Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Höfuðþættir Jósúabókar

Höfuðþættir Jósúabókar

Orð Jehóva er lifandi

Höfuðþættir Jósúabókar

ÍSRAELSMENN eru í búðum sínum á Móabsheiðum árið 1473 f.o.t. þegar þeim er sagt: „Búið yður veganesti, því að þrem dögum liðnum skuluð þér fara yfir ána Jórdan, svo að þér komist inn í og fáið til eignar landið, sem Drottinn, Guð yðar, gefur yður til eignar.“ (Jósúabók 1:11) Þeir hljóta að vera himinlifandi. Fjörutíu ára eyðimerkurgöngu er að ljúka.

Rétt rúmum tveim áratugum síðar stendur Jósúa, leiðtogi þjóðarinnar, í miðju Kanaanlandi og segir öldungum hennar: „Sjáið, með hlutkesti hefi ég úthlutað yður til handa löndum þessara þjóða, sem enn eru eftir, ættkvíslum yðar til eignar, og löndum þjóðanna, sem ég hefi eytt, allt frá Jórdan til hafsins mikla gegnt sólar setri. Og Drottinn Guð yðar mun sjálfur reka þá burt frá yður og stökkva þeim undan yður, og þér munuð fá land þeirra til eignar, eins og Drottinn Guð yðar hefir heitið yður.“ — Jósúabók 23:4, 5.

Bókin er skrifuð af Jósúa árið 1450 f.o.t. og segir spennandi sögu af því sem gerðist á þessum 22 árum. Við stöndum núna á þröskuldi nýja heimsins, sem Guð hefur heitið, og erum í svipaðri aðstöðu og Ísraelsmenn þegar þeir bjuggust til að leggja fyrirheitna landið undir sig. Við skulum því kynna okkur efni Jósúabókar af brennandi áhuga. — Hebreabréfið 4:12.

AÐ „JERÍKÓVÖLLUM“

(Jósúabók 1:1–5:15)

Jósúa er falið krefjandi verkefni þegar Jehóva segir honum: „Móse, þjónn minn, er andaður. Rís þú nú upp og far yfir ána Jórdan með allan þennan lýð, inn í landið, sem ég gef þeim, Ísraelsmönnum.“ (Jósúabók 1:2) Jósúa á að leiða milljónaþjóð inn í fyrirheitna landið. Hann undirbýr það með því að senda tvo njósnara til Jeríkó en það er fyrsta borgin sem hann ætlar að taka. Þar býr skækjan Rahab sem hefur heyrt af máttarverkum Jehóva í þágu þjóðar hans. Hún aðstoðar njósnarana og leynir þeim, og þeir lofa henni vernd.

Jósúa og þjóðin búa sig undir að fara yfir Jórdan eftir að njósnararnir eru komnir til baka. Það er flóð í ánni en það hindrar þá ekki því að Jehóva lætur rennsli hennar stöðvast þannig að hún stendur sem veggur langt fyrir ofan en fyrir neðan tæmist hún í Dauðahafið. Ísraelsmenn setja upp búðir við Gilgal í grennd við Jeríkó eftir að þeir eru komnir yfir ána. Fjórum dögum síðar, að kvöldi hins 14. abíb, halda þeir páska á Jeríkóvöllum. (Jósúabók 5:10) Daginn eftir byrja þeir að nærast af gróðri landsins og himnabrauðið manna hættir að sjást. Jósúa umsker alla karlmenn sem fæddir voru í eyðimörkinni.

Biblíuspurningar og svör:

2:4, 5 — Hvers vegna villir Rahab um fyrir mönnum konungs sem koma til að leita að njósnurunum? Rahab hættir lífinu til að leyna njósnurunum vegna þess að hún er farin að trúa á Jehóva. Henni ber því engin skylda til að upplýsa menn, sem ætla að vinna þjóð Guðs tjón, hvar njósnararnir eru. (Matteus 7:6; 21:23-27; Jóhannes 7:3-10) Rahab ‚réttlættist af verkum‘, þeirra á meðal því að villa um fyrir útsendurum konungs. — Jakobsbréfið 2:24-26.

