Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Þiggur þú hjálp Jehóva?

Þiggur þú hjálp Jehóva?

Þiggur þú hjálp Jehóva?

„Drottinn er minn hjálpari, eigi mun ég óttast.“ — HEBREABRÉFIÐ 13:6.

1, 2. Hvers vegna er mikilvægt að þiggja hjálpina og leiðbeiningarnar sem Jehóva veitir?

SEGJUM sem svo að þú sért í fjallgöngu. Þú ert ekki einn því að leiðsögumaður bauðst til að fylgja þér og hann er besti leiðsögumaður sem völ er á. Hann er mun reyndari og þrekmeiri en þú en hann gengur þolinmóður þér við hlið. Hann tekur eftir því að þú hrasar stöku sinnum. Þar sem honum er umhugað um öryggi þitt réttir hann þér höndina til að hjálpa þér yfir sérstaklega hættulegan stað. Myndir þú afþakka hjálpina? Auðvitað ekki, öryggi þitt er í húfi.

2 Það er engan veginn auðvelt að feta þann veg sem kristnum mönnum er afmarkaður. En verðum við að ganga þrönga veginn ein og óstudd? (Matteus 7:14) Nei, Biblían sýnir fram á að Jehóva Guð, besti leiðsögumaður sem til er, leyfir mönnum að ganga með sér. (1. Mósebók 5:24; 6:9) Hjálpar Jehóva þjónum sínum á göngunni? Hann segir: „Ég, Drottinn, Guð þinn, held í hægri hönd þína og segi við þig: ‚Óttast þú eigi, ég hjálpa þér!‘“ (Jesaja 41:13) Jehóva býður þeim sem vilja ganga með honum vináttu sína og réttir þeim hjálparhönd eins og leiðsögumaðurinn í líkingunni. Við viljum að sjálfsögðu ekki afþakka hjálpina sem hann býður okkur.

3. Hvaða spurningar ætlum við að athuga?

3 Í greininni á undan ræddum við um fernt sem Jehóva notaði til að hjálpa þjónum sínum forðum daga. Notar hann sömu aðferðir til að hjálpa þjónum sínum nú á tímum? Og hvað getum við gert til að tryggja okkur þá hjálp? Tökum þessar spurningar til athugunar. Þegar við gerum það getum við treyst því betur að Jehóva hjálpi okkur. — Hebreabréfið 13:6.

Hjálp engla

4. Hvers vegna geta þjónar Guðs nú á tímum verið vissir um að englarnir styðji þá?

4 Hjálpa englar þjónum Jehóva nú á dögum? Já, vissulega. En þeir birtast auðvitað ekki sýnilega til að frelsa sanna tilbiðjendur frá hættu. Það var meira að segja mjög sjaldgæft að englar birtust þannig á biblíutímanum. Flest af því sem þeir gerðu í þá daga var hulið sjónum manna rétt eins og það er núna. Engu að síður hughreysti það þjóna Guðs mjög mikið að vita af englum sem studdu þá. (2. Konungabók 6:14-17) Við höfum ríka ástæðu til að vera viss um að englarnir styðji okkur líka.

5. Hvernig sýnir Biblían fram á að englarnir taka þátt í prédikunarstarfinu?

5 Englar Jehóva hafa sérstaklega áhuga á einu verkefni sem við tökum þátt í. Hvaða verkefni er það? Svarið finnum við í Opinberunarbókinni 14:6: „Ég sá annan engil fljúga um háhvolf himins. Hann hélt á eilífum fagnaðarboðskap, til að boða þeim, sem á jörðunni búa, og sérhverri þjóð og kynkvísl, tungu og lýð.“ Þessi eilífi fagnaðarboðskapur tengist greinilega fagnaðarerindinu um ríkið sem „verður prédikað um alla heimsbyggðina öllum þjóðum til vitnisburðar“ áður en þetta heimskerfi líður undir lok eins og Jesús spáði. (Matteus 24:14) Englarnir prédika auðvitað ekki milliliðalaust. Jesús fól mönnum þetta mikilvæga verkefni. (Matteus 28:19, 20) Er ekki gott að vita að við fáum hjálp frá heilögum englum, sem eru vitrar og máttugar andaverur, þegar við sinnum þessu verkefni?

