Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hefurðu yndi af lögmáli Jehóva?

Hefurðu yndi af lögmáli Jehóva?

Hefurðu yndi af lögmáli Jehóva?

„Sæll er sá maður, er . . . hefir yndi af lögmáli Drottins.“ — SÁLMUR 1:1, 2.

1. Hvers vegna eru þjónar Jehóva hamingjusamir?

JEHÓVA styður og blessar trúfasta þjóna sína. Þó að við stöndum frammi fyrir margs konar erfiðleikum njótum við sannrar gleði. Það ætti ekki að koma okkur á óvart því að við þjónum ‚hinum sæla Guði‘ og heilagur andi hans vekur gleði í hjörtum okkar. (1. Tímóteusarbréf 1:11, Biblían 1912; Galatabréfið 5:22) Gleði er sönn hamingja sem vaknar við það að hljóta eitthvað gott eða vænta þess. Himneskur faðir okkar gefur okkur svo sannarlega góðar gjafir. (Jakobsbréfið 1:17) Það er því ekki að undra að við séum hamingjusöm.

2. Hvaða sálmar verða til umfjöllunar í þessari grein og þeirri næstu?

2 Gleði er oft til umfjöllunar í Sálmunum. Fyrstu tveir sálmarnir eru gott dæmi um það. Fylgjendur Jesú Krists á fyrstu öldinni eignuðu Davíð Ísraelskonungi annan sálminn. (Postulasagan 4:25, 26) Ritari fyrsta sálmsins er ekki nefndur á nafn en þessi innblásni söngur hefst á orðunum: „Sæll er sá maður, er eigi fer að ráðum óguðlegra.“ (Sálmur 1:1) Í fyrstu tveimur sálmunum eru nefndar margar ástæður sem við höfum til að gleðjast. Fjallað verður nánar um það í þessari grein og þeirri næstu.

Lykillinn að hamingju

3. Hvaða ástæður eru nefndar í Sálmi 1:1 fyrir því að sá sem fylgir lögum Guðs er hamingjusamur?

3 Í fyrsta sálminum kemur fram hvers vegna sá sem fylgir lögum Guðs er hamingjusamur. Sálmaritarinn bendir á nokkrar ástæður fyrir því þegar hann syngur: „Sæll er sá maður, er eigi fer að ráðum óguðlegra, eigi gengur á vegi syndaranna og eigi situr í hópi þeirra, er hafa Guð að háði.“ — Sálmur 1:1.

4. Hvernig eru Sakaría og Elísabet okkur til fyrirmyndar?

4 Til að vera raunverulega hamingjusöm verðum við að fylgja réttlátum stöðlum Jehóva. Sakaría og Elísabet fengu þann ánægjulega heiður að verða foreldrar Jóhannesar skírara en „þau voru bæði réttlát fyrir Guði og lifðu vammlaus eftir öllum boðum og ákvæðum Drottins“. (Lúkas 1:5, 6) Við getum verið hamingjusöm ef við fylgjum fordæmi þeirra og erum staðráðin í að fara aldrei að ráðum hinna óguðlegu.

5. Hvað getur hjálpað okkur að forðast ‚veg syndaranna‘?

5 Ef við forðumst hugarfar óguðlegra manna ‚göngum við ekki á vegi syndaranna‘. Við förum ekki einu sinni á staði sem þeir sækja, það er að segja staði sem hafa slæmt orð á sér eða bjóða upp á siðlausa skemmtun. En hvað ef okkur finnst freistandi að taka þátt í óbiblíulegum verkum með syndurum? Þá skulum við biðja Guð um hjálp til að breyta í samræmi við orð Páls postula: „Gangið ekki undir ósamkynja ok með vantrúuðum. Hvað er sameiginlegt með réttlæti og ranglæti? Hvaða samfélag hefur ljós við myrkur?“ (2. Korintubréf 6:14) Ef við reiðum okkur á Guð og erum ‚hjartahrein‘ forðumst við hugarfar og lífsstíl syndara og höfum hreinar hvatir og langanir ásamt „hræsnislausri trú“. — Matteus 5:8; 1. Tímóteusarbréf 1:5.

