Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Jehóva er hjálpari okkar

Jehóva er hjálpari okkar

Jehóva er hjálpari okkar

„Hjálp mín kemur frá Drottni, skapara himins og jarðar.“ — SÁLMUR 121:2.

1, 2. (a) Hvers vegna má segja að við þurfum öll á hjálp að halda öðru hverju? (b) Hvers konar hjálpari er Jehóva?

HVER þarf aldrei á hjálp að halda? Sannleikurinn er sá að við þurfum öll öðru hverju að fá hjálp til að takast á við vandasöm verkefni, sársaukafullan missi eða erfiðar prófraunir. Þegar við eru hjálparþurfi leitum við oft til góðra vina. Með því segja þeim frá vandamálum eigum við auðveldara með að bera byrðarnar. En því eru takmörk sett hvað aðrir menn geta gert til að hjálpa. Þar að auki er fólk ekki alltaf í aðstöðu til að koma manni til hjálpar þegar maður þarfnast þess.

2 Við höfum hins vegar hjálpara sem hefur ótakmarkaðan kraft og styrk og hann fullvissar okkur um að hann muni aldrei yfirgefa okkur. Sálmaritarinn benti á hver þetta væri: „Hjálp mín kemur frá Drottni.“ (Sálmur 121:2) Hvers vegna var sálmaritarinn sannfærður um að Jehóva myndi hjálpa honum? Við skulum leita svara við þeirri spurningu með því að fara yfir Sálm 121. Þá sjáum við hvers vegna við getum leitað til Jehóva í fullu trausti þess að hann hjálpi okkur.

Óbrigðul hjálp

3. Til hvaða fjalla er hugsanlegt að sálmaritarinn hafi horft og hvers vegna gerði hann það?

3 Sálmaritarinn byrjar á að fullyrða að við getum treyst á Jehóva vegna þess að hann er skapari alheimsins: „Ég hef augu mín til fjallanna: Hvaðan kemur mér hjálp? Hjálp mín kemur frá Drottni, skapara himins og jarðar.“ (Sálmur 121:1, 2) Sálmaskáldið hóf ekki bara augu sín til hvaða fjalla sem var. Þegar þessi orð voru rituð stóð musteri Jehóva í Jerúsalem. Borgin stóð hátt uppi á Júdafjöllum og var táknrænn dvalarstaður Jehóva. (Sálmur 135:21) Til að leita hjálpar Jehóva hefur sálmaritarinn hugsanlega horft til fjallanna þar sem Jerúsalem og musteri Jehóva stóðu. Hvers vegna var hann svona viss um að Jehóva gæti hjálpað honum? Vegna þess að Jehóva er ‚skapari himins og jarðar‘. Sálmaritarinn var í rauninni að segja: Ekkert getur komið í veg fyrir að hinn alvaldi skapari komi mér til hjálpar. — Jesaja 40:26.

4. Hvernig sýndi sálmaritarinn fram á að Jehóva væri ávallt vakandi fyrir þörfum þjóna sinna og hvers vegna er það hughreystandi?

4 Næst fullyrðir sálmaritarinn að Jehóva sé ávallt vakandi fyrir þörfum þjóna sinna: „Hann mun eigi láta fót þinn skriðna, vörður þinn blundar ekki. Nei, hann blundar ekki og sefur ekki, hann, vörður Ísraels.“ (Sálmur 121:3, 4) Guð leyfir aldrei að þeim sem treysta honum ,skriðni fótur‘ eða þeir falli svo illa að þeir geti ekki risið á fætur á ný. (Orðskviðirnir 24:16) Hvers vegna? Vegna þess að Jehóva er eins og vökull fjárhirðir sem gætir sauða sinna. Er þetta ekki hughreystandi tilhugsun? Hann lokar ekki augunum fyrir þörfum þjóna sinna, jafnvel ekki um stundarsakir. Hann vakir yfir þeim dag og nótt.