6, 7. (a) Hvað er til merkis um það að englarnir styðji boðunarstarfið? (b) Hvernig getum við tryggt það að við fáum stuðning engla Jehóva?

6 Það er margt sem ber vott um að englarnir styðji starf okkar. Við heyrum til dæmis oft frásögur af því að vottar Jehóva hitta einhvern í boðunarstarfinu sem var nýbúinn að biðja Guð um hjálp til að finna sannleikann. Þetta gerist oftar en svo að það geti verið tilviljun. Fyrir tilstuðlan engla læra sífellt fleiri að ,óttast Guð og gefa honum dýrð‘ eins og engillinn, sem ,flýgur um háhvolf himins‘, boðaði. — Opinberunarbókin 14:7.

7 Langar þig að fá stuðning voldugra engla Jehóva? Þá skaltu leggja þig allan fram í boðunarstarfinu. (1. Korintubréf 15:58) Þegar við gefum fúslega af okkur í þessu sértaka verkefni frá Jehóva getum við reitt okkur á hjálp englanna.

Hjálp frá höfuðenglinum

8. Hvaða mikilfenglegu stöðu hefur Jesús á himnum og hvers vegna er það hughreystandi?

8 Jehóva notar engla einnig með öðrum hætti til að hjálpa. Opinberunarbókin 10:1 talar um mikilfenglegan og „sterkan engil“ og „ásjóna hans var sem sólin“. Engillinn í sýninni er greinilega hinn dýrlegi Jesús Kristur sem situr að völdum á himnum. (Opinberunarbókin 1:13, 16) Er Jesús virkilega engill? Já, í vissum skilningi er hann engill fyrst hann er kallaður höfuðengill. (1. Þessaloníkubréf 4:16) Jesús er voldugastur allra andasona Jehóva. Guð hefur falið honum að stjórna öllum englaherskara sínum. Þessi höfuðengill veitir okkur vissulega mikla hjálp. Hvernig gerir hann það?

9, 10. (a) Hvers vegna má segja að Jesús sé hjálpari okkar þegar við syndgum? (b) Hvernig hjálpar fordæmi Jesú okkur?

9 Hinn aldraði Jóhannes postuli skrifaði: „Ef einhver syndgar, þá höfum vér árnaðarmann hjá föðurnum, Jesú Krist, hinn réttláta.“ (1. Jóhannesarbréf 2:1) Hvers vegna sagði Jóhannes að Jesús væri árnaðarmaður okkar eða hjálpari sérstaklega ef við syndgum? Við syndgum daglega og syndin er ávísun á dauða. (Prédikarinn 7:20; Rómverjabréfið 6:23) En Jesús gaf líf sitt sem fórn fyrir syndir mannanna og hann er við hlið okkar miskunnsama föður til að taka málstað okkar. Öll þurfum við á þessari hjálp að halda. Hvernig getum við þegið hana? Við verðum að iðrast syndanna og biðjast fyrirgefningar á grundvelli fórnar Jesú. Við þurfum líka að forðast að endurtaka mistök okkar.

10 Auk þess að deyja fyrir mennina var Jesús okkur fullkomin fyrirmynd. (1. Pétursbréf 2:21) Fordæmi hans leiðbeinir okkur og markar stefnuna svo að við getum forðast alvarlega synd og glatt Jehóva Guð. Gleður það okkur ekki að fá slíka hjálp? Jesús lofaði fylgjendum sínum að þeir fengju einnig annars konar hjálp.

Hjálp heilags anda

11, 12. Hvað er andi Jehóva, hve öflugur er hann og hvers vegna þurfum við á honum að halda núna?

11 Jesús lofaði: „Ég mun biðja föðurinn, og hann mun gefa yður annan hjálpara, að hann sé hjá yður að eilífu, anda sannleikans, sem heimurinn getur ekki tekið á móti.“ (Jóhannes 14:16, 17) Þessi andi sannleikans eða heilagur andi er ekki persóna heldur kraftur, starfskraftur Jehóva. Þessi kraftur er ótakmarkaður. Þetta er krafturinn sem Jehóva notaði þegar hann skapaði alheiminn, gerði stórfengleg kraftaverk og opinberaði vilja sinn í sýn. Þurfum við þá ekki á anda Jehóva að halda nú á tímum fyrst hann notar hann ekki á sama hátt og áður?

