Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Þjónar Jehóva eru hamingjusamir

Þjónar Jehóva eru hamingjusamir

Þjónar Jehóva eru hamingjusamir

„Sælir eru þeir sem eru sér meðvita um andlega þörf sína.“ — MATTEUS 5:3, NW.

1. Hvað er sönn hamingja og um hvað er hún merki?

ÞJÓNAR JEHÓVA meta hamingjuna mikils. Sálmaritarinn Davíð sagði: „Sæl er sú þjóð, sem á Drottin að Guði.“ (Sálmur 144:15) Hamingja er innri vellíðan. Það sem veitir okkur mesta hamingju er að vita að Jehóva hefur velþóknun á okkur og sú hamingja nær til innstu hjartaróta. (Orðskviðirnir 10:22) Hún er merki þess að við höfum náið samband við föður okkar á himnum og vitum að við gerum vilja hans. (Sálmur 112:1; 119:1, 2) Það vekur athygli að Jesús taldi upp níu ástæður sem við höfum til að vera hamingjusöm. Í þessari grein og þeirri næstu skoðum við nánar hin svokölluðu sæluboð. Þau minna okkur á hve hamingjusöm við getum verið ef við þjónum trúfastlega hinum ‚sæla Guði‘, Jehóva. — 1. Tímóteusarbréf 1:11, Biblían 1912.

Meðvituð um andlega þörf okkar

2. Við hvaða tækifæri talaði Jesús um hamingju og hver voru inngangsorð hans?

2 Árið 31 flutti Jesús eina frægustu ræðu allra tíma. Hún er kölluð fjallræðan því að hann flutti hana í fjallshlíð við Galíleuvatn. Guðspjallaritarinn Matteus segir svo frá: „Þegar [Jesús] sá mannfjöldann, gekk hann upp á fjallið. Þar settist hann, og lærisveinar hans komu til hans. Þá lauk hann upp munni sínum, kenndi þeim og sagði: ‚Sælir eru fátækir í anda, því að þeirra er himnaríki.‘“ (Matteus 5:1-3) Þannig hljóðar bókstafleg þýðing frumtextans. New World Translation of the Holy Scriptures orðar þriðja versið svona „Sælir eru þeir sem eru sér meðvita um andlega þörf sína því að himnaríkið tilheyrir þeim.“

3. Hvernig stuðlar auðmýkt að hamingju?

3 Í fjallræðunni benti Jesús á að fólk er mun hamingjusamara ef það gerir sér ljóst að það hefur andlega þörf. Auðmjúkir kristnir menn eru meðvitaðir um að þeir eru syndugir og sárbæna Jehóva um fyrirgefningu á grundvelli lausnarfórnar Krists. (1. Jóhannesarbréf 1:9) Þannig hljóta þeir hugarfrið og sanna hamingju. „Sæll er sá er afbrotin eru fyrirgefin, synd hans hulin.“ — Sálmur 32:1; 119:165.

4. (a) Hvernig sýnum við að við erum meðvituð um andlega þörf okkar og annarra? (b) Hvað veitir okkur aukna gleði ef við erum meðvituð um andlega þörf okkar?

4 Ef við erum meðvituð um andlega þörf okkar hvetur það okkur til að lesa daglega í Biblíunni, fullnýta okkur andlegu fæðuna sem hinn „trúi og hyggni þjónn“ gefur okkur „á réttum tíma“ og mæta reglulega á safnaðarsamkomur. (Matteus 24:45; Sálmur 1:1, 2; 119:111; Hebreabréfið 10:25) Náungakærleikur gerir okkur meðvituð um andlega þörf annarra og hvetur okkur til að vera iðin við að kenna og prédika fagnaðarerindið um ríkið. (Markús 13:10; Rómverjabréfið 1:14-16) Það veitir okkur gleði að segja öðrum frá biblíusannindum. (Postulasagan 20:20, 35) Hamingja okkar verður enn meiri þegar við hugleiðum hina dásamlegu von um Guðsríki og þá blessun sem þetta ríki mun veita. Andasmurðir kristnir menn, ‚litla hjörðin‘, hafa von um ódauðleika á himnum sem meðstjórnendur Krists. (Lúkas 12:32; 1. Korintubréf 15:50, 54) ‚Aðrir sauðir‘ hafa von um eilíft líf í paradís á jörð undir stjórn þessa ríkis. — Jóhannes 10:16; Sálmur 37:11; Matteus 25:34, 46.

