Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Fjársjóðir Chester Beatty safnsins

Fjársjóðir Chester Beatty safnsins

Fjársjóðir Chester Beatty safnsins

„MIKLIR fjársjóðir margra horfinna menningarsamfélaga, . . . undurfagrar smámyndir og málverk.“ Þannig lýsir R. J. Hayes merku bókasafni í Dyflinni á Írlandi, en hann er fyrrverandi forstöðumaður þess. Þetta er Chester Beatty bókasafnið. Þar er varðveitt ómetanlegt safn fornminja, fagurra listaverka og sjaldgæfra bóka og handrita sem ekki er hægt að meta til verðs. Hver var Chester Beatty og hvaða fjársjóðum safnaði hann?

Alfred Chester Beatty fæddist í New York árið 1875. Hann var af skosku, írsku og ensku bergi brotinn. Rúmlega þrítugur að aldri var hann búinn að auðgast vel sem námuverkfræðingur og ráðgjafi. Hann notaði auð sinn til að safna fögrum og fágætum munum alla ævi. Þegar hann lést árið 1968, 92 ára að aldri, ánafnaði hann írsku þjóðinni safn sitt eins og það lagði sig.

Hverju safnaði hann?

Safngripir Chester Beattys eru bæði margir og fjölbreyttir, og þeir elstu eru nokkur þúsund ára gamlir. Ekki er nema eitt af hundraði þeirra til sýnis á hverjum tíma. Hann safnaði sjaldgæfum dýrgripum frá ýmsum tímum og menningarsamfélögum, meðal annars evrópskum munum frá miðöldum og endurreisnartímanum og eins munum frá mörgum Asíu- og Afríkuríkjum. Þar er til dæmis að finna eitt merkasta safn í heimi af fögrum og fíngerðum japönskum tréristum.

Í safninu er einnig að finna rúmlega hundrað babýlonskar og súmerskar leirtöflur með ævafornu fleygrúnaletri, sem stinga nokkuð í stúf við hin fögru listaverk. Fyrir meira en 4000 árum rituðu íbúar Mesópótamíu ítarlegar lýsingar á lífi sínu á mjúkar leirtöflur, sem voru síðan hertar með hitun. Margar hafa varðveist fram á okkar dag og vitna greinilega um það hve ævaforn ritlistin er.

Dálæti á bókum

Chester Beatty virðist hafa hrifist mjög af listfengi þeirra sem gerðu fagrar bækur. Hann safnaði þúsundum veraldlegra og trúarlegra bóka, þar á meðal fagurlega skreyttum eintökum af Kóraninum. Rithöfundur segir að Beatty hafi verið „gagntekinn af nákvæmum hlutföllum arabíska letursins . . . og hrifist mjög af skrautritun og skreytingum með gull- og silfurþynnum og öðrum skærlitum efnum“.

Chester Beatty heillaðist mjög af jaði, rétt eins og sumir keisarar Kína fyrr á öldum. Keisarar þessir álitu jaði dýrmætast allra jarðefna, mun verðmætara en gull, og fengu færa handverksmenn til að vinna sléttar þynnur úr stærri blokkum. Listamenn voru síðan fengnir til að skrifa á þynnurnar með fínlegri skrautskrift og greypa í þær gullskreyttar myndir. Eftir liggja einhverjar sérstæðustu bækur sem gerðar hafa verið. Beatty safnaði þessum bókum og þykir safnið mikill fjársjóður.

Ómetanleg biblíuhandrit

Í hugum þeirra sem unna Biblíunni eru verðmætustu fjársjóðir Chester Beatty safnsins fólgnir í miklum fjölda biblíuhandrita, bæði frá miðöldum og eldri. Fagurlega myndskreytt handrit vitna um þolinmæði og listfengi ritaranna sem gerðu þau. Og prentaðar bækur eru til marks um færni og fagmennsku prentara og bókbindara fyrr á öldum. Sem dæmi má nefna Biblia Latina sem var prentuð í Nürnberg árið 1479. Prentarinn hét Anton Koberger og var uppi um svipað leyti og Johannes Gutenberg. Hann er kallaður „einn þýðingarmesti og mikilvirkasti prentari fyrri alda“.

Einn sérlega merkur sýningargripur í Chester Beatty bókasafninu er skinnhandrit frá fyrri hluta fjórðu aldar. Það er kennt við Efraem nokkurn sem var sýrlenskur fræðimaður. Efraem vitnar mikið í verk frá annarri öld sem kallað er Diatessaron en höfundur þess hét Tatíanos. Í Diatessaron er frásögum guðspjallanna fjögurra af Jesú Kristi steypt saman í eina samfellda sögu. Ritarar síðar á öldum vísuðu oft í þetta verk en ekkert eintak hefur varðveist. Einhverjir fræðimenn á nítjándu öld drógu jafnvel í efa að ritið hefði verið til. Árið 1956 fann Beatty skýringarrit Efraems við Diatessaron og skaut fundurinn enn fleiri stoðum undir það að Biblían sé áreiðanleg og sannorð.

