Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Jehóva opinberar auðmjúkum dýrð sína

Jehóva opinberar auðmjúkum dýrð sína

Jehóva opinberar auðmjúkum dýrð sína

„Laun auðmýktar, ótta Drottins, eru auður, heiður og líf.“ — ORÐSKVIÐIRNIR 22:4.

1, 2. (a) Hvernig ber Postulasagan með sér að Stefán hafi verið ‚fullur af trú og heilögum anda‘? (b) Á hverju sést að Stefán var auðmjúkur maður?

STEFÁN var ‚maður fullur af trú og heilögum anda‘ og einnig af „náð og krafti“. Hann var einn af lærisveinum Jesú á fyrri hluta fyrstu aldar og vann mikil tákn og undur meðal fólks. Einhverju sinni komu nokkrir menn og tóku að þrátta við hann „en þeir gátu ekki staðið gegn visku þeirri og anda, sem hann talaði af“. (Postulasagan 6:5, 8-10) Ljóst er að Stefán hafði kynnt sér orð Guðs rækilega og hann varði það af krafti fyrir trúarleiðtogum Gyðinga. Ítarlegan vitnisburð hans er að finna í 7. kafla Postulasögunnar sem lýsir vel brennandi áhuga hans á fyrirætlun Guðs og framvindu hennar.

2 Stefán var auðmjúkur maður, ólíkt trúarleiðtogunum sem þóttust hafnir yfir almenning vegna stöðu sinnar og þekkingar. (Matteus 23:2-7; Jóhannes 7:49) Þótt Stefán væri vel að sér í Ritningunni var hann meira en fús til að „þjóna fyrir borðum“ þegar honum var falið það verkefni, til að postularnir gætu helgað sig „bæninni og þjónustu orðsins“. Stefán var í góðu áliti meðal bræðranna og var því valinn í hóp sjö vel kynntra manna til að sjá um daglega matarúthlutun. Hann var meira en fús til að taka verkið að sér. — Postulasagan 6:1-6.

3. Hvernig kynntist Stefán óverðskuldaðri gæsku Guðs með einstæðum hætti?

3 Auðmýkt Stefáns, andlegt hugarfar og ráðvendni fór ekki fram hjá Jehóva. Þegar hann vitnaði fyrir andstæðingum sínum af hópi æðstaráðsins sáu þeir að „ásjóna hans var sem engils ásjóna“. (Postulasagan 6:15) Svipbrigði hans voru eins og vænta mátti af boðbera Guðs og vitnuðu um þann frið sem Jehóva, Guð dýrðarinnar, veitir. Eftir að hafa vitnað djarflega fyrir æðstaráðinu fékk Stefán að sjá einstakt merki um óverðskuldaða gæsku Guðs. „Hann horfði til himins, fullur af heilögum anda og leit dýrð Guðs og Jesú standa til hægri handar Guði.“ (Postulasagan 7:55) Þessi sérstæða sýn staðfesti enn á ný fyrir Stefáni að Jesús væri sonur Guðs og Messías. Hún styrkti þennan auðmjúka mann og fullvissaði hann um velþóknun Jehóva.

4. Hverjum opinberar Jehóva dýrð sína?

4 Sýnin, sem Stefán sá, ber vitni um að Jehóva opinberar dýrð sína og fyrirætlun guðhræddum mönnum sem eru auðmjúkir og þakklátir fyrir að mega eiga samband við hann. „Laun auðmýktar, ótta Drottins, eru auður, heiður og líf,“ segir Biblían. (Orðskviðirnir 22:4) Þess vegna þurfum við að skilja hvað auðmýkt er, hvernig við getum tamið okkur þennan mikilvæga eiginleika og hvernig það er okkur til góðs að sýna hann á öllum sviðum lífsins.

Guð er lítillátur

5, 6. (a) Hvað er lítillæti? (b) Hvernig hefur Jehóva sýnt lítillæti? (c) Hvaða áhrif ætti lítillæti Jehóva að hafa á okkur?

