Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Faðirvorið — þýðing þess fyrir þig

Faðirvorið — þýðing þess fyrir þig

Faðirvorið — þýðing þess fyrir þig

FAÐIRVORIÐ, sem Jesús Kristur flutti í fjallræðunni, er skráð í Biblíunni í Matteusi 6. kafla, versi 9 til 13. Rétt áður en Jesús fór með þessa bæn sagði hann: „Þegar þér biðjist fyrir, skuluð þér ekki fara með fánýta mælgi að hætti heiðingja. Þeir hyggja, að þeir verði bænheyrðir fyrir mælgi sína.“ — Matteus 6:7.

Jesús ætlaðist ekki til að farið yrði orðrétt með faðirvorið. Að vísu endurtók hann bænina seinna fyrir annan áheyrendahóp en orðalagið í bæninni er ekki nákvæmlega eins í guðspjöllum Matteusar og Lúkasar. (Lúkas 11:2-4) Orðalagið í bænum, sem Jesús og lærisveinar hans fóru með síðar, var ekki heldur orðrétt eftir fyrirmyndarbæninni.

Hvers vegna er faðirvorið skráð í Biblíunni? Með fyrirmyndarbæninni kenndi Jesús okkur hvernig bænir okkar geta verið Guði velþóknanlegar. Í bæninni eru einnig svör við sumum grundvallarspurningum lífsins. Lítum því nánar á hvern hluta faðirvorsins fyrir sig.

Hvert er nafn Guðs?

„Faðir vor, þú sem ert á himnum. Helgist þitt nafn.“ (Matteus 6:9) Þessi upphafsorð fyrirmyndarbænarinnar hjálpa okkur að styrkja sambandið við Guð með því að ávarpa hann sem föður okkar. Eins og barn, sem laðast að umhyggjusömu og skilningsríku foreldri, getum við nálgast himneskan föður okkar í bæn, fullviss um að hann hlustar á okkur. „Þú sem heyrir bænir, til þín kemur allt hold,“ söng Davíð konungur. — Sálmur 65:3.

Jesús kenndi okkur að biðja um að nafn Guðs yrði helgað. En hvert er nafn Guðs? Biblían svarar því með orðunum: „Þú einn heitir Jahve, hinn hæsti yfir allri jörðunni.“ (Sálmur 83:18; Biblían 1908) Hefur þú einhvern tíma séð nafnið Jahve eða Jehóva, sem er annar ritháttur nafnsins, í Biblíunni?

Nafn Guðs, Jehóva, kemur næstum 7000 sinnum fyrir í fornhandritum Biblíunnar. Sumir þýðendur hafa hins vegar gengið svo langt að fjarlægja nafnið úr biblíuþýðingum sínum. Það er því af gefnu tilefni að við biðjum skaparann að helga nafn sitt. (Esekíel 36:23) Ein leið til að breyta í samræmi við bænina er að nota nafnið Jehóva þegar við biðjum til Guðs.

Kona að nafni Patricia var alin upp í kaþólskri trú og þekkti faðirvorið vel. Hvernig brást hún við þegar einn af vottum Jehóva sýndi henni nafn Guðs í Biblíunni? „Ég trúði því ekki,“ sagði hún. „Ég náði því í biblíuþýðinguna mína og nafnið var einnig í henni. Síðan sýndi votturinn mér Matteus 6:9, 10 og útskýrði fyrir mér að nafn Guðs tengist faðirvorinu. Ég varð mjög spennt og bað hana um að fræða mig um Biblíuna.“

Verði vilji Guðs á jörðinni

„Til komi þitt ríki, verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni.“ (Matteus 6:10) Hvernig eiga þessi orð fyrirmyndarbænarinnar eftir að uppfyllast? Flestir hugsa um himininn sem friðsælan og kyrrlátan stað. Biblían talar um himininn sem hinn „heilaga og dýrðarsamlega bústað“ Jehóva. (Jesaja 63:15) Það er því eðlilegt að við biðjum þess að vilji Guðs verði á jörðu „sem á himni“. En á það einhvern tíma eftir að rætast?

