Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Jehóva er ,hæli okkar á neyðartímum‘

Jehóva er ,hæli okkar á neyðartímum‘

Jehóva er ,hæli okkar á neyðartímum‘

„Hjálp réttlátra kemur frá Drottni, hann er hæli þeirra á neyðartímum.“ — SÁLMUR 37:39.

1, 2. (a) Hvaða bæn bar Jesús fram í þágu lærisveina sinna? (b) Hvað ætlast Guð fyrir með fólk sitt?

JEHÓVA er almáttugur. Hann hefur mátt til að vernda trúfasta tilbiðjendur sína á hvern þann hátt sem hann kýs. Hann gæti jafnvel aðskilið fólk sitt bókstaflega frá öðrum í heiminum og sett það í öruggt og friðsamt umhverfi. Hann sagði hins vegar í bæn til föður síns varðandi lærisveina sína: „Ég bið ekki, að þú takir þá úr heiminum, heldur að þú varðveitir þá frá hinu illa.“ — Jóhannes 17:15.

2 Jehóva hefur valið að taka okkur ekki „úr heiminum“. Hann vill að við búum meðal almennings til að kunngera boðskap vonar og huggunnar. (Rómverjabréfið 10:13-15) En eins og Jesús gaf til kynna í bæn sinni lifum við í heimi sem er undir áhrifum ,hins illa‘. Óhlýðið mannkyn og illir andar valda miklum sársauka og þjáningum og kristnir menn fara ekki varhluta af því. — 1. Pétursbréf 5:9.

3. Hvað þurfa jafnvel trúfastir tilbiðjendur Guðs að horfast í augu við en hvaða hughreystingu er að finna í orði hans?

3 Þegar við verðum fyrir slíkum raunum er eðlilegt að okkur fallist hugur um tíma. (Orðskviðirnir 24:10) Biblían hefur að geyma margar frásögur af trúföstum þjónum Guðs sem urðu fyrir þrengingum. „Margar eru raunir réttláts manns,“ segir sálmaritarinn, „en Drottinn frelsar hann úr þeim öllum.“ (Sálmur 34:20) Já, jafnvel hinir réttlátu verða fyrir ýmsum áföllum í lífinu. Ef til vill verðum við stundum ,lémagna og kramin mjög‘ líkt og sálmaritarinn Davíð. (Sálmur 38:9) En það er hughreystandi til að vita að Jehóva „er nálægur þeim er hafa sundurmarið hjarta, þeim er hafa sundurkraminn anda, hjálpar hann“. — Sálmur 34:19; 94:19.

4, 5. (a) Hvað verðum við að gera í samræmi við Orðskviðina 18:10 til að hljóta vernd Guðs? (b) Hvað er mikilvægt að gera til að fá hjálp Guðs?

4 Jehóva gætir okkar svo sannarlega í samræmi við bæn Jesú. Hann er ,hæli okkar á neyðartímum‘. (Sálmur 37:39) Orðskviðirnir nota svipað orðfæri þegar þeir segja: „Nafn Drottins er sterkur turn, þangað hleypur hinn réttláti og er þar óhultur.“ (Orðskviðirnir 18:10) Þessi ritningarstaður lýsir mikilvægum sannleika varðandi umhyggju Jehóva fyrir sköpunarverum sínum. Guð býðst sérstaklega til að vernda hina réttlátu sem leita hans af ákafa, líkt og þeir hlaupi inn í sterkan turn til að fá skjól.

5 Hvernig getum við hlaupið til Jehóva og leitað verndar þegar erfiðleikar þjaka okkur? Skoðum þrennt sem er mikilvægt að gera til að fá hjálp Jehóva. Í fyrsta lagi verðum við að leita til föður okkar á himnum í bæn. Í öðru lagi ættum við að vinna í samræmi við heilagan anda hans. Og í þriðja lagi verðum við að sækjast eftir félagsskap trúsystkina okkar eins og Jehóva vill að við gerum, en þau geta linað þjáningar okkar.

Máttur bænarinnar

6. Hvernig líta kristnir menn á bænina?

6 Sumir sálfræðingar mæla með bæn til að meðhöndla þunglyndi og streitu. Hljóð bænastund getur vissulega dregið úr streitu en það sama má segja um viss náttúruhljóð og jafnvel nudd. Sannkristnir menn líta ekki aðeins á bænina sem huglæga slökun. Við lítum svo á að við eigum samskipti við sjálfan skaparann þegar við biðjum. Auðmjúk bæn er merki um trú og traust á Guði. Já, bænin er hluti af tilbeiðslu okkar.