5 Sumum kann að þykja undarlegt til þess að hugsa að Jehóva Guð, sem er æðstur og dýrlegastur allra í alheimi, skuli vera skýrasta dæmið um lítillæti. Davíð konungur sagði við Jehóva: „Þú gafst mér skjöld hjálpræðis þíns, og hægri hönd þín studdi mig, og lítillæti þitt gjörði mig mikinn.“ (Sálmur 18:36) Þegar Davíð kallaði Jehóva lítillátan notaði hann hebreskt stofnorð sem merkir „að vera lotinn“. Af þessu sama stofnorði eru leidd orð sem merkja „mildi“, „auðmýkt“ og „hógværð“. Jehóva sýndi lítillæti þegar hann laut niður til að eiga samskipti við Davíð, sem var ófullkominn maður, og notaði hann sem konung í umboði sínu. Eins og yfirskrift 18. sálmsins ber með sér verndaði Jehóva Davíð, studdi hann og frelsaði „af hendi allra óvina hans og af hendi Sáls“. Davíð vissi líka að hver sá heiður eða dýrð, sem hann hlyti í konungsembætti, var undir því komin að Jehóva sýndi það lítillæti að beita sér í hans þágu. Þessi skilningur hjálpaði Davíð að vera auðmjúkur.

6 Hvað um okkur? Jehóva hefur kosið að kenna okkur sannleikann. Hann hefur veitt sumum okkar sérstök þjónustuverkefni innan skipulagsins eða notað okkur með öðrum hætti til að gera vilja sinn. Hvernig ættum við að líta á það? Ættum við ekki að finna til smæðar okkar? Ættum við ekki að vera Jehóva þakklát fyrir lítillæti hans og forðast að upphefja okkur sem væri örugg ávísun á ógæfu? — Orðskviðirnir 16:18; 29:23.

7, 8. (a) Hvernig birtist lítillæti Jehóva í samskiptum hans við Manasse? (b) Hvernig eru Jehóva og Manasse góðar fyrirmyndir í lítillæti?

7 Jehóva hefur ekki einasta sýnt sig mjög lítillátan með því að eiga samskipti við ófullkomna menn. Hann hefur einnig verið fús til að miskunna auðmjúkum mönnum og jafnvel upphafið þá sem auðmýkja sig. (Sálmur 113:4-7) Manasse Júdakonungur er dæmi um það. Hann misnotaði sér stöðu sína sem konungur til að stuðla að falsguðadýrkun og „aðhafðist margt það, sem illt var í augum Drottins og egndi hann til reiði“. (2. Kroníkubók 33:6) Að síðustu refsaði Jehóva Manasse með því að láta Assýríukonung steypa honum af stóli og hneppa í fangelsi. Í fangelsinu reyndi Manasse að „blíðka Drottin, Guð sinn, og lægði sig mjög“ þannig að Jehóva leyfði honum að snúa aftur heim til Jerúsalem og endurheimta hásætið. Sagt er að Manasse hafi þá komist að raun um að Jehóva væri Guð. (2. Kroníkubók 33:11-13) Manasse þóknaðist Jehóva um síðir með því að auðmýkja sig og Jehóva sýndi lítillæti með því að fyrirgefa honum og gefa honum konungdóminn að nýju.

8 Við getum lært mikið um auðmýkt af iðrun Manasse og af því að Jehóva skyldi vera fús til að fyrirgefa honum. Við ættum alltaf að hafa hugfast að framkoma okkar við þá sem kunna að hafa gert á hlut okkar og viðhorf okkar þegar við syndgum geta haft áhrif á það hvernig Jehóva kemur fram við okkur. Ef við fyrirgefum öðrum fúslega og viðurkennum auðmjúklega mistök okkar getum við vænst þess að Jehóva miskunni okkur. — Matteus 5:23, 24; 6:12.

Dýrð Guðs opinberuð auðmjúkum

9. Er auðmýkt veikleikamerki? Skýrðu svarið.

9 Það má hins vegar ekki misskilja auðmýkt og aðra skylda eiginleika sem merki um veikleika eða halda að þetta sé tilhneiging til að sjá í gegnum fingur sér við þá sem gera eitthvað rangt. Jehóva er lítillátur eins og Heilög ritning ber vitni um, en jafnframt sýnir hann réttláta reiði og ógurlegt afl þegar þörf krefur. Þar sem Jehóva er lítillátur sýnir hann auðmjúkum sérstaka velvild og tillitssemi en er að sama skapi fjarlægur hinum dramblátu. (Sálmur 138:6) Hvernig hefur Jehóva sýnt auðmjúkum mönnum sérstaka tillitssemi?