6. Af hverju ættum við að vera á varðbergi gagnvart þeim sem hafa Guð að háði?

6 Ef við viljum gleðja Jehóva megum við alls ekki sitja „í hópi þeirra, er hafa Guð að háði“. Sumir hæðast að því að fólk skuli hlýða lögum Guðs og nú á „síðustu dögum“ eru fráhvarfsmenn frá kristinni trú sérstaklega illkvittnir í hæðni sinni. Pétur postuli gaf þessa viðvörun: „Þér elskaðir, . . . þetta skuluð þér þá fyrst vita, að á hinum síðustu dögum munu koma spottarar er stjórnast af eigin girndum og segja með spotti: ‚Hvað verður úr fyrirheitinu um komu hans? Því að frá því feðurnir sofnuðu stendur allt við sama eins og frá upphafi veraldar.‘“ (2. Pétursbréf 3:1-4) Ef við sitjum aldrei „í hópi þeirra, er hafa Guð að háði“ komumst við undan ógæfunni sem bíður þeirra. — Orðskviðirnir 1:22-27.

7. Af hverju ættum við að taka til okkar orðin í Sálmi 1:1?

7 Ef við tökum ekki til okkar inngangsorðin í fyrsta sálminum getum við glatað andlega hugarfarinu sem við höfum byggt upp með því að lesa og hugleiða orð Guðs. Þá gætum við í raun orðið verr sett en áður. Þetta gæti byrjað með því að við fylgdum ráðum óguðlegra manna. Síðan gætum við farið að umgangast þá á reglulegum grundvelli. Með tímanum gætum við jafnvel orðið trúlausir fráhvarfsmenn og spottarar. Vinátta við hina óguðlegu getur greinilega ýtt undir veraldleg viðhorf og eyðilagt samband okkar við Jehóva Guð. (1. Korintubréf 15:33; Jakobsbréfið 4:4) Við skulum aldrei láta það gerast.

8. Hvað getur hjálpað okkur að einbeita okkur að andlegum málum?

8 Bænin getur hjálpað okkur að einbeita okkur að andlegum málum og forðast félagsskap við hina óguðlegu. „Verið ekki hugsjúkir um neitt,“ skrifaði Páll, „heldur gjörið í öllum hlutum óskir yðar kunnar Guði með bæn og beiðni og þakkargjörð. Og friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi, mun varðveita hjörtu yðar og hugsanir yðar í Kristi Jesú.“ Postulinn hvatti fólk einnig til að hugfesta það sem er satt, göfugt, rétt, hreint, elskuvert, gott afspurnar, dyggðugt og lofsvert. (Filippíbréfið 4:6-8) Við skulum hegða okkur í samræmi við leiðbeiningar Páls og aldrei fara niður á sama plan og óguðlegir menn.

9. Hvernig reynum við að hjálpa öllum mönnum?

9 Við forðumst óguðleg verk en vitnum háttvíslega fyrir öðrum eins og Páll postuli gerði þegar hann ræddi við rómverska landstjórann Felix „um réttlæti, sjálfsögun og komandi dóm“. (Postulasagan 24:24, 25; Kólossubréfið 4:6) Við boðum öllum mönnum fagnaðarerindið um ríkið og komum vingjarnlega fram við þá. Við erum sannfærð um að þeir ‚sem hneigjast til eilífs lífs‘ taki trú og muni hafa yndi af lögmáli Guðs. — Postulasagan 13:48, NW.