5:14, 15 — Hver er ‚fyrirliðinn fyrir hersveit Drottins‘? Fyrirliði þessi styrkir Jósúa þegar kemur að því að taka fyrirheitna landið. Sennilegt er að þetta sé enginn annar en „Orðið“ — Jesús Kristur áður en hann varð maður. (Jóhannes 1:1; Daníel 10:13) Það er ákaflega styrkjandi til þess að vita að hinn dýrlegi Jesús Kristur skuli vera með fólki Guðs nú á tímum í andlegum hernaði þess.

Lærdómur:

1:7-9. Við verðum að lesa daglega í Biblíunni, hugleiða efni hennar og fara eftir því sem við lærum til að okkur gangi vel að sinna andlegum viðfangsefnum okkar.

1:11Jósúa biður þjóðina að búa sér veganesti en ekki bíða þess aðgerðalaus að Guð leggi allt upp í hendurnar á henni. Við verðum að gera ráðstafanir til að sjá okkur farborða þó að Jesús hafi sagt að við ættum ekki að hafa áhyggjur af lífsnauðsynjum og hafi lofað að ‚allt þetta myndi veitast okkur að auki‘. — Matteus 6:25, 33.

2:4-13. Rahab ákveður að taka afstöðu með tilbiðjendum Jehóva eftir að hún fréttir af máttarverkum hans og gerir sér grein fyrir hve tvísýnt ástandið er. Hefurðu verið að kynna þér Biblíuna um tíma og veist að við lifum á „síðustu dögum“? Er þá ekki ástæða til að taka ákvörðun um að þjóna Guði? — 2. Tímóteusarbréf 3:1.

3:15. Njósnararnir, sem sendir voru til Jeríkó, flytja góðar fréttir þannig að Jósúa lætur hendur standa fram úr ermum en bíður þess ekki að það sjatni í Jórdan. Við verðum að vera hugrökk þegar sönn tilbeiðsla er annars vegar en ekki slá hlutunum á frest uns aðstæður virðast betri.

4:4-8, 20-24. Tólf steinar eru teknir úr farvegi Jórdanar til að vera Ísrael sem minnismerki. Jehóva frelsar þjóna sína nú á dögum af hendi óvina þeirra sem er einnig nokkurs konar minnismerki þess að hann sé með þeim.

LANDVINNINGAR HALDA ÁFRAM

(Jósúabók 6:1–12:24)

Borgin Jeríkó var „harðlokuð . . . svo að enginn maður komst þar út né inn“. (Jósúabók 6:1) Hvernig var hægt að taka hana? Jehóva leggur Jósúa línurnar og áður en langt um líður eru múrarnir hrundir og borgin eydd. Enginn kemst lífs af nema Rahab og heimilisfólk hennar.

Næst er lagt til atlögu við konungaborgina Aí. Njósnarar, sem sendir eru þangað, skýra frá því að borgin sé fámenn þannig að ekki þurfi fjölmennt lið til að taka hana. Um 3000 hermenn eru sendir þangað en leggja á flótta undan Aímönnum. Ástæðan er sú að Jehóva er ekki með Ísraelsmönnum. Akan af Júdaættkvísl syndgaði í innrásinni í Jeríkó. Jósúa ræðst á Aí að nýju eftir að hafa tekið á málinu. Konungurinn í Aí er óðfús að berjast við Ísraelsmenn eftir að hafa hrakið þá einu sinni á flótta. Jósúa notfærir sér oftraust Aímanna og tekur borgina.

Gíbeon er ‚stór borg, stærri en Aí og allir borgarbúar hreystimenn‘. (Jósúabók 10:2) En eftir að hafa frétt hvernig Ísraelsmenn unnu Jeríkó og Aí ákveða Gíbeonítar að leika á Jósúa og fá hann til að gera friðarsáttmála við sig. Þjóðirnar í kring telja sér stafa ógn af þessu þannig að fimm konungar gera bandalag og ráðast á Gíbeon. Ísraelsmenn koma Gíbeonítum til bjargar og gersigra árásarmennina. Af öðrum sigrum Ísraelsmanna undir stjórn Jósúa má nefna borgir í suðri og vestri og sigur á konungabandalagi í norðri. Alls er það 31 konungur sem þeir sigra vestan Jórdanar.

