Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hötuð án saka

Hötuð án saka

Hötuð án saka

„Þeir hötuðu mig án saka.“ — JÓHANNES 15:25.

1, 2. (a) Hvers vegna verða sumir forviða þegar kristnum mönnum er hallmælt en af hverju ætti það ekki að koma okkur á óvart? (b) Hvaða merkingu orðsins „hatur“ verður fjallað um í þessari grein? (Sjá neðanmáls.)

VOTTAR JEHÓVA kappkosta að lifa eftir þeim meginreglum sem er að finna í orði Guðs. Fyrir vikið hafa þeir getið sér góðan orðstír víða um lönd. En stundum er dregin upp röng mynd af þeim. Til dæmis sagði embættismaður í Sankti Pétursborg í Rússlandi: „Okkur var sagt að Vottar Jehóva væru einhvers konar leynileg sértrúarregla, neðanjarðarhreyfing, þar sem fólk myrti börn og dræpi sjálft sig.“ En þessi sami embættismaður sagði eftir að hafa unnið með vottunum í tengslum við alþjóðamót: „Nú sé ég eðlilegt, brosandi fólk . . . Það er friðsamt og rólegt og þykir ákaflega vænt hvert um annað.“ Hann bætir við: „Ég skil hreinlega ekki hvers vegna þessu er logið upp á þá.“ — 1. Pétursbréf 3:16.

2 Þjónar Guðs hafa enga ánægju af því að vera rægðir og kallaðir illvirkjar. En það kemur þeim ekki á óvart að fólk hallmæli þeim. Jesús aðvaraði fylgjendur sína: „Ef heimurinn hatar yður, þá vitið, að hann hefur hatað mig fyrr en yður. . . . Svo hlaut að rætast orðið, sem ritað er í lögmáli þeirra: ‚Þeir hötuðu mig án saka.‘“ * (Jóhannes 15:18-20, 25; Sálmur 35:19; 69:5) Hann hafði sagt lærisveinum sínum nokkru áður: „Fyrst þeir kölluðu húsföðurinn Beelsebúl, hvað kalla þeir þá heimamenn hans?“ (Matteus 10:25) Kristnir menn gera sér grein fyrir að slíkar ásakanir eru samfara því að bera ,kvalastaurinn‘ sem þeir tóku á sig þegar þeir gerðust fylgjendur Krists. — Matteus 16:24, NW.

3. Í hvaða mæli hafa sannir tilbiðjendur verið ofsóttir?

3 Ofsóknir á hendur sönnum tilbiðjendum eiga sér langa sögu og ná allt aftur til „Abels hins réttláta“. (Matteus 23:34, 35) Þær hafa ekki aðeins einskorðast við nokkur tilvik. Jesús sagði að fylgjendur sínir yrðu „hataðir af öllum“ vegna nafns hans. (Matteus 10:22) Páll postuli skrifaði líka að allir þjónar Guðs ættu að búast við því að verða ofsóttir, þar á meðal hvert og eitt okkar. (2. Tímóteusarbréf 3:12) Hverju sætir þetta?

Hvaðan kemur óréttmætt hatur?

4. Hvaðan kemur óréttmætt hatur að sögn Biblíunnar?

4 Orð Guðs bendir á að allt frá byrjun hafi verið ósýnileg vera sem hafi ýtt undir óréttmætt hatur. Tökum sem dæmi þegar fyrsti trúfasti maðurinn, Abel, var drepinn með hrottalegum hætti. Biblían segir að Kain, bróðir hans, sem framdi morðið, hafi ,heyrt hinum vonda til‘, það er að segja Satan djöflinum. (1. Jóhannesarbréf 3:12) Kain sýndi sömu hneigðir og Satan og Satan notaði hann til að framkvæma illgjörn áform sín. Biblían varpar líka ljósi á þátt Satans í hinum grimmilegu árásum á Job og Jesú Krist. (Jobsbók 1:12; 2:6, 7; Jóhannes 8:37, 44; 13:27) Opinberunarbókin tekur af allan vafa um það hver eigi sök á þeim ofsóknum sem fylgjendur Krists hafa mátt þola og segir: „Djöfullinn mun varpa nokkrum yðar í fangelsi, til þess að yðar verði freistað.“ (Opinberunarbókin 2:10) Já, það er Satan sem á sök á öllu óréttmætu hatri sem fólk Guðs verður fyrir.

