Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvað þarf til að vera hamingjusamur?

Hvað þarf til að vera hamingjusamur?

Hvað þarf til að vera hamingjusamur?

JEHÓVA, ,hinn sæli Guð‘, og Jesús Kristur, „hinn sæli og eini alvaldur“, vita betur en nokkur annar hvað þarf til að vera hamingjusamur. (1. Tímóteusarbréf 1:11, 6:15, Biblían 1912) Það kemur því ekki á óvart að lykilinn að hamingjunni sé að finna í Biblíunni, orði Guðs. — Opinberunarbókin 1:3; 22:7.

Í hinni vel þekktu fjallræðu útskýrði Jesús hvað þyrfti til að vera hamingjusamur. Hann sagði: „Sælir eru“ (1) þeir sem eru sér meðvita um andlega þörf sína, (2) sorgbitnir, (3) hógværir, (4) þeir sem hungrar og þyrstir eftir réttlætinu, (5) miskunnsamir, (6) hjartahreinir, (7) friðflytjendur, (8) þeir sem ofsóttir eru fyrir réttlætis sakir og (9) þeir sem eru smánaðir og ofsóttir hans vegna. — Matteus 5:3-11.

Eru fullyrðingar Jesú réttar?

Sumar fullyrðingar Jesú þarfnast lítilla útskýringa. Hver er ekki sammála því að hógværir, miskunnsamir, friðsamir og hjartahreinir menn séu hamingjusamari en þeir sem eru reiðir, ófriðsamir og miskunnarlausir?

Við gætum hins vegar spurt okkur hvernig þeir sem eru sorgbitnir og hungrar og þyrstir eftir réttlætinu geti verið hamingjusamir. Þessir einstaklingar sjá heimsatburði í réttu ljósi. Þeir „andvarpa og kveina yfir öllum þeim svívirðingum sem framdar eru“ nú á tímum. (Esekíel 9:4) Það er í sjálfu sér ekki þetta sem gerir þá hamingjusama. En þegar þeir kynnast fyrirætlun Guðs um að koma á réttlæti á jörðinni og rétta hlut hinna undirokuðu verða þeir yfir sig glaðir. — Jesaja 11:4.

Réttlætisást fær fólk einnig til að harma sífelld mistök sín. Það er meðvitað um andlega þörf sína. Slíkt fólk er tilbúið að leita leiðsagnar Guðs af því að það gerir sér grein fyrir því að hann einn getur hjálpað fólki að sigrast á veikleikum sínum. — Orðskviðirnir 16:3, 9; 20:24.

Fólk, sem er sorgbitið, hungrar og þyrstir eftir réttlæti og er meðvitað um andlega þörf sína, gerir sér grein fyrir mikilvægi þess að eiga náið samband við skaparann. Það stuðlar að hamingju að eiga gott samband við aðra menn en náið samband við Guð gerir það enn frekar. Já, einlægir réttlætisunnendur, sem eru fúsir til að taka ráðleggingar Guðs til sín, eru raunverulega hamingjusamir.

Þér gæti samt fundist erfitt að trúa því að þeir sem eru ofsóttir og smánaðir geti verið hamingjusamir. Það hlýtur samt að vera rétt fyrst Jesús sagði það. En hvernig ættum við þá skilja orð hans?

Hamingjusamir þrátt fyrir ofsóknir — hvernig má það vera?

Taktu eftir því að Jesús sagði ekki að það væru sjálfar ofsóknirnar eða smánarorðin sem veittu hamingju. Hann sagði: „Sælir eru þeir, sem ofsóttir eru fyrir réttlætis sakir, . . . þá er menn smána yður [og] ofsækja . . . mín vegna.“ (Matteus 5:10, 11) Það veitir okkur því aðeins hamingju að vera smánuð ef það er vegna þess að við erum fylgjendur Krists eða vegna þess að við lifum eftir þeim réttlátu meginreglum sem hann kenndi.

Þetta sést skýrt af því sem kom fyrir frumkristna menn. Þeir sem voru í æðstaráði Gyðinga „kölluðu á postulana, húðstrýktu þá, fyrirbuðu þeim að tala í Jesú nafni og létu þá síðan lausa“. Hvernig brugðust postularnir við? „Þeir fóru burt frá ráðinu, glaðir yfir því, að þeir höfðu verið virtir þess að þola háðung vegna nafns Jesú. Létu þeir eigi af að kenna dag hvern í helgidóminum og í heimahúsum og boða fagnaðarerindið um, að Jesús sé Kristur.“ — Postulasagan 5:40-42; 13:50-52.

Pétur postuli útskýrði nánar hvernig smán tengist hamingju. Hann skrifaði: „Sælir eruð þér, er þér eruð smánaðir vegna nafns Krists, því að andi dýrðarinnar, andi Guðs hvílir þá yfir yður.“ (1. Pétursbréf 4:14) Já, kristnir menn, sem þurfa að þola þjáningar fyrir að breyta rétt, eru glaðir, þó svo að þjáningarnar séu ekki sjálfar ánægjulegar, vegna þess að þeir vita að þeir fá heilagan anda Guðs. Hvernig tengist andi Guðs gleði?

Holdsins verk eða ávöxtur andans?

