Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Andleg verðmæti eru betri

Andleg verðmæti eru betri

Andleg verðmæti eru betri

„Sá sem elskar peninga, verður aldrei saddur af peningum, og sá sem elskar auðinn, hefir ekki gagn af honum.“ — Prédikarinn 5:9.

OF MIKIÐ vinnuálag getur leitt til streitu og streita getur valdið heilsutjóni sem í sumum tilfellum hefur dauða í för með sér. Í mörgum löndum hafa hjónaskilnaðir sundrað fjölskyldum. Oft liggur óhófleg áhersla á efnisleg gæði að baki slíkri ógæfu. Þann sem er upptekinn við að afla sér auðæfa frekar en njóta þess sem hann á langar sífellt í meira án tillits til þess sem hann leggur í sölurnar. Í sjálfshjálparbók stendur: „Það er þjóðaríþrótt að taka þátt í lífsgæðakapphlaupinu jafnvel þó að hinir keppendurnir séu vinnufíklar og eigi á hættu að fá hjartaáfall upp úr fertugu.“

Leitin að meiru getur orðið óseðjandi og rænt mann allri gleði sem annars væri hægt að njóta. Auglýsendur nota sér oft þennan mannlega veikleika á magnaðan hátt. Sjónvarpið er fullt af auglýsingum þar sem hvatt er til kaupa á einhverju sem fólk hefur oft enga þörf á og hefur jafnvel ekki efni á að kaupa. Talsverður skaði getur hlotist af.

Hóflaus eftirlátssemi við sjálfan sig getur haft lævís en þó skaðleg áhrif bæði líkamlega og siðferðilega. Svo dæmi sé tekið varð spekingnum Salómon konungi að orði: „Rósamt hjarta er líf líkamans, en ástríða er eitur í beinum.“ (Orðskviðirnir 14:30) Ofreynsla, kvíði og álag, sem fylgir því að safna efnislegum auði, getur hins vegar skaðað heilsu og hamingju. Sambönd líða einnig fyrir það þegar efnisleg markmið ráða mestu í lífinu, og samfara versnandi fjölskyldu- og félagslífi hrakar yfirleitt lífsgæðunum.

Yfirburðir andlegra verðmæta

„Hegðið yður eigi eftir öld þessari,“ sagði Páll postuli endur fyrir löngu. (Rómverjabréfið 12:2) Heimurinn hefur dálæti á þeim sem fylgja gildismati hans. (Jóhannes 15:19) Reynt er að höfða til skynjunar sjónar, snertingar, bragðs, lyktar og heyrnar og leiða þig út í efnishyggju. Áherslan er lögð á „fýsn augnanna“ svo að þú og aðrir sækist eftir efnislegum gæðum. — 1. Jóhannesarbréf 2:15-17.

En til eru gildi sem hafin eru yfir peninga, frama og efnislegan auð. Fyrir langa löngu safnaði Salómon konungur að sér öllum þeim veraldlegu gæðum sem heimurinn hafði upp á að bjóða. Hann reisti hús og átti jurtagarða, aldingarða, þjóna, búfénað, söngmenn og söngkonur ásamt gnægð gulls og silfurs. Salómon eignaðist langt umfram alla forvera sína. Það er vægt til orða tekið að segja að hann hafi verið ríkur. Hann átti nánast allt sem hægt var að óska sér. Samt sagði hann þegar hann horfði yfir farinn veg: „Allt var hégómi og eftirsókn eftir vindi.“ — Prédikarinn 2:1-11.

Salómon var gefin yfirburðarviska og því vissi hann að það er meiri lífsfylling fólgin í því að sækjast eftir andlegum verðmætum. Hann skrifaði: „Við skulum hlýða á niðurlagsorðið í því öllu: Óttastu Guð og haltu hans boðorð, því að það á hver maður að gjöra.“ — Prédikarinn 12:13.

