Vegsömum Guð „einum munni“
Vegsömum Guð „einum munni“
„Einum munni vegsamið Guð og föður Drottins vors Jesú Krists.“ — RÓMVERJABRÉFIÐ 15:6.
1. Hvað kenndi Páll trúsystkinum sínum varðandi mismunandi sjónarmið?
KRISTNIR menn velja ekki allir það sama og smekkur þeirra er ólíkur. Allir kristnir menn verða samt að ganga hlið við hlið á veginum til lífsins. Er það mögulegt? Já, ef við gerum ekki stórmál úr smáágreiningi. Páll postuli gaf trúsystkinum sínum á fyrstu öld leiðbeiningar um þetta. Hvernig skýrði hann þetta mikilvæga mál? Og hvernig getum við farið eftir þessum innblásnu ráðleggingum?
Eining í söfnuðinum er mikilvæg
2. Hvernig lagði Páll áherslu á mikilvægi einingar?
2 Páll vissi að eining í söfnuðinum er mikilvæg og gaf góð ráð til að hjálpa kristnum mönnum að umbera hver annan í kærleika. (Efesusbréfið 4:1-3; Kólossubréfið 3:12-14) Eftir að hann hafði komið á fót mörgum söfnuðum og heimsótt aðra á meira en 20 ára tímabili vissi hann hins vegar að það getur verið erfitt að varðveita eininguna. (1. Korintubréf 1:11-13; Galatabréfið 2:11-14) Hann hvatti þess vegna trúsystkini sín í Róm: „Guð, sem veitir þolgæðið og huggunina, gefi yður að vera samhuga . . . til þess að þér allir saman einum munni vegsamið Guð og föður Drottins vors Jesú Krists.“ (Rómverjabréfið 15:5, 6) Nú á dögum verðum við líka að vegsama Guð „einum munni“ sem sameinaður hópur. Hvernig stöndum við okkur að þessu leyti?
3, 4. (a) Af hvaða ólíka uppruna voru safnaðarmenn í Róm? (b) Hvernig gátu kristnir menn í Róm þjónað Jehóva „einum munni“?
3 Margir kristnir menn í Róm voru nánir vinir Páls. (Rómverjabréfið 16:3-16) Þótt uppruni þeirra væri misjafn tók hann við þeim öllum sem „Guðs elskuðu“. Hann skrifaði: „Ég [þakka] Guði mínum sakir Jesú Krists fyrir yður alla, af því að orð fer af trú yðar í öllum heiminum.“ Kristnir menn í Róm voru greinilega til fyrirmyndar á marga vegu. (Rómverjabréfið 1:7, 8; 15:14) En sumir í söfnuðinum höfðu ólík sjónarmið í vissum málum. Þar sem kristnir menn nú á dögum eru af ólíkum uppruna og koma frá ólíkum menningarheimum geta innblásnar ráðleggingar Páls um hvernig eigi að bregðast við skoðanamun hjálpað þeim að tala „einum munni“.
4 Í söfnuðinum í Róm voru bæði Gyðingar og menn af þjóðunum. (Rómverjabréfið 4:1; 11:13) Sumir kristnir Gyðingar gátu greinilega ekki hætt að iðka vissa siði sem þeir höfðu iðkað undir lögmálinu, þó svo að þeir hefðu átt að gera sér grein fyrir að það væri ekki nauðsynlegt til að hljóta hjálpræði. Hins vegar voru margir aðrir kristnir Gyðingar sem viðurkenndu að fórn Krists frelsaði þá undan ýmsum boðum og bönnum sem þeir höfðu fylgt áður en þeir gerðust kristnir. Fyrir vikið breyttu þeir sumum venjum sínum og siðum. (Galatabréfið 4:8-11) Páll benti samt á að þeir væru allir „Guðs elskuðu“. Allir gátu lofað Guð „einum munni“ ef þeir varðveittu rétt viðhorf hver til annars. Við höfum líka ólík sjónarmið í vissum málum þannig að það er viturlegt af okkur að hugleiða vandlega hvernig Páll útlistar þessa mikilvægu meginreglu. — Rómverjabréfið 15:4.
