Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hverjir gefa Guði dýrð?

Hverjir gefa Guði dýrð?

Hverjir gefa Guði dýrð?

„Verður ert þú, Drottinn vor og Guð, að fá dýrðina og heiðurinn og máttinn.“ — OPINBERUNARBÓKIN 4:11.

1, 2. (a) Hvaða dæmi eru lýsandi fyrir þá fræðigrein sem kalla mætti lífhermifræði? (b) Hvaða spurning vaknar og hvert er svarið við henni?

DAG einn á fimmta áratug síðustu aldar fór svissneski verkfræðingurinn George de Mestral út að ganga með hundinn sinn. Þegar hann kom heim tók hann eftir því að bæði föt hans og feldur hundsins voru þakin krókaldinum. Í forvitni sinni rannsakaði hann þau undir smásjá og tók eftir athyglisverðum örsmáum krókum sem festust við allt sem hafði lykkju. Síðar fann hann upp gerviefni, sem líkti eftir krókaldininu — franska rennilásinn. De Mestral er ekki sá eini sem hefur hermt eftir hönnun náttúrunnar. Í Bandaríkjunum hönnuðu Wright bræðurnir flugvél eftir að hafa fylgst með stórum fuglum á flugi. Þegar franski verkfræðingurinn Alexandre-Gustave Eiffel hannaði Eiffelturninn í París notaði hann sömu eðlisfræðilögmál og þau sem gera lærleggnum kleift að halda líkamanum uppi.

2 Þessi dæmi eru lýsandi fyrir þá fræðigrein sem kalla mætti lífhermifræði en hún felst í því að líkja eftir hönnun náttúrunnar. Sú spurning vaknar hins vegar hve oft uppfinningamenn gefi þeim heiðurinn sem hannaði örsmáu krókaldinin, stóru fuglana, lærlegg líkamans og allar stórkostlegu fyrirmyndirnar sem maðurinn hefur byggt uppfinningar sínar á. Því miður er sjaldgæft að Guði sé gefinn sá heiður og sú dýrð sem hann á skilið.

3, 4. Hvað merkir hebreska orðið sem þýtt er „dýrð“ og við hvað er átt þegar það er notað um Jehóva?

3 Sumir spyrja sig ef til vill: Hvers vegna þarf að gefa Guði dýrð? Er hann ekki nú þegar dýrlegur? Vissulega er Jehóva dýrlegasta persónan í alheiminum en það þýðir ekki að hann sé dýrlegur í augum allra manna. Í Biblíunni hefur hebreska orðið, sem þýtt er „dýrð“, grunnmerkinguna „þyngd“. Það vísar til þess sem gerir einhvern þungan á metunum eða tilkomumikinn í augum annarra. Þegar það er notað um Guð er átt við það sem gerir hann tilkomumikinn í augum manna.

4 Fáir gefa gaum að því sem gerir Guð tilkomumikinn. (Sálmur 10:4; 14:1) Framámenn í þjóðfélaginu hafa meira að segja oft ýtt undir lítilsvirðingu gagnvart hinum dýrlega skapara alheimsins, ef þeir þá trúa yfirhöfuð á hann. Hvernig hafa þeir gert það?

Mennirnir eru því án afsökunar“

5. Hvernig útskýra margir vísindamenn undur sköpunarverksins?

5 Margir vísindamenn vilja ekki viðurkenna tilvist Guðs. Hvernig útskýra þeir þá undur sköpunarverksins, meðal annars mennina? Heiðurinn af þeim eigna þeir þróun, það er að segja algerri tilviljun. Þróunarsinninn Stephen Jay Gould skrifaði til dæmis: „Við erum til vegna þess að skrýtinn hópur fiska hafði einkennilega ugga sem gátu umbreyst í fætur landdýra . . . Við þráum kannski háleitara svar, en það er ekki til.“ Richard E. Leakey og Roger Lewin taka í sama streng: „Kannski er maðurinn bara hrikaleg líffræðileg mistök.“ Margir vísindamenn, sem lofa fegurðina og hönnunina í náttúrunni, gefa Guði samt ekki heiðurinn af henni.

