Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Leitin að hamingjunni

Leitin að hamingjunni

Leitin að hamingjunni

FYRIR fáeinum árum var fólk í Bandaríkjunum, Bretlandi, Frakklandi og Þýskalandi spurt: „Hvað þarf til að vera hamingjusamur?“ Áttatíu og níu prósent viðmælenda sögðu að til þess þyrfti góða heilsu, 79 prósent nefndu farsælt hjónaband eða samband, 62 prósent bentu á gleðina sem fylgir foreldrahlutverkinu og 51 prósent taldi að góður starfsframi væri nauðsynlegur til að vera hamingjusamur. Og jafnvel þótt almennt sé talið að peningar geti ekki veitt hamingju voru 47 prósent viðmælenda samt sem áður þeirrar skoðunar. Hvað gefa þessi svör til kynna?

Lítum fyrst á hvort tengsl séu milli peninga og hamingju. Könnun meðal hundrað ríkustu manna í Bandaríkjunum sýndi að þeir voru ekki hamingjusamari en fólk almennt. Sérfræðingar segja einnig að þótt margir Bandaríkjamenn eigi næstum tvöfalt meira núna en fyrir þremur áratugum séu þeir ekkert hamingjusamari en þeir voru áður. Í einni skýrslu stendur meira að segja: „Á sama tímabili hefur þunglyndi aukist stórlega. Sjálfsvíg unglinga hafa þrefaldast og skilnaðir tvöfaldast.“ Rannsakendur, sem könnuðu tengslin milli peninga og hamingju í um það bil 50 löndum, komust að þeirri niðurstöðu að peningar geta ekki veitt hamingju.

En hversu mikil áhrif hefur góð heilsa, farsælt hjónaband og velgengni í vinnu á hamingju fólks? Veltum því aðeins fyrir okkur. Ef þetta væri algert skilyrði þess að vera hamingjusamur, eru þá þær miljónir manna óhamingjusamar sem eru ekki við góða heilsu og eru ekki í góðu hjónabandi? Hvað með barnlaus hjón og alla þá sem eru ekki í góðri vinnu? Er útilokað að þetta fólk geti lifað hamingjusömu lífi? Og myndi hamingja þeirra sem eru við góða heilsu og í góðu hjónabandi hverfa ef aðstæður þeirra breyttust?

Leitum við á réttum stöðum?

Allir vilja vera hamingjusamir. Það kemur okkur ekki á óvart af því að skapari mannsins er kallaður hinn ‚sæli Guð‘ og maðurinn var skapaður í hans mynd. (1. Tímóteusarbréf 1:11, Biblían 1912; 1. Mósebók 1:26, 27) Þess vegna er mjög eðlilegt að mennirnir skuli leita hamingjunnar. En mörgum finnst jafnerfitt að halda í hamingjuna og að halda á sandkornum — hvort tveggja rennur mönnum auðveldlega úr greipum.

Gæti hins vegar verið að sumir legðu of hart að sér við að leita hamingjunnar? Félagsfræðingurinn Eric Hoffer taldi svo vera. Hann sagði: „Leitin að hamingjunni er ein aðalástæðan fyrir óhamingju.“ Þetta á vissulega við ef við leitum hamingjunnar á röngum stöðum því að þá er öruggt að við verðum fyrir vonbrigðum. Fólk verður ekki hamingjusamt með því að reyna að verða ríkt eða frægt, hljóta upphefð, öðlast virðingu í samfélaginu, ná langt á sviði stjórnmála og fjármála eða með því að lifa einfaldlega fyrir það að svala löngunum sínum sem fyrst. Það er því ekki að undra að sumir séu sammála höfundi nokkrum sem sagði í kaldhæðni: „Við myndum hafa það nokkuð gott ef við myndum aðeins hætta að reyna að vera hamingjusöm.“

Það er athyglisvert að í könnuninni, sem minnst var á í upphafi greinarinnar, kom einnig fram að fjórir af hverjum tíu töldu að það veitti hamingju að hjálpa öðrum og gera þeim gott. Fjórðungur sagði líka að trú og trúarsannfæring stuðluðu stórlega að hamingju. Við þurfum greinilega að athuga betur hvað þarf til að öðlast sanna hamingju. Í næstu grein verður fjallað um það.

[Myndir á blaðsíðu 3]

Margir telja að peningar, farsælt fjölskyldulíf og starfsframi séu lykillinn að hamingjunni. Ert þú sammála?