Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Höfuðþættir 5. Mósebókar

Höfuðþættir 5. Mósebókar

Orð Jehóva er lifandi

Höfuðþættir 5. Mósebókar

ÞETTA er árið 1473 f.o.t. Fjörutíu ár eru liðin síðan Ísraelsmenn voru frelsaðir úr ánauðinni í Egyptalandi. Allan þennan tíma hafa þeir verið í eyðimörkinni og eru enn þá landlaus þjóð. En nú standa þeir loksins á þröskuldi fyrirheitna landsins. Þeirra bíður það verkefni að leggja það undir sig. Við hverju mega þeir búast? Hvaða erfiðleikar eru fram undan og hvernig eiga þeir að sigrast á þeim?

Áður en Ísraelsmenn fara yfir Jórdan inn í Kanaanland býr Móse þá undir hið mikla og erfiða verk sem fram undan er. Hann flytur nokkrar ræður til að hvetja þjóðina, uppörva, áminna og aðvara. Hann minnir Ísraelsmenn á að Jehóva Guð krefjist óskiptrar hollustu og að þeir megi ekki líkja eftir þjóðunum umhverfis. Ræður Móse eru uppistaða 5. Mósebókar. Leiðbeiningar hans eiga fullt erindi til okkar því að við búum líka í heimi þar sem það er engan veginn auðvelt að sýna Jehóva óskipta hollustu. — Hebreabréfið 4:12.

Bókin spannar rétt rúmlega tveggja mánaða tímabil og er skrifuð af Móse, ef frá er talinn síðasti kaflinn. * (5. Mósebók 1:3; Jósúabók 4:19) Við skulum kanna hvernig efni bókarinnar hvetur okkur til að elska Jehóva Guð af öllu hjarta og þjóna honum dyggilega.

‚GLEYMDU EKKI ÞVÍ SEM ÞÚ HEFUR SÉÐ MEÐ EIGIN AUGUM‘

(5. Mósebók 1:1–4:49)

Í fyrstu ræðunni segir Móse frá sumu af því sem gerðist í eyðimörkinni, einkum því sem getur orðið Ísraelsmönnum að gagni þegar þeir búa sig undir að taka fyrirheitna landið. Frásagan af skipun dómaranna hlýtur að hafa minnt þá á umhyggju Jehóva fyrir þjóðinni. Móse segir frá því hvernig neikvæð lýsing njósnaranna tíu leiddi til þess að kynslóðin á undan fékk ekki að ganga inn í fyrirheitna landið. Þú getur rétt ímyndað þér þau áhrif sem þetta dæmi hlýtur að hafa haft á áheyrendur Móse þar sem þeir horfðu yfir til fyrirheitna landsins.

Móse rifjar upp hvernig Jehóva hefur veitt Ísraelsmönnum marga sigra áður en þeir fara yfir Jórdan. Það hlýtur að hafa aukið þeim kjark meðan þeir biðu þess að hefja landvinningana hinum megin árinnar. Skurðgoðadýrkun var mikil í landinu sem þeir voru í þann mund að taka til eignar. Það var því ástæða fyrir Móse til að vara þá alvarlega við skurðgoðadýrkun.

Biblíuspurningar og svör:

2:4-6, 9, 19, 24, 31-35; 3:1-6 — Hvers vegna útrýmdu Ísraelsmenn sumum þjóðum austan Jórdanar en öðrum ekki? Jehóva sagði þeim að eiga ekki í átökum við afkomendur Esaús vegna þess að þeir voru bræðraþjóð Ísraels. Þeir áttu ekki að gera Móabítum eða Ammónítum mein og ekki heyja stríð við þá því að þjóðirnar voru afkomendur Lots, bróðursonar Abrahams. Amorítakonungarnir Síhon og Óg áttu hins vegar ekkert tilkall til landsins sem þeir réðu yfir. Þegar Síhon synjaði Ísraelsmönnum um leyfi til að fara um landið og Óg lagði í bardaga gegn þeim skipaði Jehóva Ísraelsmönnum að eyða borgum þeirra og skilja engan eftir á lífi.