6. Hvað fær marga til að gefa skaparanum ekki þann heiður sem honum ber?

6 Þegar lærðir menn halda því fram að það sé staðreynd að lífið hafi þróast gefa þeir í skyn að aðeins fáfróðir menn trúi því ekki. Hvaða áhrif hafa slíkar fullyrðingar á aðra? Fyrir nokkrum árum átti maður, sem þekkti þróunarkenninguna mjög vel, viðtöl við fólk sem aðhylltist hana. Hann sagði: „Ég komst að raun um að flestir sem aðhyllast þróunarkenninguna gera það vegna þess að þeim hefur verið sagt að allt vel gefið fólk trúi henni.“ Já, þegar fróðir menn koma fram með hugmyndir, sem einkennast af trúleysi, verður það til þess að aðrir gefa skaparanum ekki þann heiður sem honum ber. — Orðskviðirnir 14:15, 18.

7. Hvað er hægt að sjá skýrt af hinu sýnilega sköpunarverki samkvæmt Rómverjabréfinu 1:20 og hvers vegna?

7 Hafa vísindamenn dregið ályktanir sínar af staðreyndum og sönnunargögnum? Nei, alls ekki. Við erum umkringd sönnunum fyrir því að til sé skapari. Páll postuli skrifaði um Guð: „Hið ósýnilega eðli hans, bæði hans eilífi kraftur og guðdómleiki, er sýnilegt frá sköpun heimsins [mannkynsins], með því að það verður skilið af verkum hans. Mennirnir eru því án afsökunar.“ (Rómverjabréfið 1:20) Sköpunarverkið vitnar greinilega um handbragð skapara. Páll á því við að frá upphafi mannkynsins hafi mennirnir getað séð sannanir fyrir tilvist Guðs í hinu sýnilega sköpunarverki. Hvar eru þessar sannanir?

8. (a) Hvernig bera himnarnir vott um mátt Guðs og visku? (b) Hvað bendir til þess að alheimurinn hafi átt sér orsök?

8 Við sjáum sannanir fyrir tilvist Guðs á stjörnubjörtum himninum. „Himnarnir segja frá Guðs dýrð,“ stendur í Sálmi 19:2. „Himnarnir“ eða sólin, tunglið og stjörnurnar bera vott um mátt Guðs og visku. Stjörnumergðin fyllir okkur lotningu. Auk þess ferðast himintunglin ekki stefnulaust um geiminn heldur fylgja þau nákvæmum eðlisfræðilögmálum. * (Jesaja 40:26) Er rökrétt að álykta að slík röð og regla hafi komið til af algerri tilviljun? Það er athyglisvert að margir vísindamenn segja að alheimurinn hafi átt sér skyndilegt upphaf. Prófessor nokkur skrifaði í því sambandi: „Alheimur, sem hefur alltaf verið til, samræmist mun betur [hugmyndum] trúleysingja og efasemdamanna. Aftur á móti má segja að alheimur, sem á sér upphaf, virðist þurfa að eiga sér orsök því að hver gæti ímyndað sér slíkar afleiðingar án orsakar?“

9. Hvernig sést viska Jehóva af dýraríkinu?

9 Á jörðinni finnum við einnig sannanir fyrir tilvist Guðs. Sálmaritarinn söng: „Hversu mörg eru verk þín, Drottinn, þú gjörðir þau öll með speki, jörðin er full af því, er þú hefir skapað.“ (Sálmur 104:24) Sköpunarverk Jehóva ber vott um visku hans. Dýrin eru gott dæmi um það. Eins og minnst var á áður eru lífverurnar svo vel hannaðar að vísindamenn leggja sig oft í líma við að líkja eftir þeim. Tökum fleiri dæmi. Vísindamenn eru að kanna hjartarhorn með það fyrir augum að búa til sterkari hjálma, þeir eru að rannsaka flugutegund með skarpa heyrn til að gera heyrnartæki betri og grandskoða flugfjaðrir ugla í þeim tilgangi að gera torséðar flugvélar hljóðlátari. En sama hvað maðurinn reynir tekst honum aldrei að líkja nákvæmlega eftir fullkomnu fyrirmyndunum í náttúrunni. Í bókinni Biomimicry — Innovation Inspired by Nature stendur: „Lífverurnar hafa gert allt sem okkur langar til að gera, án þess þó að svolgra í sig jarðefnaeldsneyti, menga jörðina eða stofna framtíð sinni í hættu.“ Þetta ber svo sannarlega merki um viturlega hönnun.

