Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Sýnum hvert öðru ástúð

Sýnum hvert öðru ástúð

Sýnum hvert öðru ástúð

„Sýnið hver öðrum bróðurkærleika og ástúð.“ — RÓMVERJABRÉFIÐ 12:10.

1, 2. Hvernig samband áttu trúboði nokkur og Páll postuli við trúbræður sína?

DON var trúboði í Austurlöndum fjær í 43 ár og var þekktur fyrir að sýna þeim sem hann þjónaði mikla hlýju. Þegar hann lá fyrir dauðanum ferðuðust nokkrir fyrrverandi nemendur hans þúsundir kílómetra til að hitta hann og segja: „Kamsahamnida, kamsahamnida“ — „þakka þér fyrir, þakka þér fyrir“ á kóresku. Ástúð Dons hafði snert hjörtu þeirra.

2 Þessi frásaga er ekki einsdæmi. Á fyrstu öldinni sýndi Páll postuli þeim sem hann þjónaði mikla ástúð. Hann gaf af sér. Þótt hann hafi haft sterka sannfæringu var hann einnig mildur og umhyggjusamur „eins og móðir, sem hlúir að börnum sínum“. Hann skrifaði söfnuðinum í Þessaloníku: „Slíkt kærleiksþel bárum vér til yðar, að vér vildum glaðir gefa yður ekki einungis fagnaðarerindi Guðs, heldur og vort eigið líf því að þér voruð orðnir oss ástfólgnir.“ (1. Þessaloníkubréf 2:7, 8) Síðar, þegar hann sagði trúbræðrum sínum í Efesus að þeir myndu ekki sjá hann aftur, „tóku [allir] að gráta sáran, féllu um háls Páli og kysstu hann“. (Postulasagan 20:25, 37) Páll og trúbræður hans höfðu greinilega ekki aðeins sameiginlega trú heldur voru einnig góðir vinir. Þeim var innilega annt hver um annan.

Ástúð og kærleikur

3. Hvernig tengjast ástúð og kærleikur?

3 Í Ritningunni eru eiginleikar eins og ástúð, samkennd og samúð nátengdir kærleikanum — göfugasta eiginleika kristinna manna. (1. Þessaloníkubréf 2:8; 2. Pétursbréf 1:7) Þessir góðu eiginleikar vinna vel saman og bæta hver annan upp eins og fletir á fallegum demanti. Þeir styrkja sambandið milli kristinna manna og einnig samband þeirra við himneskan föður sinn. Páll postuli gaf því trúsystkinum sínum þessa hvatningu: „Elskan sé flærðarlaus. . . . Sýnið hver öðrum bróðurkærleika og ástúð.“ — Rómverjabréfið 12:9, 10.

4. Hvað merkir orðið sem þýtt er „ástúð“?

4 Gríska orðið, sem Páll notaði og þýtt er „ástúð“, er samsett úr tveimur orðhlutum. Annar hlutinn þýðir vinátta og hinn eðlileg ástúð. Biblíufræðingur útskýrir þetta þannig að kristnir menn eigi að „þekkjast af hollustu sem einkennir samheldna fjölskyldu þar sem kærleikur ríkir og allir styðja hver annan“. Berð þú slíkan hug til kristinna bræðra þinna og systra? Í söfnuðinum ætti að ríkja bræðraþel og vera gott andrúmsloft. (Galatabréfið 6:10) Í íslensku Biblíunni frá 1859 er Rómverjabréfið 12:10 þýtt svona: „Verið í bróðurlegum kærleika, innilega elskandi hver annan.“ Já, kristnir menn elska hver annan ekki aðeins vegna þess að það er skynsamlegt eða vegna þess að þeir eru skyldugir til þess. Við ættum að bera „hræsnislausa bróðurelsku í brjósti“ og elska hvert annað „af heilu hjarta“. — 1. Pétursbréf 1:22.

„Guð hefur sjálfur kennt yður að elska hver annan“

5, 6. (a) Hvernig hefur Jehóva notað alþjóðamót til að kenna fólki kristna ástúð? (b) Hvernig styrkjast böndin milli trúsystkina með tímanum?