4:15-20, 23, 24 — Nú var bannað að ‚búa til skurðgoð í mynd einhvers líkneskis‘. Má þá álykta að það sé rangt að búa til höggmyndir eða styttur til skrauts? Nei, en það var bannað að gera styttur til að tilbiðja og ‚falla fram fyrir þeim og dýrka þær‘. Biblían bannar ekki að gerðar séu höggmyndir eða málverk í listrænum tilgangi. — 1. Konungabók 7:18, 25.

Lærdómur:

1:2, 19. Ísraelsmenn reikuðu um eyðimörkina í 38 ár, þó að ekki væru nema „ellefu dagleiðir frá Hóreb [fjöllunum umhverfis Sínaífjall þar sem boðorðin tíu voru gefin] til Kades Barnea, þegar farin er leiðin, sem liggur til Seírfjalla“. Það reyndist þeim dýrkeypt að óhlýðnast Jehóva Guði. — 4. Mósebók 14:26-34.

1:16, 17. Guð dæmir eftir sama mælikvarða núna. Þeir sem falið er að sitja í dómnefnd mega ekki gera sér mannamun í dómum eða láta ótta við menn rugla dómgreind sína.

4:9. Ísraelsmenn urðu að gæta þess vandlega að ‚gleyma ekki því sem þeir höfðu séð með eigin augum‘. Það var forsenda þess að þeim vegnaði vel. Nú er nýi heimurinn í nánd og við verðum að gæta þess að vera duglegir biblíunemendur til að hafa dásemdarverk hans alltaf fyrir hugskotssjónum.

ELSKAÐU JEHÓVA OG HLÝDDU BOÐORÐUM HANS

(5. Mósebók 5:1–26:19)

Í annarri ræðu sinni rifjar Móse upp hvernig lögmálið var gefið við Sínaífjall og endurtekur boðorðin tíu. Nafngreindar eru sjö þjóðir sem á að útrýma. Ísraelsmenn eru minntir á mikilvæga lexíu sem þeir lærðu í eyðimörkinni: „Maðurinn lifir eigi á einu saman brauði, heldur . . . á sérhverju því, er fram gengur af munni Drottins.“ Þeir verða að ‚varðveita allar skipanir‘ Guðs við hinar nýju aðstæður sem taka við. — 5. Mósebók 8:3; 11:8.

Þegar Ísraelsmenn setjast að í fyrirheitna landinu þurfa þeir ekki aðeins lög um tilbeiðslu sína heldur einnig um dóma, stjórnarfar, hernað, daglegt þjóðlíf og einkalíf. Móse rifjar upp þessi lög og leggur áherslu á að þeir þurfi að elska Jehóva og hlýða boðorðum hans.

Biblíuspurningar og svör:

8:3, 4 — Með hvaða hætti var það að föt Ísraelsmanna slitnuðu ekki og fætur þeirra þrútnuðu ekki á eyðimerkurgöngunni? Þetta var kraftaverk, rétt eins og himnabrauðið manna sem þeir fengu jafnt og þétt. Ísraelsmenn notuðu sömu fötin og skófatnaðinn og þeir klæddust þegar þeir hófu eyðimerkurgönguna, og sennilega hafa þau gengið frá manni til manns eftir því sem börnin stækkuðu og fullorðnir dóu. Manntölin tvö, sem tekin voru við upphaf göngunnar og við lok hennar, sýna að Ísraelsmönnum hafði ekki fjölgað þannig að sá fatnaður og skór, sem var til í upphafi, hefur nægt þjóðinni. — 4. Mósebók 2:32; 26:51.