7. Hvað merkir það að biðja til Guðs með trúartrausti og hvernig hjálpa slíkar bænir okkur að takast á við erfiðleika?

7 Bænir okkar verða að bera þess vott að við treystum á Jehóva. Jóhannes postuli skrifaði: „Þetta er sú djörfung, sem vér höfum til hans: Ef vér biðjum um eitthvað eftir hans vilja, þá heyrir hann oss.“ (1. Jóhannesarbréf 5:14) Þó að Jehóva sé hinn hæsti, hinn eini sanni og almáttugi Guð, gefur hann einlægum bænum tilbiðjenda sinna sérstakan gaum. Það eitt að vita að ástríkur Guð hlustar þegar við tjáum honum áhyggjur okkar og vandamál er hughreystandi. — Filippíbréfið 4:6.

8. Hvers vegna ættu trúfastir kristnir menn aldrei að vera feimnir við að nálgast Jehóva í bæn eða finnast þeir óverðugir þess?

8 Trúfastir kristnir menn ættu aldrei að vera feimnir, huglitlir eða finnast þeir óverðugir þegar þeir biðja til Jehóva. En þegar við erum óánægð með sjálf okkur eða að sligast undan vandamálum langar okkur kannski ekki alltaf til að nálgast Jehóva í bæn. Þegar þannig er ástatt ættum við að hafa hugfast að Jehóva „auðsýnir miskunn sínum þjáðu“ og að hann „huggar hina beygðu“. (Jesaja 49:13; 2. Korintubréf 7:6) Við þurfum einkanlega að treysta himneskum föður okkar og leita athvarfs hjá honum þegar áhyggjur og erfiðleikar leggjast á okkur.

9. Hver er þáttur trúar í bænum okkar til Guðs?

9 Við verðum að hafa ósvikna trú til að hafa fullt gagn af bæninni. Biblían segir að ,sá, sem gengur fram fyrir Guð, verði að trúa því, að hann sé til og að hann umbuni þeim, er hans leita‘. (Hebreabréfið 11:6) Trú er meira en að viðurkenna að Guð „sé til“. Ósvikin trú felur í sér að maður treysti því staðfastlega að Guð bæði geti og vilji umbuna okkur fyrir að hlýða sér stöðuglega. „Augu Drottins eru yfir hinum réttlátu og eyru hans hneigjast að bænum þeirra.“ (1. Pétursbréf 3:12) Bænir okkar hafa sérstaka merkingu ef við erum okkur stöðugt meðvita um að Jehóva ber umhyggju fyrir okkur.

10. Með hvaða hugarfari verðum við að biðja til að fá andlegan styrk frá Jehóva?

10 Jehóva hlustar þegar við biðjum til hans af heilu hjarta. Sálmaritarinn skrifaði: „Ég kalla af öllu hjarta, bænheyr mig, Drottinn.“ (Sálmur 119:145) Ólíkt bænaþulum margra trúarbragða eru bænir okkar ekki eins og hvert annað vanaverk. Þegar við biðjum til Jehóva af „öllu hjarta“ eru bænir okkar innihaldsríkar og hafa tilgang. Eftir að hafa beðið einlæglega til Jehóva finnum við fyrir þeim létti sem er samfara því að ,varpa áhyggjum okkar á hann‘. Biblían lofar að ,hann muni bera umhyggju fyrir‘ okkur. — Sálmur 55:23; 1. Pétursbréf 5:6, 7.

Andi Guðs er hjálpari okkar

11. Á hvaða hátt svarar Jehóva stundum bænum okkar þegar við höldum áfram að biðja hann um hjálp?

11 Jehóva heyrir ekki aðeins bænir heldur svarar hann þeim líka. (Sálmur 65:3) Davíð skrifaði: „Þegar ég er í nauðum staddur ákalla ég þig, því að þú bænheyrir mig.“ (Sálmur 86:7) Jesús hvatti þess vegna lærisveina sína til að halda áfram að „biðja“ um hjálp Jehóva þar sem ,faðirinn himneski‘ myndi „gefa þeim heilagan anda, sem biðja hann“. (Lúkas 11:9-13) Já, starfskraftur Guðs er hjálpari eða huggari þjóna hans. — Jóhannes 14:16.