Biblíuspurningar og svör:

10:13 — Hvernig getur svona fyrirbæri átt sér stað? Jehóva er skapari himins og jarðar þannig að honum er ekkert um megn. (1. Mósebók 18:14) Ef hann vill getur hann haft áhrif á hreyfingu jarðar þannig að sólin og tunglið virðast standa kyrr á himninum séð frá jörð. Sömuleiðis getur hann látið jörð og tungl halda áfram að snúast en endurkastað geislum sólar og tungls þannig að ljós þeirra skíni áfram. Hvernig sem hann fór að hefur ‚enginn dagur verið þessum degi líkur‘ í sögu mannkyns. — Jósúabók 10:14.

10:13 — Hver er Bók hinna réttlátu? Hún er nefnd aftur í 2. Samúelsbók 1:18 þar sem minnst er á „Kvæðið um bogann“ — sorgarkvæði um Sál Ísraelskonung og Jónatan son hans. Sennilega var bókin safn kvæða og ljóða um söguleg efni og var trúlega vel þekkt meðal Hebrea.

Lærdómur:

6:26; 9:22, 23. Bölvunin, sem Jósúa lýsti yfir við eyðingu Jeríkó, rættist um fimm öldum síðar. (1. Konungabók 16:34) Bölvun Nóa yfir Kanaan, sonarsyni sínum, rættist þegar Gíbeonítar voru gerðir að erfiðismönnum. (1. Mósebók 9:25, 26) Orð Jehóva rætist alltaf.

7:20-25. Sumir telja kannski að brot Akans hafi verið smávægilegt þar sem það hafi ekki orðið öðrum til tjóns. Ef til vill líta þeir sömu augum á smáþjófnað og minni háttar brot. Við ættum hins vegar að hugsa eins og Jósúa og standa einbeitt gegn ólöglegum verkum og siðleysi heimsins.

9:15, 26, 27. Við verðum að taka alvarlega alla samninga sem við gerum og standa við orð okkar.

SÍÐASTA STÓRVERKEFNI JÓSÚA

(Jósúabók 13:1–24:33)

Jósúa er kominn nálægt níræðu þegar hann tekur að skipta landinu. Þetta er mikið verk. Ættkvíslir Rúbens og Gaðs og hálf ættkvísl Manasse hafa þegar fengið land austan Jórdanar. Hinum ættkvíslunum er nú úthlutað landi með hlutkesti vestanmegin árinnar.

Tjaldbúðin er sett upp í Síló í landi Efraíms. Kaleb fær borgina Hebron og Jósúa fær Timnat Sera. Levítar fá 48 borgir, þar á meðal griðaborgirnar 6. Á leið til erfðalands síns austan Jórdanar reisa hermenn Rúbens, Gaðs og hálfrar ættkvíslar Manasse altari sem er „mikið til að sjá“. (Jósúabók 22:10) Ættkvíslirnar vestan Jórdanar líta á þetta sem fráhvarf. Við liggur að stríð brjótist út milli ættkvíslanna en það tekst að afstýra því vegna þess að menn ræða saman.

Eftir að Jósúa hefur búið um hríð í Timnat Sera kallar hann saman öldunga, höfðingja, dómara og umsjónarmenn Ísraels og hvetur þá til að vera hugrakka og sýna Jehóva trúmennsku. Síðar kallar hann allar ættkvíslir Ísraels saman í Síkem. Þar rifjar hann upp samskipti Jehóva við þá frá dögum Abrahams og hvetur þá aftur til að ‚óttast Drottin og þjóna honum einlæglega og dyggilega‘. Fólkið svarar: „Drottni Guði vorum viljum vér þjóna og hlýða hans röddu.“ (Jósúabók 24:14, 15, 24) Jósúa deyr síðan 110 ára gamall.