10. Hvers vegna er órökrétt að afneita tilvist skapara? Lýstu með dæmi.

10 Hvort sem þú lítur upp til himins eða skoðar sköpunarverkið hér á jörð sérðu skýr merki um skapara. (Jeremía 10:12) Við ættum að vera hjartanlega sammála andaverunum sem hrópa: „Verður ert þú, Drottinn vor og Guð, að fá dýrðina og heiðurinn og máttinn, því að þú hefur skapað alla hluti, og fyrir þinn vilja urðu þeir til og voru skapaðir.“ (Opinberunarbókin 4:11) Samt sem áður sjá margir vísindamenn ekki sönnunargögnin með ‚augum hugskotsins‘ þótt þeir dáist að hönnun þess sem þeir sjá með bókstaflegu augunum. (Efesusbréfið 1:18, Biblían 1859) Þessu má lýsa svona: Það að dást að fegurð og hönnun náttúrunnar en um leið að afneita tilvist skapara er álíka órökrétt og að dást að fallegu málverki en neita samt að viðurkenna að listamaður hafi breytt auðum striga í meistaraverk. Það er því engin furða að þeir sem vilja ekki trúa á Guð séu sagðir vera „án afsökunar“.

Blindir leiðtogar leiða marga afvega

11, 12. Á hverju er forlagakenningin byggð og hvers vegna er hún ekki Guði til dýrðar?

11 Margt trúað fólk trúir í einlægni að tilbeiðsla þess sé Guði til dýrðar. (Rómverjabréfið 10:2, 3) Trúarbrögðin í heild sinni hafa hins vegar hindrað milljónir manna í að gefa Guði dýrð. Hvernig þá? Athugum tvennt sem kastar rýrð á Guð.

12 Í fyrsta lagi kasta falskenningar trúarbragðanna rýrð á Guð. Sem dæmi má nefna forlagakenninguna. Hún byggist á þeirri hugmynd að Guð hljóti að vita allt fyrir fram þar sem hann getur séð inn í framtíðina. Hún gefur því í skyn að Guð hafi fyrir langa löngu ákveðið hvað allir menn ættu eftir að upplifa, bæði gott og slæmt. Samkvæmt þessari hugmynd hljóta allar þjáningarnar og illskan í heiminum að vera Guði að kenna. Það er varla hægt að segja að það sé Guði til dýrðar að kenna honum um það sem Satan, erkióvinur hans og „höfðingi heimsins“, ber ábyrgð á. — Jóhannes 14:30; 1. Jóhannesarbréf 5:19.

13. Hvers vegna er órökrétt að halda að Guð ráði ekki sjálfur hvað hann sér fyrir? Lýstu með dæmi.

13 Forlagakenningin er óbiblíuleg og smánar Guð. Hún ruglar saman því sem hann getur gert við það sem hann gerir í raun og veru. Það kemur skýrt fram í Biblíunni að Guð getur séð atburði fyrir. (Jesaja 46:9, 10) En það væri órökrétt að halda að hann ráði ekki sjálfur hvað hann sér fyrir eða að hann sé ábyrgur fyrir öllu sem gerist. Tökum dæmi: Þótt þú værir mjög sterkur fyndirðu þig varla knúinn til að lyfta upp öllum þungum hlutum sem þú sæir. Sömuleiðis þarf Guð ekki að sjá eða ákveða allt fyrir fram þó að hann hafi þann hæfileika að geta vitað hvað framtíðin ber í skauti sér. Hann velur sjálfur hvað hann sér fyrir. * Það er greinilegt að falskenningar eins og forlagakenningin eru Guði ekki til dýrðar.

14. Hvernig hafa trúarbrögðin smánað Guð?

14 Í öðru lagi smána trúarbrögðin Guð með breytni fylgjenda sinna. Kristnir menn eiga að fara eftir því sem Jesús sagði. Hann kenndi fylgjendum sínum meðal annars að ,elska hver annan‘ og ,vera ekki af heiminum‘. (Jóhannes 15:12; 17:14-16) Hafa klerkar kristna heimsins farið eftir þessum fyrirmælum?

15. (a) Hvaða afskipti hafa klerkar haft af stríðum milli þjóða? (b) Hvaða áhrif hefur breytni klerka haft á milljónir manna?