Sorgbitnir en samt sælir

5. (a) Hvað er átt við með orðinu „sorgbitinn“? (b) Hvernig fá hinir sorgbitnu huggun?

5 Næsta sæluboð Jesú virðist mótsagnakennt. Hann sagði: „Sælir eru sorgbitnir, því að þeir munu huggaðir verða.“ (Matteus 5:4) Hvernig er bæði hægt að vera sæll og sorgbitinn? Við þurfum að vita hvers konar sorg þetta er til að skilja hvað Jesús átti við. Lærisveinninn Jakob útskýrir að syndugt eðli okkar eigi að gefa okkur ástæðu til að syrgja. Hann skrifaði: „Hreinsið hendur yðar, þér syndarar, og gjörið hjörtun flekklaus, þér tvílyndu. Berið yður illa, syrgið og grátið. Breytið hlátri yðar í sorg og gleðinni í hryggð. Auðmýkið yður fyrir Drottni og hann mun upphefja yður.“ (Jakobsbréfið 4:8-10) Þeir sem harma það að vera syndugir fá huggun þegar þeir komast að því að þeir geta fengið fyrirgefningu synda sinna ef þeir trúa á lausnarfórn Jesú og sýna einlæga iðrun með því að gera vilja Jehóva. (Jóhannes 3:16; 2. Korintubréf 7:9, 10) Þannig geta þeir eignast dýrmætt samband við Jehóva og von um að lifa að eilífu til að þjóna honum og lofa hann. Þetta veitir þeim mikla innri hamingju. — Rómverjabréfið 4:7, 8.

6. Af hverju eru sumir sorgbitnir og hvaða huggun fá þeir?

6 Orð Jesú eiga líka við þá sem eru sorgbitnir vegna þess hve slæmt ástandið er á jörðinni. Jesús heimfærði á sjálfan sig spádóminn í Jesaja 61:1, 2 sem segir: „Andi Drottins er yfir mér, af því að Drottinn hefir smurt mig. Hann hefir sent mig til að flytja nauðstöddum gleðilegan boðskap og til að græða þá, sem hafa sundurmarið hjarta, . . . til að hugga alla hrellda [„sorgbitna“, Biblían 1859].“ Smurðir kristnir menn, sem enn eru á jörðinni, hafa einnig þetta umboð og þeir framfylgja því með aðstoð félaga sinna, ‚annarra sauða‘. Allir taka þeir þátt í því að setja táknrænt merki á enni þeirra „sem andvarpa og kveina yfir öllum þeim svívirðingum, sem framdar eru inni í henni [hinni fráhverfu Jerúsalem sem fyrirmyndaði kristna heiminn]“. (Esekíel 9:4) ‚Fagnaðarerindið um ríkið‘ hughreystir þessa sorgbitnu einstaklinga. (Matteus 24:14) Þeir verða hamingjusamir þegar þeir fá að vita að réttlátur nýr heimur Jehóva tekur bráðum við af illu heimskerfi Satans.