12. Hvernig getur andi Guðs hjálpað okkur þegar vandamálin virðast ætla að buga okkur?

12 Andi Guðs getur veitt okkur „ofurmagn kraftarins“ jafnvel þegar við glímum við prófraunir. (2. Korintubréf 4:7) Páll postuli, sem gekk í gegnum margar erfiðar raunir, sagði með trúartrausti: „Allt megna ég fyrir hjálp hans, sem mig styrkan gjörir.“ (Filippíbréfið 4:13) Nú á dögum hafa margir kristnir menn líka fundið hvernig Jehóva hefur svarað auðmjúkum áköllum þeirra og endurnýjað andlegan og tilfinningalegan styrk þeirra. Þegar við fáum hjálp anda Guðs virðast erfið vandamál oft ekki eins yfirþyrmandi. Þar sem Guð styrkir okkur á þennan hátt getum við tekið undir orð postulans: „Á allar hliðar erum vér aðþrengdir, en þó ekki ofþrengdir, vér erum efablandnir, en örvæntum þó ekki, ofsóttir, en þó ekki yfirgefnir, felldir til jarðar, en tortímumst þó ekki.“ — 2. Korintubréf 4:8, 9.

13, 14. (a) Hvernig hefur Jehóva reynst okkur athvarf fyrir milligöngu orðs síns? (b) Hvaða gagn hefur þú haft af því að fara eftir meginreglum Biblíunnar?

13 Heilagur andi hefur einnig innblásið orð Guðs og varðveitt það okkur til gagns. Hvernig hefur Jehóva beitt orði sínu til að vera okkur athvarf í erfiðleikum? Meðal annars með því að veita okkur visku og gætni. (Orðskviðirnir 3:21-24) Biblían þjálfar skilningarvit okkar og rökhugsun. Við getum „tamið skilningarvitin til að greina gott frá illu“ með því að lesa og nema orð Guðs reglulega, ásamt því að sýna í verki það sem við lærum. (Hebreabréfið 5:14) Ef til vill þekkirðu af eigin raun hvernig meginreglur Biblíunnar hafa hjálpað þér að taka viturlegar ákvarðanir þegar erfiðleikar hafa komið upp. Biblían veitir okkur hyggindi svo að við getum fundið raunhæfa lausn á erfiðum vandamálum. — Orðskviðirnir 1:4.

14 Orð Guðs er okkur líka til styrktar á annan hátt — það veitir okkur von um hjálpræði. (Rómverjabréfið 15:4) Í Biblíunni er okkur sagt að þjáningar og böl muni ekki halda áfram um alla eilífð. Raunir okkar eru tímabundnar, hverjar sem þær eru. (2. Korintubréf 4:16-18) Við höfum „von um eilíft líf. Því hefur Guð, sá er ekki lýgur, heitið frá eilífum tíðum.“ (Títusarbréfið 1:2) Ef við gleðjumst yfir þessari von og höfum loforð Jehóva um bjarta framtíð stöðugt í huga getum við verið þolgóð í þrengingum. — Rómverjabréfið 12:12; 1. Þessaloníkubréf 1:3.

Söfnuðurinn — merki um kærleika Guðs

15. Hvernig geta kristnir menn gert öðrum gott?

15 Félagsskapurinn í kristna söfnuðinum er önnur gjöf frá Jehóva sem getur hjálpað okkur á neyðartímum. Biblían segir: „Vinur elskar ætíð og í nauðum er hann sem bróðir.“ (Orðskviðirnir 17:17) Orð Guðs hvetur alla í söfnuðinum til að sýna hver öðrum kærleika og virðingu. (Rómverjabréfið 12:10) „Enginn hyggi að eigin hag, heldur hag annarra,“ skrifaði Páll postuli. (1. Korintubréf 10:24) Slíkt hugarfar auðveldar okkur að hugsa frekar um þarfir annarra en eigin raunir. Þegar við gefum öðrum af sjálfum okkur erum við ekki aðeins að styrkja þá heldur njótum við sjálf gleði og ánægju sem hjálpar okkur að bera eigin byrðar. — Postulasagan 20:35.

16. Hvernig geta allir í söfnuðinum uppörvað hver annan?

16 Andlega þroskaðir karlar og konur geta átt stóran þátt í að styrkja aðra með því vera viðmótsgóð og tiltæk. (2. Korintubréf 6:11-13) Söfnuðurinn nýtur góðs af þegar allir taka sér tíma til að hrósa börnunum, styrkja þá nýju og hughreysta niðurdregna. (Rómverjabréfið 15:7) Bróðurkærleikurinn forðar okkur einnig frá því að tortryggja hvert annað. Við ættum ekki að vera fljót að álykta sem svo að erfiðleikar einhvers séu merki þess að hann sé veikur í trúnni. Páll hvetur kristna menn réttilega til að ,hughreysta ístöðulitla‘ eða niðurdregna. (1. Þessaloníkubréf 5:14) Biblían bendir á að trúfastir kristnir menn geti orðið fyrir mótlæti eins og allir aðrir. — Postulasagan 14:15.

