Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Sjáðu upphefð sömu augum og Kristur

Sjáðu upphefð sömu augum og Kristur

Sjáðu upphefð sömu augum og Kristur

„Heldur sé sá, sem mikill vill verða meðal yðar, þjónn yðar.“ — MATTEUS 20:26.

1. Hvernig lítur heimurinn á upphefð?

UM 500 kílómetra suður af Kaíró í Egyptalandi, nálægt hinni fornu Þebu (sem nú heitir Karnak), stendur 18 metra há stytta af Amenhótep faraó þriðja. Maður finnur óhjákvæmilega til smæðar sinnar þar sem maður stendur og horfir á styttuna. Þessu minnismerki var eflaust ætlað það hlutverk að vekja lotningu fyrir valdhafanum, en það er líka táknrænt fyrir það hvernig heimurinn lítur á upphefð — að láta sjálfan sig virka eins mikinn og merkilegan og hægt er í samanburði við aðra.

2. Hvaða fordæmi gaf Jesús fylgjendum sínum og hvaða spurninga þurfum við að spyrja okkur?

2 Berum þessa afstöðu saman við það sem Jesús Kristur kenndi um upphefð. Þó að hann væri „herra og meistari“ fylgjenda sinna kenndi hann þeim að sá væri mikill sem þjónaði öðrum. Síðasta daginn sem hann lifði hér á jörð sýndi hann lærisveinunum hvað þetta þýddi þegar hann þvoði fætur þeirra. Þetta var skýrt dæmi um auðmjúka þjónustu. (Jóhannes 13:4, 5, 14) Hvort höfðar sterkar til þín — að þjóna öðrum eða láta aðra þjóna þér? Vekur fordæmi Krists löngun hjá þér til að vera auðmjúkur eins og hann var? Þá skulum við bera saman hvað Kristur taldi gera manninn mikinn og hvernig algengt er að heimurinn hugsi.

Hafnaðu skoðun heimsins á upphefð

3. Hvaða dæmi er að finna í Biblíunni sem lýsa dapurlegum örlögum þeirra sem sækjast eftir því að verða miklir í augum annarra?

3 Biblían segir frá fjölmörgum dæmum sem sýna að skoðun heimsins á upphefð er ávísun á ógæfu. Haman var voldugur og hátt settur við hirðina í Persíu á dögum Esterar og Mordekais. En framagirni Hamans varð honum að falli og kostaði hann lífið. (Esterarbók 3:5; 6:10-12; 7:9, 10) Hinn drambláti Nebúkadnesar er annað dæmi en hann varð geðveikur þegar veldi hans stóð sem hæst. Hann gerði sér kolrangar hugmyndir um hvað það væri að vera mikill eins og orð hans bera með sér: „Er þetta ekki sú hin mikla Babýlon, sem ég hefi reist að konungssetri með veldisstyrk mínum og tign minni til frægðar?“ (Daníel 4:30) Þá er ónefndur hinn stolti Heródes Agrippa fyrsti sem þáði óverðskuldaða upphefð í stað þess að gefa Guði dýrðina. Svo fór að „hann varð ormétinn og dó“. (Postulasagan 12:21-23) Þessir menn skildu ekki hvað Jehóva álítur gera manninn mikinn og það varð þeim til auðmýkingar og falls.

4. Hver stendur að baki stoltinu sem einkennir heiminn?

4 Það er rétt og eðlilegt að nota líf sitt þannig að það sé sjálfum manni til virðingar og vegsauka. Satan reynir hins vegar að nota þessa löngun til að ýta undir stolt, en það endurspeglar metnaðargirni hans sjálfs. (Matteus 4:8, 9) Höfum alltaf hugfast að hann er „guð þessarar aldar“ og er staðráðinn í að kynda undir hugsunarhætti sínum hér á jörðinni. (2. Korintubréf 4:4; Efesusbréfið 2:2; Opinberunarbókin 12:9) Kristnir menn vita hvaðan þessi hugsunarháttur er ættaður og hafna hugmyndum heimsins um hvað það sé að vera mikill.

