Kraftaverk Jesú — hvað segir Biblían?
Kraftaverk Jesú — hvað segir Biblían?
ÞAÐ kemur þér kannski á óvart að í frásögum Biblíunnar af jarðneskri ævi Jesú er aldrei notað frummálsorðið yfir „kraftaverk“. Gríska orðið dyʹnamis, sem stundum er þýtt „kraftaverk“, merkir bókstaflega „kraftur“. (Lúkas 8:46) Einnig er hægt að nota það í merkingunni „hæfni“. (Matteus 25:15) Þetta gríska orð „leggur áherslu á hið máttuga verk sem hefur verið unnið og sérstaklega kraftinn sem fólst í framkvæmdinni“, samkvæmt því sem fræðimaður segir. „Atburðinum er lýst með sérstakri áherslu á kraft Guðs að verki.“
Annað grískt orð (teʹras) er venjulega þýtt „stórmerki“ eða „undur“. (Jóhannes 4:48; Postulasagan 2:19) Orðið beinir athyglinni að áhrifunum á viðstadda. Mannfjöldinn og lærisveinarnir urðu oft furðu lostnir og agndofa yfir kraftaverkum Jesú. — Markús 2:12; 4:41; 6:51; Lúkas 9:43.
Þriðja gríska orðið (semeiʹon), sem notað er um kraftaverk Jesú, merkir „tákn“. Það „beinist að dýpri merkingu kraftaverksins“, að sögn fræðimannsins Roberts Deffinbaughs. Hann bætir við: „Tákn er kraftaverk sem segir sannleikann um Drottin Jesú.“
Blekking eða kraftur frá Guði?
Í Biblíunni er ekki sagt að kraftaverk Jesú hafi verið brellur eða blekkingar sem voru ætluð fólki til skemmtunar. Þau voru vitnisburður um „veldi Guðs“ eins og kom fram þegar Jesús rak út illan anda úr andsetnum dreng. (Lúkas 9:37-43) Hlýtur ekki almáttugur Guð að geta gert slík kraftaverk, hann sem er sagður hafa ‚mikilleik kraftarins‘? (Jesaja 40:26) Að sjálfsögðu.
Guðspjöllin segja frá nálægt 35 kraftaverkum Jesú en ekki er vitað um heildarfjölda þeirra. Í Matteusi 14:14 segir til dæmis: „Sá hann þar mikinn mannfjölda, og hann kenndi í brjósti um þá og læknaði þá af þeim, er sjúkir voru.“ Það fylgir ekki sögunni hve marga hann læknaði í það skiptið.
Máttarverk sem þessi voru nauðsynleg til að styðja þá fullyrðingu Jesú að hann væri sonur Guðs, hinn fyrirheitni Messías. Biblían staðfesti vissulega að kraftur frá Guði gerði Jesú kleift að gera kraftaverk. Eins og Pétur postuli sagði var Jesús „maður, sem Guð sannaði yður með kraftaverkum, undrum og táknum, er Guð lét hann gjöra meðal yðar, eins og þér sjálfir vitið“. (Postulasagan 2:22) Við annað tækifæri benti Pétur á að Guð hafi smurt ‚Jesú heilögum anda og krafti. Hann hafi gengið um, gjört gott og grætt alla, sem af djöflinum voru undirokaðir, því Guð var með honum.‘ — Postulasagan 10:37, 38.
Markúsi 1:21-27 er sagt frá því hvernig mannfjöldinn brást við kennslu hans og einu af kraftaverkunum sem hann gerði. Í Markúsi 1:22 kemur fram að ‚menn hafi undrast mjög kenningu hans‘ og vers 27 bendir á að allir hafi orðið ‚felmtri slegnir‘ þegar hann rak út illan anda. Bæði kraftaverk Jesú og kenningar sönnuðu að hann væri hinn fyrirheitni Messías.
Kraftaverk Jesú voru samtvinnuð boðskap hans. ÍJesús sagðist ekki aðeins vera Messías. Krafturinn frá Guði, sem kom fram í kraftaverkunum, sannaði ásamt orðum hans og verkum að hann væri í raun Messías. Þegar spurningar vöknuðu um hlutverk hans og starfsumboð svaraði Jesús djarfmannlega: „Ég hef þann vitnisburð, sem er meiri en Jóhannesar [skírara], því verkin, sem faðir minn fékk mér að fullna, verkin, sem ég vinn, bera mér það vitni, að faðirinn hefur sent mig.“ — Jóhannes 5:36.
Trúverðugleiki
Hvers vegna getum við verið viss um að kraftaverk Jesú hafi verið ósvikin og raunveruleg? Lítum á nokkur sannindamerki.
Þegar Jesús gerði kraftaverk dró hann aldrei athyglina að sjálfum sér. Hann gætti þess ávallt að Guð hlyti heiðurinn af þeim öllum. Áður en Jesús læknaði blindan mann lagði hann til að mynda áherslu á að lækningin færi fram ‚til þess að verk Guðs yrðu opinber á honum‘. — Jóhannes 9:1-3; 11:1-4.