5. Af hverju er Jehóva sagður vera okkur „til hægri handar“?

5 Það er ljóst að sálmaritarinn var þess fullviss að Jehóva verndaði þjóna sína trúfastlega þar sem hann sagði: „Drottinn er vörður þinn, Drottinn skýlir þér, hann er þér til hægri handar. Um daga mun sólarhitinn eigi vinna þér mein, né heldur tunglið um nætur.“ (Sálmur 121:5, 6) Fyrir fótgangandi ferðamann í Miðausturlöndum var skuggi kærkomin vörn gegn brennandi sólinni. Jehóva er eins og skuggi sem skýlir þjónum sínum fyrir ógæfu. Við tökum eftir að Jehóva er sagður vera okkur „til hægri handar“. Í stríðum til forna var hægri hönd hermanna að vissu leyti óvarin því að þeir héldu á skildinum með vinstri hendi. Traustur vinur gat verið til verndar með því að standa og berjast hægra megin við hermanninn. Jehóva stendur eins og traustur vinur við hlið tilbiðjenda sinna og er alltaf tilbúinn til að hjálpa þeim.

6, 7. (a) Hvernig fullvissar sálmaritarinn okkur um að Jehóva hætti aldrei að hjálpa þjónum sínum? (b) Hvers vegna getum við treyst á Jehóva eins og sálmaritarinn gerði?

6 Mun Jehóva einhvern tíma hætta að hjálpa fólki sínu? Það er algerlega óhugsandi. Sálmaritarinn sagði: „Drottinn mun vernda þig fyrir öllu illu, hann mun vernda sál þína. Drottinn mun varðveita útgöngu þína og inngöngu héðan í frá og að eilífu.“ (Sálmur 121:7, 8) Taktu eftir því að sálmaritarinn skiptir úr nútíð yfir í framtíð. Í 5. versi stendur: „Drottinn er vörður þinn.“ En núna skrifar hann: „Drottinn mun vernda þig.“ Sálmaritarinn fullvissar þannig sanna tilbiðjendur um að Jehóva haldi áfram að hjálpa þeim. Hvert sem þeir fara og hvaða óförum sem þeir kunna að lenda í er hjálp hans aldrei utan seilingar. — Orðskviðirnir 12:21.

7 Já, ritari 121. sálmsins var viss um að hinn alvaldi skapari gætti þjóna sinna eins og vökull vörður og umhyggjusamur fjárhirðir. Við höfum ríka ástæðu til að bera sama traust til Jehóva því að hann breytist ekki. (Malakí 3:6) Þýðir það að við fáum alltaf vernd gegn líkamlegu tjóni? Nei, en eins lengi og við reiðum okkur á hjálp hans verndar hann okkur gegn öllu sem gæti skaðað okkur andlega. Það er því eðlilegt að sú spurning vakni hvernig Jehóva hjálpi okkur. Tökum til athugunar fernt sem hann gerir til að hjálpa okkur. Í þessari grein fjöllum við um það hvernig hann kom þjónum sínum á biblíutímanum til hjálpar og í næstu grein athugum við hvernig hann hjálpar þjónum sínum nú á tímum.

Hjálp frá englum

8. Hvers vegna kemur það ekki á óvart að englarnir skuli hafa mikinn áhuga á velferð þjóna Guðs á jörðinni?

8 Jehóva hefur milljónir engla undir stjórn sinni. (Daníel 7:9, 10) Þessir andasynir framfylgja vilja hans staðfastlega. (Sálmur 103:20) Þeir gera sér fulla grein fyrir því að Jehóva elskar tilbiðjendur sína heitt og vill hjálpa þeim. Það kemur því ekki á óvart að englarnir skuli hafa mikinn áhuga á velferð þjóna Guðs á jörðinni. (Lúkas 15:10) Englarnir hljóta þess vegna að gleðjast yfir því að Jehóva skuli nota þá til að hjálpa mönnum. Hvernig notaði Jehóva engla forðum daga til að hjálpa þjónum sínum á jörðinni?