10. Hvað opinberar Jehóva auðmjúkum mönnum eins og fram kemur í 1. Korintubréfi 2:6-10?

10 Jehóva hefur notað sína eigin boðleið og valið rétta tímann til að opinbera auðmjúkum mönnum margt varðandi fyrirætlun sína og framvindu hennar. Þessi dýrlegu sannindi eru hulin þeim sem sýna þann hroka og þá þrjósku að treysta á visku eða hugsunarhátt manna. (1. Korintubréf 2:6-10) En auðmjúka menn langar til að mikla Jehóva vegna þess að hann hefur veitt þeim nákvæman skilning á fyrirætlun sinni og þeir meta dýrð hans enn meira fyrir vikið.

11. Hvernig sýndu sumir stærilæti á fyrstu öldinni og hvernig var það þeim til tjóns?

11 Margir á fyrstu öld, þeirra á meðal sumir sem sögðust vera kristnir, voru stærilátir og hneyksluðust á því sem Páll postuli opinberaði þeim varðandi fyrirætlun Guðs. Páll varð „postuli heiðingja“, en það var ekki vegna þjóðernis, menntunar, aldurs eða langrar og dyggrar þjónustu. (Rómverjabréfið 11:13) Holdlega hugsandi menn eru oft þeirrar skoðunar að þetta ráði því hverja Jehóva notar. (1. Korintubréf 1:26-29; 3:1; Kólossubréfið 2:18) Jehóva valdi Pál hins vegar vegna náðar sinnar og í samræmi við réttláta fyrirætlun sína. (1. Korintubréf 15:8-10) Andstæðingar Páls, þeirra á meðal menn sem hann kallaði ‚stórmikla postula‘, vildu ekki viðurkenna hann eða þau biblíulegu rök sem hann færði fram. Stærilætið varð þeim fjötur um fót svo að þeir hvorki lærðu né skildu með hve stórfenglegum hætti Jehóva lætur fyrirætlun sína ná fram að ganga. Við skulum aldrei vanmeta þá sem Jehóva kýs að nota til að hrinda vilja sínum í framkvæmd né dæma þá að óathuguðu máli. — 2. Korintubréf 11:4-6.

12. Hvernig er Móse dæmi um að Jehóva hefur velþóknun á hógværum og auðmjúkum mönnum?

12 Hins vegar segir Biblían frá fjölda dæma um auðmjúkt fólk sem fékk að sjá dýrð Guðs í leiftursýn. Móse var „einkar hógvær, framar öllum mönnum á jörðu,“ og hann fékk að sjá dýrð Guðs og átti einstaklega náið samband við hann. (4. Mósebók 12:3) Þessi hógværi og auðmjúki maður var óbreyttur fjárhirðir í 40 ár, trúlega lengst af á Arabíuskaga, og skaparinn blessaði hann á marga vegu. (2. Mósebók 6:12, 30) Með stuðningi Jehóva varð hann talsmaður Ísraelsmanna og átti stærstan þátt í að koma á þjóðskipulagi meðal þeirra. Hann talaði munni til munns við Jehóva og fékk að sjá ‚mynd hans‘ í sýn. (4. Mósebók 12:7, 8; 2. Mósebók 24:10, 11) Það var fólki til blessunar að viðurkenna þennan hógværa fulltrúa Guðs. Það er okkur líka til blessunar að viðurkenna Jesú, spámanninn sem er meiri en Móse, og hlýða honum. Sömuleiðis er það okkur til blessunar að virða ‚hinn trúa og hyggna þjón‘ sem hann hefur skipað og hlýða honum. — Matteus 24:45, 46; Postulasagan 3:22.

13. Hvernig var dýrð Jehóva opinberuð óbreyttum fjárhirðum á fyrstu öld?

13 Hverjir fengu að sjá ljómann af „dýrð Drottins“ þegar engill tilkynnti þau fagnaðartíðindi að fæddur væri ‚frelsari sem er Kristur Drottinn‘? Ekki voru það hinir stærilátu trúarleiðtogar eða hátt sett stórmenni heldur óbreyttir fjárhirðar sem voru „úti í haga og gættu um nóttina hjarðar sinnar“. (Lúkas 2:8-11) Þessir menn voru ekki hátt skrifaðir sökum starfa eða kunnáttu. Engu að síður voru það þeir sem Jehóva veitti athygli og kaus að segja fyrstum manna frá fæðingu Messíasar. Já, Jehóva opinberar dýrð sína hinum auðmjúku og guðhræddu.