14:21 — Nú máttu Ísraelsmenn ekki borða kjöt af skepnu sem ekki hafði verið blóðguð. Hvers vegna máttu þeir gefa það útlendum manni eða selja það aðkomumanni? Heitið ‚útlendur maður‘ var bæði notað um útlenda menn sem tóku gyðingatrú og útlenda menn sem lifðu í meginatriðum eftir landslögum en gerðust ekki tilbiðjendur Jehóva. Aðkomumenn og útlendir menn, sem tóku ekki gyðingatrú, voru ekki bundnir af lögmálinu og gátu notað óblóðgaðar skepnur með ýmsum hætti. Ísraelsmenn máttu selja eða gefa þeim slík dýr. Trúskiptingar voru hins vegar bundnir af lagasáttmálanum. Eins og fram kemur í 3. Mósebók 17:10 máttu þeir ekki neyta blóðs úr nokkru dýri.

24:6 — Hvers vegna var það að taka „kvörn eða efri kvarnarstein að veði“ sambærilegt við að taka „líf“ manns að veði? Kvörn og efri kvarnarsteinn táknaði „líf“ mannsins eða lífsviðurværi. Með því að taka annað hvort að veði var verið að taka hið daglega brauð frá allri fjölskyldunni.

25:9 — Ef maður neitaði að gegna þeirri skyldu að ganga að eiga ekkju bróður síns átti ekkjan að draga skóinn af fæti hans og hrækja framan í hann. Hvað þýddi það? „Það var fyrrum siður í Ísrael við endurlausn . . . að annar tók af sér skóinn og fékk hinum.“ (Rutarbók 4:7) Með því að draga skóinn af fæti manns, sem vildi ekki gegna mágskyldu, var staðfest að hann hafði afsalað sér þeirri stöðu og rétti að afla látnum bróður sínum erfingja. Það þótti skammarlegt. (5. Mósebók 25:10) Og það var auðmýkjandi að láta hrækja framan í sig. — 4. Mósebók 12:14.

Lærdómur:

6:6-9. Ísraelsmönnum var fyrirskipað að þekkja lögmálið. Við verðum sömuleiðis að kunna boðorð Guðs utan að, hafa þau alltaf að leiðarljósi og brýna þau fyrir börnum okkar. Við verðum að ‚binda þau til merkis á hönd okkar‘ í þeirri merkingu að verk okkar, sem við vinnum með höndunum, verða að sýna að við erum Jehóva hlýðin. Og hlýðnin þarf að vera öllum augljós, rétt eins og ‚minningarband á milli augna okkar‘.

6:16. Við skulum aldrei freista Jehóva eins og Ísraelsmenn gerðu í trúleysi í Massa þar sem þeir mögluðu yfir því að þá skorti vatn. — 2. Mósebók 17:1-7.

8:11-18. Efnishyggja getur valdið því að við gleymum Jehóva.

9:4-6. Við verðum að varast að láta eins og við séum betri en aðrir.

13:6. Við megum ekki láta nokkurn mann ginna okkur frá því að tilbiðja Jehóva.

14:1. Sjálfsmeiðingar lýsa vanvirðingu fyrir mannslíkamanum og eru stundum tengdar falstrúarbrögðum. Slíkt ber að forðast. (1. Konungabók 18:25-28) Vegna upprisuvonarinnar er óviðeigandi að syrgja látna með slíkum öfgum.

20:5-7; 24:5. Taka ber tillit til sérstakra aðstæðna fólks, jafnvel þó að aðkallandi verkefni sé fyrir höndum.

22:23-27. Ef reynt er að nauðga konu er áhrifaríkasta vörnin sú að hrópa hátt.