12 Þvert á móti. Á þessum ‚örðugu tíðum‘ þurfum við meira en nokkru sinni fyrr á anda Jehóva að halda. (2. Tímóteusarbréf 3:1) Hann styrkir okkur svo að við getum staðist prófraunir. Hann hjálpar okkur að rækta góða eiginleika sem færa okkur nær Jehóva og trúsystkinum okkar. (Galatabréfið 5:22, 23) Hvernig getum við þá nýtt þessa frábæru hjálp frá Jehóva?

13, 14. (a) Hvers vegna getum við verið viss um að Jehóva sé fús til að gefa þjónum sínum heilagan anda? (b) Með hvernig breytni gætum við sýnt að við þiggjum ekki raunverulega heilagan anda?

13 Í fyrsta lagi þurfum við að biðja um heilagan anda. Jesús sagði: „Fyrst þér, sem eruð vondir, hafið vit á að gefa börnum yðar góðar gjafir, hve miklu fremur mun þá faðirinn himneski gefa þeim heilagan anda, sem biðja hann.“ (Lúkas 11:13) Já, Jehóva er besti faðir sem hugsast getur. Ef við biðjum hann um heilagan anda í trú og einlægni er alveg öruggt að hann gefur okkur hann. Spurningin er því aðeins sú hvort við biðjum um hann. Við höfum ríka ástæðu til að biðja þess í bænum okkar á hverjum degi.

14 Í öðru lagi þiggjum við heilagan anda með því að vinna með honum. Tökum dæmi. Segjum sem svo að kristinn maður sé að berjast við tilhneigingu til að horfa á klám. Hann hefur beðið um heilagan anda til að hjálpa sér að forðast þennan óhreina ávana. Hann hefur leitað til öldunganna og þeir hafa ráðlagt honum að vera einbeittur og forðast algerlega að koma nálægt slíku ósiðlegu efni. (Matteus 5:29) Hvað ef hann hunsaði ráðleggingar þeirra og freistaðist til að horfa á slíkt efni? Væri hann að vinna með heilögum anda og breyta í samræmi við bænir sínar? Eða væri hann frekar að hætta á að hryggja heilagan anda Guðs og hindra að hann fengi þessa gjöf? (Efesusbréfið 4:30) Við þurfum öll að gera allt sem í okkar valdi stendur til að tryggja að við höldum áfram að fá þessa frábæru hjálp frá Jehóva.

Hjálp frá orði Guðs

15. Hvernig getum við sýnt að við tökum ekki Biblíuna sem sjálfsagðan hlut?

15 Biblían hefur hjálpað trúföstum þjónum Jehóva í aldanna rás. En við ættum ekki að taka Biblíuna sem sjálfsagðan hlut heldur hafa hugfast hve mikið hún getur hjálpað okkur. Það kostar vinnu að þiggja hjálp hennar. Við þurfum að venja okkur á að lesa reglulega í henni.

16, 17. (a) Hvernig lýsir Sálmur 1:2, 3 umbuninni sem fylgir því að lesa lögmál Guðs? (b) Hvernig er dregin upp mynd af mikilli vinnu í Sálmi 1:3?

16 Sálmur 1:2, 3 segir um guðrækinn mann: Hann „hefir yndi af lögmáli Drottins og hugleiðir lögmál hans dag og nótt. Hann er sem tré, gróðursett hjá rennandi lækjum, er ber ávöxt sinn á réttum tíma, og blöð þess visna ekki. Allt er hann gjörir lánast honum.“ Sérðu hvað sálmaritarinn á við með þessum orðum? Þegar við lesum þess orð sjáum við kannski fyrir okkur friðsælt og fallegt umhverfi með tré á lækjarbakka. Væri ekki yndislegt að leggja sig í skjóli trésins? En sálmaritarinn er ekki að hvetja okkur til að hugsa okkur til hvíldar heldur dregur hann upp mynd af aðstæðum sem kosta mikla vinnu. Hvernig þá?