5 Þótt „kærleikur flestra“ sé að kólna, kennir Jehóva þjónum sínum að „elska hver annan“. (Matteus 24:12; 1. Þessaloníkubréf 4:9) Á alþjóðamótum Votta Jehóva gefst okkur tækifæri til að sýna þennan kærleika. Á þessum mótum hitta vottar gesti frá fjarlægum löndum og margir hafa boðið gestunum að gista á heimilum sínum. Á móti, sem haldið var nýverið, komu gestir frá löndum þar sem fólk er frekar hlédrægt. „Þegar þeir komu til landsins voru þeir óöruggir og feimnir,“ segir kristinn maður sem aðstoðaði fólk við að fá gistingu. „En aðeins sex dögum síðar, þegar þeir kvöddu gestgjafana, var faðmast og grátið. Þeir höfðu notið kristins kærleika sem þeir gleyma aldrei.“ Ef fólk sýnir trúsystkinum gestrisni óháð uppruna þeirra getur það kallað fram það besta bæði í fari gestgjafans og gestsins. — Rómverjabréfið 12:13.

6 Það er vissulega mikil upplifun að fara á slík mót en þegar kristnir menn þjóna Jehóva saman um ákveðinn tíma myndast enn sterkari vináttubönd. Þegar við þekkjum trúsystkini okkar vel kunnum við betur að meta aðlaðandi eiginleika þeirra eins og sannsögli, áreiðanleika, tryggð, góðvild, gjafmildi, tillitssemi, samkennd og óeigingirni. (Sálmur 15:3-5; Orðskviðirnir 19:22) Mark þjónaði sem trúboði í Austur-Afríku og hann sagði: „Þegar við vinnum með bræðrum okkar bindumst við þeim böndum sem aldrei bresta.“

7. Hvað þurfum við að gera til að kristin ástúð ríki í söfnuðinum?

7 Til að mynda slík vináttubönd í söfnuðinum og viðhalda þeim verðum við að kynnast hvert öðru vel. Við verðum nánari bræðrum okkar og systrum með því að koma reglulega á safnaðarsamkomur. Við hvetjum hvert annað „til kærleika og góðra verka“ ef við mætum snemma í ríkissalinn, tökum þátt í samkomunni og stöldrum við að henni lokinni. (Hebreabréfið 10:24, 25) Öldungur í Bandaríkjunum segir: „Ég minnist þess með gleði þegar ég var barn og fölskylda mín var alltaf með þeim síðustu sem yfirgáfu ríkissalinn. Við áttum ánægjulegar og innihaldsríkar samræður við bræður og systur eins lengi og við gátum.“

Látið verða rúmgott í hjörtum ykkar

8. (a) Hvað átti Páll við þegar hann hvatti Korintumenn til að láta verða rúmgott í hjörtum sér? (b) Hvernig getum við stuðlað að hlýhug í söfnuðinum?

8 Til að sýna ástúð í fullum mæli gætum við þurft að láta verða rúmbetra í hjörtum okkar. Páll postuli skrifaði söfnuðinum í Korintu: „Rúmt er um yður í hjarta voru. Ekki er þröngt um yður hjá oss.“ Hann hvatti þá síðan til að láta verða rúmgott í hjörtum sínum. (2. Korintubréf 6:11-13) Gætir þú sýnt öðrum meiri hlýhug? Þú þarft ekki að bíða eftir að þeir eigi frumkvæðið. Eftir að Páll postuli hvatti Rómverja til að sýna hver öðrum ástúð gaf hann þetta ráð: „Verið hver yðar fyrri til að veita öðrum virðing.“ (Rómverjabréfið 12:10) Ein leið til að sýna öðrum virðingu er að eiga frumkvæði að því að heilsa þeim á samkomum. Þú gætir einnig stungið upp á að þið undirbyggjuð ykkur saman fyrir samkomu eða færuð í boðunarstarfið. Þannig stuðlum við að hlýhug í söfnuðinum.

