Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Klæðist alvæpni Guðs“

„Klæðist alvæpni Guðs“

„Klæðist alvæpni Guðs“

„Klæðist alvæpni Guðs, til þess að þér getið staðist vélabrögð djöfulsins.“ — EFESUSBRÉFIÐ 6:11.

1, 2. Lýstu með eigin orðum hinum andlegu herklæðum sem kristnir menn þurfa að klæðast.

VELDI RÓMAR stóð sem hæst á fyrstu öld okkar tímatals. Slíkur var styrkur rómversku hersveitanna að Róm réð yfir stærstum hluta hins þekkta heims. Sagnfræðingur kallar þær „eitt hið máttugasta hernaðarkerfi sem um getur í sögunni“. Í fastaher Rómaveldis voru agaðir hermenn sem fengið höfðu stranga þjálfun, en styrkur hersins í stríði var einnig fólginn í vopnabúnaðinum. Páll postuli notar rómverskan hermann sem dæmi til að lýsa hinum andlegu herklæðum sem kristnir menn þurfa að bera til að sigra í baráttunni við Satan djöfulinn.

2 Lýsingu Páls á andlegu herklæðunum er að finna í Efesusbréfinu 6:14-17. Páll skrifaði: „Standið . . . gyrtir sannleika um lendar yðar og klæddir brynju réttlætisins og skóaðir á fótunum með fúsleik til að flytja fagnaðarboðskap friðarins. Takið umfram allt skjöld trúarinnar, sem þér getið slökkt með öll hin eldlegu skeyti hins vonda. Takið við hjálmi hjálpræðisins og sverði andans, sem er Guðs orð.“ Herklæðin, sem Páll lýsir, veittu rómverskum hermanni góða vernd frá mannlegum bæjardyrum séð. Hann bar líka sverð en það var helsta vopnið sem notað var þegar menn börðust í návígi.

3. Hvers vegna eigum við að hlýða fyrirmælum Jesú Krists og líkja eftir honum?

3 Sigursæld rómverska hersins var einnig undir því komin að hermennirnir hlýddu yfirboðara sínum. Kristnir menn verða með sama hætti að hlýða Jesú Kristi sem Biblían kallar „stjórnara þjóðanna“. (Jesaja 55:4) Hann er jafnframt „höfuð safnaðarins“. (Efesusbréfið 5:23, Biblían 1912) Jesús gefur okkur fyrirmæli um hinn andlega hernað og er fullkomin fyrirmynd um að nota andlegu herklæðin. (1. Pétursbréf 2:21) Biblían ráðleggur okkur að „herklæðast“ sama hugarfari og hann hafði því að kristinn persónuleiki er náskyldur andlegu herklæðunum. (1. Pétursbréf 4:1) Við skulum nú skoða andlegu herklæðin lið fyrir lið og kanna hvernig Jesús er dæmi um mikilvægi þeirra og áhrif.

Verndum lendar, brjóst og fætur

4. Hvaða hlutverki gegndi belti hermannsins og hverju er það látið lýsa?

4 Lendar gyrtar sannleika. Á biblíutímanum voru hermenn gyrtir 5 til 15 sentímetra breiðu leðurbelti. Sumir þýðendur telja að það eigi að þýða versið: „Með sannleika sem belti þétt um mitti þér.“ Belti hermannsins verndaði lendar hans að vissu marki og hægt var að hengja sverðið í það. Þegar hermaður gyrti sig belti um lendar sér var hann að búast til bardaga. Páll notaði belti hermannsins sem dæmi um það hve sterk áhrif sannleikur Biblíunnar ætti að hafa á okkur. Við ættum að binda hann fast um okkur, ef svo má að orði komast, til að lifa í samræmi við hann og til að geta varið hann hvenær sem er. (2. Samúelsbók 7:28; 1. Pétursbréf 3:15) Til að gera þetta þurfum við að vera iðin að rannsaka Biblíuna og hugleiða efni hennar. Jesús hafði lögmál Guðs ‚innra í sér‘. (Sálmur 40:9) Þess vegna gat hann vitnað í Biblíuna eftir minni þegar andstæðingar lögðu fyrir hann spurningar. — Matteus 19:3-6; 22:23-32.

5. Hvernig geta ráðleggingar Biblíunnar hjálpað okkur í prófraunum eða freistingum?

5 Ef við höfum sannleika Biblíunnar að leiðarljósi verndar hann okkur fyrir röngum röksemdum og gerir okkur fær um að taka skynsamlegar ákvarðanir. Leiðbeiningar hennar styrkja okkur í þeim ásetningi að gera rétt þegar freistingar eða prófraunir verða á vegi okkar. Það er rétt eins og við sjáum Jehóva, hinn mikla kennara, og heyrum kallað á eftir okkur: „Hér er vegurinn! Farið hann!“ — Jesaja 30:20, 21.