Hann hefur yndi af lögmáli Jehóva

10. Hvað getur haft langvarandi áhrif á huga okkar og hjarta í einkanáminu?

10 Sálmaritarinn heldur áfram að fjalla um hamingjusaman mann og segir: „[Hann] hefir yndi af lögmáli Drottins og hugleiðir lögmál hans [„les lögmál hans lágum rómi“, NW ] dag og nótt.“ (Sálmur 1:2) Þjónar Guðs hafa yndi af lögmáli hans. Í einkanáminu lesa þeir jafnvel „lágum rómi“ eða upphátt ef þeir hafa tækifæri til þess. Ef við gerum þetta þegar við lesum í Biblíunni hefur það langvarandi áhrif á huga okkar og hjarta.

11. Hvers vegna ættum við að lesa í Biblíunni „dag og nótt“?

11 Hinn „trúi og hyggni þjónn“ hefur hvatt okkur til að lesa daglega í Biblíunni. (Matteus 24:45) Við höfum sterka löngun til að kynnast boðskap Jehóva til mannkynsins og því lesum við jafnvel í Biblíunni „dag og nótt“, til dæmis þegar við getum ekki sofið einhverra hluta vegna. Pétur hvatti okkur: „Sækist eins og nýfædd börn eftir hinni andlegu, ósviknu mjólk, til þess að þér af henni getið dafnað til hjálpræðis.“ (1. Pétursbréf 2:1, 2) Hefur þú yndi af því að lesa í Biblíunni á hverjum degi og hugleiða hana og fyrirætlun Guðs um nætur? Það gerði sálmaritarinn. — Sálmur 63:7.

12. Hvað gerum við ef við höfum yndi af lögmáli Jehóva?

12 Eilíf hamingja okkar er undir því komin að við höfum yndi af lögmáli Guðs. Það er lýtalaust og réttlátt og að halda það hefur mikil laun í för með sér. (Sálmur 19:8-12) Lærisveinninn Jakob skrifaði: „Sá sem skyggnist inn í hið fullkomna lögmál frelsisins og heldur sér við það og gleymir ekki því, sem hann heyrir, heldur framkvæmir það, hann mun sæll verða í verkum sínum.“ (Jakobsbréfið 1:25) Ef við höfum í raun og veru yndi af lögmáli Jehóva mun ekki dagur líða hjá án þess að við hugleiðum andleg mál. Þá finnum við hjá okkur hvöt til að rannsaka „djúp Guðs“ og setja hagsmuni Guðsríkis framar öðru í lífinu. — 1. Korintubréf 2:10-13; Matteus 6:33.

Hann er sem tré

13-15. Í hvaða skilningi getum við verið eins og tré, gróðursett hjá óþrjótandi vatnslind?

13 Sálmaritarinn lýsir ráðvöndum manni enn frekar og segir: „Hann er sem tré, gróðursett hjá rennandi lækjum, er ber ávöxt sinn á réttum tíma, og blöð þess visna ekki. Allt er hann gjörir lánast honum.“ (Sálmur 1:3) Þjónar Jehóva ganga í gegnum ýmsa erfiðleika alveg eins og aðrir ófullkomnir menn. (Jobsbók 14:1) Við gætum til dæmis lent í ofsóknum eða öðrum erfiðleikum vegna trúar okkar. (Matteus 5:10-12) En við stöndumst þessar prófraunir með Guðs hjálp alveg eins og heilbrigt tré stendur af sér tiltölulega sterka storma.

14 Tré, sem er gróðursett hjá óþrjótandi vatnslind, skrælnar ekki upp í heitu veðri eða á þurrkatímum. Ef við erum guðrækin getum við sótt styrk til Jehóva Guðs sem er eins og óþrjótandi uppspretta. Páll leitaði hjálpar hjá Guði og sagði: „Allt megna ég fyrir hjálp hans [Jehóva], sem mig styrkan gjörir.“ (Filippíbréfið 4:13) Þegar heilagur andi Jehóva leiðir okkur og styrkir í trúnni visnum við hvorki né verðum ávaxtalaus eða andlega dauð. Við berum ávöxt í þjónustu Guðs og sýnum einnig ávöxt andans. — Jeremía 17:7, 8; Galatabréfið 5:22, 23.