,Takið hver annan að yður‘
5, 6. Hvers vegna voru safnaðarmenn í Róm ekki sammála?
5 Í bréfi sínu til Rómverja fjallar Páll um aðstæður þar sem skoðanir voru skiptar. Hann Rómverjabréfið 14:2; 3. Mósebók 11:7) En lögmálið var ekki lengur bindandi eftir dauða Jesú. (Efesusbréfið 2:15) Þremur og hálfu ári eftir að Jesús dó sagði engill Pétri postula að enginn matur væri óhreinn frá sjónarhóli Guðs. (Postulasagan 11:7-12) Sumum Gyðingum kann að hafa fundist að þeir gætu borðað svínakjöt samkvæmt þessu, eða borðað eitthvað annað sem lögmálið bannaði.
skrifar: „Einn er þeirrar trúar, að alls megi neyta en hinn óstyrki neytir einungis jurtafæðu.“ Hvers vegna var það? Samkvæmt Móselögmálinu var bannað að neyta svínakjöts. (6 En fyrir aðra kristna Gyðinga hefur tilhugsunin ein um að borða þennan áður óhreina mat líklega valdið þeim viðbjóði. Þetta viðkvæma fólk hefur ef til vill hneykslast þegar það sá aðra kristna Gyðinga neyta slíkrar fæðu. Og sumir kristnir menn af þjóðunum, sem höfðu trúlega aldrei haft nein höft á mataræði, voru líklega undrandi yfir því að einhver skyldi gera veður út af mat. Það var auðvitað ekki rangt að borða ekki vissan mat svo framarlega sem hann hélt því ekki fram að slíkt væri nauðsynlegt til að hljóta hjálpræði. En þessar skiptu skoðanir hefðu auðveldlega getað kynt undir deilum í söfnuðinum. Kristnir menn í Róm máttu ekki láta slíkan skoðanamun koma í veg fyrir að þeir vegsömuðu Guð „einum munni“.
7. Hvaða ólíku sjónarmið voru uppi varðandi einn dag vikunnar?
7 Páll kemur með annað dæmi: „Einn gjörir mun á dögum, en annar metur alla daga jafna.“ (Rómverjabréfið 14:5a) Samkvæmt Móselögmálinu mátti ekki vinna á hvíldardeginum. Ferðafrelsi var jafnvel skert mjög þann dag. (2. Mósebók 20:8-10; Matteus 24:20; Postulasagan 1:12) Þegar lögmálið var sett til hliðar gengu þessi bönn úr gildi. Sumum kristnum Gyðingum hefur samt fundist óþægilegt að vinna nokkurs konar vinnu eða að fara langar vegalengdir á þessum degi sem áður var álitinn heilagur. Jafnvel eftir að þeir gerðust kristnir hafa þeir ef til vill helgað sjöunda daginn andlegum málum þó svo að hvíldardagsákvæðið væri ekki lengur í gildi frá sjónarhóli Guðs. Var það rangt af þeim? Nei, svo framarlega sem þeir héldu því ekki fram að Guð krefðist þess að hvíldardagurinn væri haldinn í heiðri. Páll skrifaði því af tillitssemi við kristin trúsystkini sín: „Sérhver hafi örugga sannfæringu í huga sínum.“ — Rómverjabréfið 14:5b.