Aðeins þeir sem hlýða Guði fá heilagan anda hans. (Postulasagan 5:32) Jehóva veitir ekki þeim sem stunda „holdsins verk“ anda sinn. Þessi verk eru „frillulífi, óhreinleiki, saurlífi, skurðgoðadýrkun, fjölkynngi, fjandskapur, deilur, metingur, reiði, eigingirni, tvídrægni, flokkadráttur, öfund, ofdrykkja, svall og annað þessu líkt“. (Galatabréfið 5:19-21) „Holdsins verk“ eru vissulega mjög áberandi í heiminum nú á tímum en þeir sem stunda þau búa ekki við varanlega og sanna hamingju heldur eyðileggja þeir sambönd sín við ættingja, vini og kunningja. Þar að auki segir orð Guðs að ,þeir sem slíkt geri muni ekki erfa Guðs ríki‘.

Guð gefur hins vegar þeim anda sinn sem rækta með sér ,ávöxt andans‘. Þessi ávöxtur er „kærleiki, gleði, friður, langlyndi, gæska, góðvild, trúmennska, hógværð og bindindi“ eða sjálfstjórn. (Galatabréfið 5:22, 23) Þegar við sýnum þessa eiginleika stuðlum við að friðsamlegum samskiptum við Guð og aðra og það veitir sanna hamingju. (Sjá rammagrein.) Með því að sýna kærleika, gæsku, góðvild og aðra góða eiginleika gleðjum við enn fremur Jehóva og öðlumst ánægjulega von um eilíft líf í nýjum og réttlátum heimi hans.

Hamingja er undir okkur komin

Þegar hjónin Wolfgang og Brigitte, sem búa í Þýskalandi, fóru að rannsaka Biblíuna af alvöru höfðu þau flesta þá efnislegu hluti sem fólki finnst nauðsynlegir til að vera hamingjusamt. Þau voru ung og hraust, klæddust dýrum fötum, bjuggu í fallega innréttaðri íbúð og áttu fyrirtæki sem gekk vel. Þau notuðu mikið af tíma sínum í að safna efnislegum hlutum en það veitti þeim ekki sanna hamingju. Þegar fram liðu stundir tóku þau hins vegar mikilvæga ákvörðun. Þau fóru að verja meiri tíma í andleg mál og lögðu sig fram um að styrkja samband sitt við Jehóva. Þetta varð fljótlega til þess að þau breyttu um viðhorf og það hafði þau áhrif að þau einfölduðu líf sitt og gerðust brautryðjendur eða boðberar Guðsríkis í fullu starfi. Núna eru þau sjálfboðaliðar á deildarskrifstofu Votta Jehóva í Þýskalandi. Þar að auki eru þau að læra asískt tungumál til að hjálpa útlendingum að læra sannleikann í orði Guðs, Biblíunni.

Fundu þessi hjón sanna hamingju? Wolfgang segir: „Frá því að við fórum að leggja meiri áherslu á andleg mál höfum við verið hamingjusamari og ánægðari í lífinu. Með því að þjóna Jehóva heilshugar höfum við líka styrkt hjónabandið. Þótt hjónaband okkar hafi verið gott höfðum við skyldur og áhugamál sem toguðu okkur hvort í sína áttina. Núna vinnum við bæði að sama markmiði.“

Hvað þarf til að vera hamingjusamur?

Í hnotskurn: Forðastu holdsins verk og ræktaðu með þér ávöxt anda Guðs. Til að vera hamingjusöm þarf okkur að langa að eiga náið samband við Guð. Sá sem leggur sig fram um að eignast gott samband við Guð verður eins og þeir sem Jesús sagði að væru sælir.

Þú skalt því ekki líta svo á að hamingjan sé þér utan seilingar. Að vísu gætir þú sem stendur verið við slæma heilsu eða jafnvel átt í erfiðleikum í hjónabandinu. Ef til vill áttu erfitt með að fá góða vinnu eða sérð ekki fram á að þú fáir að njóta þeirrar gleði að vera foreldri. Kannski hefurðu ekki jafnmikið milli handanna og áður fyrr. En hertu upp hugann. Þú þarft ekki að örvænta. Guðsríki mun leysa þessi vandamál og ótal önnur. Bráðlega mun Jehóva Guð uppfylla loforðið sem sálmaritarinn bar fram: „Konungdómur þinn er konungdómur um allar aldir . . . Þú lýkur upp hendi þinni og seður allt sem lifir með blessun.“ (Sálmur 145:13, 16) Eins og milljónir þjóna Jehóva um heim allan hafa sannreynt veitir það mikla hamingju að hafa þetta loforð hugfast. — Opinberunarbókin 21:3.

[Rammi/mynd á blaðsíðu 6]

Eiginleikar sem stuðla að hamingju

Kærleikur fær aðra til að sýna þér kærleika.

Gleði veitir þér styrk til að takast á við erfiðleika.

Friður hjálpar þér að koma í veg fyrir ósætti í samskiptum við aðra.

Langlyndi gerir þér kleift að vera hamingjusamur jafnvel í prófraunum.

Gæska laðar aðra að þér.

Góðvild af þinni hálfu fær aðra til að hjálpa þér þegar þú þarft á því að halda.

Trú fullvissar þig um kærleiksríka leiðsögn Guðs.

Hógværð veitir þér hugarró og innri frið.

Sjálfstjórn verður til þess að þú gerir færri mistök.

[Mynd á blaðsíðu 7]

Við verðum að sinna andlegum þörfum okkar til að vera hamingjusöm.