15 Sálmaritarinn bregður upp samlíkingu þegar hann segir: „Hann er sem tré.“ Hann ber saman tvennt sem er ólíkt en hefur samt sameiginleg einkenni. Menn og tré eru ólík en ræktarlegt tré, gróðursett hjá vatnslind, minnti sálmaritarann greinilega á andlega velsæld þeirra sem hafa „yndi af lögmáli Drottins“. Ef við höfum yndi af lögmáli Guðs geta dagar okkar orðið eins og dagar trjánna — við getum lifað að eilífu. — Jóhannes 17:3.

16. Af hverju og að hvaða leyti mun ‚allt sem við gerum lánast okkur‘?

16 Ef við erum ráðvönd hjálpar Jehóva okkur að þola prófraunir og erfiðleika og við verðum glöð og berum ávöxt í þjónustu Guðs. (Matteus 13:23; Lúkas 8:15) ‚Allt sem við gerum lánast okkur‘ af því að meginmarkmið okkar er að gera vilja Jehóva. Við döfnum í trúnni af því að við höfum yndi af boðorðum Jehóva og fyrirætlanir hans ná alltaf fram að ganga. (1. Mósebók 39:23; Jósúabók 1:7, 8; Jesaja 55:11) Þetta á einnig við þegar við mætum mótlæti. — Sálmur 112:1-3; 3. Jóhannesarbréf 2.

Óguðlegum mönnum virðist vegna vel

17, 18. (a) Við hvað líkir sálmaritarinn óguðlegum mönnum? (b) Af hverju hafa óguðlegir menn ekkert varanlegt öryggi þótt þeim vegni vel fjárhagslega?

17 Hlutskipti hinna óguðlegu er svo sannarlega ólíkt hlutskipti hinna réttlátu. Óguðlegum mönnum virðist kannski vegna vel fjárhagslega um tíma en þeir dafna ekki andlega. Það er augljóst af næstu orðum sálmaritarans: „Svo fer eigi hinum óguðlega, heldur sem sáðum, er vindur feykir. Þess vegna munu hinir óguðlegu eigi standast í dóminum og syndugir eigi í söfnuði réttlátra.“ (Sálmur 1:4, 5) Taktu eftir að sálmaritarinn segir: „Svo fer eigi hinum óguðlega.“ Hann á við að hinn óguðlegi sé ekki eins og hinn guðhræddi sem hann er nýbúinn að líkja við frjósamt og langlíft tré.

18 Jafnvel þótt hinum óguðlegu vegni vel fjárhagslega hafa þeir ekkert varanlegt öryggi. (Sálmur 37:16; 73:3, 12) Þeir eru eins og óskynsami ríki maðurinn sem Jesús minntist á í dæmisögu þegar hann var beðinn um að útkljá deilumál í tengslum við arf. Jesús sagði við þá sem voru viðstaddir: „Gætið yðar, og varist alla ágirnd. Enginn þiggur líf af eigum sínum, þótt auðugur sé.“ Hann sagði síðan dæmisögu um ríkan mann sem átti land sem bar svo mikinn ávöxt að hann ákvað að rífa hlöður sínar og reisa aðrar stærri til að geyma öll auðæfi sín. Síðan ætlaði maðurinn að eta og drekka og vera glaður. En Guð sagði: „Heimskingi, á þessari nóttu verður sál þín af þér heimtuð, og hver fær þá það, sem þú hefur aflað?“ Jesús undirstrikaði kennsluna í dæmisögunni með orðunum: „Svo fer þeim er safnar sér fé, en er ekki ríkur hjá Guði.“ — Lúkas 12:13-21.

19, 20. (a) Lýstu kornskurði hér á öldum áður. (b) Af hverju er hinum óguðlegu líkt við hismi?