5. Eru auður, frægð og frami trygging fyrir því að maður njóti lífsfyllingar? Skýrðu svarið.

5 Ein af þeim hugmyndum, sem djöfullinn kyndir undir, er að frægð í heiminum, viðurkenning manna og fullir vasar af peningum þýði sjálfkrafa að maður verði hamingjusamur. Er þetta rétt? Eru auður, frægð og frami trygging fyrir lífsfyllingu? Biblían varar við slíkum hugsunarhætti og segir hann villandi. Hinn vitri Salómon skrifaði: „Ég sá, að allt strit og dugnaður í framkvæmdum er ekki annað en öfund eins við annan. Einnig það er hégómi og eftirsókn eftir vindi.“ (Prédikarinn 4:4) Margir sem hafa lagt allt kapp á að komast áfram í heiminum geta staðfest sannleiksgildi þessara innblásnu orða Biblíunnar. Til dæmis má nefna mann sem átti þátt í að hanna, smíða og prófa geimfarið sem flutti menn til tunglsins. Hann segir: „Ég lagði hart að mér og varð mjög fær í faginu. En það dugði ekki til að veita mér varanlega hamingju og hugarfrið.“ * Hugmyndir heimsins um það hvað geri manninn mikinn, hvort heldur er í viðskiptum, íþróttum eða skemmtanalífi, tryggir okkur ekki varanlega lífshamingju.

Þjónusta sprottin af kærleika gerir okkur mikil

6. Hvað sýnir að Jakob og Jóhannes gerðu sér rangar hugmyndir um upphefð?

6 Atburður í ævi Jesú er vísbending um hvað sé raunverulega fólgið í því að vera mikill. Hann var á leið til Jerúsalem ásamt lærisveinunum árið 33 til að halda páska. Á leiðinni sýndu tveir af frændum hans, þeir Jakob og Jóhannes, að þeir gerðu sér rangar hugmyndir um upphefð. Þeir fengu móður sína til að biðja Jesú: „Lát þú þessa tvo syni mína sitja þér við hlið í ríki þínu, annan til hægri handar þér og hinn til vinstri.“ (Matteus 20:21) Meðal Gyðinga var það álitinn mikill heiður að fá að sitja einhverjum á hægri hönd eða vinstri. (1. Konungabók 2:19) Í metnaði sínum reyndu Jakob og Jóhannes að krækja í virtustu sætin. Þeir vildu gera tilkall til þess að fá þessar áhrifastöður. Jesús vissi hvað fram fór í huga þeirra og notaði tækifærið til að leiðrétta rangar hugmyndir þeirra um upphefð.

7. Hvernig lýsti Jesús í hverju upphefð sé fólgin?

7 Jesús vissi að í þessum stolta heimi telst sá mikill maður sem stjórnar öðrum, gefur skipanir á báða bóga og þarf ekki annað en að smella fingrum til að fá öllum duttlungum sínum fullnægt. Meðal fylgjenda Jesú er sá hins vegar mikill sem þjónar öðrum í auðmýkt. Jesús sagði: „Sá, sem mikill vill verða meðal yðar, [sé] þjónn yðar. Og sá er vill fremstur vera meðal yðar, sé þræll yðar.“ — Matteus 20:26, 27.

8. Hvað merkir það að vera þjónn og hvers gætum við spurt okkur?

8 Gríska orðið, sem þýtt er „þjónn“ í Biblíunni, lýsir manni sem leggur sig allan fram við að þjóna öðrum. Jesús var að kenna lærisveinunum þá mikilvægu lexíu að maðurinn verður ekki mikill af því að skipa öðrum fyrir verkum heldur af því að þjóna öðrum í kærleika. Spyrðu þig hvernig þú hefðir brugðist við ef þú hefðir verið í sporum Jakobs eða Jóhannesar. Hefðirðu áttað þig á því að það er kærleiksrík þjónusta sem gerir manninn mikinn? — 1. Korintubréf 13:3.