Fjársjóðurinn, sem er að finna í orði Guðs, Biblíunni, er verðmætari en gull og silfur. (Orðskviðirnir 16:16) Þar er hægt að uppgötva djúpstæð sannindi sem eru eins og gimsteinar. Vilt þú leita og grafa eftir þeim? (Orðskviðirnir 2:1-6) Skapari okkar, uppspretta sannra gilda, hvetur þig til þess og hann hjálpar þér. Hvernig þá?

Jehóva lætur í té dýrmætan sannleika með orði sínu, anda og söfnuði. (Sálmur 1:1-3; Jesaja 48:17, 18; Matteus 24:45-47; 1. Korintubréf 2:10) Með því að rannsaka þessa fágætu og ómetanlegu gimsteina gefst þér tækifæri til að velja af skynsemi bestu og umbunarríkustu lífsstefnuna. Valið er ekki erfitt af því að Jehóva, skapari okkar, veit hvers við þörfnumst til að vera hamingjusöm.

Gildismat Biblíunnar er best

Heilræðin í Biblíunni eru bæði gagnleg og óviðjafnanleg. Siðferðisstaðlar hennar eiga engan sinn líka. Ráðleggingarnar í henni eru alltaf til góðs. Þær hafa staðist tímans tönn. Í Biblíunni er til dæmis hvatt til þess að vera iðjusamur, heiðarlegur, fara skynsamlega með peninga og forðast leti. — Orðskviðirnir 6:6-8; 20:23; 31:16.

Í samræmi við það sagði Jesús: „Safnið yður ekki fjársjóðum á jörðu, þar sem mölur og ryð eyðir og þjófar brjótast inn og stela. Safnið yður heldur fjársjóðum á himni, þar sem hvorki eyðir mölur né ryð og þjófar brjótast ekki inn og stela.“ — Matteus 6:19, 20.

Þessi tímabæra áminning á jafnt við nú á tímum og fyrir 2000 árum. Við getum nú þegar haft gagn af því að fylgja háleitari lífsstefnu í stað þess að vera upptekin við að leita að veraldlegum auði. Það sem til þarf er að birgja sig upp af andlegum verðmætum sem leiða til gleði og hamingju. Hvernig er það hægt? Með því að lesa orð Guðs, Biblíuna, og fara eftir því sem hún kennir.

Andleg verðmæti eru okkur til gæfu

Sé farið rétt með andleg verðmæti verða þau okkur til góðs líkamlega, tilfinningalega og andlega. Heilbrigðar siðferðisreglur verja okkur með því að afhjúpa hættuleg áhrif efnishyggjunnar líkt og ósonlagið hátt uppi yfir jörðinni ver okkur fyrir skaðlegum sólargeislum. Páll postuli skrifaði: „Þeir, sem ríkir vilja verða, falla í freistni og snöru og alls kyns óviturlegar og skaðlegar fýsnir, er sökkva mönnunum niður í tortímingu og glötun. Fégirndin er rót alls þess, sem illt er. Við þá fíkn hafa nokkrir villst frá trúnni og valdið sjálfum sér mörgum harmkvælum.“ — 1. Tímóteusarbréf 6:9, 10.

Peningaást fær fólk til að sækjast eftir auðlegð, hærri stöðu og meiri völdum. Til þess að ná þessum markmiðum eru oft höfð í frammi svik og prettir. Eftirsókn eftir efnislegum hlutum getur rænt mann tíma, kröftum og góðum eiginleikum. Hún getur jafnvel rænt mann góðum nætursvefni. (Prédikarinn 5:11) Sífelld leit að meiru kæfir andlegar framfarir. Jesús Kristur, mesta mikilmenni sem uppi hefur verið, benti á betri leið: „Sælir eru þeir, sem heyra Guðs orð og varðveita það.“ (Lúkas 11:28) Hann vissi að andleg verðmæti leiða til varanlegrar gæfu og eru miklu mikilvægari en skammvinnur, efnislegur ávinningur. — Lúkas 12:13-31.