Biblíuspurningar og svör:

13:1 — Stangast þetta ekki á við það sem fram kemur í Jósúabók 11:23? Nei, því að taka fyrirheitna landsins var tvíþætt: Annars vegar fólst hún í stríðinu þar sem Ísraelsmenn sigruðu 31 konung í Kanaanlandi og brutu veldi Kanverja á bak aftur, og hins vegar í því að slá eign sinni á landið að fullu, bæði sem ættkvíslir og sem einstaklingar. (Jósúabók 17:14-18; 18:3) Þó að Ísraelsmenn hafi ekki rekið Kanverja burt að fullu stafaði þeim engin raunveruleg ógn af þeim sem eftir voru. (Jósúabók 16:10; 17:12) „Drottinn gaf alla óvini þeirra í hendur þeim,“ segir í Jósúabók 21:44.

24:2 — Var Tara, faðir Abrahams, skurðgoðadýrkandi? Tara tilbað ekki Jehóva Guð í fyrstu. Sennilega dýrkaði hann tunglguðinn Sin sem var mikið dýrkaður í Úr. Samkvæmt arfsögnum Gyðinga er jafnvel hugsanlegt að Tara hafi verið skurðgoðasmiður. Þegar Abraham yfirgefur Úr að boði Guðs fer Tara hins vegar með honum til Harran. — 1. Mósebók 11:31.

Lærdómur:

14:10-13. Þótt Kaleb væri orðinn 85 ára bað hann um að fá að hrekja burt íbúa Hebronsvæðisins. Það var ekkert áhlaupaverk. Þar bjuggu Anakítar sem voru óvenjustórir vexti. Þessum reynda hermanni tekst það engu að síður með hjálp Jehóva, og Hebron verður ein af griðaborgunum. (Jósúabók 15:13-19; 21:11-13) Fordæmi Kalebs er okkur hvatning til að hika ekki við að taka að okkur erfið verkefni innan safnaðarins.

22:9-12, 21-33. Við þurfum að gæta þess vandlega að rangtúlka ekki hvatir annarra.

„Ekkert hefir brugðist“

Jósúa er orðinn háaldraður þegar hann segir forystumönnum Ísraels: „Ekkert hefir brugðist af öllum þeim fyrirheitum, er Drottinn Guð yðar hefir gefið yður. Öll hafa þau rætst.“ (Jósúabók 23:14) Jósúabók sýnir greinilega fram á það.

„Allt það, sem áður er ritað, er ritað oss til uppfræðingar, til þess að vér fyrir þolgæði og huggun ritninganna héldum von vorri,“ skrifaði Páll postuli. (Rómverjabréfið 15:4) Við megum treysta að vonin á fyrirheit Guðs er örugg. Ekkert fyrirheit mun bregðast, þau rætast öll.

[Kort á blaðsíðu 20]

(Sjá uppraðaðann texta í blaðinu)

Landið sem Ísraelsmenn lögðu undir sig undir forystu Jósúa.

BASAN

GÍLEAÐ

SUÐURLANDIÐ

SLÉTTLENDIÐ

Jórdan

Saltisjór

Jabboká

Arnoná

Hasór

Madón

Saron

Simron

Jokneam

Dór

Megiddó

Kedes

Taanak

Hefer

Tirsa

Afek

Tappúa

Betel

Geser

Gilgal

Jeríkó

Jerúsalem

Makeda

Jarmút

Adúllam

Líbna

Lakís

Eglon

Hebron

Debír

Arad

[Mynd á blaðsíðu 19]

Veistu hvers vegna skækjan Rahab var talin réttlát?

[Mynd á blaðsíðu 20]

Jósúa hvatti Ísraelsmenn til að ‚óttast Jehóva og þjóna honum‘.

[Mynd á blaðsíðu 22]

Þjófnaður Akans var ekkert smábrot því að hann hafði alvarlegar afleiðingar.

[Mynd á blaðsíðu 22]

„Fyrir trú hrundu múrar Jeríkóborgar.“ — Hebreabréfið 11:30.