Einstætt safn papírushandrita

Beatty safnaði miklu magni papírushandrita, bæði af trúarlegum og veraldlegum toga. Í safninu eru rúmlega 50 papírusbækur frá því fyrir fjórðu öld. Sumum þeirra var bjargað úr miklum papírushaugum í egypsku eyðimörkinni, hálfgerðum sorphaugum sem enginn vissi af öldum saman. Mörg papírusskjölin voru slitur einar þegar þau voru boðin til sölu. Sölumenn birtust gjarnan með pappakassa fulla af papírustætlum. „Áhugasamir kaupendur stungu hendinni einfaldlega ofan í kassann og völdu stærsta stykkið með mesta textanum,“ segir Charles Horton, forstöðumaður þeirrar deildar Chester Beatty bókasafnsins þar sem vestrænar bækur eru varðveittar.

Merkilegasti fundur Beattys var, að sögn Hortons, fágæt biblíuhandrit sem „innihéldu einhver elstu afrit Gamla og Nýja testamentis kristinna manna sem vitað er um“. Sölumenn, sem gerðu sér grein fyrir verðmæti bókanna, hefðu hæglega getað rifið þær í sundur og selt hvern bút í sínu lagi. En Beatty tókst að kaupa flestar bækurnar. Hvaða þýðingu hafa þessar bækur? Sir Frederic Kenyon kallar þær „langmerkasta fund“ síðan Tischendorf fann Sínaíhandritið árið 1844.

Bækur þessar eru frá annarri til fjórðu öld okkar tímatals. Meðal bóka Hebresku ritninganna er að finna tvö eintök af 1. Mósebók í grískri þýðingu (Sjötíumannaþýðingunni). Þau eru sérstaklega verðmæt, segir Kenyon, „vegna þess að það vantar næstum alla bókina [þ.e. 1. Mósebók] í Vatíkanhandritið og Sínaíhandritið“ en það eru skinnhandrit frá fjórðu öld. Í safninu eru þrjár bækur með bókum kristnu grísku ritninganna. Í einni þeirra er mestur hluti guðspjallanna fjögurra og verulegur hluti Postulasögunnar. Í annarri bókinni er að finna bréf Páls postula, næstum í heilu lagi, þar á meðal Hebreabréfið. Nokkrar blaðsíður vantaði upphaflega í hana en Beatty tókst að komast yfir þær síðar. Þriðja bókin inniheldur um þriðjung Opinberunarbókarinnar. Að sögn Kenyons hafa þessar papírusbækur „styrkt mjög áþreifanlega grundvöll þess að treysta texta Nýja testamentisins eins og við þekkjum hann — og var grundvöllurinn þó sterkur fyrir“.

Biblíuhandrit Chester Beatty safnsins sýna að kristnir menn tóku mjög snemma að nota bækur með samanbundnum blöðum, sennilega fyrir lok fyrstu aldar, enda voru þær mun þjálli í notkun en bókrollurnar. Af papírusbókunum sést einnig að ritarar endurnýttu oft gamlar papírusarkir þar sem skrifföng voru oft af skornum skammti. Til dæmis virðist eitt koptískt handrit af hluta Jóhannesarguðspjalls vera „skrifað í gríska skólabók með reikningsdæmum“.

Þessi papírusrit eru ómetanleg þó að þau séu ekkert fyrir augað. Þau eru sýnilegur og áþreifanlegur tengiliður við upphaf kristninnar. „Við höfum fyrir augum okkar þess konar bækur sem fyrstu samfélög kristinna manna notuðu — bækur sem þeim þótti ákaflega vænt um,“ segir Charles Horton. (Orðskviðirnir 2:4, 5) Þú verður ekki fyrir vonbrigðum ef þú hefur tækifæri til að heimsækja Chester Beatty bókasafnið og skoða einhverja af fjársjóðum þess.

[Mynd á blaðsíðu 32]

Japönsk trérista eftir Katsushika Hokusai.

[Mynd á blaðsíðu 32]

„Biblia Latina“ er ein fyrsta prentaða biblían.

[Mynd á blaðsíðu 32]

Skýringarrit Efraems við „Diatessaron“ Tatíanosar skýtur enn fleiri stoðum undir áreiðanleika Biblíunnar.

[Mynd á blaðsíðu 32]

Chester Beatty P45 er ein elsta bók í heimi og inniheldur stærsta hluta guðspjallanna fjögurra og verulegan hluta Postulasögunnar í einu bindi.

[Mynd rétthafi á blaðsíðu 30]

Með góðfúslegu leyfi safnvarða Chester Beatty bókasafnsins í Dyflinni.

[Rétthafi á blaðsíðu 32]

Allar myndir: Með góðfúslegu leyfi safnvarða Chester Beatty bókasafnsins í Dyflinni.