Er þetta raunhæft?

„Foreldrar mínir reyndu mikið að sannfæra mig um að andleg verðmæti kæmu að litlum notum,“ rifjar Greg upp. „Ég hef eigi að síður öðlast mikinn hugarfrið með því að sækjast eftir andlegum markmiðum þar sem ég er laus við álagið sem fylgir því að keppast við að verða ríkur.“

Sambönd verða einnig betri sem byggð eru á andlegum verðmætum. Sannir vinir laðast að þér vegna þess sem þú ert en ekki vegna þess sem þú átt. Í Biblíunni er okkur ráðlagt: „Haf umgengni við vitra menn, þá verður þú vitur.“ (Orðskviðirnir 13:20) Farsælt fjölskyldulíf byggist á visku og kærleika en ekki veraldlegum eigum. — Efesusbréfið 5:22–6:4.

Gildismat er ekki meðfætt. Við verðum að læra það af þeim sem við umgöngumst eða af æðri leiðarvísi. Þess vegna getur biblíutengd menntun gerbreytt viðhorfi okkar til efnislegra hluta. „Mér var hjálpað að endurskoða gildismat mitt og ég lærði að vera ánægður með það sem ég þurfti nauðsynlega á að halda,“ segir Don, fyrrverandi bankastarfsmaður.

Kepptu eftir varanlegum, andlegum auði

Andleg verðmæti beina athyglinni að langtímalaunum en ekki skammtímaánægju. Páll skrifaði: „Hið sýnilega [efnislega] er stundlegt, en hið ósýnilega [andlega] eilíft.“ (2. Korintubréf 4:18) Efnislegir hlutir geta að sönnu fullnægt stundlegum löngunum en græðgi seður ekki til lengdar. Andleg verðmæti eru eilíf. — Orðskviðirnir 11:4; 1. Korintubréf 6:9, 10.

Biblían fordæmir efnishyggjuna sem er ríkjandi nú á tímum. Hún kennir okkur hvernig hægt er að hafa taumhald á eigingjörnum löngunum með því að halda augum okkar heilum og beina sjónum að því sem meira máli skiptir, andlegum auði. (Filippíbréfið 1:10) Hún sýnir græðgi í réttu ljósi, það er að segja sem sjálfsdýrkun. Þegar við förum eftir því sem við lærum af orði Guðs verðum við hamingjusamari. Þá snúast hugsanir okkar um að gefa í stað þess að fá. Það er til mikils að vinna að láta eftirlátssemi við sjálfan sig víkja fyrir andlegum verðmætum!

Vissulega geta peningar verið til verndar að ákveðnu marki. (Prédikarinn 7:12) En Biblían er raunsæ þegar hún fullyrðir um hverfulan auðinn: „Sannlega gjörir hann sér vængi eins og örn, sem flýgur til himins.“ (Orðskviðirnir 23:5) Fólk hefur fórnað miklu á altari efnishyggjunnar — heilsu, fjölskyldu og jafnvel góðri samvisku — með hörmulegum afleiðingum. Hins vegar fullnægir andlegt hugarfar mikilvægustu þörfum okkar sem eru þær að vera elskuð, hafa tilgang í lífinu og tilbiðja Jehóva, Guð kærleikans. Það vísar einnig veginn til fullkomins, eilífs lífs í paradís á jörð, vonarinnar sem Guð veitir.

Brátt mun draumur mannkynsins um velmegun að fullu rætast þegar nýr heimur Guðs verður að veruleika. (Sálmur 145:16) Þá mun öll jörðin verða „full af þekkingu á Drottni“. (Jesaja 11:9) Þá verða andleg lífsgildi höfð að leiðarljósi. Efnishyggjan og afleiðingar hennar verða algerlega afmáð. (2. Pétursbréf 3:13) Fullkomin heilsa, ánægjulegt starf, holl afþreying, hlý fjölskyldutengsl og varanleg vinátta við Guð gerir lífið óendanlega meira virða að lifa því og mun veita mannkyninu sanna hamingju að eilífu.