6. Hvers vegna þurfum við að vernda hið táknræna hjarta og hvernig getur réttlætið verið áhrifarík vörn?

6 Brynja réttlætisins. Brynja hermannsins skýldi mjög mikilvægu líffæri, hjartanu. Hið táknræna hjarta, sem er hinn innri maður, hneigist til þess sem er rangt. (1. Mósebók 8:21) Þess vegna þarf að vernda það sérstaklega. Við þurfum því að kynna okkur réttláta mælikvarða Jehóva og læra að elska þá. (Sálmur 119:97, 105) Réttlætisástin gerir að verkum að við höfnum veraldlegum hugsunarhætti sem hunsar eða útvatnar skýrar leiðbeiningar Jehóva. Og þegar við elskum hið rétta og hötum hið ranga förum við ekki út á braut sem myndi enda með ósköpum fyrir okkur. (Sálmur 119:99-101; Amos 5:15) Þarna er Jesús til fyrirmyndar því að Biblían segir að hann hafi „elskað réttlæti og hatað ranglæti“. — Hebreabréfið 1:9. *

7. Hvers vegna þurfti rómverskur hermaður að vera vel skóaður og hvað táknar það?

7 Skóaðir á fótum með fúsleik til að flytja fagnaðarboðskap friðarins. Rómverskir hermenn þurftu að vera vel skóaðir því að í hernaðarleiðangri gengu þeir oft 30 kílómetra á dag og klæddust eða báru um 30 kílógrömm af herklæðum og búnaði. Páll notar skófatnað til tákns um viljann til að prédika boðskapinn um ríkið fyrir öllum sem vilja hlusta. Þetta er mikilvægt vegna þess að fólk kynnist ekki Jehóva nema við séum fús og reiðubúin til að prédika. — Rómverjabréfið 10:13-15.

8. Hvernig getum við líkt eftir Jesú sem boðbera fagnaðarerindisins?

8 Hvaða starf var mikilvægast í lífi Jesú? Hann sagði rómverska landstjóranum Pontíusi Pílatusi að hann hefði komið í heiminn til að bera sannleikanum vitni. Hann prédikaði fyrir öllum sem vildu hlusta og hafði svo mikið yndi af þjónustu sinni að hann lét hana ganga fyrir líkamlegu þörfunum. (Jóhannes 4:5-34; 18:37) Ef við erum óðfús að útbreiða fagnaðarerindið líkt og Jesús finnum við ótal tækifæri til að koma því á framfæri við aðra. Og við höldum okkur andlega sterkum með því að vera upptekin af þjónustunni. — Postulasagan 18:5.

Skjöldurinn, hjálmurinn og sverðið

9. Hvernig vörn var í skildi rómverskra hermanna?

9 Skjöldur trúarinnar. Gríska orðið var notað um skjöld sem var nógu stór til að skýla líkamanum að mestu leyti. Hann veitti vernd gegn hinum ‚eldlegu skeytum‘ sem nefnd eru í Efesusbréfinu 6:16. Hermenn á biblíutímanum notuðu örvar sem gerðar voru úr holum reyr. Þær voru með litlu hólfi úr járni sem hægt var að fylla með logandi koltjöru. Fræðimaður segir að þessar örvar hafi verið „einhver hættulegustu hernaðarvopn fortíðar“. Ef hermaður var ekki með nógu stóran skjöld til að skýla sér fyrir þess konar skeytum gat hann særst alvarlega eða fallið.

10, 11. (a) Hvaða ‚eldleg skeyti‘ Satans gætu spillt trú okkar? (b) Hvernig sýndi Jesús fram á gildi trúar í prófraunum?

10 Hvaða ‚eldleg skeyti‘ sendir Satan til að veikja trú okkar eða spilla henni? Hann á það til að beita ofsóknum eða andstöðu í fjölskyldunni, á vinnustað eða í skólanum. Löngunin til að eignast sífellt meira af efnislegum hlutum hefur hrikalegar afleiðingar fyrir trú sumra, og hið sama er að segja um siðleysi. Til að verjast slíkum hættum þurfum við „umfram allt skjöld trúarinnar“. Trúin kemur af því að kynnast Jehóva, eiga regluleg samskipti við hann í bæn og koma auga á hvernig hann verndar okkur og blessar. — Jósúabók 23:14; Lúkas 17:5; Rómverjabréfið 10:17.