Sælir eru hógværir

7. Við hvað er ekki átt með orðinu „hógværð“?

7 Jesús hélt ræðu sinni áfram og sagði: „Sælir eru hógværir, því að þeir munu jörðina erfa.“ (Matteus 5:5) Hógværð er stundum álitin veikleikamerki. En hún er það ekki. Biblíufræðingur útskýrir merkingu orðsins sem þýtt er „hógværð“ og segir: „Góð sjálfstjórn er aðaleinkenni þeirra sem eru [hógværir]. Hógværð er ekki tilfinningasemi, aðgerðarleysi eða mildi vegna hugleysis heldur styrkur sem maður hefur stjórn á.“ Jesús sagði um sjálfan sig: „Ég er hógvær og af hjarta lítillátur.“ (Matteus 11:29) Samt sem áður varði hann réttlátar meginreglur af hugrekki. — Matteus 21:12, 13; 23:13-33.

8. Hvaða eiginleiki er náskyldur hógværð og hvers vegna er hógværð nauðsynleg í samskiptum okkar við aðra?

8 Hógværð er náskyld sjálfstjórn. Þegar Páll postuli taldi upp ‚ávexti andans‘ nefndi hann bindindi eða sjálfstjórn á eftir hógværð. (Galatabréfið 5:22, 23) Við þurfum hjálp heilags anda til að rækta með okkur hógværð. Þetta er eiginleiki sem einkennir kristna menn og stuðlar að friði við fólk innan og utan safnaðarins. Páll skrifaði: „Íklæðist . . . hjartans meðaumkun, góðvild, auðmýkt, hógværð og langlyndi. Umberið hver annan og fyrirgefið hver öðrum.“ — Kólossubréfið 3:12, 13.

9. (a) Hvers vegna tengist hógværð ekki aðeins samskiptum okkar við aðra menn? (b) Hvernig munu hinir hógværu „fá landið til eignar“?

9 Hógværð tengist ekki aðeins samskiptum okkar við aðra menn. Við sýnum einnig hógværð með því að lúta alvaldi Jehóva af fúsum vilja. Helsta fyrirmynd okkar í þessu er Jesús Kristur en þegar hann var hér á jörðinni sýndi hann hógværð og algera undirgefni við föður sinn. (Jóhannes 5:19, 30) Fyrst og fremst er það Jesús sem erfir jörðina því að hann er útnefndur stjórnandi yfir henni. (Sálmur 2:6-8; Daníel 7:13, 14) Hann deilir þessari arfleið með 144.000 samerfingjum sem valdir eru „út úr hóp mannanna“ til að „ríkja á [„yfir“, NW] jörðunni“. (Rómverjabréfið 8:17; Opinberunarbókin 5:9, 10; 14:1, 3, 4; Daníel 7:27) Kristur og meðstjórnendur hans munu ríkja yfir milljónum sauðumlíkra karla og kvenna. Þessi spádómlegi sálmur uppfyllist á þeim: „Hinir hógværu fá landið til eignar, gleðjast yfir ríkulegri gæfu.“ — Sálmur 37:11; Matteus 25:33, 34, 46.

Sælir eru þeir sem hungrar eftir réttlætinu

10. Á hvaða hátt geta þeir sem hungrar og þyrstir eftir réttlæti orðið saddir?

10 Næsta sæluboðið, sem Jesús nefndi í fjallræðunni, var þetta: „Sælir eru þeir, sem hungrar og þyrstir eftir réttlætinu, því að þeir munu saddir verða.“ (Matteus 5:6) Jehóva setur kristnum mönnum mælikvarða á réttlæti. Þá sem hungrar og þyrstir eftir réttlætinu hungrar og þyrstir í raun eftir leiðsögn Guðs. Slíkir menn eru meðvitaðir um að þeir eru syndugir og ófullkomnir og óska þess innilega að vera velþóknanlegir í augum Jehóva. Þeir eru svo sannarlega glaðir af því að þeir hafa lært í orði Guðs að ef þeir iðrast og leita fyrirgefningar á grundvelli lausnarfórnar Krists geta þeir verið réttlættir fyrir Guði. — Postulasagan 2:38; 10:43; 13:38, 39; Rómverjabréfið 5:19.