Daníel, spámaður Jehóva, sagði fyrir: „Guð himnanna [mun] hefja ríki, sem aldrei skal á grunn ganga, og það ríki skal engri annarri þjóð í hendur fengið verða. Það mun knosa og að engu gjöra öll þessi [jarðnesku] ríki, en sjálft mun það standa að eilífu.“ (Daníel 2:44) Þetta himneska ríki mun bráðum koma á friði og réttlátri stjórn um alla jörðina. — 2. Pétursbréf 3:13.

Við sýnum trú okkar með því að biðja um að Guðsríki komi og að vilji Guðs verði á jörðinni og það mun vissulega rætast. Jóhannes postuli ritaði: „Ég heyrði raust mikla frá hásætinu, er sagði: ‚Sjá, tjaldbúð Guðs er meðal mannanna og hann mun búa hjá þeim, og þeir munu vera fólk hans og Guð sjálfur mun vera hjá þeim, Guð þeirra. Og hann mun þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til. Hið fyrra er farið.‘“ Síðan bætti hann við: „Og sá, sem í hásætinu sat, sagði: . . . ‚Rita þú, því að þetta eru orðin trúu og sönnu.‘“ — Opinberunarbókin 21:3-5.

Efnislegar nauðsynjar

Það sem Jesús sagði í fyrirmyndarbæninni sýnir að nafn Guðs og vilji ættu að vera okkur efst í huga þegar við biðjum. En í fyrirmyndarbæninni kemur einnig fram um hvað við getum beðið Jehóva fyrir okkur sjálf.

Það fyrsta er: „Gef oss í dag vort daglegt brauð.“ (Matteus 6:11) Þetta er ekki beiðni um efnislegan auð. Jesús hvatti okkur til að biðja um daglegt brauð „hvern dag“. (Lúkas 11:3) Eins og fram kemur í faðirvorinu getum við í fullri trú beðið um að Guð sjái fyrir daglegum þörfum okkar ef við elskum hann og hlýðum honum.

Óþarfa áhyggjur af fjárhagserfiðleikum geta orðið til þess að við vanrækjum andlegar þarfir okkar og gerum ekki það sem Guð ætlast til af okkur. En ef við setjum tilbeiðsluna á Guði framar öðru í lífinu getum við verið viss um að hann heyrir bænir okkar þegar við biðjum um efnislegar nauðsynjar eins og mat og klæðnað. Jesús sagði: „Leitið fyrst ríkis [Guðs] og réttlætis, þá mun allt þetta veitast yður að auki.“ (Matteus 6:26-33) Það er ekki auðvelt að leita réttlætis Guðs þar sem við erum öll ófullkomin og þurfum á fyrirgefningu að halda. (Rómverjabréfið 5:12) Faðirvorið víkur einnig að þessu.

Bæn um fyrirgefningu

„Fyrirgef oss vorar skuldir, svo sem vér og fyrirgefum vorum skuldunautum.“ (Matteus 6:12) Í faðirvorinu í Lúkasi eru þessar „skuldir“ kallaðar „syndir“. (Lúkas 11:4) Á Jehóva Guð virkilega eftir að fyrirgefa syndir okkar?

Þó svo að Davíð Ísraelskonungur hefði framið alvarlegar syndir iðraðist hann og sagði hughraustur í bæn: „Þú, Drottinn, ert góður og fús til að fyrirgefa, gæskuríkur öllum þeim er ákalla þig.“ (Sálmur 86:5) Þetta er hughreystandi tilhugsun. Faðir okkar á himnum er „fús til að fyrirgefa“ syndir þeirra sem leita til hans og iðrast. Jehóva Guð getur fyrirgefið syndir okkar algerlega eins og skuld sem er felld niður.

En Jesús setti eitt skilyrði: Ef við viljum að Guð fyrirgefi okkur verðum við að fyrirgefa öðrum. (Matteus 6:14, 15) Þótt þrír félagar hins réttláta Jobs hafi komið illa fram við hann fyrirgaf hann þeim og bað jafnvel fyrir þeim. (Jobsbók 42:10) Ef við fyrirgefum þeim sem syndga gegn okkur gleðjum við Guð og njótum miskunnar hans.