11 Þegar Jesús var á jörð sýndi hann fram á gildi sterkrar trúar á ögurstund. Hann treysti algerlega á ákvarðanir föður síns og hafði yndi af því að gera vilja hans. (Matteus 26:42, 53, 54; Jóhannes 6:38) Þegar hann leið miklar sálarkvalir í Getsemanegarðinum sagði hann jafnvel við föður sinn: „Ekki sem ég vil, heldur sem þú vilt“. (Matteus 26:39) Jesús missti aldrei sjónar á því hve nauðsynlegt það væri að vera ráðvandur og gleðja föður sinn. (Orðskviðirnir 27:11) Ef við treystum Jehóva eins og hann, veikist trúin ekki þó að við verðum fyrir gagnrýni eða andstöðu. Hún styrkist öllu heldur ef við reiðum okkur á Guð, elskum hann og höldum boðorð hans. (Sálmur 19:8-12; 1. Jóhannesarbréf 5:3) Engin efnisleg gæði eða skammvinnur unaður jafnast á við blessunina sem Jehóva hefur búið þeim sem elska hann. — Orðskviðirnir 10:22.

12. Hvaða mikilvæga hluta verndar hinn táknræni hjálmur og hvers vegna er það nauðsynlegt?

12 Hjálmur hjálpræðisins. Hjálmur skýldi höfði og heila hermannsins — setri þekkingar og vitsmuna. Það má líkja hinni kristnu von við hjálm vegna þess að hún verndar hugann. (1. Þessaloníkubréf 5:8) Þó að við höfum endurnýjað hugarfarið með nákvæmri þekkingu á orði Guðs erum við eftir sem áður veikburða og ófullkomnir menn. Hugurinn getur hæglega spillst. Markmið heimsins gætu dregið til sín athygli okkar eða jafnvel ýtt til hliðar voninni sem Guð gefur. (Rómverjabréfið 7:18; 12:2) Djöfullinn reyndi að leiða Jesú út af sporinu með því að bjóða honum „öll ríki heims og dýrð þeirra“ en tókst ekki. (Matteus 4:8) Jesús hafnaði boðinu afdráttarlaust og Páll sagði um hann: „Vegna gleði þeirrar, er beið hans, leið hann þolinmóðlega á krossi, mat smán einskis og hefur nú setst til hægri handar hásæti Guðs.“ — Hebreabréfið 12:2.

13. Hvernig getum við haldið áfram að treysta framtíðarvoninni?

13 Við fáum ekki fyrirhafnarlaust sams konar traust og Jesús hafði. Ef við fyllum hugann af draumum og markmiðum heimsins í stað þess að hafa hugann við vonina sem fram undan er, þá veiklast trúin á fyrirheit Guðs. Við gætum jafnvel glatað voninni algerlega með tímanum. Ef við höfum hugann við loforð Guðs að staðaldri höldum við hins vegar áfram að fagna í voninni sem okkur er gefin. — Rómverjabréfið 12:12.

14, 15. (a) Hvað er hið táknræna sverð og hvernig er hægt að nota það? (b) Lýstu með dæmi hvernig sverð andans getur hjálpað okkur að verjast freistingu.

14 Sverð andans. Orð Guðs, það er að segja boðskapur hans, stendur skráður í Biblíunni, og það er eins og beitt, tvíeggjað sverð sem getur höggvið sundur trúarlegar villukenningar og hjálpað hjartahreinu fólki að hljóta andlegt frelsi. (Jóhannes 8:32; Hebreabréfið 4:12) Hið andlega sverð getur einnig varið okkur þegar freistingar sækja að okkur eða fráhvarfsmenn reyna að spilla trú okkar. (2. Korintubréf 10:4, 5) Við erum innilega þakklát fyrir að ‚sérhver ritning skuli vera innblásin af Guði og gera okkur hæf til sérhvers góðs verks‘. — 2. Tímóteusarbréf 3:16, 17.

15 Jesús notaði sverð andans fagmannlega til að verjast fölskum rökum og lævísum freistingum Satans í eyðimörkinni. Hann svaraði öllum freistingunum með því að segja: „Ritað er.“ (Matteus 4:1-11) David, sem er vottur Jehóva og býr á Spáni, komst einnig að raun um að Biblían hjálpaði honum að standast freistingu. Hann var 19 ára þegar aðlaðandi ung kona, sem vann hjá sama hreingerningarfyrirtæki og hann, stakk upp á því að þau „skemmtu sér svolítið saman“. David hafnaði boðinu og bað yfirmann sinn um að fá að vinna annars staðar til að þessi staða kæmi ekki upp aftur. „Ég hugsaði um Jósef,“ segir hann. „Hann hafnaði siðleysi og forðaði sér tafarlaust. Ég gerði það líka.“ — 1. Mósebók 39:10-12.