19 Hinir óguðlegu eru ekki ‚ríkir hjá Guði‘. Þess vegna hafa þeir ekki meira öryggi eða stöðugleika en hismi, þunna lagið utan um kjarna hveitikorns. Eftir kornskurð hér á öldum áður var farið með kornið í láfa eða á þreskivöll, sem var yfirleitt uppi á hæð. Þar drógu dýr sleða yfir kornið. Undir sleðanum voru hvassar stein- eða járntennur sem muldu stilkana og skildu kjarnann frá hisminu. Síðan var varpskófla notuð til að kasta öllu saman upp í loftið á móti vindi. (Jesaja 30:24) Kjarninn féll aftur niður á þreskivöllinn en vindurinn blés stráinu og hisminu í burtu. (Rutarbók 3:2) Þegar kornið hafði verið sigtað til að fjarlægja smásteina og annað þvíumlíkt var hægt að setja það í geymslu eða mala það. (Lúkas 22:31) Hismið var hins vegar horfið.

20 Kjarninn féll sem sagt til jarðar og varðveittist en hismið fauk í burtu. Á sama hátt varðveitast hinir réttlátu en hinir óguðlegu verða fjarlægðir. Það gleður okkur örugglega að illgerðarmenn verði bráðlega horfnir fyrir fullt og allt. Þá njóta þeir sem hafa yndi af lögmáli Jehóva mikillar blessunar. Já, hlýðið mannkyn mun að lokum fá eilíft líf að launum. — Matteus 25:34-46; Rómverjabréfið 6:23.

Blessaður er vegur réttlátra

21. Hvernig þekkir Guð „veg réttlátra“?

21 Fyrsta sálminum lýkur með orðunum: „Því að Drottinn þekkir veg réttlátra, en vegur óguðlegra endar í vegleysu.“ (Sálmur 1:6) Hvernig þekkir Guð „veg réttlátra“? Ef við erum ráðvönd getum við verið viss um að faðir okkar á himnum tekur eftir því að við lifum í samræmi við lög hans og lítur á okkur með velþóknun. Því getum við og eigum að varpa öllum áhyggjum okkar á hann í þeirri vissu að hann beri umhyggju fyrir okkur. — Esekíel 34:11; 1. Pétursbréf 5:6, 7.

22, 23. Hvað verður um hina óguðlegu og hina réttlátu?

22 Vegur réttlátra varir að eilífu en óguðlegir menn, sem láta sér ekki segjast, munu farast þegar Jehóva fellir dóm sinn. Vegur þeirra eða lífsstefna verður að engu eins og þeir sjálfir. Við getum treyst því að orð Davíðs uppfyllist: „Innan stundar eru engir guðlausir til framar, þegar þú gefur gætur að stað þeirra, eru þeir horfnir. En hinir hógværu fá landið til eignar, gleðjast yfir ríkulegri gæfu. Hinir réttlátu fá landið til eignar og búa í því um aldur.“ — Sálmur 37:10, 11, 29.

23 Við munum svo sannarlega njóta mikillar gleði ef við fáum að lifa í paradís á jörð þegar óguðlegir menn verða ekki framar til. Þá njóta hinir hógværu og réttlátu raunverulegs friðar vegna þess að þeir hafa alltaf yndi af lögmáli Jehóva. En áður en það gerist verður „ályktun Drottins“ að ná fram að ganga. (Sálmur 2:7a) Í næstu grein verður útskýrt betur hvaða ályktun það er og hvaða þýðingu hún hefur fyrir okkur og allt mannkynið.

Hvert er svarið?

• Af hverju eru hinir guðhræddu hamingjusamir?

• Hvað er til merkis um að við höfum yndi af lögmáli Jehóva?

• Hvernig er hægt að vera eins og tré sem fær næga vökvun?

• Hver er munurinn á vegi hinna réttlátu og vegi hinna óguðlegu?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 9]

Bænin getur hjálpað okkur að forðast félagsskap við hina óguðlegu.

[Mynd á blaðsíðu 10]

Að hvaða leyti er réttlátur maður eins og tré?