Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Dómur Jehóva kemur yfir óguðlega

Dómur Jehóva kemur yfir óguðlega

Dómur Jehóva kemur yfir óguðlega

„Ver viðbúinn að mæta Guði þínum.“ — AMOS 4:12.

1, 2. Hvers vegna getum við treyst að Guð bindi enda á illskuna?

BINDUR JEHÓVA einhvern tíma enda á illsku og þjáningar hér á jörð? Þessi spurning hefur aldrei verið áleitnari en núna við upphaf 21. aldar. Grimmd mannanna blasir við hvert sem litið er. Við þráum að sjá heim sem er laus við ofbeldi, hryðjuverk og spillingu.

2 Sem betur fer getum við treyst fullkomlega að Jehóva eigi eftir að binda enda á illskuna. Eiginleikar hans eru trygging fyrir því að hann grípi til aðgerða gegn óguðlegum mönnum. Jehóva er réttlátur og réttvís. Orð hans segir í Sálmi 35:5: „Hann hefir mætur á réttlæti og rétti.“ Og í öðrum sálmi segir um Jehóva: „Þann er elskar ofríki, hatar hann.“ (Sálmur 11:5) Jehóva er alvaldur Guð sem elskar réttlæti og réttvísi og umber ekki að eilífu það sem hann hatar.

3. Hvað fleira kemur í ljós við nánari skoðun á spádómsbók Amosar?

3 Það er önnur ástæða fyrir því að við getum treyst að Jehóva útrými illskunni. Það eru fyrri afskipti hans af mönnunum. Í Amosarbók er að finna áhrifamikil dæmi sem sýna hvernig Jehóva fer með hina óguðlegu. Nánari skoðun á spádómsbókinni sýnir okkur þrennt varðandi dóma Guðs. Í fyrsta lagi eru þeir alltaf verðskuldaðir. Í öðru lagi eru þeir óumflýjanlegir. Og í þriðja lagi eru dómar hans markvissir vegna þess að þeir koma aðeins yfir hina illu en iðrandi og réttsinna menn hljóta miskunn. — Rómverjabréfið 9:17-26.

Dómar Guðs eru alltaf verðskuldaðir

4. Hvert sendi Jehóva Amos og í hvaða tilgangi?

4 Á dögum Amosar voru Ísraelsmenn búnir að skiptast í tvö ríki, suðurríkið Júda með tveim ættkvíslum og norðurríkið Ísrael með tíu ættkvíslum. Jehóva skipaði Amos spámann sinn og sendi hann frá heimabæ hans í Júda til Ísraels. Þar ætlaði Guð að nota hann til að boða dóm sinn.

5. Gegn hvaða þjóðum spáði Amos fyrst og hvers vegna verðskulduðu þær dóm Guðs?

5 Amos hóf ekki starf sitt á því að kveða upp dóm Jehóva yfir hinu uppreisnargjarna Ísraelsríki heldur yfir sex ríkjum þar umhverfis. Þetta voru Sýrland, Filistea, Týrus, Edóm, Ammón og Móab. Verðskulduðu þessar þjóðir harðan dóm Guðs? Svo sannarlega, meðal annars vegna þess að þær voru svarnir óvinir fólks Guðs.

6. Hvers vegna ætlaði Guð að kalla ógæfu yfir Sýrland, Filisteu og Týrus?

6 Jehóva fordæmdi Sýrlendinga, svo dæmi sé tekið, „af því að þeir þresktu Gíleað“. (Amos 1:3) Sýrlendingar lögðu undir sig hluta af Gíleað, sem er hérað í Ísrael austan Jórdanar, og fóru mjög illa með fólk Guðs þar. Filistar gerðu sig seka um að taka Ísraelsmenn til fanga og selja þá Edómítum, og þess voru dæmi að Ísraelsmenn lentu í höndum týrverskra þrælasala. (Amos 1:6, 9) Hugsaðu þér — þeir seldu fólk Guðs í þrældóm! Er nokkur furða að Jehóva skyldi ákveða að kalla ógæfu yfir Sýrland, Filisteu og Týrus?

