldrei þreytt á að tilbiðja hann. Jehóva „veitir kraft hinum þreytta og gnógan styrk hinum þróttlausa“. (Jesaja 40:28, 29) Páll postuli þekkti sannleiksgildi þessara orða af eigin reynslu og skrifaði: „Vér [látum] ekki hugfallast. Jafnvel þótt vor ytri maður hrörni, þá endurnýjast dag frá degi vor innri maður.“ — 2. Korintubréf 4:16.

17 Taktu eftir orðalaginu „dag frá degi“. Þetta gefur til kynna að við ættum að nýta okkur daglega það sem Jehóva lætur okkur í té. Systir, sem var trúboði í 43 ár, var stundum líkamlega þreytt og niðurdregin. En hún gafst ekki upp. Hún segir: „Ég hef vanið mig á það að vakna snemma á morgnana til þess að geta notað tíma til að biðja til Jehóva og lesa orð hans áður en ég hefst handa við einhver verkefni. Þessi daglega venja hefur hjálpað mér að vera þolgóð fram að þessari stundu.“ Við getum vissulega reitt okkur á kraft Jehóva til að styrkja okkur ef við biðjum til hans reglulega — já „dag frá degi“ — og hugleiðum háleita eiginleika hans og fyrirheit.

18. Hvernig hughreystir Biblían trúfasta þjóna Jehóva sem eru aldraðir eða heilsulitlir?

18 Þetta er sérstaklega gagnlegt fyrir þá sem eru niðurdregnir vegna aldurs eða heilsuleysis. Jafnvel þótt þeir beri sig ekki saman við aðra geta þeir orðið daprir í bragði vegna þess að þeir bera sig saman við hvernig þeir voru áður. Það er mjög hughreystandi að vita til þess að Jehóva metur aldraða þjóna sína mikils. „Gráar hærur eru heiðurskóróna, á vegi réttlætis öðlast menn hana,“ segir Biblían. (Orðskviðirnir 16:31) Jehóva þekkir takmörk okkar og metur heilshugar tilbeiðslu okkar mikils, þrátt fyrir þá veikleika sem við höfum. Þau góðu verk, sem við höfum áður unnið, eru tryggilega geymd í minni Guðs. Ritningin fullvissar okkur: „Guð er ekki ranglátur. Hann gleymir ekki verki yðar og kærleikanum, sem þér auðsýnduð nafni hans, er þér veittuð hinum heilögu þjónustu og veitið enn.“ (Hebreabréfið 6:10) Við gleðjumst öll yfir því að hafa á meðal okkar þjóna Jehóva sem hafa verið trúfastir um margra áratuga skeið.

Gefumst ekki upp

19. Hvaða gagn höfum við af því að vera upptekin við að gera það sem gott er?

19 Margir eru þeirrar skoðunar að góð heilsurækt á reglulegum grundvelli geti dregið úr þreytu. Á svipaðan hátt er hægt að draga úr andlegri og tilfinningalegri þreytu með því að leggja reglulega rækt við andleg mál. Í Biblíunni stendur: „Þreytumst ekki að gjöra það sem gott er, því að á sínum tíma munum vér uppskera, ef vér gefumst ekki upp. Þess vegna skulum vér, meðan tími er til, gjöra öllum gott og einkum trúbræðrum vorum.“ (Galatabréfið 6:9, 10) Taktu eftir orðalaginu „gjöra það sem gott er“ og „gjöra öllum gott“. Þetta gefur til kynna að við eigum að láta verkin tala. Ef við gerum öðrum gott er minni hætta á því að við þreytumst í þjónustunni við Jehóva.

20. Frá hvers konar félagsskap ættum við að halda okkur til að forðast depurð?

20 Félagsskapur og afþreying með fólki, sem virðir lög Guðs að vettugi, getur aftur á móti verið eins og lýjandi byrði. Biblían aðvarar: „Steinar eru þungir, og sandurinn sígur í, en gremja afglapans er þyngri en hvort tveggja.“ (Orðskviðirnir 27:3) Til að forðast þreytu og depurð er gott að halda sig frá félagsskap við þá sem hugsa neikvætt, gagnrýna og finna að öðrum.

21. Hvernig getum við hvatt hvert annað á safnaðarsamkomum?

21 Jehóva hefur gefið okkur safnaðarsamkomur til að veita okkur andlegan kraft. Þar fáum við tilvalin tækifæri til að hvetja hvert annað með endurnærandi fræðslu og félagsskap. (Hebreabréfið 10:25) Allir í söfnuðinum ættu að leggja sig fram um að vera hvetjandi þegar þeir svara á samkomum eða flytja ræðu uppi á sviði. Þeir sem taka forystuna í kennslustarfinu bera sérstaka ábyrgð á því að hvetja og uppörva aðra. (Jesaja 32:1, 2) Jafnvel þegar þarf að áminna eða leiðrétta ættu ráðleggingarnar að vera gefnar á uppörvandi hátt. (Galatabréfið 6:1, 2) Kærleikur okkar til annarra hjálpar okkur að þjóna Jehóva án þess að gefast upp. — Sálmur 133:1; Jóhannes 13:35.

22. Hvers vegna getum við verið hughraust þrátt fyrir okkar mannlega ófullkomleika?

22 Það kostar áreynslu að tilbiðja Jehóva á þessum endalokatímum. Kristnir menn eru ekki ónæmir fyrir hugarþreytu, tilfinningalegum sársauka og álagi. Okkar ófullkomna mannlega eðli er viðkvæmt líkt og leirker. En Biblían segir: „Þennan fjársjóð höfum vér í leirkerum, til þess að ofurmagn kraftarins sé Guðs, en ekki frá oss.“ (2. Korintubréf 4:7) Já, við eigum eftir að verða þreytt en við skulum aldrei örmagnast eða gefast upp. Við skulum heldur segja örugg: „Drottinn er minn hjálpari.“ — Hebreabréfið 13:6.

Stutt upprifjun

• Hvaða íþyngjandi byrðar getum við losað okkur við?

• Hvernig getum við lagt okkar af mörkum til að gera trúsystkinum okkar gott?

• Hvernig styrkir Jehóva okkur þegar við erum þreytt eða niðurdregin?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 29]

Jesús vissi að langvarandi depurð gæti orðið postulunum til trafala.

[Mynd á blaðsíðu 31]

Sumir hafa lagt ákveðin áhugamál og ónauðsynleg verkefni til hliðar.

[Mynd á blaðsíðu 32]

Jehóva metur einlæga tilbeiðslu okkar mikils þrátt fyrir takmörk okkar.