[Rammagrein/mynd á blaðsíðu 6]

Farðu skynsamlega með peningana!

Hverjar eru þarfirnar? Jesús kenndi okkur að biðja: „Gef oss hvern dag vort daglegt brauð.“ (Lúkas 11:3) Teldu þér ekki trú um að þú þurfir að eignast allt sem þig langar í. Mundu að lífið er ekki undir eignum þínum komið. — Lúkas 12:16-21.

Gerðu fjárhagsáætlun. Kauptu ekki í fljótfærni. Í Biblíunni segir: „Fyrirætlanir iðjumannsins reynast fésamar vel, en öll flasfærni lendir í fjárskorti.“ (Orðskviðirnir 21:5) Jesús ráðlagði áheyrendum sínum að reikna kostnaðinn áður en þeir hæfust handa við framkvæmdir. — Lúkas 14:28-30.

Forðastu óþarfa skuldir. Sparaðu fyrir kaupum hvenær sem hægt er í stað þess að kaupa með afborgunum. Í Orðskviðunum er þetta orðað á þessa leið: „Lánþeginn verður þræll lánsalans.“ (Orðskviðirnir 22:7) Með því að temja sér aðhaldssemi og halda sig innan fjárhagsgetu getur maður jafnvel ráðist í verulegar fjárfestingar.

Vertu nýtinn. Láttu það sem þú átt nú þegar endast lengur með því að fara vel með það svo að minna fari í súginn. Jesús fór vel með það sem hann hafði með höndum. — Jóhannes 6:10-13.

Forgangsraðaðu rétt. Skynsöm manneskja ‚notar hverja stund‘ til að láta mikilvægustu markmiðin sitja í fyrirrúmi.— Efesusbréfið 5:15, 16.

[Rammagrein/mynd á blaðsíðu 7]

Er reynslan besti skólinn?

Við getum lært margt af reynslunni, hvort sem hún er góð eða slæm. En er það satt að reynslan sé besti skólinn eins og sumir segja? Nei, því að það er hægt að fá langtum betri leiðsögn. Sálmaritarinn benti á hvar hana væri að finna þegar hann sagði í bæn: „Þitt orð er lampi fóta minna og ljós á vegum mínum.“ — Sálmur 119:105.

Hvers vegna er betra að fá leiðbeiningar frá Guði og læra af þeim en að læra af reynslunni? Til dæmis getur það verið dýrkeypt og sársaukafullt að læra af reynslunni. Það er líka hægt að komast hjá því. Guð sagði við Ísraelsþjóðina til forna: „Æ, að þú vildir gefa gaum að boðorðum mínum, þá mundi heill þín verða sem fljót og réttlæti þitt sem bylgjur sjávarins.“ — Jesaja 48:18.

Í orði Guðs er að finna bestu leiðsögn sem völ er á. Ein ástæðan er sú að þar er að finna elstu og nákvæmustu dæmi af reynslu manna. Þú viðurkennir líklega að það er betra að læra af velgengni og mistökum annarra en að gera sömu mistökin sjálfur. (1. Korintubréf 10:6-11) Það sem meira er, Guð gefur okkur í Biblíunni framúrskarandi lög og meginreglur sem við getum fullkomlega reitt okkur á. „Lögmál Drottins er lýtalaust . . . vitnisburður Drottins er áreiðanlegur, gjörir hinn fávísa [„óreynda“, NW] vitran.“ (Sálmur 19:8) Það er auðséð að besta leiðin er að læra af viskunni sem kemur frá umhyggjusömum skapara okkar.

[Myndir á blaðsíðu 4]

Heimurinn vill að þú takir upp lífsstíl efnishyggjunnar.

[Mynd á blaðsíðu 5]

Fjársjóðir Biblíunnar eru verðmætari en gull og silfur.