9. Hvað hafa sumir gert til að eignast betri vináttusambönd við trúsystkini? (Nefnið einnig dæmi af svæðinu.)

9 Fjölskyldur og einstaklingar í söfnuðinum geta látið verða rúmgott í hjörtum sér með því að heimsækja trúsystkini, borða kannski einfalda máltíð saman og stunda heilnæma afþreyingu saman. (Lúkas 10:42; 14:12-14) Hakop skipuleggur stundum lautarferðir fyrir litla hópa. „Þetta er fólk á öllum aldri og líka einstæðir foreldrar,“ segir hann. „Allir fara heim með góðar minningar og verða nánari hver öðrum.“ Við ættum ekki aðeins að vera trúsystkini heldur einnig góðir vinir. — 3. Jóhannesarbréf 14.

10. Hvað getum við gert ef okkur finnst erfitt að rækta vináttubönd við einhvern?

10 Stundum getur ófullkomleiki gert okkur erfitt fyrir að rækta vináttubönd og sýna ástúð. Hvað getum við þá gert? Í fyrsta lagi getum við beðið þess í bænum okkar að eiga gott samband við trúsystkini. Guð vill að þjónar hans nái vel saman og hann svarar slíkum bænum sem beðnar eru í einlægni. (1. Jóhannesarbréf 4:20, 21; 5:14, 15) Við ættum einnig að hegða okkur í samræmi við bænir okkar. Ric er farandumsjónarmaður í Austur-Afríku og hann man eftir bróður sem var hranalegur í framkomu og var þess vegna erfiður í umgengni. „Í stað þess að forðast bróðurinn ákvað ég að kynnast honum betur,“ segir Ric. „Í ljós kom að faðir bróðurins hafði verið mjög strangur. Þegar ég skildi hve hart bróðirinn hafði lagt að sér til að breyta sér og hversu vel honum hafði tekist bar ég mikla virðingu fyrir honum. Við urðum góðir vinir.“ — 1. Pétursbréf 4:8.

Tjáðu tilfinningar þínar

11. (a) Hvað þarf til að ástúð ríki innan safnaðarins? (b) Af hverju getur verið andlega skaðlegt að vera tilfinningalega fjarlægur öðrum?

11 Margir eignast aldrei góða vini á lífsleiðinni. Það er sorglegt. Þetta þarf ekki — og ætti ekki — að eiga sér stað í kristna söfnuðinum. Einlægur bróðurkærleikur er annað og meira en kurteislegar samræður og almennir mannasiðir. Hann felst ekki heldur í því að hella tilfinningum sínum yfir aðra. Við ættum að vera fús til að opna okkur eins og Páll gerði gagnvart Korintumönnum og sýna bræðrum og systrum að okkur sé innilega annt um velferð þeirra. Þótt ekki séu allir félagslyndir eða málgefnir að eðlisfari getur verið skaðlegt að vera of hlédrægur. Biblían segir: „Sérlyndur maður [„sá sem einangrar sig,“ NW ] fer að sínum munum, hann illskast við öllu, sem hyggilegt er.“ — Orðskviðirnir 18:1.

12. Af hverju eru góð tjáskipti nauðsynleg til að eiga gott samband við bræður og systur?

12 Góð tjáskipti eru grundvöllur sannrar vináttu. (Jóhannes 15:15) Við þurfum öll að eiga vini sem við getum trúað fyrir innstu hugsunum okkar og tilfinningum. Auk þess er auðveldara að vita hvað við getum gert hvert fyrir annað þegar við þekkjumst betur. Við stuðlum að ástúð og hlýhug þegar við gætum að hag annarra og sannreynum orð Jesú: „Sælla er að gefa en þiggja.“ — Postulasagan 20:35; Filippíbréfið 2:1-4.