9. Nefndu dæmi um hvernig englar fengu kraft frá Guði til að vernda trúfasta menn.

9 Englarnir hafa fengið kraft frá Guði til að vernda og frelsa trúfasta menn. Tveir englar hjálpuðu Lot og dætrum hans að komast undan eyðingu Sódómu og Gómorru. (1. Mósebók 19:1, 15-17) Einn engill felldi 185.000 assýrska hermenn sem ógnuðu Jerúsalem. (2. Konungabók 19:35) Þegar Daníel var kastað í ljónagryfju sendi Jehóva „engil sinn og hann lokaði munni ljónanna“. (Daníel 6:22, 23) Engill frelsaði Pétur postula úr fangelsi. (Postulasagan 12:6-11) Í Biblíunni eru nefnd mörg önnur dæmi um vernd sem englar veittu og þau styðja það sem stendur í Sálmi 34:8: „Engill Drottins setur vörð kringum þá er óttast hann, og frelsar þá.“

10. Hvernig notaði Jehóva engil til að styrkja Daníel spámann?

10 Jehóva hefur einstaka sinnum notað engla til að hvetja og styrkja trúfasta menn. Í 10. kafla Daníelsbókar er hjartnæmt dæmi um það. Hugsanlega var Daníel næstum 100 ára á þeim tíma. Spámaðurinn var mjög niðurdreginn vegna þess að Jerúsalem var í niðurníðslu og endurbyggingu musterisins seinkaði. Hann sá líka tilkomumikla sýn sem gerði hann óttasleginn. (Daníel 10:2, 3, 8) Í umhyggju sinni sendi Guð engil til að uppörva hann. Oftar en einu sinni minnti engillinn Daníel á að hann væri „ástmögur Guðs“. Þetta hafði þau áhrif á Daníel að hann sagði við engilinn: „Þú hefir gjört mig styrkan.“ — Daníel 10:11, 19.

11. Hvaða dæmi eru um að englar hafi verið notaðir til að stjórna boðun fagnaðarerindisins?

11 Jehóva notaði einnig engla til að stjórna boðun fagnaðarerindisins. Engill sendi Filippus til að fræða eþíópískan hirðmann um Krist en hann lét síðan skírast. (Postulasagan 8:26, 27, 36, 38) Skömmu seinna var það vilji Guðs að fagnaðarerindið yrði prédikað fyrir óumskornum mönnum af þjóðunum. Engill birtist þá Kornelíusi, guðhræddum manni af þjóðunum, í sýn og sagði honum að senda eftir Pétri postula. Þegar sendiboðar Kornelíusar hittu Pétur sögðu þeir: „Kornelíus . . . fékk bendingu frá heilögum engli að senda eftir þér og fá þig heim til sín og heyra, hvað þú hefðir að flytja.“ Pétur varð við beiðninni og þannig gengu fyrstu óumskornu mennirnir af þjóðunum í kristna söfnuðinn. (Postulasagan 10:22, 44-48) Hugsaðu þér hvernig þér væri innanbrjósts ef þú vissir að engill hefði hjálpað þér að finna hjartahreinan mann.

Hjálp heilags anda

12, 13. (a) Hvers vegna höfðu postularnir fulla ástæðu til að trúa því að heilagur andi gæti hjálpað þeim? (b) Hvað gerði heilagur andi kristnum mönnum á fyrstu öldinni kleift?

12 Skömmu fyrir dauða sinn fullvissaði Jesús postulana um að þeir yrðu ekki skildir eftir hjálparlausir. Faðirinn myndi gefa þeim ,hjálpara, andann heilaga‘. (Jóhannes 14:26) Postularnir höfðu fullt tilefni til að trúa því að heilagur andi gæti hjálpað þeim enda eru ótal dæmi í Ritningunni um það hvernig Jehóva hefur hjálpað þjónum sínum með heilögum anda, sterkasta krafti sem til er.

13 Heilagur andi var oft notaður til að gefa mönnum kraft til að gera vilja Jehóva. Heilagur andi gaf dómurunum kraft til að frelsa Ísrael. (Dómarabókin 3:9, 10; 6:34) Hann gerði einnig kristnum mönnum á fyrstu öldinni kleift að halda áfram að prédika með djörfung þrátt fyrir alls konar andstöðu. (Postulasagan 1:8; 4:31) Velgengni þeirra í boðunarstarfinu vitnaði kröftuglega um að heilagur andi styddi þá. Hvað annað gæti útskýrt hvernig „ólærðir leikmenn“ gátu boðað fagnaðarerindið um allan hinn þekkta heim á þeim tíma? — Postulasagan 4:13; Kólossubréfið 1:23.