Jesús notaði aldrei dáleiðslu, brögð, sjónhverfingar, töfraþulur né tilfinningaþrungnar athafnir eins og sjónhverfingamenn, töframenn og trúarlæknar nota. Hann notfærði sér aldrei hjátrú né notaði hann helga dóma. Tökum eftir hve lítið Jesús lét yfir sér þegar hann læknaði tvo blinda menn. „Jesús kenndi í brjósti um þá,“ segir í frásögunni og „snart augu þeirra. Jafnskjótt fengu þeir sjónina og fylgdu honum.“ (Matteus 20:29-34) Engir helgisiðir, engin athöfn né áberandi sjónarspil var til staðar. Jesús gerði kraftaverkin fyrir opnum tjöldum, oft í margra augsýn. Hann notaði ekki sérstaka lýsingu, sviðsetningu eða leikmuni. Hins vegar er oft erfitt að sanna að kraftaverk, sem eiga að hafa gerst nú á tímum, hafi átt sér stað. — Markús 5:24-29; Lúkas 7:11-15.
Jesús vissi að sumir þeirra sem nutu góðs af kraftaverkum hans höfðu trú. Vantrú fólks hindraði hann samt ekki í að framkvæma kraftaverk. Þegar hann var í Kapernaum í Galíleu „færðu menn til hans marga, er haldnir voru illum öndum. Illu andana rak hann út með orði einu, og alla þá, er sjúkir voru, læknaði hann.“ — Matteus 8:16.
Kraftaverk Jesú voru framkvæmd til að fullnægja raunverulegum þörfum fólks en ekki til að seðja forvitni þess. (Markús 10:46-52; Lúkas 23:8) Og aldrei gerði hann kraftaverk til þess að hagnast á nokkurn hátt á því sjálfur. — Matteus 4:2-4; 10:8.
Eru guðspjöllin áreiðanleg?
Það eru guðspjöllin fjögur sem greina frá kraftaverkum Jesú. Er ástæða til að treysta því sem þar stendur þegar við leitum svara við því hvort kraftaverkin, sem eignuð eru Jesú, hafi átt sér stað? Já, það er full ástæða til þess.
Eins og þegar hefur verið vikið að voru kraftaverk Jesú framkvæmd fyrir opnum tjöldum, fyrir framan marga sjónarvotta. Elstu guðspjöllin voru skrifuð á þeim tíma þegar flestir þessara sjónarvotta voru enn á lífi. Í bókinni The Miracles and the Resurrection er sagt um heiðarleika guðspjallaritaranna: „Það væri í meira lagi ósanngjarnt að saka guðspjallamennina um að kæfa meðvitað, í þágu trúaráróðurs, sögulegar staðreyndir með frásögum af ímynduðum kraftaverkum. . . . Þeir vildu segja satt og rétt frá.“
Þótt Gyðingar væru á móti kristinni trú véfengdu þeir aldrei kraftaverkin sem sagt er frá í guðspjöllunum. Þeir véfengdu einungis að þau væru gerð í krafti Guðs. (Markús 3:) Síðari tíma gagnrýnendur gátu ekki heldur afneitað kraftaverkum Jesú. Á fyrstu og annarri öld var þvert á móti vitnað í frásögur af kraftaverkum sem hann gerði. Greinilega bendir allt til þess að frásagnir Biblíunnar af þeim séu áreiðanlegar. 22-26
Maðurinn að baki kraftaverkunum
Rannsókn á máttarverkum Jesú yrði mjög endaslepp ef hún ætti aðeins að byggjast á rökræðum um áreiðanleika þeirra. Þegar sagt er frá kraftaverkum Jesú birtist í guðspjöllunum lýsing á manni sem ber sterkar tilfinningar í brjósti og er framúrskarandi hluttekningarsamur, manni sem hefur einlægan áhuga á velferð annarra.
Lítum á líkþráa manninn sem kom grátbiðjandi að máli við Jesú: „Ef þú vilt, getur þú hreinsað mig.“ Jesús „kenndi í brjósti um manninn“, rétti út höndina, snerti hann og sagði: „Ég vil, verð þú hreinn!“ Maðurinn læknaðist samstundis. (Markús 1:40-42) Samúð Jesú knúði hann til að nota kraftinn, sem Guð gaf honum, til að vinna kraftaverk.
Hvað átti sér stað þegar Jesús mætti líkfylgd á leið út úr borginni Nain? Hinn látni var einkasonur ekkju. „Hann [Jesús] kenndi í brjósti um“ hana, gekk til hennar og sagði: „Grát þú eigi!“ Síðan reisti hann son hennar upp frá dauðum. — Lúkas 7:11-15.
Kraftaverk Jesú bera með sér að hann hafi ‚kennt í brjósti um‘ fólk og hjálpað því, og það er hughreystandi. Slík kraftaverk heyra ekki einungis fortíðinni til. Í Hebreabréfinu 13:8 segir: „Jesús Kristur er í gær og í dag hinn sami og um aldir.“ Hann ríkir nú sem himneskur konungur, tilbúinn og hæfur til að nota kraftinn frá Guði til að framkvæma miklu víðtækari kraftaverk en þegar hann var á jörðinni sem maður. Bráðlega mun Jesús lækna hlýðið mannkyn með kraftaverkum. Vottar Jehóva hefðu ánægju af því að hjálpa þér að kynnast nánar þessum björtu framtíðarhorfum.
[Mynd á blaðsíðu 4, 5]
Kraftaverk Jesú birtu „veldi Guðs“.
[Mynd á blaðsíðu 7]
Jesús bar sterkar tilfinningar í brjósti.