17 Taktu eftir að þetta er ekki bara tré sem veitir skjól og stendur fyrir tilviljun á lækjarbakka. Þetta er tré sem „ber ávöxt“ og er „gróðursett“ á vel völdum stað, „hjá rennandi lækjum“. Hvernig getur tré verið gróðursett hjá fleiri en einum læk? Garðyrkjumaður gæti til dæmis grafið áveituskurði að dýrmætum ávaxtatrjám sínum til að vökva ræturnar. Nú skýrist myndin. Við döfnum vel andlega líkt og tréð vegna þess að mikið hefur verið gert fyrir okkur. Við tilheyrum söfnuði sem færir okkur hreint sannleiksvatn. En við verðum líka að leggja okkar af mörkum. Við þurfum að sjá til þess að við séum í aðstöðu til að drekka í okkur þetta dýrmæta vatn með því að rannsaka Biblíuna og hugleiða efni hennar svo að sannleikurinn í orði Guðs síist inn í huga okkar og hjarta. Þannig getum við líka borið góðan ávöxt.

18. Hvað þurfum við að gera til að finna svör Biblíunnar við spurningum okkar?

18 Biblían gerir okkur lítið gagn ef hún stendur óopnuð uppi í hillu. Við getum ekki heldur lokað augunum, opnað Biblíuna einhvers staðar af handahófi og búist við því að svörin við spurningum okkar blasi við. Þegar við tökum ákvarðanir verðum við að leita að þekkingu á Guði eins og við værum að grafa eftir fólgnum fjársjóði. (Orðskviðirnir 2:1-5) Oft þarf að leita vel og vandlega til að finna biblíuleg ráð sem eiga við aðstæður okkar. Við höfum mörg biblíutengd rit til að auðvelda okkur leitina. Þegar við notum þessi hjálpargögn til að grafa eftir viskumolunum í orði Guðs getum við með sanni sagt að við nýtum okkur hjálp Jehóva.

Hjálp frá trúsystkinum

19. (a) Hvers vegna má líta á greinar í Varðturninum og Vaknið! sem hjálp frá trúsystkinum? (b) Segðu frá því hvernig ákveðin grein í blöðunum hefur hjálpað þér.

19 Þjónar Jehóva hafa alltaf verið hver öðrum til hjálpar. Hefur það breyst? Nei, alls ekki. Eflaust munum við öll eftir dæmum um að trúsystkini hafi veitt okkur nákvæmlega þá hjálp sem við þurftum á réttum tíma. Manstu til dæmis eftir einhverri grein í Varðturninum eða Vaknið! sem hughreysti þig þegar þú þurftir á því að halda eða hjálpaði þér að leysa vandamál eða standast prófraun? Það var Jehóva sem færði þér þessa hjálp fyrir milligöngu ,hins trúa og hyggna þjóns‘ sem hefur það verkefni að „gefa . . . mat á réttum tíma“. — Matteus 24:45-47.

20. Á hvaða hátt eru safnaðaröldungar „gjafir“?

20 Hjálpin, sem við fáum frá trúsystkinum, er þó oft beinni en þetta. Safnaðaröldungur flytur hugsanlega ræðu sem snertir hjarta okkar, kemur í hirðisheimsókn til að hjálpa okkur á erfiðleikatímum eða gefur okkur vingjarnleg ráð sem auðvelda okkur að koma auga á veikleika og vinna bug á honum. Þakklát systir í söfnuðinum segir um hjálp sem öldungur veitti henni: „Þegar við vorum í boðunarstarfinu hvatti hann mig til að segja frá því sem mér bjó í brjósti og gaf sér góðan tíma til að hlusta á mig. Kvöldið áður hafði ég beðið Jehóva um einhvern til að tala við. Daginn eftir talaði bróðirinn við mig á umhyggjusaman hátt. Hann leiddi mér fyrir sjónir hvernig Jehóva hefði hjálpað mér árum saman. Ég er Jehóva þakklát fyrir að senda þennan öldung til mín.“ Öldungar sýna á allan hátt að þeir eru „gjafir“ sem Jehóva veitir fyrir milligöngu Jesú Krists til að hjálpa okkur að vera þolgóð á veginum til lífsins. — Efesusbréfið 4:8.