13. Hvað getum við gert til að sýna trúsystkinum okkar að okkur sé innilega annt um þau?

13 Umhyggja okkar gerir mest gagn ef við tjáum hana. (Orðskviðirnir 27:5) Ef okkur er einlæglega annt um aðra sést það líklega á andlitinu og getur vakið jákvæð viðbrögð þeirra. „Vingjarnlegt augnaráð gleður hjartað,“ skrifaði vitur maður. (Orðskviðirnir 15:30) Hugulsöm verk stuðla líka að hlýhug. Þótt ekki sé hægt að kaupa sanna ástúð getur gjöf, sem gefin er í einlægni, haft mikið að segja. Kort, bréf og „orð í tíma töluð“ geta tjáð innilegan hlýhug. (Orðskviðirnir 25:11; 27:9) Þegar við eignumst góð vináttusambönd verðum við að viðhalda þeim með því að sýna óeigngjarna ástúð. Við viljum sérstaklega vera stoð og stytta vina okkar á erfiðum tímum. Biblían segir: „Vinur elskar ætíð og í nauðum er hann sem bróðir.“ — Orðskviðirnir 17:17.

14. Hvað getum við gert ef einhver virðist ekki sýna nein viðbrögð þótt við reynum að vera vingjarnleg?

14 Ekki er raunhæft að ætla sér að verða náinn vinur allra í söfnuðinum. Að sjálfsögðu eru alltaf einhverjir sem okkur finnst við vera nánari en aðrir. Ef einhver virðist ekki vera eins vingjarnlegur í þinn garð og þú vildir skaltu ekki vera fljótur til að álykta að eitthvað sé að þér eða þessari manneskju. Reyndu ekki heldur að neyða hann til að verða náinn vinur þinn. Ef þú ert einfaldlega eins vingjarnlegur og hann gefur þér færi á er hugsanlegt að þið getið orðið góðir vinir í framtíðinni.

„Á þér hef ég velþóknun“

15. Hvaða áhrif hefur hrós á fólk en hvernig líður því þegar það fær ekki hrós?

15 Jesús hlýtur að hafa glaðst þegar hann heyrði þessi orð af himnum ofan við skírn sína: „Á þér hef ég velþóknun.“ (Markús 1:11) Þessi viðurkenning hefur örugglega styrkt sannfæringu hans um að faðir hans elskaði hann. (Jóhannes 5:20) Því miður fá sumir aldrei slíkt hrós frá þeim sem þeir elska og virða. Ann segir: „Margt ungt fólk eins og ég á enga í fjölskyldunni sem eru sömu trúar. Heima erum við bara gagnrýnd. Það gerir okkur mjög döpur.“ En þegar þau verða hluti af söfnuðinum finna þau hlýju og stuðning frá andlegu fjölskyldunni — feðrum og mæðrum, bræðrum og systrum í trúnni. — Markús 10:29, 30; Galatabréfið 6:10.

16. Af hverju er ekki gott að vera gagnrýninn í garð annarra?

16 Í sumum menningarsamfélögum hrósa foreldrar, fullorðið fólk og kennarar sjaldan ungu fólki því að það heldur að það verði sjálfumglatt eða stolt. Slíkur hugsunarháttur getur haft áhrif á kristnar fjölskyldur og söfnuðinn. Þegar fullorðið fólk hrósar hinum ungu fyrir ræðu eða eitthvað annað segir það kannski: „Þetta var allt í lagi en þú getur gert betur.“ Það gæti líka gefið til kynna með öðrum hætti að það sé ekki ánægt með frammistöðu unga fólksins. Það heldur kannski að það sé að hvetja það til að gera sitt besta en þessi aðferð hefur oft þveröfug áhrif þar sem ungt fólk gæti dregið sig til baka eða fundist það ekki geta staðist kröfurnar.

17. Af hverju ættum við að leita að tækifærum til að hrósa öðrum?

17 Það ætti ekki eingöngu að hrósa fólki áður en því eru gefnar leiðbeiningar. Einlægt hrós kyndir undir ástúð innan fjölskyldunnar og safnaðarins og hvetur ungt fólk til að leita til reyndari bræðra og systra. Við skulum því ekki láta menningu stjórna því hvernig við komum fram við aðra heldur íklæðast „hinum nýja manni, sem skapaður er eftir Guði í réttlæti og heilagleika sannleikans“. Hrósum öðrum eins og Jehóva gerir. — Efesusbréfið 4:24.