5. Hvað liggur á bak við hatur Satans á sönnum tilbiðjendum?

5 Hvað liggur á bak við hatur Satans á sönnum tilbiðjendum? Satan hefur storkað „konungi eilífðar“, Jehóva Guði, með ráðabruggi sínu sem ber vott um takmarkalaust sjálfsálit. (1. Tímóteusarbréf 1:17; 3:6) Hann heldur því fram að Jehóva sé óhóflega strangur við sköpunarverur sínar og að enginn þjóni honum af hreinu tilefni heldur í eiginhagsmunaskyni. Satan fullyrðir að hann geti fengið alla menn til að hætta að þjóna Guði ef hann fær að reyna þá. (1. Mósebók 3:1-6; Jobsbók 1:6-12; 2:1-7) Satan keppir við Jehóva um völdin með því að úthrópa hann sem kúgara, lygara og mislukkaðan stjórnanda. Heift hans gegn þjónum Guðs má því rekja til þess að hann girnist tilbeiðslu. — Matteus 4:8, 9.

6. (a) Hvernig tengist deilumálið um drottinvald Jehóva okkur persónulega? (b) Hvers vegna eigum við auðveldara með að vera ráðvönd ef við skiljum þetta deilumál? (Sjá rammagrein á bls. 22.)

6 Sérðu hvernig þetta mál snertir líf þitt? Sem þjónn Jehóva hefurðu líklega komist að því að það er vel þess virði að gera vilja hans þó að það kosti töluverða viðleitni. En hvað myndirðu gera ef sú staða kæmi upp að það yrði erfitt, jafnvel sársaukafullt, að halda áfram að fara eftir lögum Jehóva og meginreglum og þér sýndist sem þú hefðir engan hag af því? Myndirðu álykta sem svo að það væri ekki þess virði að þjóna Jehóva eða myndi kærleikur þinn til hans og djúp virðing fyrir mikilfenglegum eiginleikum hans vera þér hvöt til að halda áfram að ganga á vegum hans? (5. Mósebók 10:12, 13) Jehóva hefur gefið hverju og einu okkar tækifæri til að svara ásökunum Satans með því að leyfa honum að valda okkur erfiðleikum. — Orðskviðirnir 27:11.

„Þá er menn smána yður“

7. Nefndu eina aðferð sem Satan notar til að reyna að snúa okkur frá Jehóva.

7 Skoðum nánar eitt þeirra vélabragða sem Satan beitir til að reyna að sanna mál sitt — upplognar sakir. Jesús kallaði Satan ,lyginnar föður‘. (Jóhannes 8:44) Nafnið djöfull á vel við en það merkir „rógberi“ og sýnir að hann er fremstur í flokki þeirra sem rægja Guð, orð hans og heilagt nafn. Satan djöfullinn notar dylgjur, falsákærur og beinar lygar til að ögra drottinvaldi Jehóva og hann notar þessar sömu aðferðir til að rægja trúfasta þjóna hans. Með því að ausa ásökunum yfir þá getur hann gert erfiðar raunir jafnvel enn erfiðari.

8. Hvernig rægði Satan Job og hvaða áhrif hafði það?

8 Tökum Job sem dæmi en nafn hans merkir „sá sem verður fyrir fjandskap“. Satan tók ekki aðeins frá honum lífsviðurværið, börnin og heilsuna heldur lét hann einnig líta svo út sem Job væri syndari sem Guð væri að refsa. Job hafði áður verið mikils metinn en núna fyrirlitu menn hann, meira að segja ættingjar hans og nánir vinir. (Jobsbók 19:13-19; 29:1, 2, 7-11) Satan notaði líka falsvini til að ,mylja Job sundur með orðum‘. Fyrst gáfu þeir í skyn að hann hefði framið alvarlega synd en síðan fordæmdu þeir hann sem syndara. (Jobsbók 4:6-9; 19:2; 22:5-10) Þetta hlýtur að hafa gert Job mjög niðurdreginn.

9. Hvaða mynd var dregin upp af Jesú?

9 Þar sem sonur Guðs tekur forystuna í að verja drottinvald Jehóva varð hann helsti skotspónn Satans. Þegar Jesús kom til jarðar reyndi Satan að koma óorði á hann eins og hann hafði gert við Job og lét líta út fyrir að Jesús væri syndari. (Jesaja 53:2-4; Jóhannes 9:24) Fólk kallaði hann vínsvelg og mathák og sagði hann „haldinn illum anda“. (Matteus 11:18, 19; Jóhannes 7:20; 8:48; 10:20) Hann var ranglega sakaður um guðlast. (Matteus 9:2, 3; 26:63-66; Jóhannes 10:33-36) Þetta hvíldi þungt á Jesú þar sem hann vissi að það gaf ranga mynd af föður hans. (Lúkas 22:41-44) Að lokum var Jesús staurfestur sem fordæmdur glæpamaður. (Matteus 27:38-44) Vegna fullkominnar ráðvendni sinnar mátti Jesús þola mikinn ,fjandskap af syndurum‘. — Hebreabréfið 12:2, 3.