21, 22. (a) Hverju kemur það leiðar ef þjónar Guðs fara eftir ráðunum í Filippíbréfinu 2:4? (b) Hvers vegna skipta jafnvel smávægileg góðverk máli?

21 Auk öldunganna vilja allir trúfastir kristnir menn fara eftir boðinu um að líta „ekki aðeins á eigin hag, heldur einnig annarra“. (Filippíbréfið 2:4) Þjónar Guðs vinna yndisleg góðverk þegar þeir fara eftir þessum ráðum. Tökum sem dæmi fjölskyldu sem upplifði mikinn og skyndilegan harmleik. Faðirinn fór með unga dóttur sína út að versla. Á heimleiðinni lentu þau í bílslysi. Dóttirin fórst og faðirinn slasaðist alvarlega. Þegar hann kom heim af spítalanum var hann fyrst um sinn svo illa á sig kominn að hann gat ekki hugsað um sig sjálfur. Slysið hafði fengið svo á konu hans að hún gat ekki séð um hann ein. Hjón í söfnuðinum tóku þessi sorgmæddu hjón heim til sín og hugsuðu um þau í nokkrar vikur.

22 En auðvitað þarf ekki slíkan harmleik og slíka fórnfýsi til að vinna góðverk. Við fáum oft hjálp sem er miklu minni í sniðum. En við kunnum alltaf að meta góðverk hve lítil sem þau kunna að vera. Manstu eftir atviki þar sem falleg orð eða verk frá trúsystkini veittu þér nákvæmlega þá hjálp sem þú þurftir? Jehóva hugsar oft um okkur með þessum hætti. — Orðskviðirnir 17:17; 18:24.

23. Hvernig lítur Jehóva á það þegar við leggjum okkur fram um að hjálpa hvert öðru?

23 Viltu að Jehóva noti þig til að hjálpa öðrum? Þér stendur það til boða. Jehóva kann vel að meta það þegar þú leggur þig þannig fram. Í orði hans stendur: „Sá lánar Drottni, er líknar fátækum, og hann mun launa honum góðverk hans.“ (Orðskviðirnir 19:17) Því fylgir mikil gleði að gefa af sér. (Postulasagan 20:35) Þeir sem einangra sig njóta hvorki þeirrar gleði að hjálpa trúsystkinum sínum né gleðinnar sem fylgir því að fá slíka hjálp. Við skulum því sækja safnaðarsamkomur reglulega til að hvetja hvert annað. — Hebreabréfið 10:24, 25.

24. Hvers vegna ætti okkur ekki að finnast við fara á mis við eitthvað þó að við höfum ekki orðið vitni að stórfenglegum kraftaverkum Jehóva fyrr á tímum?

24 Er ekki ánægjulegt að hugleiða hvernig Jehóva hjálpar okkur á ýmsan hátt? Þó að við lifum ekki á tímum þar sem Jehóva framkvæmir stórfengleg kraftaverk til að koma fyrirætlun sinni til leiðar þarf okkur ekki að finnast við fara á mis við eitthvað. Það sem skiptir raunverulega máli er að Jehóva veitir okkur alla þá hjálp sem við þurfum til að varðveita ráðvendni okkar. Ef við erum þolgóð og trúföst munum við sjá stórkostlegustu verk Jehóva fyrr og síðar. Við skulum því vera staðráðin í að þiggja kærleiksríka hjálp Jehóva og nýta okkur hana til fulls. Þá getum við tekið undir orðin í árstextanum fyrir árið 2005: „Hjálp mín kemur frá Jehóva.“ — Sálmur 121:2.

Hvað hefurðu lært?

Hvernig veitir Jehóva okkur þá hjálp, sem við þurfum, fyrir milligöngu — 

• engla?

• heilags anda?

• Biblíunnar?

• trúsystkina?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 28]

Það er hvetjandi að hugsa til þess að englarnir styðja boðunarstarfið.

[Mynd á blaðsíðu 31]

Jehóva getur notað trúsystkini til að veita okkur þá hughreystingu sem við þurfum.