14. Hvernig hefur Jehóva notað heilagan anda til að upplýsa fólk sitt?

14 Jehóva notaði einnig heilagan anda sinn til að upplýsa þjóna sína. Með hjálp anda Guðs gat Jósef ráðið spádómlega drauma faraós. (1. Mósebók 41:16, 38, 39) Jehóva notaði anda sinn til að opinbera auðmjúkum mönnum fyrirætlun sína en hylja hana fyrir hrokafullum. (Matteus 11:25) Páll postuli sagði því um spekina sem Jehóva gefur „þeim, er elska hann“: „Oss hefur Guð opinberað hana fyrir andann.“ (1. Korintubréf 2:7-10) Það var aðeins fyrir tilstuðlan heilags anda að fólk gat skilið hver vilji Guðs væri.

Hjálp frá orði Guðs

15, 16. Hvað var Jósúa sagt að gera svo að hann myndi breyta viturlega?

15 Innblásið orð Jehóva er ,nytsamt til fræðslu‘ og það gerir þjóna hans ,albúna og hæfa til sérhvers góðs verks‘. (2. Tímóteusarbréf 3:16, 17) Í Biblíunni eru mörg dæmi um hvernig það hjálpaði þjónum Guðs fyrr á tímum að lesa í orði hans.

16 Ritningin veitti tilbiðjendum Guðs örugga leiðsögn. Þegar Jósúa var skipaður yfir Ísraelsmenn var honum sagt: „Eigi skal lögmálsbók þessi [sem Móse hafði fært í letur] víkja úr munni þínum, heldur skalt þú hugleiða hana um daga og nætur, til þess að þú gætir þess að gjöra allt það, sem í henni er skrifað, því að þá munt þú gæfu hljóta á vegum þínum og breyta viturlega.“ Guð sagði Jósúa ekki að hann gæfi honum visku með yfirnáttúrulegum hætti en ef Jósúa læsi lögmálsbókina og hugleiddi efni hennar myndi hann breyta viturlega. — Jósúabók 1:8; Sálmur 1:1-3.

17. Hvernig hjálpaði orð Guðs bæði Daníel og Jósía konungi?

17 Ritað orð Guðs opinberaði einnig vilja hans og fyrirætlun. Daníel réð til dæmis af skrifum Jeremía hve lengi Jerúsalem ætti eftir að liggja í rústum. (Jeremía 25:11; Daníel 9:2) Hugsum líka um það sem gerðist á dögum Jósía Júdakonungs. Á þeim tíma hafði þjóðin fjarlægst Jehóva og konungarnir höfðu greinilega vanrækt að gera sér afrit af lögmálinu og fara eftir því. (5. Mósebók 17:18-20) En þegar verið var að gera við musterið fannst lögmálsbókin, hugsanlega frumhandritið sem Móse hafði ritað um 800 árum áður. Eftir að hafa heyrt lögmálsbókina lesna gerði Jósía sér grein fyrir því hve mjög þjóðin hafði fjarlægst Jehóva og hann greip til harðra aðgerða til að framfylgja því sem í henni stóð. (2. Konungabók 22:8; 23:1-7) Ljóst er að orð Guðs hjálpaði þjónum Guðs til forna.

Hjálp frá trúsystkinum

18. Hvers vegna má segja að það sé Jehóva að þakka þegar sannir tilbiðjendur hjálpa hver öðrum?

18 Jehóva notar oft trúsystkini okkar til að hjálpa okkur. Í raun og veru er það Guði að þakka þegar kristnir menn hjálpa hver öðrum. Hvers vegna má segja það? Í fyrsta lagi vegna þess að heilagur andi Guðs á þar hlut að máli. Þeir sem láta heilagan anda hafa áhrif á sig sýna ávexti hans eins og kærleika og góðvild. (Galatabréfið 5:22, 23) Það er því merki um að andi Jehóva sé að verki þegar þjónn Guðs finnur hjá sér löngun til að hjálpa trúsystkini sínu. Í öðru lagi erum við sköpuð í Guðs mynd. (1. Mósebók 1:26) Það þýðir að við getum endurspeglað eiginleika hans eins og gæsku og umhyggju. Því má segja að þegar einn þjónn Jehóva hjálpar öðrum komi hjálpin í raun og veru frá Jehóva.