„VELDU ÞÁ LÍFIГ

(5. Mósebók 27:1–34:12)

Í þriðju ræðunni segir Móse að Ísraelsmenn eigi að rita lögmálið á stóra steina þegar þeir eru komnir yfir Jórdan. Þeir eiga jafnframt að lýsa bölvun á hendur þeim sem óhlýðnast og blessun handa þeim sem hlýða. Fjórða ræðan hefst á því að Móse endurnýjar sáttmálann milli Jehóva og Ísraels. Hann varar enn og aftur við óhlýðni og hvetur þjóðina til að ‚velja lífið‘. — 5. Mósebók 30:19.

Auk þess að flytja ræðurnar fjórar fjallar Móse um breytingu á forystu fyrir þjóðinni. Hann kennir henni fallegan lofsöng til Jehóva og varar við ógæfunni sem hljótist af ótrúmennsku. Eftir að hafa blessað ættkvíslirnar deyr Móse og er grafinn 120 ára að aldri. Hann er syrgður í 30 daga sem er næstum helmingur þess tíma sem 5. Mósebók spannar.

Biblíuspurningar og svör:

32:13, 14 — Nú var Ísraelsmönnum bannað að borða nokkra fitu. Hvað er þá átt við þegar talað er um að þeir hafi borðað ‚feitt kjöt af hrútum‘? Þetta er táknmál sem merkir hið besta af hjörðinni. Annars staðar í versinu er talað um „nýrnafeiti hveitisins“ og „þrúgnablóð“ sem bendir til að hér sé notað skáldamál.

33:1-29 — Hvers vegna var ekki minnst sérstaklega á Símeon í blessunarorðum Móse til Ísraelsmanna? Það stafar af því að Símeon og Leví höfðu báðir sýnt af sér ‚ramma bræði‘ og ‚grimmd‘. (1. Mósebók 34:13-31; 49:5-7) Þeir hlutu ekki alveg sams konar arfleifð og hinar ættkvíslirnar. Ættkvísl Leví fékk 48 borgir og ættkvísl Símeons fékk hluta af svæði Júda. (Jósúabók 19:9; 21:41, 42) Þess vegna blessaði Móse Símeon ekki sérstaklega. Hin almenna blessun, sem Ísraelsmenn fengu, náði hins vegar til Símeons.

Lærdómur:

31:12. Börn ættu að sitja hjá fullorðnum á samkomum og leggja sig fram um að hlusta og læra.

32:4. Öll verk Jehóva eru fullkomin því að réttlæti hans, viska, kærleikur og máttur er í fullkomnu innbyrðis jafnvægi.

Bókin hefur mikið gildi fyrir okkur

Fimmta Mósebók minnir á að Jehóva sé ‚einn Drottinn‘. (5. Mósebók 6:4) Hún segir frá þjóð sem er í einstæðu sambandi við Guð. Hún varar jafnframt við skurðgoðadýrkun og leggur áherslu á að við verðum að sýna Guði óskipta hollustu.

Fimmta Mósebók hefur mikið gildi fyrir okkur. Þó að við séum ekki bundin af lögmálinu er margt af því að læra sem hvetur okkur til að ‚elska Jehóva Guð okkar af öllu hjarta, sálu og mætti‘. — 5. Mósebók 6:5.

[Neðanmáls]

^ gr. 3 Líklegt er að það hafi verið Jósúa eða Eleasar æðsti prestur sem skrifaði síðasta kaflann en þar segir frá dauða Móse.

[Kort á blaðsíðu 18]

(Sjá uppraðaðann texta í blaðinu)

SEÍR

Kades Barnea

Sínaífjall (Hóreb)

Rauðahaf

[Mynd rétthaficredit line]

Byggt á kortum frá Pictorial Archive (Near Eastern History) Est. og Survey of Israel.

[Mynd á blaðsíðu 18]

Fimmta Mósebók er að stærstum hluta ræður Móse.

[Myndir á blaðsíðu 20]

Hvað kenndi Jehóva fólki sínu með því að gefa himnabrauðið manna?

Að taka kvörn eða efri kvarnarstein að veði var sambærilegt við að taka „líf“ manns að veði.