15 Lítum á þau afskipti sem klerkar hafa haft af stríðum. Þeir hafa látið mörg stríð milli þjóða viðgangast, stutt þau og jafnvel efnt til þeirra. Þeir hafa blessað hermennina og réttlætt drápin. Við getum ekki annað en spurt okkur hvort það hafi aldrei hvarflað að þessum klerkum að embættisbræður þeirra hinum megin víglínunnar væru að gera nákvæmlega það sama og þeir. (Sjá rammagreinina „Með hverjum stendur Guð?“) Klerkarnir eru ekki Guði til dýrðar þegar þeir halda því fram að hann styðji þá í blóðugum stríðum eða þegar þeir segja lífsreglur Biblíunnar vera úreltar og láta alls konar kynferðislegt siðleysi viðgangast. Þeir minna á trúarleiðtogana sem Jesús kallaði „illgjörðarmenn“ og ,blinda leiðtoga‘. (Matteus 7:15-23; 15:14) Breytni klerkanna hefur gert það að verkum að kærleikur milljóna manna til Guðs hefur kólnað. — Matteus 24:12.

Hverjir gefa Guði dýrð?

16. Hvers vegna verðum við að leita til Biblíunnar til að komast að því hverjir gefa Guði dýrð?

16 Ef framámenn og áhrifamikið fólk í heiminum gefa Guði almennt ekki dýrð, hverjir gera það þá í raun og veru? Til að fá svar við þeirri spurningu verðum við að leita til Biblíunnar. Guð hefur rétt á að ákveða hvernig hann vill láta vegsama sig og hann greinir frá því í orði sínu, Biblíunni. (Jesaja 42:8) Við skulum skoða þrjár leiðir til að gefa Guði dýrð og athuga hverjir gera það nú á tímum.

17. Hvernig sýndi Jehóva að það er mikilvægt að vegsama nafn hans og hverjir lofa það um alla jörðina?

17 Í fyrsta lagi getum við verið Guði til dýrðar með því að lofa nafn hans. Það sem Jehóva sagði við Jesú sýnir að þetta er mikilvægur hluti þess að gera vilja hans. Fáeinum dögum fyrir dauða sinn bað Jesús: „Faðir, gjör nafn þitt dýrlegt!“ Síðan heyrðist rödd svara: „Ég hef gjört það dýrlegt og mun enn gjöra það dýrlegt.“ (Jóhannes 12:28) Það fer ekki á milli mála að það var Jehóva sjálfur sem sagði þessi orð. Af svarinu er greinilegt að honum er það mikilvægt að nafn hans sé vegsamað. Hverjir vegsama þá Guð með því að kunngera nafn hans og lofa það um alla jörðina? Vottar Jehóva gera það í 235 löndum. — Sálmur 86:11, 12.

18. Hvernig getum við borið kennsl á þá sem tilbiðja Guð í „sannleika“ og hvaða hópur hefur kennt sannleika Biblíunnar í meira en öld?

18 Í öðru lagi getum við verið Guði til dýrðar með því að kenna sannleikann um hann. Jesús sagði að sannir tilbiðjendur Guðs myndu ‚tilbiðja hann í sannleika‘. (Jóhannes 4:24) Hvernig getum við borið kennsl á þá sem tilbiðja Guð í „sannleika“? Þeir verða að hafna kenningum sem eru ekki byggðar á Biblíunni og gefa ranga mynd af Guði og vilja hans. Þeir verða einnig að kenna sannleikann sem er í orði Guðs, þar á meðal eftirfarandi: Jehóva er hinn hæsti Guð og hann einn verðskuldar heiðurinn af þeirri stöðu (Sálmur 83:19); Jesús er sonur Guðs og útvalinn stjórnandi messíasarríkis hans (1. Korintubréf 15:27, 28); Guðsríki mun helga nafn Jehóva og láta fyrirætlun hans með jörðina og mennina ná fram að ganga (Matteus 6:9, 10); fagnaðarerindið um ríkið verður að prédika um alla jörðina. (Matteus 24:14) Í meira en öld hefur aðeins einn hópur, Vottar Jehóva, kennt þessi dýrmætu sannindi.

19, 20. (a) Hvers vegna getur góð hegðun kristins manns verið Guði til dýrðar? (b) Hvaða spurningar geta hjálpað okkur að komast að niðurstöðu um það hverjir vegsama Guð með breytni sinni?

19 Í þriðja lagi getum við verið Guði til dýrðar með því að lifa eftir meginreglum hans. Pétur postuli skrifaði: „Hegðið yður vel meðal heiðingjanna, til þess að þeir, er nú hallmæla yður sem illgjörðamönnum, sjái góðverk yðar og vegsami Guð á tíma vitjunarinnar.“ (1. Pétursbréf 2:12) Hegðun kristinna manna endurspeglar trú þeirra. Það er Guði til dýrðar þegar aðrir taka eftir því að trú kristinna manna hefur bein áhrif á hegðun þeirra.