8. Hvað áttu kristnir menn í Róm ekki að gera?
8 Páll hvatti trúsystkini sín hlýlega til að vera þolinmóð við þá sem ættu í baráttu við samviskuna. Jafnframt ávítaði hann harðlega þá sem reyndu að neyða aðra til að fylgja Móselögmálinu á þeirri forsendu að það væri skilyrði fyrir hjálpræði. Um árið 61 skrifaði Páll Hebreabréfið þar sem hann skýrði á áhrifaríkan hátt fyrir kristnum Gyðingum að það hefði ekkert gildi að fylgja Móselögunum þar sem kristnir menn hefðu æðri von sem byggðist á lausnarfórn Jesú. — Galatabréfið 5:1-12; Títusarbréfið 1:10, 11; Hebreabréfið 10:1-17.
9, 10. Hvað ættu kristnir menn að forðast? Skýrðu svarið.
9 Eins og við höfum séð af rökum Páls þarf það ekki að vera nein ógnun við eininguna þó að menn taki ólíkar ákvarðanir, svo framarlega sem kristnar meginreglur eru hafðar í heiðri. Páll spyr þess vegna þá sem eru með viðkvæmari samvisku: „Hví dæmir þú bróður þinn?“ Og hann spyr þá sem eru styrkari (kannski þá sem leyfa sér að vinna á hvíldardeginum eða að borða ákveðna fæðu sem hafði verið bönnuð undir lögmálinu): „Hví fyrirlítur þú bróður þinn?“ (Rómverjabréfið 14:10) Samkvæmt orðum Páls verða kristnir menn með viðkvæma samvisku að forðast að dæma trúsystkini sín sem eru víðsýnni. Þeir sem eru sterkir mega heldur ekki líta niður á þá sem hafa viðkvæma samvisku á sumum sviðum. Allir ættu að bera virðingu fyrir réttum hvötum annarra og „hugsa ekki hærra um sig en hugsa ber“. — Rómverjabréfið 12:3, 18.
10 Páll skýrði hinn rétta meðalveg á eftirfarandi hátt: „Sá, sem neytir kjöts, fyrirlíti ekki hinn, sem lætur þess óneytt, og sá, sem lætur þess óneytt, dæmi ekki þann, sem neytir þess, því að Guð hefur tekið hann að sér.“ Hann sagði líka: „Kristur tók yður að sér, Guði til dýrðar.“ Þar eð hinir viðkvæmu sem hinir sterku eru velþóknanlegir Guði og Kristi ættum við að hafa sama viðhorf til þeirra og ,taka hver annan að okkur‘. (Rómverjabréfið 14:3; 15:7) Hver getur með réttu verið ósammála því?
Bróðurkærleikurinn stuðlar að einingu
11. Hvaða sérstöku aðstæður voru á dögum Páls?
11 Í bréfi sínu til Rómverja skrifaði Páll um sérstakar aðstæður. Jehóva hafði nýlega fellt einn sáttmála úr gildi og gert annan í staðinn. Sumir áttu erfitt með að aðlagast breytingunum. Staðan er ekki nákvæmlega eins nú á dögum en mál af svipuðu tagi geta komið upp endrum og eins.
12, 13. Nefndu dæmi um aðstæður þar sem kristnir menn nú á dögum gætu tekið tillit til samvisku trúsystkina sinna.
12 Kristin kona hefur ef til vill áður tilheyrt trúfélagi sem lagði áherslu á mjög einfaldan klæðaburð og snyrtingu. Þegar hún tekur við sannleikanum finnst henni kannski erfitt að aðlaga sig þeirri hugmynd að það sé ekki bannað að klæðast látlausum en litríkum fötum við viðeigandi tækifæri eða að nota farða á smekklegan hátt. Þar sem enginn biblíuleg meginregla á í hlut væri ekki rétt af neinum að reyna að telja þessa kristnu konu á að brjóta gegn samvisku sinni. Hún gerir sér jafnframt grein fyrir því að hún ætti ekki að gagnrýna aðrar kristnar konur fyrir að nota slíka hluti.