7. Hvað áttu Edómítar, Ammónítar og Móabítar sameiginlegt með Ísraelsmönnum en hvernig fóru þeir með þá?

7 Edómítar, Ammónítar og Móabítar áttu eitt sameiginlegt með Ísraelsmönnum og hverjir með öðrum. Þjóðirnar þrjár voru skyldar Ísraelsmönnum. Edómítar voru afkomendur Abrahams, komnir af Esaú, tvíburabróður Jakobs. Þeir voru því á vissan hátt bræður Ísraelsmanna. Ammónítar og Móabítar voru afkomendur Lots, bróðursonar Abrahams. En komu Edómítar, Ammónítar og Móabítar bróðurlega fram við ættmenn sína, Ísraelsmenn? Því fór fjarri. Edómítar beittu sverðinu miskunnarlaust gegn ,bræðraþjóð sinni‘ og Ammónítar sýndu ísraelskum föngum fádæma grimmd. (Amos 1:11, 13) Amos nefnir ekki beinlínis að Móabítar hafi farið illa með fólk Guðs en þeir höfðu lengi verið mótsnúnir Ísraelsmönnum. Þessar þrjár frændþjóðir áttu að fá makleg málagjöld. Jehóva hét því að senda brennandi eyðingu yfir þær.

Dómur Guðs er óumflýjanlegur

8. Af hverju var dómur Guðs yfir þjóðunum sex óumflýjanlegur?

8 Þjóðirnar sex, sem eru ávarpaðar framarlega í spádómsbók Amosar, verðskulduðu greinilega dóm Guðs. Og þær gátu með engu móti umflúið hann. Jehóva segir sex sinnum frá og með 1. kafla, 3. versi til 2. kafla, 1. vers í Amosarbók: „Vil ég eigi snúa aftur með það.“ Og hann sneri ekki aftur með það að refsa þessum þjóðum. Það er söguleg staðreynd að illa fór fyrir þeim. Að minnsta kosti fjórar þeirra, Filistar, Móabítar, Ammónítar og Edómítar, hurfu af sjónarsviðinu sem þjóðir er fram liðu stundir.

9. Hvað verðskulduðu Júdamenn og hvers vegna?

9 Nú beinist spádómur Amosar að sjöundu þjóðinni, hans eigin þjóð, Júda. Það kann að hafa komið áheyrendum Amosar á óvart að heyra hann boða dóm gegn Júdaríkinu. Af hverju verðskulduðu Júdamenn harðan dóm Guðs? „Af því að þeir hafa hafnað lögmáli Drottins,“ segir Amos 2:4. Jehóva var ekki sáttur við að þeir skyldu lítilsvirða lögmál hans vísvitandi. Samkvæmt Amosi 2:5 boðar hann: „Vil ég senda eld gegn Júda, og hann mun eyða höllum Jerúsalem.“

10. Hvers vegna gátu Júdamenn ekki umflúið ógæfu?

10 Hin ótrúa Júdaþjóð gat ekki umflúið ógæfuna sem var í vændum. Jehóva segir í sjöunda sinn: „Vil ég eigi snúa aftur með það.“ (Amos 2:4) Júda var refsað eins og boðað hafði verið þegar Babýloníumenn eyddu landið árið 607 f.o.t. Við sjáum eina ferðina enn að óguðlegir menn geta ekki umflúið dóm Guðs.

11-13. Gegn hvaða þjóð spáði Amos fyrst og fremst og hvers konar kúgun var stunduð þar?

11 Spámaðurinn Amos hafði boðað dóm Jehóva yfir sjö þjóðum. Sumir hafa kannski haldið að nú væru spár hans á enda en þar skjátlaðist þeim. Starfi Amosar var langt frá því lokið. Hann hafði fyrst og fremst verið skipaður til að boða harkalegan dóm yfir Ísrael, tíuættkvíslaríkinu í norðri. Ísrael verðskuldaði dóm Guðs vegna þess að þjóðin var gerspillt, bæði siðferðilega og trúarlega.