Fyrst Guð er fús til að heyra bænir okkar ættum við að leita velþóknunar hans. Það getum við gert jafnvel þótt við séum ófullkomin. (Matteus 26:41) Jehóva getur hjálpað okkur til þess eins og Jesús sýndi fram á með því að ljúka fyrirmyndarbæninni með mikilvægri bón.

Að biðja um hjálp til að sýna ráðvendni

„Eigi leið þú oss í freistni, heldur frelsa oss frá illu.“ (Matteus 6:13) Jehóva lætur okkur hvorki syndga né skilur okkur eftir hjálparlaus gagnvart freistingum. Orð hans fullyrðir: „Guð getur eigi orðið fyrir freistingu af hinu illa, enda freistar hann sjálfur einskis manns.“ (Jakobsbréfið 1:13) Guð leyfir að okkar sé freistað en hann getur frelsað okkur frá freistaranum mikla, Satan djöflinum.

Pétur postuli hvatti kristna menn: „Verið algáðir, vakið. Óvinur yðar, djöfullinn, gengur um sem öskrandi ljón, leitandi að þeim, sem hann geti gleypt.“ (1. Pétursbréf 5:8) Satan freistaði jafnvel Jesú Krists þó að hann væri fullkominn. Hvað hafði hann í hyggju? Hann vildi fá Jesú til að víkja frá hreinni tilbeiðslu við Jehóva Guð. (Matteus 4:1-11) Ef þú leitast við að þjóna Guði reynir Satan einnig að afvegaleiða þig.

Satan notar heiminn, sem hann hefur undir stjórn sinni, til að reyna að láta okkur taka þátt í einhverju sem er Guði vanþóknanlegt. (1. Jóhannesarbréf 5:19) Það er því nauðsynlegt að biðja Guð ítrekað um að hjálpa okkur, sérstaklega ef við glímum við viðvarandi freistingu. Ef við tilbiðjum Jehóva eins og hann hefur sagt í innblásnu orði sínu, Biblíunni, frelsar hann okkur með því að hjálpa okkur að standa gegn djöflinum. „Guð er trúr og lætur ekki freista yðar um megn fram,“ segir Biblían. — 1. Korintubréf 10:13.

Trú á Guð er nauðsynleg

Okkur hlýnar um hjartaræturnar þegar við hugsum til þess að faðir okkar á himnum hefur áhuga á hverju og einu okkar. Hann lét jafnvel son sinn, Jesú Krist, kenna okkur að biðja. Þetta vekur vissulega með okkur löngun til að gleðja Jehóva Guð. Hvernig förum við að því?

Biblían segir: „Án trúar er ógerlegt að þóknast honum, því að sá, sem gengur fram fyrir Guð, verður að trúa því, að hann sé til og að hann umbuni þeim, er hans leita.“ (Hebreabréfið 11:6) Hvernig getum við öðlast slíka trú? „Trúin [kemur] af heyrninni,“ segir Biblían. (Rómverjabréfið 10:17, Biblían 1859) Vottar Jehóva eru mjög fúsir til að ræða um biblíuleg málefni við alla sem vilja þjóna Guði í einlægni.

Vonandi hefur þessi umfjöllum um faðirvorið aukið skilning þinn á merkingu þess. Þú getur styrkt trú þína á Guð með því að afla þér þekkingar á honum og fræðast um umbunina sem hann geymir „þeim, er hans leita“. Megir þú læra meira um hann og fyrirætlanir hans svo að þú getir átt náið samband við himneskan föður þinn að eilífu. — Jóhannes 17:3.

[Innskot á blaðsíðu 5]

„Faðir vor, þú sem ert á himnum. Helgist þitt nafn, til komi þitt ríki, verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni. Gef oss í dag vort daglegt brauð. Fyrirgef oss vorar skuldir, svo sem vér og fyrirgefum vorum skuldunautum. Og eigi leið þú oss í freistni, heldur frelsa oss frá illu.“ — Matteus 6:9-13

[Mynd á blaðsíðu 7]

Jehóva annast þarfir þeirra sem elska hann.

[Mynd á blaðsíðu 7]

Hann hjálpar okkur einnig að standa gegn djöflinum.

[Mynd á blaðsíðu 7]

Ef við fyrirgefum þeim sem syndga gegn okkur, líkt og Job gerði, getum við notið miskunnar Guðs.