13 Skoðum annað dæmi. Kristinn karlmaður hefur kannski alist upp í umhverfi þar sem áfengi var litið hornauga. Þegar hann kynnist sannleikanum kemst hann að raun um að samkvæmt Biblíunni er vín gjöf frá Guði og hægt að nota í hófi. (Sálmur 104:15) Hann viðurkennir það sjónarmið. En hann ákveður samt að halda sig algerlega frá áfengi sökum uppruna síns. Þó gagnrýnir hann ekki aðra sem nota áfengi í hófi. Hann fer þannig eftir orðum Páls: „Keppum þess vegna eftir því, sem til friðarins heyrir og til hinnar sameiginlegu uppbyggingar.“ — Rómverjabréfið 14:19.
14. Við hvaða aðstæður geta kristnir menn farið eftir inntakinu í ráðleggingum Páls til Rómverja?
14 Aðrar aðstæður koma líka upp sem útheimta að við förum eftir inntakinu í ráðleggingum Páls til Rómverja. Kristni söfnuðurinn samanstendur af mörgum einstaklingum sem hafa ólíkan smekk. Þeir gætu því tekið ólíkar ákvarðanir, eins og varðandi klæðaburð og snyrtingu. Í Biblíunni eru auðvitað skýrar meginreglur sem allir kristnir menn fara eftir. Ekkert okkar ætti að vera sérviskulegt eða ósiðlegt í klæðaburði eða hárgreiðslu eða vera þannig í útliti að aðrir tengi okkur við óæskilega hópa í heiminum. (1. Jóhannesarbréf 2:15-17) Kristnir menn hafa ávallt hugfast að þeir þjóna sem fulltrúar alheimsdrottins, líka þegar þeir slappa af. (Jesaja 43:10; Jóhannes 17:16; 1. Tímóteusarbréf 2:9, 10) Á ýmsum sviðum er hins vegar um marga boðlega kosti að velja fyrir kristna menn. *
Hneykslaðu ekki aðra
15. Hvenær gæti kristinn maður ákveðið að krefjast ekki réttar síns vegna trúsystkina sinna?
15 Það er ein mikilvæg meginregla til viðbótar sem Páll vekur athygli á í ráðleggingum sínum til kristinna manna í Róm. Stundum velur kannski kristinn maður með vel þjálfaða samvisku að sleppa einhverju þó að það sé í sjálfu sér leyfilegt. Hvers vegna? Hann gerir sér grein fyrir að hann gæti skaðað aðra. Hvað ættum við að gera þegar slíkt kemur upp? Páll segir: „Það er rétt að eta hvorki kjöt né drekka vín né gjöra neitt, sem bróðir þinn steytir sig á.“ (Rómverjabréfið 14:14, 20, 21) „Skylt er oss, hinum styrku, að bera veikleika hinna óstyrku og hugsa ekki um sjálfa oss. Sérhver af oss hugsi um náungann og það sem honum er gott og til uppbyggingar.“ (Rómverjabréfið 15:1, 2) Ef trúsystkini okkar gæti hneykslast á því sem við gerum ættum við að sýna bróðurkærleika og tillitssemi með því að neita okkur um það. Þetta gæti komið upp varðandi notkun áfengis. Kristnum manni er leyft að drekka vín í hófi. En ef það gæti hneykslað trúbróður hans krefst hann ekki réttar síns.
16. Hvernig getum við sýnt fólki á svæðinu tillitssemi?
16 Þessa meginreglu má einnig heimfæra upp á samskipti okkar við fólk utan kristna safnaðarins. Við búum kannski á svæði þar sem meðlimir ráðandi trúfélags líta á einhvern dag vikunnar sem hvíldardag. Þess vegna forðumst við að gera nokkuð á þeim degi sem gæti hneykslað nágranna okkar og gert okkur erfiðara fyrir í boðunarstarfinu. Sem annað dæmi mætti nefna efnaðan bróður sem flytur til að þjóna þar sem þörfin er meiri, en fólkið á svæðinu er efnalítið. Hann ákveður kannski að vera látlaus í klæðaburði eða lifa að öðru leyti á nægjusamari hátt en fjárhagur hans leyfir, til
að sýna nýju nágrönnunum tillitssemi.17. Hvers vegna er viturlegt að taka tillit til annarra í vali okkar?