20 Hverjir vegsama Guð með góðri breytni sinni? Hugleiðum málið. Fylgjendur hvaða trúarhóps hafa fengið lof frá mörgum stjórnvöldum fyrir að vera friðsamir og löghlýðnir borgarar og skilvísir skattgreiðendur? (Rómverjabréfið 13:1, 3, 6, 7) Hverjir eru þekktir um heim allan fyrir einingu sín á meðal sem er hafin yfir þjóðernis- og kynþáttafordóma? (Sálmur 133:1; Postulasagan 10:34, 35) Hvaða hópur er þekktur um heim allan fyrir biblíufræðslustarf sem stuðlar að hlýðni við siðgæðisstaðla Biblíunnar, virðingu fyrir lögum og góðum siðferðisgildum innan fjölskyldunnar? Það er aðeins einn hópur sem hefur verið til fyrirmyndar á þessum og öðrum sviðum — Vottar Jehóva.

Gefur þú Guði dýrð?

21. Hvers vegna ættum við að velta því fyrir okkur hvort við séum Jehóva til dýrðar?

21 Við ættum öll að spyrja okkur hvort við séum Jehóva til dýrðar. Í Sálmi 148 kemur fram að flestallt í sköpunarverkinu gefur Guði dýrð. Englarnir, himininn, jörðin og dýrin lofa öll Jehóva. (Vers 1-10) Það er sorglegt að flestir menn skuli ekki gera það líka. Við vegsömum Jehóva ásamt sköpunarverkinu með því að breyta eftir lífsreglum sem eru honum til dýrðar. (Vers 11-13) Það er ekki hægt að nota líf sitt á betri hátt.

22. Hvaða blessun hlýtur þú fyrir að gefa Jehóva dýrð og í hverju ættirðu að vera staðráðinn?

22 Þú hlýtur mikla blessun fyrir að gefa Jehóva dýrð. Ef þú iðkar trú á lausnarfórn Krists verður þú tekinn í sátt við Guð og nýtur þess að eiga friðsamt og gefandi samband við föður þinn á himnum. (Rómverjabréfið 5:10) Þegar þú hugsar um ástæðurnar, sem þú hefur fyrir því að gefa Guði dýrð, verðurðu jákvæðari og þakklátari. (Jeremía 31:12) Þá geturðu hjálpað öðrum að lifa hamingjusömu og tilgangsríku lífi og fyrir vikið verður þú sjálfur hamingjusamari. (Postulasagan 20:35) Megir þú verða einn af þeim sem eru staðráðnir í að gefa Guði dýrð, nú og um eilífð.

[Neðanmáls]

^ gr. 8 Nánari upplýsingar um hvernig himnarnir endurspegla visku Guðs og mátt má finna í 5. og 17. kafla bókarinnar Nálægðu þig Jehóva, gefin út af Vottum Jehóva.

^ gr. 13 Sjá Insight on the Scriptures, 1. bindi, bls. 853, gefin út af Vottum Jehóva.

Manstu?

• Hvers vegna má segja að vísindamenn hafi á heildina litið ekki hjálpað fólki að gefa Guði dýrð?

• Á hvaða tvo vegu hafa trúarbrögðin hindrað fólk í að gefa Guði dýrð?

• Hvernig getum við verið Guði til dýrðar?

• Hvers vegna ættirðu að velta fyrir þér hvort þú sért Jehóva til dýrðar?

[Spurningar]

[Rammagrein á blaðsíðu 22]

„Með hverjum stendur Guð?“

Maður, sem var í þýska flughernum í seinni heimstyrjöldinni en gerðist síðar vottur Jehóva, segir:

„Það vakti óhug hjá mér á stríðsárunum . . . að sjá klerka úr næstum öllum trúflokkum — kaþólikka, lúterstrúarmenn, biskupakirkjumenn og fleiri — blessa flugvélar og áhafnir áður en þær héldu af stað til að varpa banvænum farmi sínum. Ég hugsaði oft: Með hverjum stendur Guð?

Þýskir hermenn voru gyrtir belti með sylgju sem á stóð Gott mit uns (Guð er með okkur). Ég spurði sjálfan mig hvers vegna Guð gæti ekki alveg eins verið með hermönnunum hinum megin víglínunnar sem voru sömu trúar og báðu til sama Guðs.“

[Mynd á blaðsíðu 20]

Vottar Jehóva gefa Guði dýrð um heim allan.