12 Spádómur Amosar fletti ofan af kúguninni sem var orðin útbreidd í Ísrael. Amos 2:6, 7 segir: „Svo segir Drottinn: Sökum þriggja, já fjögurra glæpa Ísraelsmanna vil ég eigi snúa aftur með það — af því að þeir selja saklausan manninn fyrir silfur og fátæklinginn fyrir eina ilskó, þeir fíkjast í moldarkornin á höfði hinna snauðu og hrinda aumingjunum [‚hinum varnarlausu‘, Biblíurit, ný þýðing 1997] í ógæfu.“

13 Réttlátir menn voru seldir fyrir „silfur“, hugsanlega í þeim skilningi að dómurum var mútað með silfri til að sakfella saklausa menn. Lánardrottnar seldu hina fátæku í þrældóm, kannski fyrir einhverja smáskuld sem samsvaraði ,einum ilskóm‘. Miskunnarlausir menn ,fíktust‘ eftir að kúga ,hina snauðu‘ svo að þeir myndu kasta mold á höfuð sér til tákns um bágindi sín, sorg eða auðmýkingu. Spillingin var svo takmarkalaus að ,hinir varnarlausu‘ gátu ekki búist við nokkru réttlæti.

14. Hverjir sættu illri meðferð í tíuættkvíslaríkinu Ísrael?

14 Taktu eftir hverjir sættu illri meðferð. Það voru hinir saklausu, fátæku, snauðu og varnarlausu. Lagasáttmálinn, sem Jehóva gerði við Ísraelsmenn, kvað á um að hinum varnarlausu og þurfandi væri sýnd umhyggja. En aðstæður slíks fólks gátu varla verið verri en þær voru í tíuættkvíslaríkinu Ísrael.

„Ver viðbúinn að mæta Guði þínum“

15, 16. (a) Hvers vegna voru Ísraelsmenn minntir á að ‚vera viðbúnir að mæta Guði sínum‘? (b) Hvernig sést það af Amosi 9:1, 2 að hinir óguðlegu gátu ekki umflúið dóm Guðs? (c) Hvað varð um tíuættkvíslaríkið Ísrael árið 740 f.o.t.?

15 Kynferðislegt siðleysi og aðrar syndir voru afar útbreiddar í Ísrael. Það var því ærin ástæða til þess að Amos skyldi segja hinni uppreisnargjörnu þjóð: ‚Ver viðbúin að mæta Guði þínum.‘ (Amos 4:12) Ótrúir Ísraelsmenn gátu ekki umflúið að Jehóva fullnægði dómi sínum því að hann lýsti yfir í áttunda sinn: „Vil ég eigi snúa aftur með það.“ (Amos 2:6) Guð segir um óguðlega menn sem reyna að hlaupa í felur: „Enginn þeirra skal komast undan á flótta og enginn þeirra bjargast. Þótt þeir brjótist niður í undirheima, þá skal hönd mín sækja þá þangað, þótt þeir stígi upp til himins, þá skal ég steypa þeim ofan þaðan.“ — Amos 9:1, 2.

16 Hinir óguðlegu gátu ekki flúið dóm Jehóva með því að ,brjótast niður í undirheima‘ en það er táknrænt fyrir að þeir reyndu að fela sig í iðrum jarðar. Ekki gátu þeir heldur flúið dóm hans með því að ,stíga upp til himins‘, það er að segja að reyna að finna öruggan stað hátt uppi í fjöllum. Viðvörun Jehóva var skýr: Það er enginn felustaður utan seilingar hans. Réttlátir staðlar hans útheimtu að norðurríkið Ísrael svaraði til saka fyrir vond verk sín. Og sá tími kom. Árið 740 f.o.t., um 60 árum eftir að Amos skráði spádóminn, féll norðurríkið Ísrael í hendur Assýringa.