14. Hvernig blessar Guð auðmjúka menn?

14 Hvað má læra af þessum dæmum? Þau segja okkur að Jehóva hefur velþóknun á auðmjúkum mönnum og veitir þeim þekkingu og skilning á fyrirætlun sinni. Þó að þeir rísi ekki undir væntingum sumra manna notar hann þá til að koma dýrlegri fyrirætlun sinni á framfæri við aðra. Þetta ætti að hvetja okkur til að halda áfram að leita leiðsagnar hjá Jehóva, í orði hans og hjá skipulagi hans. Við megum treysta að Jehóva upplýsir auðmjúka þjóna sína um það hvernig fyrirætlun hans vindur fram. Spámaðurinn Amos lýsti yfir: „Drottinn Guð gjörir ekkert án þess að hann hafi opinberað þjónum sínum, spámönnunum, ráðsályktun sína.“ — Amos 3:7.

Temdu þér auðmýkt og njóttu velþóknunar Guðs

15. Hvers vegna verðum við að leggja okkur stöðugt fram um að vera auðmjúk og hvernig sést það af dæmi Sáls konungs?

15 Áframhaldandi velþóknun Guðs er undir því komin að við séum auðmjúk til langframa. Þó að við séum auðmjúk í dag er ekki sjálfgefið að við séum það á morgun. Við gætum glatað auðmýktinni og orðið stolt og stærilát sem er undanfari hroka og ófarnaðar. Þannig fór fyrir Sál, fyrsta manninum sem var smurður konungur yfir Ísrael. Hann var ‚lítill í sínum eigin augum‘ þegar hann var útvalinn. (1. Samúelsbók 15:17) En eftir aðeins tveggja ára stjórnartíð sýndi hann af sér hroka og ósvífni. Hann virti ekki það fyrirkomulag Jehóva að spámaðurinn Samúel skyldi sjá um að færa fórnir heldur spann upp afsakanir fyrir því að taka málið í sínar hendur. (1. Samúelsbók 13:1, 8-14) Þetta var upphaf atburðarásar sem leiddi berlega í ljós að hann var ekki auðmjúkur. Fyrir vikið missti hann anda Guðs og velþóknun og hlaut að lokum smánarlegan dauðdaga. (1. Samúelsbók 15:3-19, 26; 28:6; 31:4) Af þessu má draga augljósan lærdóm: Við verðum að leggja okkur stöðugt fram um að vera auðmjúk og undirgefin og bæla niður sjálfsánægju til að gera okkur ekki sek um ósvífni sem myndi kalla yfir okkur vanþóknun Jehóva.

16. Hvernig er það hjálp til að temja sér auðmýkt að hugleiða samband sitt við Jehóva og náungann?

16 Við þurfum að temja okkur auðmýkt og hógværð. (Kólossubréfið 3:10, 12) Þar sem þetta snýst um hugarfar, um það hvaða augum við sjáum sjálf okkur og aðra, kostar það meðvitaða viðleitni að temja sér þessa eiginleika. Að hugsa alvarlega um samband okkar við Jehóva og náungann getur hjálpað okkur að vera auðmjúk. Í augum Guðs eru allir ófullkomnir menn eins og grasið sem grær um stund en fölnar svo og visnar. Mennirnir eru eins og engisprettur á akri. (Jesaja 40:6, 7, 22) Hefur eitt grasstrá einhverja ástæðu til að monta sig af því að það er örlítið lengra en hin stráin? Hefur engispretta ástæðu til að gorta af færni sinni ef hún getur stokkið aðeins lengra en hinar engispretturnar? Það er fáránlegt að láta sér detta slíkt í hug. Páll postuli spyr því trúsystkini sín: „Hver gefur þér yfirburði? Og hvað hefur þú, sem þú hefur ekki þegið? En hafir þú nú þegið það, hví stærir þú þig þá eins og þú hefðir ekki fengið það að gjöf?“ (1. Korintubréf 4:7) Ritningargreinar eins og þessar hjálpa okkur að temja okkur auðmýkt.