10. Hvernig hafa leifar hinna andasmurðu verið skotspónn Satans nú á tímum?

10 Þeir sem eftir eru af andasmurðum fylgjendum Krists nú á dögum hafa einnig mátt þola fjandskap Satans djöfulsins. Satan er lýst sem „kæranda bræðra [Krists], honum sem þá kærir fyrir Guði vorum dag og nótt“. (Opinberunarbókin 12:9, 10) Síðan Satan var úthýst af himnum og umsvif hans takmörkuð við nágrenni jarðarinnar hefur hann lagt sig enn meira fram um að úthrópa bræður Krists sem úrþvætti samfélagsins. (1. Korintubréf 4:13) Í sumum löndum hafa þeir verið sakaðir um að vera hættuleg sértrúarregla, rétt eins og kristnir menn á fyrstu öld. (Postulasagan 24:5, 14; 28:22) Eins og nefnt var í byrjun hafa þeir verið rægðir með upplognum áróðri. Andasmurðir bræður Krists og félagar þeirra af ,öðrum sauðum‘ hafa engu að síður leitast auðmjúklega við að „varðveita boð Guðs og hafa vitnisburð Jesú“. Þetta hafa þeir gert bæði „í heiðri og vanheiðri, í lasti og lofi“. — 2. Korintubréf 6:8; Jóhannes 10:16; Opinberunarbókin 12:17.

11, 12. (a) Hver getur verið ástæðan fyrir sumum ásökunum á hendur kristnum mönnum? (b) Hvaða óréttmætar þjáningar gæti kristinn maður þurft að þola sökum trúarinnar?

11 Auðvitað er það ekki alltaf fyrir „réttlætis sakir“ sem einstaka þjónum Guðs er álasað. (Matteus 5:10) Sumir erfiðleikar geta stafað af ófullkomleika okkar sjálfra. Það er enginn verðleiki að ,sýna þolgæði er við verðum fyrir höggum vegna misgjörða‘. En „ef einhver þolir móðganir og líður saklaus vegna meðvitundar um Guð, þá er það þakkar vert“ í augum Guðs. (1. Pétursbréf 2:19, 20) Við hvaða kringumstæður gæti þetta gerst?

12 Sumir hafa verið svívirtir vegna þess að þeir neituðu að taka þátt í óbiblíulegum jarðarfararsiðum. (5. Mósebók 14:1) Unglingar í söfnuðinum hafa orðið fyrir stöðugu aðkasti sökum þess að þeir hafa haldið sig við siðferðisstaðla Jehóva. (1. Pétursbréf 4:4) Sumir kristnir foreldrar hafa ranglega verið sakaðir um „vanrækslu“ eða „misþyrmingar“ þar sem þeir vildu að börnin sín fengju læknismeðferð án blóðgjafar. (Postulasagan 15:29) Kristnum mönnum hefur verið útskúfað af ættingjum og nágrönnum aðeins vegna þess að þeir gerðust þjónar Jehóva. (Matteus 10:34-37) Allt þetta fólk fetar í fótspor spámannanna og Jesú sjálfs sem þoldu óréttmætar þjáningar. — Matteus 5:11, 12; Jakobsbréfið 5:10; 1. Pétursbréf 2:21.

Að standast óhróðurinn

13. Hvað getur hjálpað okkur að viðhalda andlegum styrk þegar við erum borin þungum sökum?

13 Þegar við erum borin þungum sökum vegna trúarinnar gætum við orðið niðurdreginn líkt og Jeremía spámaður og fundist við ekki geta haldið áfram að þjóna Guði. (Jeremía 20:7-9) Hvað getur hjálpað okkur að viðhalda andlegum styrk? Leitumst við að sjá málin frá sjónarhóli Jehóva. Hann lítur á þá sem eru trúfastir í prófraunum sem sigurvegara en ekki fórnarlömb. (Rómverjabréfið 8:37) Reyndu að sjá fyrir þér þá sem hafa stutt drottinvald Jehóva þótt Satan reyndi að niðurlægja þá á allan hátt — menn og konur eins og Abel, Job, Maríu móður Jesú og aðra trúfasta þjóna Guðs forðum daga, sem og trúsystkini okkar nú á dögum. (Hebreabréfið 11:35-37; 12:1) Veltu fyrir þér trúarstaðfestu þeirra. Þessi mikli fjöldi trúfastra þjóna býður okkur að sameinast sér á verðlaunapallinum, en hann er tileinkaður þeim sem sigra heiminn með trú sinni. — 1. Jóhannesarbréf 5:4.