11, 12. (a) Hvernig verða smurðir kristnir menn réttlættir? (b) Hvernig verður réttlætisþrá félaga hinna smurðu fullnægt?

11 Jesús sagði að þeir sem hungrar og þyrstir eftir réttlætinu yrðu hamingjusamir þar sem þeir yrðu „saddir“. (Matteus 5:6) Smurðir kristnir menn, sem ríkja með Kristi á himnum, hafa verið ‚réttlættir til lífs‘. (Rómverjabréfið 5:1, 9, 16-18, Biblían 1912) Jehóva ættleiðir þá sem andleg börn sín. Þeir verða samarfar Krists, konungar og prestar í himnesku ríki hans. — Jóhannes 3:3; 1. Pétursbréf 2:9.

12 Félagar hinna smurðu hafa ekki enn verið réttlættir til lífs. En Jehóva hefur réttlætt þá að vissu marki vegna trúar þeirra á úthellt blóð Krists. (Jakobsbréfið 2:22-25; Opinberunarbókin 7:9, 10) Þeir eru lýstir réttlátir sem vinir Jehóva og eiga frelsun í vændum í „þrengingunni miklu“. (Opinberunarbókin 7:14) Réttlætisþrá þeirra verður fullnægt þegar ‚nýr himinn‘ tekur við stjórn og þeir verða hluti af nýju jörðinni „þar sem réttlæti býr“. — 2. Pétursbréf 3:13; Sálmur 37:29.

Sælir eru miskunnsamir

13, 14. Hvernig getum við sýnt miskunn í verki og hvaða gagns njótum við af því?

13 Í áframhaldi fjallræðunnar sagði Jesús: „Sælir eru miskunnsamir, því að þeim mun miskunnað verða.“ (Matteus 5:7) Í lagalegum skilningi telst miskunn vera mildi dómara sem fellir ekki þyngsta mögulega dóm yfir afbrotamanni. Hins vegar lýsir frummálsorðið í Biblíunni, sem þýtt er „miskunn“, oftast vingjarnlegri umhyggju eða hughreystandi samúð í garð þeirra sem minna mega sín. Þeir sem eru miskunnsamir sýna því umhyggju í verki. Dæmisaga Jesú um miskunnsama Samverjann er gott dæmi um mann sem sýndi þurfandi einstaklingi miskunn. — Lúkas 10:29-37.

14 Til að upplifa þá gleði, sem hlýst af því að vera miskunnsöm, verðum við að vinna góðverk í þágu þeirra sem eru þurfandi. (Galatabréfið 6:10) Jesús fann til með þeim sem hann sá. „Hann kenndi í brjósti um þá, því að þeir voru sem sauðir, er engan hirði hafa. Og hann kenndi þeim margt.“ (Markús 6:34) Jesús gerði sér grein fyrir því að mikilvægast væri að menn uppfylltu andlegar þarfir sínar. Við getum einnig sýnt að við erum samúðarfull og miskunnsöm með því að flytja fólki það sem það þarfnast mest — ‚fagnaðarerindið um ríkið‘. (Matteus 24:14) Við getum líka boðist til að aðstoða öldruð trúsystkini, ekkjur og munaðarleysingja og hughreyst niðurdregna. (1. Þessaloníkubréf 5:14; Orðskviðirnir 12:25; Jakobsbréfið 1:27) Þannig getum við ekki aðeins orðið hamingjusöm heldur einnig notið miskunnar Jehóva. — Postulasagan 20:35; Jakobsbréfið 2:13.