19. Hvernig notaði Jehóva trúsystkini til að hjálpa hvert öðru eins og sjá má af Biblíunni?

19 Hvernig notaði Jehóva trúsystkini til að hjálpa hvert öðru á biblíutímanum? Hann fékk þjóna sína oft til að leiðbeina öðrum eins og þegar Jeremía gaf Barúk ráðleggingar sem björguðu lífi hans. (Jeremía 45:1-5) Stundum fundu sannir tilbiðjendur hjá sér hvöt til að veita trúsystkinum sínum efnislega hjálp eins og kristnir menn í Makedóníu og Akkeu gerðu þegar þeir hjálpuðu fúslega bágstöddum trúbræðrum sínum í Jerúsalem. Páll postuli hafði á orði að slíkt örlæti stuðlaði að „þakklæti við Guð“. — 2. Korintubréf 9:11.

20, 21. Við hvaða aðstæður fékk Páll styrk frá bræðrunum í Róm?

20 Frásögur af því hvernig þjónar Jehóva lögðu sig fram um að styrkja og hvetja hver annan eru sérstaklega hjartnæmar. Tökum dæmi sem tengist Páli postula. Hann fór sem fangi til Rómar eftir rómverskum þjóðvegi sem kallaður var Appíusarvegur. Síðasti hluti vegarins var sérlega óþægilegur þar sem leiðin lá um fenjótt láglendi. * Bræðurnir í söfnuðinum í Róm vissu að Páll var á leiðinni. Hvað gerðu þeir? Biðu þeir heima hjá sér í þægindum sínum þangað til Páll kom og tóku þá á móti honum?

21 Biblíuritarinn Lúkas, sem var samferða Páli, segir okkur hvað gerðist: „Bræðurnir þar [í Róm] fréttu um oss og komu til móts við oss allt til Appíusartorgs og Þríbúða.“ Sérðu þetta fyrir þér? Hópur bræðra, sem vissi að Páll væri á leiðinni, kom frá Róm til að taka á móti honum. Hluti hópsins beið hjá Appíusartorgi en það var vel þekktur áningarstaður um 74 kílómetra frá Róm. Hinir bræðurnir biðu í Þríbúðum sem var í um 58 kílómetra fjarlægð frá borginni. Hvernig brást Páll við? Lúkas segir: „Þegar Páll sá þá, gjörði hann Guði þakkir og hresstist í huga.“ (Postulasagan 28:15) Hugsaðu þér! Það eitt að sjá bræðurna, sem höfðu lagt það á sig að koma alla þessa leið, styrkti og hughreysti Pál. Hverjum þakkaði Páll þennan góða stuðning? Jehóva Guði.

22. Hver er árstextinn fyrir árið 2005 og um hvað verður fjallaði í næstu grein?

22 Það er greinilegt af innblásnum frásögum af samskiptum Guðs við mennina að hann er hjálpari sem á sér engan jafningja. Það er því viðeigandi að árstexti Votta Jehóva fyrir árið 2005 skuli vera byggður á Sálmi 121:2 þar sem segir: „Hjálp mín kemur frá Drottni.“ En hvernig hjálpar Jehóva okkur nú á tímum? Um það verður fjallað í næstu grein.

[Neðanmáls]

^ gr. 20 Rómverska skáldið Hóratíus (65-8 f.o.t.), sem fór sömu leið, talaði um óþægindin á þessum kafla leiðarinnar. Hann sagði að Appíusartorg hefði verið „troðfullt af bátsmönnum og nískum kráareigendum“. Hann talaði um „andstyggilegar mýflugur og froska“ og sagði að vatnið hefði verið „afleitt“.

Manstu?

• Hvernig veitti Jehóva hjálp fyrir milligöngu —

• engla?

• heilags anda?

• Ritningarinnar?

• trúsystkina?

[Spurningar]

[Innskot á blaðsíðu 25]

Árstextinn fyrir árið 2005 verður: ‚Hjálp mín kemur frá Jehóva.‘ — Sálmur 121:2.

[Mynd á blaðsíðu 26]

Páll þakkaði Guði fyrir hjálpina sem hann fékk frá bræðrunum í Róm.