14. Hvernig getur innileg bæn styrkt þann ásetning okkar að vera trúföst?

14 Ef ,miklar áhyggjur leggjast á hjarta okkar‘ getum við snúið okkur til Jehóva í innilegri bæn og hann mun hughreysta okkur og styrkja. (Sálmur 50:15; 94:19) Hann gefur okkur þá visku sem við þurfum til að standast prófraunirnar og hjálpar okkur að hafa deilumálið mikla um drottinvald hans skýrt í huga en það er ástæðan að baki óréttmætu hatri á þjónum hans. (Jakobsbréfið 1:5) Jehóva getur einnig veitt okkur ,frið sem er æðri öllum skilningi‘. (Filippíbréfið 4:6, 7) Þessi innri friður, sem Guð gefur, gerir okkur kleift að halda ró okkar og staðfestu þrátt fyrir gífurlegan þrýsting og að láta ekki efasemdir eða ótta ná tökum á okkur. Jehóva getur stutt okkur með anda sínum í öllu sem hann leyfir að við verðum fyrir. — 1. Korintubréf 10:13.

15. Hvað getur forðað okkur frá því að verða bitur þegar við þjáumst?

15 Hvað getur forðað okkur frá því að verða heltekin biturð í garð þeirra sem hata okkur án saka? Mundu að aðalóvinir okkar eru Satan og illu andarnir. (Efesusbréfið 6:12) Þó að sumir ofsæki okkur vísvitandi standa margir gegn fólki Guðs sökum vanþekkingar eða vegna þess að þeir láta aðra stjórna sér. (Daníel 6:4-16; 1. Tímóteusarbréf 1:12, 13) Jehóva vill að „allir menn“ hafi tækifæri til að ,verða hólpnir og komast til þekkingar á sannleikanum‘. (1. Tímóteusarbréf 2:4) Sumir fyrrverandi andstæðingar eru meira að segja trúbræður okkar núna eftir að hafa séð góða hegðun okkar. (1. Pétursbréf 2:12) Við getum líka lært af Jósef, syni Jakobs. Þótt hálfbræður hans hafi valdið honum miklum þjáningum ól hann ekki með sér hatur í garð þeirra. Hvers vegna ekki? Vegna þess að hann skildi að Jehóva átti hlut að máli og að hann stýrði atburðunum til að fyrirætlun hans næði fram að ganga. (1. Mósebók 45:4-8) Jehóva getur líka séð til þess að allar óréttmætar þjáningar, sem við þurfum að þola, verði nafni hans til vegsemdar. — 1. Pétursbréf 4:16.

16, 17. Hvers vegna ættum við ekki að hafa áhyggjur af því sem andstæðingar gera til að hindra boðunarstarfið?

16 Við þurfum ekki að hafa óhóflegar áhyggjur þó að andstæðingum virðist um tíma ætla að takast að stöðva framgang fagnaðarerindisins. Jehóva hrærir þjóðirnar með boðunarstarfinu, sem framkvæmt er um allan heim, og er að safna saman gersemum allra þjóða. (Haggaí 2:7) Jesús Kristur, góði hirðirinn, sagði: „Mínir sauðir heyra raust mína, og ég þekki þá, og þeir fylgja mér. Ég gef þeim eilíft líf, . . . og enginn skal slíta þá úr hendi minni.“ (Jóhannes 10:27-29) Englarnir eiga einnig þátt í hinni miklu andlegu uppskeru. (Matteus 13:39, 41; Opinberunarbókin 14:6, 7) Þar af leiðandi getur ekkert sem andstæðingar segja eða gera komið í veg fyrir að fyrirætlun Guðs nái fram að ganga. — Jesaja 54:17; Postulasagan 5:38, 39.

17 Oft hefur það sem andstæðingar gera þveröfug áhrif. Á einum stað í Afríku hafði alls konar óhróðri verið logið upp á votta Jehóva, þar á meðal að þeir væru djöfladýrkendur. Grace hljóp þess vegna alltaf í felur bak við hús þegar vottarnir komu. Eitt sinn hélt sóknarpresturinn í kirkjunni hennar einu af ritum okkar á loft og varaði viðstadda við að lesa það ella gengju þeir af trúnni. Þetta vakti forvitni Grace. Þegar vottarnir bönkuðu upp á hjá henni næst fór hún ekki í felur heldur ræddi við þá og fékk eigið eintak af ritinu. Hún fór að kynna sér Biblíuna með hjálp vottanna og árið 1996 lét hún skírast. Núna notar Grace tímann til að leita annarra sem hafa fengið rangar upplýsingar um votta Jehóva.