Hjartahreinir og friðflytjendur

15. Hvernig getum við verið hjartahrein og friðflytjendur?

15 Sjötta og sjöunda sæluboðið er á þessa leið: „Sælir eru hjartahreinir, því að þeir munu Guð sjá. Sælir eru friðflytjendur, því að þeir munu Guðs börn kallaðir verða.“ (Matteus 5:8, 9) Sá sem er hjartahreinn er ekki aðeins siðferðilega hreinn heldur einnig andlega flekklaus og heill í tilbeiðslunni á Jehóva. (1. Kroníkubók 28:9; Sálmur 86:11) Friðflytjendur búa í friði við kristna bræður sína og nágranna að því leyti sem það er unnt og á þeirra valdi. (Rómverjabréfið 12:17-21) Þeir ‚ástunda frið og keppa eftir honum‘. — 1. Pétursbréf 3:11.

16, 17. (a) Af hverju eru hinir smurðu kallaðir „Guðs börn“ og hvernig sjá þeir Guð? (b) Hvernig sjá ‚aðrir sauðir‘ Guð? (c) Hvernig og hvenær verða ‚aðrir sauðir‘ börn Guðs í fullum skilningi?

16 Hjartahreinum friðflytjendum er lofað að þeir muni „Guðs börn kallaðir verða“ og að þeir muni „Guð sjá“. Smurðir kristnir menn eru andagetnir og Jehóva ættleiðir þá sem börn sín á meðan þeir eru enn á jörðinni. (Rómverjabréfið 8:14-17) Þegar þeir eru reistir upp til að vera með Kristi á himnum þjóna þeir í návist Jehóva og sjá hann bókstaflega. — 1. Jóhannesarbréf 3:1, 2; Opinberunarbókin 4:9-11.

17 Friðflytjendur af ‚öðrum sauðum‘ þjóna Jehóva undir stjórn góða hirðisins, Jesú Krists, sem verður „Eilífðarfaðir“ þeirra. (Jóhannes 10:14, 16; Jesaja 9:6) Þeir sem standast lokaprófið eftir þúsund ára stjórnartíð Krists verða ættleiddir sem jarðnesk börn Jehóva og hljóta ‚dýrðarfrelsi Guðs barna‘. (Rómverjabréfið 8:21; Opinberunarbókin 20:7, 9) Á meðan þeir bíða þess ávarpa þeir Jehóva sem föður þar sem þeir vígja líf sitt honum og viðurkenna hann sem lífgjafa sinn. (Jesaja 64:7) Þeir geta séð Guð með augum trúarinnar eins og Job og Móse gerðu. (Jobsbók 42:5; Hebreabréfið 11:27) Þeir geta séð dásamlega eiginleika Guðs með ‚hugskotsaugum sínum‘ og með því að afla sér nákvæmrar þekkingar á honum og þeir reyna að líkja eftir honum með því að gera vilja hans. — Efesusbréfið 1:18, Biblían 1859; Rómverjabréfið 1:19, 20; 3. Jóhannesarbréf 11.

18. Hverjir finna sanna hamingju nú á dögum samkvæmt sjö fyrstu sæluboðum Jesú?

18 Við höfum komist að raun um að þeir sem eru meðvitaðir um andlega þörf sína, sorgbitnir, hógværir, hungrar og þyrstir eftir réttlætinu, eru miskunnsamir, hjartahreinir og friðflytjendur finna sanna hamingju í því að þjóna Jehóva. En þeir hafa samt alltaf mætt andstöðu og jafnvel ofsóknum. Dregur það úr gleði þeirra? Um það verður rætt í næstu grein.

Upprifjun

• Hvaða gleði hljóta þeir sem eru sér meðvita um andlega þörf sína?

• Hvernig fá sorgbitnir huggun?

• Hvernig sýnum við hógværð?

• Af hverju ættum við að vera miskunnsöm, hjartahrein og friðflytjendur?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 10]

„Sælir eru þeir, sem hungrar og þyrstir eftir réttlætinu.“

[Myndir á blaðsíðu 10]

Sælir eru þeir sem eru meðvitaðir um andlega þörf sína.

[Mynd á blaðsíðu 10]

„Sælir eru miskunnsamir.“