18. (a) Hvernig ættu þið unga fólkið að taka leiðbeiningum frá fullorðnu fólki? (b) Af hverju þarf fullorðið fólk að gæta að því hvernig það gefur leiðbeiningar?

18 Þið unga fólkið megið samt ekki halda að fullorðnu fólki líki ekki við ykkur ef það leiðréttir eða ráðleggur ykkur. (Prédikarinn 7:9) Því er alls ekki þannig farið. Það leiðréttir ykkur af því að því er umhugað um ykkur. Annars myndi það ekki hafa fyrir því að ræða við ykkur um málið. Við vitum að orð geta haft mikil áhrif. Áður en leiðbeiningar eru gefnar notar fullorðið fólk, sérstaklega safnaðaröldungar, oft mikinn tíma til að hugsa um málið og nefna það í bænum sínum af því að þeir vilja vel. — 1. Pétursbréf 5:5.

„Allir vegir Drottins eru elska og trúfesti“

19. Hvers vegna geta þeir sem hafa verið særðir leitað eftir stuðningi frá Jehóva?

19 Sumir hafa brennt sig á því að sýna öðrum ástúð og vilja ekki að það endurtaki sig. Þeir þurfa að sýna hugrekki og sterka trú til að opna hjarta sitt aftur fyrir öðrum. En þeir ættu aldrei að gleyma því að Jehóva er ekki „langt frá neinum af oss“. Hann býður okkur að nálgast sig. (Postulasagan 17:27; Jakobsbréfið 4:8) Hann skilur það ef við erum hrædd við að vera særð og lofar að styðja okkur og hjálpa. Sálmaritarinn Davíð lofaði: „Drottinn er nálægur þeim er hafa sundurmarið hjarta, þeim er hafa sundurkraminn anda, hjálpar hann.“ — Sálmur 34:19.

20, 21. (a) Hvernig vitum við að við getum átt náið samband við Jehóva? (b) Hvers er krafist af þeim sem vilja vera nánir Jehóva?

20 Náin vinátta við Jehóva er mikilvægasta sambandið sem við getum eignast. En getum við virkilega eignast slíkt vináttusamband við hann? Já. Biblían segir frá réttlátum körlum og konum sem áttu gott samband við föður okkar á himnum. Þar sem hlýleg ummæli þeirra hafa verið varðveitt getum við treyst því að við getum átt innilegt samband við hann. — Sálmur 23; 34; 139; Jóhannes 16:27; Rómverjabréfið 15:4.

21 Allir geta uppfyllt kröfur Jehóva til þeirra sem vilja vera nánir honum. „Drottinn, hver fær að gista í tjaldi þínu?“ spurði Davíð. „Sá er fram gengur í flekkleysi og iðkar réttlæti og talar sannleik af hjarta.“ (Sálmur 15:1, 2) Við skiljum að „allir vegir Drottins eru elska og trúfesti“ þegar við komumst að raun um að það gefur af sér góðan ávöxt að þjóna honum og veitir okkur vernd hans og leiðsögn. — Sálmur 25:10.

22. Hvernig samband vill Jehóva að fólk hans eigi hvert við annað?

22 Það er mikill heiður að Jehóva vilji eiga náið samband við ófullkomna menn. Ættum við þá ekki að sýna hvert öðru ástúð? Með hjálp Jehóva getum við öll notið þeirrar ástúðar sem einkennir kristið bræðrafélag okkar og stuðlað að henni. Undir stjórn Guðsríks munu allir á jörðinni njóta þessarar ástúðar að eilífu.

Geturðu útskýrt?

• Hvernig ætti andrúmsloftið að vera innan kristna safnaðarins?

• Hvernig getur hvert og eitt okkar stuðlað að hlýhug innan safnaðarins?

• Hvernig getur einlægt hrós stuðlað að kristinni ástúð?

• Hvernig getur elska Jehóva stutt okkur og gefið okkur kraft?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 25]

Kærleikur meðal kristinna manna er annað og meira skyldukvöð.

[Myndir á blaðsíðu 26, 27]

Gætir þú sýnt fleirum ástúð?

[Mynd á blaðsíðu 28]

Ert þú gagnrýninn eða uppörvandi?