17 Er sanngjarnt að ætlast til þess að ,hinir styrku‘ geri slíkar breytingar? Hugsum málið. Við erum að keyra úti á þjóðvegi og sjáum börn fram undan sem ganga hættulega nálægt veginum. Höldum við áfram á leyfilegum hámarkshraða aðeins vegna þess að við höfum lagalegan rétt til þess? Nei, við hægjum á okkur til að stofna börnunum ekki í hættu. Stundum þurfum við á svipaðan hátt að hægja á okkur eða láta undan í samskiptum okkar við trúsystkini eða aðra. Við gerum kannski eitthvað sem við höfum fullan rétt á að gera. Við förum ekki á skjön við neinar meginreglur í Biblíunni. En kristinn kærleikur fær okkur samt til að fara með gát ef við gætum hneykslað aðra eða skaðað þá sem hafa viðkvæmari samvisku en við. (Rómverjabréfið 14:13, 15) Það er mikilvægara að viðhalda einingunni og efla hagsmuni Guðsríkis en að beita rétti sínum.
18, 19. (a) Hvernig fetum við í fótspor Jesú þegar við sýnum öðrum tillitssemi? (b) Í hverju erum við algerlega samstillt og um hvað verður fjallað í næstu grein?
18 Þegar við gerum þetta líkjum við eftir þeim sem setti besta fordæmið. Páll segir: „Kristur hugsaði ekki um sjálfan sig, heldur eins og ritað er: ,Lastyrði þeirra, sem löstuðu þig, lentu á mér.‘“ Jesús var fús til að fórna lífi sínu fyrir okkur. Auðvitað erum við fús til að fórna einhverju af rétti okkar ef það gerir hinum „óstyrku“ kleift að vegsama Guð ásamt okkur í einingu. Já, ef við erum sveigjanleg og göfuglynd við trúsystkini okkar sem hafa óstyrkari samvisku, eða erum fús til að neita okkur um eitthvað og krefjast ekki réttar okkar, sýnum við að við erum „samhuga að vilja Krists Jesú“. — Rómverjabréfið 15:1-5.
19 Við erum algerlega samstillt í tilbeiðslu okkar þrátt fyrir að viðhorf okkar séu breytileg í málum sem varða ekki meginreglur Biblíunnar. (1. Korintubréf 1:10) Slík eining er augljós til dæmis af viðbrögðum okkar við þeim sem standa gegn sannri tilbeiðslu. Orð Guðs hvetur okkur til að gæta okkar á „raust ókunnugra“ og á þá við slíka andstæðinga. (Jóhannes 10:5) Hvernig getum við borið kennsl á þá? Hvernig ættu viðbrögð okkar að vera við þeim? Þessar spurningar verða teknar til umfjöllunar í næstu grein.
[Neðanmáls]
^ gr. 14 Foreldrar leiðbeina börnum sínum í fatavali.
Hvernig svarar þú?
• Hvers vegna þarf það ekki að ógna einingunni þó að sjónarmið í persónulegum málum séu ólík?
• Hvers vegna ættum við sem kristnir menn að sýna hver öðrum ástúð og tillitssemi?
• Á hvaða vegu getum við farið eftir ráðleggingum Páls um einingu og hvað hvetur okkur til þess?
[Spurningar]
[Mynd á blaðsíðu 9]
Ráðleggingar Páls varðandi einingu voru söfnuðinum mikilvægar.
[Mynd á blaðsíðu 10]
Kristnir menn eru sameinaðir þrátt fyrir ólíkan uppruna.
[Mynd á blaðsíðu 12]
Hvað ætti þessi ökumaður að gera núna?