16. Hvers vegna þurfum við að þjálfa okkur og æfa til að ‚fara rétt með orð sannleikans‘?

16 Jesús notaði líka sverð andans til að hjálpa öðrum að losna undan áhrifum Satans. „Kenning mín er ekki mín, heldur hans, er sendi mig,“ sagði hann. (Jóhannes 7:16) Við þurfum að þjálfa okkur og æfa til að líkja eftir fagmannlegri kennslu Jesú. Gyðingurinn og sagnaritarinn Jósefus skrifaði um hermenn Rómaveldis: „Hver hermaður er þjálfaður daglega af mikilli kostgæfni, rétt eins og stríð standi yfir, en það er einmitt ástæðan fyrir því að þeir hafa svona mikið úthald í bardögum.“ Við þurfum að nota Biblíuna í andlega hernaðinum. Og við verðum að ‚leggja kapp á að reynast hæf fyrir Guði sem verkamenn er ekki þurfa að skammast sín og fara rétt með orð sannleikans‘. (2. Tímóteusarbréf 2:15) Okkur finnst það líka einstaklega ánægjulegt að nota Biblíuna til að svara einlægri spurningu áhugasamrar manneskju.

Biðjið öllum stundum

17, 18. (a) Hvernig er bænin hjálp til að standa gegn Satan? (b) Sýndu fram á gildi bænarinnar með dæmi.

17 Eftir að hafa fjallað um hið andlega alvæpni gefur Páll eitt mikilvægt ráð að auki. Kristnir menn ættu að notfæra sér „alls konar bæn og beiðni“, skrifaði hann, og „biðja á hverri tíð í anda“, það er að segja við öll tækifæri. (Efesusbréfið 6:18, Biblían 1912) Bænin getur styrkt okkur ósegjanlega þegar freistingar og prófraunir verða á vegi okkar eða depurð leggst á okkur. (Matteus 26:41) Jesús „bar . . . fram með sárum kveinstöfum og táraföllum bænir og auðmjúk andvörp fyrir þann, sem megnaði að frelsa hann frá dauða, og fékk bænheyrslu vegna guðhræðslu sinnar“. — Hebreabréfið 5:7.

18 Milagros hefur annast langveikan eiginmann sinn í meira en 15 ár. „Þegar ég verð niðurdregin leita ég til Jehóva í bæn,“ segir hún. „Enginn getur hjálpað mér eins og hann. Auðvitað koma stundir þegar mér finnst ég ekki geta haldið svona áfram lengur. En þegar ég hef beðið til Jehóva hef ég aftur og aftur fengið aukinn kraft og orðið léttari í lund.“

19, 20. Hvað þurfum við að gera til að sigra í baráttunni við Satan?

19 Satan veit að hann hefur nauman tíma og reynir æ meir að buga okkur. (Opinberunarbókin 12:12, 17) Við verðum að standa gegn þessum öfluga óvini og berjast „trúarinnar góðu baráttu“. (1. Tímóteusarbréf 6:12) Þetta útheimtir meira en venjulegan kraft. (2. Korintubréf 4:7) Við þurfum líka að fá hjálp heilags anda Guðs og ættum þess vegna að biðja um hann. Jesús sagði: „Fyrst þér, sem eruð vondir, hafið vit á að gefa börnum yðar góðar gjafir, hve miklu fremur mun þá faðirinn himneski gefa þeim heilagan anda, sem biðja hann.“ — Lúkas 11:13.

20 Ljóst er að við þurfum að taka alvæpnið sem Jehóva lætur í té. Til að bera andlegu herklæðin þurfum við að temja okkur eiginleika eins og trú og réttlæti. Við þurfum að elska sannleikann, rétt eins og hann væri belti um lendar okkar, vera reiðubúin að útbreiða fagnaðarerindið við öll tækifæri og hafa vonina skýrt í huga. Við verðum að læra að beita sverði andans fimlega. Ef við tökum alvæpni Guðs getum við gengið með sigur af hólmi í glímunni við andaverur vonskunnar og heiðrað heilagt nafn Jehóva. — Rómverjabréfið 8:37-39.

[Neðanmáls]

^ gr. 6 Í spádómi Jesaja er sagt að Jehóva íklæðist „réttlætinu sem pansara“, það er að segja brynju. Hann ætlast því til þess að umsjónarmenn safnaðarins ástundi rétt og réttlæti. — Jesaja 59:14, 15, 17.

Hvert er svarið?

• Hver er besta dæmið um að klæðast andlegum herklæðum og hvers vegna ættum við að íhuga það vel?

• Hvernig getum við verndað hugann og hið táknræna hjarta?

• Hvernig getum við orðið leikin í að beita sverði andans?

• Hvers vegna ættum við að biðja öllum stundum?

[Spurningar]

[Myndir á blaðsíðu 15]

Reglulegt biblíunám getur verið okkur hvatning til að boða fagnaðarerindið hvenær sem færi gefst.

[Myndir á blaðsíðu 16]

Hin örugga von hjálpar okkur að standast prófraunir.

[Mynd á blaðsíðu 17]

Notarðu ‚sverð andans‘ í boðunarstarfinu?