17. Hvaða tækifæri höfum við til að styrkja vináttuböndin innan kristna bræðrafélagsins?

17 Á samkomum gefst okkur kjörið tækifæri til að hugga og uppörva hvert annað. (Hebreabréfið 10:24, 25) En þessi kærleiksverk eru ekki bundin við safnaðarsamkomur. Fólk Guðs leitast líka við að hittast og eiga heilnæman félagsskap við önnur tækifæri. Þegar erfiðleika ber að garði komum við hvert öðru fljótt til hjálpar vegna þess að sterk vináttubönd hafa myndast. Páll postuli skrifaði: „[Ekki skal vera] ágreiningur í líkamanum, heldur [skulu] limirnir bera sameiginlega umhyggju hver fyrir öðrum. Og hvort heldur einn limur þjáist, þá þjást allir limirnir með honum, eða einn limur er í hávegum hafður, samgleðjast allir limirnir honum.“ — 1. Korintubréf 12:25, 26.

18. Hvaða tilhneigingu ættum við að varast þegar við erum langt niðri?

18 Stundum getum við verið svo langt niðri að okkur finnst erfitt að hitta trúsystkini okkar. Við ættum að berjast gegn þess konar tilfinningum til að fara ekki á mis við þá huggun og þann stuðning sem trúsystkini geta veitt okkur. Biblían aðvarar: „Sérlyndur maður [„sá sem einangrar sig,“ NW] fer að sínum munum, hann illskast við öllu, sem hyggilegt er.“ (Orðskviðirnir 18:1) Bræður okkar og systur eru merki um kærleika Guðs til okkar. Ef við viðurkennum þessa kærleiksríku gjöf eigum við auðveldara með að takast á við erfiðleika.

Vertu jákvæður

19, 20. Hvernig hjálpar Biblían okkur að forðast neikvæðar hugsanir?

19 Þegar við verðum niðurdreginn og sorgmædd er auðvelt að láta hugann dvelja við neikvæðar hugsanir. Í erfiðleikum eða andstreymi gætu sumir farið að efast um að þeir séu nógu sterkir í trúnni og ályktað sem svo að erfiðleikarnir séu merki um vanþóknun Guðs. En mundu að Jehóva reynir engan með „hinu illa“. (Jakobsbréfið 1:13) „Ekki langar [Guð] til að þjá né hrella mannanna börn,“ segir Biblían. (Harmljóðin 3:33) Jehóva er hryggur þegar þjónar hans þjást. — Jesaja 63:8, 9; Sakaría 2:12.

20 Jehóva er „faðir miskunnsemdanna og Guð allrar huggunar“. (2. Korintubréf 1:3) Hann ber umhyggju fyrir okkur og mun upphefja okkur þegar þar að kemur. (1. Pétursbréf 5:6, 7) Ef við höfum stöðugt í huga hve annt Guði er um okkur eigum við auðveldara með að vera jákvæð og jafnvel fagna. Jakob skrifaði: „Álítið það, bræður mínir, eintómt gleðiefni, er þér ratið í ýmiss konar raunir.“ (Jakobsbréfið 1:2) Hvers vegna? Hann svarar: „Þegar hann hefur reynst hæfur mun hann öðlast kórónu lífsins, sem Guð hefur heitið þeim er elska hann.“ — Jakobsbréfið 1:12.

21. Hvaða tryggingu veitir Guð þeim sem eru honum trúfastir óháð erfiðleikunum sem koma upp?

21 Jesús varaði okkur við því að við myndum ganga í gegnum þrengingar í heiminum. (Jóhannes 16:33) En í Biblíunni er okkur lofað að engin ,þjáning eða þrenging, ofsókn, hungur eða nekt‘ geti gert okkur viðskila við kærleika Jehóva og sonar hans. (Rómverjabréfið 8:35, 39) Það er hughreystandi að vita til þess að allir erfiðleikar, sem við megum þola, eru tímabundnir. En meðan við bíðum þess að þjáningar taki enda mun Jehóva, kærleiksríkur faðir okkar, gæta okkar. Ef við hlaupum til hans og leitum verndar hans reynist hann ,vígi hinum kúguðu, vígi á neyðartímum‘. — Sálmur 9:10.

Hvað lærðum við?

• Við hverju ættu kristnir menn að búast í þessum óguðlega heimi?

• Hvernig getur bænin styrkt okkur í raunum?

• Hvernig er andi Guðs hjálpari?

• Hvernig getum við verið hvert öðru til hjálpar?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 24]

Við verðum að leita Jehóva eins og við værum að hlaupa inn í sterkan turn.

[Myndir á blaðsíðu 26]

Þeir sem eru þroskaðir í trúnni nota hvert tækifæri til að hrósa og uppörva.