9. Hvernig kom Jesús fram við aðra?

9 Jesús benti lærisveinunum á að hann hefði allt annan mælikvarða á upphefð en heimurinn. Aldrei sýndi hann yfirlæti gagnvart þeim sem hann þjónaði eða lét þá finna til smæðar þeirra. Öllum leið vel í návist hans — körlum, konum og börnum, ríkum, fátækum og voldugum, og einnig þekktum syndurum. (Markús 10:13-16; Lúkas 7:37-50) Fólk er oft óþolinmótt í garð þeirra sem eru einhver takmörk sett. Jesús var ekki þannig. Þó að lærisveinarnir væru stundum hugsunarlausir og þrætugjarnir kenndi hann þeim þolinmóður og sýndi þeim fram á að hann væri auðmjúkur og lítillátur. — Sakaría 9:9; Matteus 11:29; Lúkas 22:24-27.

10. Hvernig endurspeglaði allt líf Jesú óeigingirni hans og þjónustulund?

10 Óeigingjarnt fordæmi þessa framúrskarandi sonar Guðs lýsir vel hvað það er sem gerir manninn mikinn í raun og veru. Jesús kom ekki til jarðar til að láta þjóna sér heldur til að þjóna öðrum, lækna fólk af „ýmsum sjúkdómum“ og losa það undan áþján illra anda. Þó að hann þreyttist og þyrfti að hvíla sig lét hann þarfir annarra alltaf ganga fyrir sínum eigin og lagði lykkju á leið sína til að hughreysta fólk. (Markús 1:32-34; 6:30-34; Jóhannes 11:11, 17, 33) Kærleikurinn var honum hvöt til að styrkja trú fólks, og hann gekk hundruð kílómetra eftir rykugum vegum til að prédika fagnaðarerindið um ríkið. (Markús 1:38, 39) Ljóst er að Jesús tók alvarlega það hlutverk sitt að þjóna öðrum.

Líktu eftir auðmýkt Krists

11. Að hverju er leitað í fari bræðra til að fara með umsjón í söfnuðinum?

11 Síðla á nítjándu öld var rætt um það hugarfar sem kristnir umsjónarmenn ættu að temja sér, en þá var verið að velja umsjónarmenn til að ferðast milli safnaða og þjóna þörfum þeirra. Samkvæmt Zion’s Watch Tower hinn 1. september 1894 var leitað að mönnum sem voru „hógværir til að þeir ofmetnist ekki . . . að auðmjúkum mönnum sem leitast ekki við að beina athygli að sjálfum sér heldur Kristi — sem hampa ekki eigin þekkingu heldur orði hans í krafti þess og einfaldleika“. Ljóst er að sannkristnir menn ættu aldrei að sækjast eftir ábyrgðarstöðu til að fullnægja einhverri metnaðargirnd eða til að vera í sviðsljósinu og fá völd eða yfirráð yfir öðrum. Auðmjúkur umsjónarmaður hefur hugfast að hann fer með „fagurt hlutverk“ en situr ekki í hárri stöðu til að hampa sjálfum sér. (1. Tímóteusarbréf 3:1, 2) Allir öldungar og safnaðarþjónar ættu að gera sitt ýtrasta til að þjóna öðrum í auðmýkt, taka forystuna í heilagri þjónustu og vera öðrum verðugt fordæmi til eftirbreytni. — 1. Korintubréf 9:19; Galatabréfið 5:13; 2. Tímóteusarbréf 4:5.

12. Hvaða spurninga ættu þeir sem sækjast eftir verkefnum í söfnuðinum að spyrja sig?

12 Hver sá bróðir, sem sækist eftir þjónustuverkefnum, þarf að spyrja sig hvort hann leiti færis að þjóna öðrum eða hvort hann hafi tilhneigingu til að vilja láta aðra þjóna sér. Er hann fús til að vinna ýmis gagnleg störf þó að lítið beri á þeim? Tökum dæmi: Ungur maður er kannski meira en fús til að flytja ræður í söfnuðinum en ekki alveg eins viljugur til að hjálpa öldruðum. Honum finnst gaman að umgangast þá sem gegna ábyrgðarstörfum í söfnuðinum en er aðeins tregari til að fara í boðunarstarfið. Hann ætti að spyrja sig: „Einbeiti ég mér aðallega að þeim þjónustuverkefnum sem ég fæ viðurkenningu og lof fyrir? Er ég að reyna að láta á mér bera?“ Það samræmist ekki fordæmi Krists að sækjast eftir slíkri upphefð. — Jóhannes 5:41.