Styrktu trú þína núna

18. Hvers vegna þurfum við að styrkja trú okkar áður en erfiðar prófraunir ber að garði og hvernig getum við gert það?

18 Satan getur ráðist á okkur með óréttmætu hatri hvenær sem er og því er mikilvægt að styrkja trúna núna. Hvernig getum við gert það? Í frétt frá landi, þar sem fólk Jehóva hefur verið ofsótt, sagði: „Eitt hefur orðið deginum ljósara: Þeir sem hafa góðar andlegar venjur og meta sannleika Biblíunnar mikils eiga ekki í neinum vandræðum með að vera staðfastir í prófraunum. En þeir sem missa af samkomum, eru óreglulegir í boðunarstarfinu og láta undan í lítilvægum málum þegar vel árar falla oft þegar þeir lenda í eldraun.“ (2. Tímóteusarbréf 4:2) Ef þú sérð að þú þarft að bæta þig á ákveðnum sviðum skaltu vinna tafarlaust í því. — Sálmur 119:60.

19. Hverju áorkar ráðvendni þjóna Guðs þegar þeir verða fyrir óréttmætu hatri?

19 Ráðvendni sannra tilbiðjenda þrátt fyrir ákaft hatur, sem Satan kyndir undir, er lifandi vitnisburður um að Jehóva sé lögmætur, réttmætur og réttlátur Drottinn alheims. Trúfesti þeirra gleður hjarta hans. Þó að menn ausi þá ásökunum „blygðast Guð sín ekki fyrir þá, að kallast Guð þeirra“ jafnvel þótt tign hans sé yfir jörð og himni. Um alla þessa trúföstu menn má segja með sanni: „Ekki átti heimurinn slíka menn skilið.“ — Hebreabréfið 11:16, 38.

[Neðanmáls]

^ gr. 2 Orðið „hatur“ hefur nokkur merkingarbrigði í Biblíunni. Sums staðar merkir það einfaldlega að elska minna. „Hatur“ getur líka falið í sér sterka andúð án þess að maður hafi í hyggju að skaða þann sem á í hlut heldur frekar að forðast hann vegna óbeitar á honum. Orðið „hatur“ getur einnig merkt ákafan eða langvarandi fjandskap og oft illgirni. Við munum fjalla um slíkt hatur í þessari grein.

Geturðu útskýrt?

• Hvað liggur að baki óréttmætu hatri á sönnum tilbiðjendum?

• Hvernig reyndi Satan að brjóta niður ráðvendni Jobs og Jesú með ásökunum?

• Hvernig gefur Jehóva okkur styrk til að vera staðföst þrátt fyrir hatur Satans?

[Spurningar]

[Rammagrein/mynd á blaðsíðu 22]

Þau skildu um hvað málið snerist

Boðunarstarf okkar var bannað í Úkraínu í yfir 50 ár. Vottur Jehóva þar í landi segir: „Aðstæður vottanna ætti ekki að meta eingöngu út frá því hvernig menn komu fram við okkur. . . . Flestir opinberu starfsmannanna voru eingöngu að sinna starfi sínu. Þegar breyting varð á ríkisstjórninni urðu þeir hollir nýjum herrum, en við breyttumst ekki. Við gerðum okkur grein fyrir að meginástæða erfiðleikanna hafði verið opinberuð í Biblíunni.

Við litum ekki á okkur sem saklaus fórnarlömb valdníðinga. Það sem hjálpaði okkur að standast var skýr skilningur á deilumálinu sem kom upp í Edengarðinum — deilumálinu um rétt Guðs til að stjórna. . . . Við tókum afstöðu í máli sem tengist ekki aðeins persónulegum hagsmunum manna heldur líka hagsmunum alheimsdrottins. Við höfðum mun háleitari skilning á því um hvað málið snerist. Þetta styrkti okkur og gerði okkur kleift að vera ráðvönd við afar erfiðar aðstæður.“

[Mynd]

Victor Popovych, handtekinn árið 1970.

[Mynd á blaðsíðu 19]

Hver stóð á bak við ásakanirnar á hendur Jesú?

[Myndir á blaðsíðu 21]

Job, María og þjónar Guðs nú á tímum eins og Stanley Jones, hafa stutt drottinvald Jehóva.