17. Hvað hjálpaði Daníel spámanni að temja sér auðmýkt og hvað getur hjálpað okkur til þess?

17 Hebreski spámaðurinn Daníel var kallaður „ástmögur“ Guðs vegna þess að hann var auðmjúkur og ‚lítillætti‘ sig. (Daníel 10:11, 12) Hvað hjálpaði honum að vera auðmjúkur? Í fyrsta lagi treysti hann Jehóva óhikað og leitaði reglulega til hans í bæn. (Daníel 6:11, 12) Í öðru lagi var hann iðinn að lesa og hugleiða orð Guðs og gerði það af réttu tilefni, og það hjálpaði honum að hafa dýrlega fyrirætlun Jehóva alltaf fyrir hugskotssjónum. Hann var einnig fús til að viðurkenna sín eigin mistök, ekki aðeins mistök þjóðarinnar. Og hann lét sér mjög annt um að halda á lofti réttlæti Guðs en ekki sínu eigin. (Daníel 9:2, 5, 7) Getum við lært af góðu fordæmi Daníels og lagt okkur fram um að sýna auðmýkt og lítillæti á öllum sviðum lífsins?

18. Hvaða heiður og dýrð bíða auðmjúkra manna?

18 „Laun auðmýktar, ótta Drottins, eru auður, heiður og líf,“ segja Orðskviðirnir 22:4. Já, Jehóva blessar þá sem eru auðmjúkir og launin eru heiður og líf. Sálmaskáldið Asaf gafst næstum upp á að þjóna Jehóva en Jehóva leiðrétti hugsunarhátt hans og þá viðurkenndi Asaf fullur auðmýktar: „Þú munt leiða mig eftir ályktun þinni, og síðan munt þú taka við mér í dýrð.“ (Sálmur 73:24) Hvað merkir þetta fyrir okkur sem nú lifum? Hvaða heiður eða dýrð bíður auðmjúkra manna? Þeir njóta bæði velþóknunar Jehóva og eiga ánægjulegt samband við hann, og eins hlakka þeir til þess að sjá rætast innblásin orð Davíðs: „Hinir hógværu fá landið til eignar, gleðjast yfir ríkulegri gæfu.“ Og það er stórkostleg framtíðarsýn! — Sálmur 37:11.

Manstu?

• Hvernig er Stefán gott dæmi um auðmjúkan mann sem Jehóva opinberaði dýrð sína?

• Með hvaða hætti hefur Jehóva Guð sýnt lítillæti?

• Hvaða dæmi sýna að Jehóva opinberar auðmjúkum mönnum dýrð sína?

• Hvernig getur fordæmi Daníels hjálpað okkur að temja okkur auðmýkt?

[Spurningar]

[Rammagrein á blaðsíðu 26]

Sterkur en auðmjúkur

J. F. Rutherford stóð á fimmtugu árið 1919 þegar Biblíunemendurnir (sem nú eru kallaðir Vottar Jehóva) héldu mót í Cedar Point í Ohio í Bandaríkjunum. Hann hafði umsjón með starfi þeirra á þeim tíma. Hann bauð sig fúslega fram til að fylgja mótsgestum til herbergis og bera farangur þeirra. Á síðasta degi mótsins hreif hann 7000 áheyrendur þegar hann sagði: „Þið eruð sendiherrar konungs konunga og Drottins drottna og þið boðið fólki . . . hið dýrlega ríki Drottins okkar.“ Bróðir Rutherford bjó yfir sterkri sannfæringu og var þekktur fyrir að tala vafningalaust og af miklum krafti um það sem hann trúði að væri sannleikur, en hann var líka einstaklega auðmjúkur frammi fyrir Guði eins og bænir hans í morgunstundinni á Betel báru vitni um.

[Mynd á blaðsíðu 23]

Stefán var fær í Ritningunni en tók auðmjúklega að sér að útbýta mat.

[Mynd á blaðsíðu 24]

Auðmýkt Manasse var Jehóva þóknanleg.

[Mynd á blaðsíðu 26]

Af hverju var Daníel nefndur „ástmögur“ Guðs?