13. (a) Hvernig getur umsjónarmaður haft áhrif á aðra með því að vera auðmjúkur? (b) Hvers vegna er það ekki valfrjálst hvort kristinn maður temur sér hógværð og auðmýkt?

13 Ef við leggjum okkur fram um að líkja eftir auðmýkt Krists langar okkur til að þjóna öðrum. Tökum sem dæmi umsjónarmann sem var sendur til að yfirfara starfsemi einnar af deildarskrifstofum Votta Jehóva. Þótt hann hefði margt á sinni könnu og gegndi miklu ábyrgðarstarfi staðnæmdist hann hjá ungum bróður, sem átti í erfiðleikum með að stilla heftivél, og hjálpaði honum að stilla vélina. „Ég trúði varla mínum eigin augum,“ sagði ungi bróðirinn eftir á. „Hann sagðist hafa unnið við sams konar vél sem ungur maður á Betel, og hann minntist þess hve erfitt var að stilla hana rétt. Hann vann með mér við vélina um stund þó að hann hefði margt annað mikilvægt að gera. Þetta hafði sterk áhrif á mig.“ Þessi bróðir er nú umsjónarmaður við eina af deildarskrifstofum Votta Jehóva. Hann man enn eftir auðmýkt sendifulltrúans sem hjálpaði honum. Við ættum aldrei að láta okkur finnast við vera yfir það hafin að vinna lítilfjörleg störf heldur ættum við að íklæðast „hógværð“. Þetta er ekki valfrjálst heldur hluti hins ‚nýja manns‘ sem kristnir menn verða að íklæðast. — Filippíbréfið 2:3; Kólossubréfið 3:10, 12; Rómverjabréfið 12:16.

Að tileinka sér skoðun Krists á upphefð

14. Hvernig getur það að hugleiða samband okkar við Jehóva og náungann hjálpað okkur að sjá upphefð í réttu ljósi?

14 Ein leið til að fá rétta sýn á upphefð er að ígrunda samband sitt við Jehóva Guð. Hátign hans, máttur og viska tekur smáum mönnum langt fram. (Jesaja 40:22) Að hugleiða samband okkar við aðra menn hjálpar okkur líka að temja okkur auðmýkt. Við stöndum öðrum kannski framar á einhverju sviði en þeir skara ef til vill fram úr okkur á öðrum mun mikilvægari sviðum, og trúbræður okkar hafa hugsanlega vissa hæfileika sem við höfum ekki. Reyndar er það svo að margir sem eru dýrmætir í augum Guðs eru svo hógværir og auðmjúkir að það ber ekkert sérstaklega á þeim. — Orðskviðirnir 3:34; Jakobsbréfið 4:6.

15. Hvernig er ráðvendni þjóna Guðs til vitnis um að enginn hefur ástæðu til að telja sig hafinn yfir aðra?

15 Reynsla votta Jehóva af trúarprófraunum er talandi dæmi um þetta. Æ ofan í æ hafa þeir sem heimurinn myndi telja ósköp venjulegt fólk sýnt Guði ráðvendni í erfiðustu prófraunum. Dæmi af þessu tagi hjálpa okkur að vera auðmjúk og kenna okkur að ‚hugsa ekki hærra um okkur en hugsa ber‘. — Rómverjabréfið 12:3. *

16. Hvernig geta allir í söfnuðinum verið miklir í samræmi við fyrirmynd Jesú?

16 Allir kristnir menn, jafnt ungir sem aldnir, ættu að leitast við að sjá upphefð sömu augum og Kristur. Það þarf að vinna alls konar störf í söfnuðinum. Láttu þér aldrei gremjast ef þú ert beðinn að vinna verk sem virðast lítilfjörleg. (1. Samúelsbók 25:41; 2. Konungabók 3:11) Foreldrar ættu að hvetja börn og unglinga til að vinna fúslega hvaða verk sem er, hvort heldur það er í ríkissalnum eða á stað þar sem haldið er mót. Sjá þau ykkur vinna lítilmótlegustu störf? Bróðir, sem þjónar núna við aðalstöðvar Votta Jehóva, man vel eftir fordæmi foreldra sinna. „Þegar þau tóku þátt í að þrífa ríkissalinn eða mótsstaðinn var greinilegt að þau töldu þetta mikilvægt verkefni,“ segir hann. „Þau buðu sig oft fram til að vinna eitt og annað í þágu safnaðarins eða bræðrafélagsins, óháð því hve lítilmótlegt það virtist vera. Þetta viðhorf hefur hjálpað mér að taka fúslega við hvaða verkefni sem er á Betel.“

17. Hvernig geta auðmjúkar konur verið söfnuðinum til blessunar?

17 Ester var drottning Persaveldis á fimmtu öld f.o.t. en hún er prýðisdæmi um konu sem tók hag annarra fram yfir sinn eigin. Þótt hún byggi í höll var hún fús til að setja sig í lífshættu til að hjálpa þjóð Guðs og hún breytti í samræmi við vilja hans. (Esterarbók 1:5, 6; 4:14-16) Kristnar konur geta sýnt sama hugarfar og Ester, óháð efnahag sínum, með því að hughreysta niðurdregna, heimsækja sjúka, boða fagnaðarerindið og vera samvinnuþýðar við öldungana. Auðmjúkar systur eru söfnuðinum til mikillar blessunar.

Það er til blessunar að sjá upphefð sömu augum og Kristur

18. Hvaða blessun fylgir því að sjá upphefð sömu augum og Jesús?

18 Það fylgir því margs konar blessun að sjá upphefð sömu augum og Jesús. Þú gleður bæði sjálfan þig og aðra með því að þjóna þeim á óeigingjarnan hátt. (Postulasagan 20:35) Þú laðar bræðurna að þér með því að vinna fúslega fyrir þá. (Postulasagan 20:37) Síðast en ekki síst gleður þú Jehóva með því að stuðla að velferð trúsystkina þinna og það er honum þóknanleg lofgerðarfórn. — Filippíbréfið 2:17.

19. Hvernig ættum við að vera staðráðin í að líta á upphefð?

19 Hver og einn þarf að rannsaka hjarta sitt og spyrja sig: „Ætla ég að leggja mig dyggilega fram við að tileinka mér sömu skoðun og Jesús á því hvað það sé að vera mikill eða ætla ég bara að tala um það?“ Það fer ekki milli mála hvernig Jehóva hugsar um hrokafulla. (Orðskviðirnir 16:5; 1. Pétursbréf 5:5) Sýnum í verki að við höfum ánægju af því að sjá upphefð sömu augum og Kristur, hvort sem það er innan kristna safnaðarins, í fjölskyldulífinu eða í daglegum samskiptum við náungann. Og gerum allt til lofs og dýrðar Guði. — 1. Korintubréf 10:31.

[Neðanmáls]

^ gr. 5 Finna má dæmi í árbók Votta Jehóva 1992, bls. 181-82 og Varðturninum (enskri útgáfu) 1. september 1993, bls. 27-31.

^ gr. 15 Sjá Varðturninn (enska útgáfu) 1. maí 1982, bls. 3-6, „In Search of Success“.

Geturðu svarað?

• Af hverju ættum við að hafna skoðun heimsins á upphefð?

• Hvaða mælikvarða lagði Jesús á upphefð?

• Hvernig geta umsjónarmenn líkt eftir auðmýkt Krists?

• Hvað getur hjálpað okkur að sjá upphefð sömu augum og Jesús?

[Spurningar]

[Rammi á blaðsíðu 31]

Hver er mikill að fyrirmynd Krists?

Sá sem vill láta þjóna sér eða sá sem er fús til að þjóna öðrum?

Sá sem vill vera í sviðsljósinu eða sá sem tekur fúslega að sér verkefni þó að þau virðist ekki merkileg?

Sá sem upphefur sjálfan sig eða sá sem upphefur aðra?

[Mynd á blaðsíðu 28]

Risastór stytta af Amenhótep faraó þriðja.

[Mynd á blaðsíðu 29]

Veistu hvað varð Haman að falli?

[Mynd á blaðsíðu 30]

Leitarðu færis að þjóna öðrum?