Dómar Guðs eru markvissir

17, 18. Hvað kemur fram varðandi miskunn Guðs í 9. kafla Amosarbókar?

17 Spádómur Amosar hefur sýnt okkur fram á að dómur Guðs er alltaf verðskuldaður og óumflýjanlegur. En það má einnig sjá af bók Amosar að dómur hans er markviss. Jehóva getur fundið hina óguðlegu hvar sem þeir fela sig og fullnægt dómi yfir þeim. Hann getur líka fundið iðrandi og ráðvanda menn sem hann kýs að sýna miskunn. Þetta kemur fram með einkar fallegum hætti í síðasta kaflanum hjá Amosi.

18 Jehóva segir samkvæmt 9. kafla og 8. versi Amosarbókar: „Vil ég ekki með öllu afmá Jakobs niðja.“ Eins og fram kemur í 13. til 15. versi lofar hann að „snúa við högum“ fólks síns. Því verður miskunnað og það mun búa við öryggi og velmegun. „Erjandinn skal ná kornskurðarmanninum,“ segir Jehóva. Hugsaðu þér — uppskeran verður svo mikil að ekki verður búið að hirða hana alla áður en komið er að því að plægja og sá á nýjan leik.

19. Hvað varð um leifar Ísraels og Júda?

19 Segja má að samhliða dómi sínum yfir óguðlegum, bæði í Júda og Ísrael, hafi iðrandi og réttsinnuðu fólki verið miskunnað. Þegar endurreisnarspádómurinn í Amosi 9. kafla rættist fengu iðrandi leifar Ísraels og Júda að snúa heim úr ánauð í Babýlon. Það var árið 537 f.o.t. Þeir endurreistu hreina tilbeiðslu í ástkæru landi sínu eftir heimkomuna. Þeir bjuggu líka við öryggi, endurbyggðu hús sín og plöntuðu aldingarða og víngarða.

Dómur Jehóva kemur

20. Um hvað ættum við að vera sannfærð eftir að hafa athugað dómsboðskap Amosar?

20 Umfjöllun okkar um dóma Guðs, sem Amos boðaði, ætti að sannfæra okkur um að Jehóva bindi enda á illskuna á okkar dögum. Hvers vegna getum við verið viss um það? Í fyrsta lagi eru þessi dæmi um verk Guðs forðum daga vísbending um hvernig hann mun ganga fram á okkar tímum. Í öðru lagi er dómurinn yfir hinu uppreisnargjarna tíuættkvíslaríki trygging fyrir einu. Það er öruggt að Guð eyðir kristna heiminum sem er ámælisverðasti hluti ‚Babýlonar hinnar miklu‘, heimsveldis falstrúarbragðanna. — Opinberunarbókin 18:2.

21. Hvers vegna verðskuldar kristni heimurinn harðan dóm Guðs?

21 Enginn vafi leikur á því að kristni heimurinn verðskuldar dóm Guðs. Trúarleg og siðferðileg spilling hans talar sínu máli. Dómur Jehóva yfir kristna heiminum — og heimi Satans í heild — er verðskuldaður. Hann er líka óumflýjanlegur því að orðin í Amosi 9. kafla, 1. versi, eiga við þegar tíminn kemur að Jehóva fullnægi dómi: „Enginn þeirra skal komast undan á flótta og enginn þeirra bjargast.“ Já, Jehóva finnur óguðlega hvar sem þeir fela sig.

22. Hvað kemur fram varðandi dóm Guðs í 2. Þessaloníkubréfi 1:6-8?

22 Dómur Guðs er alltaf verðskuldaður, óumflýjanlegur og markviss. Það má sjá af orðum Páls postula: „Guð er réttlátur, hann endurgeldur þeim þrengingu, sem að yður þrengja. En yður, sem þrengingu líðið, veitir hann hvíld ásamt oss, þegar Drottinn Jesús opinberast af himni með englum máttar síns. Hann kemur í logandi eldi og lætur hegningu koma yfir þá, sem þekkja ekki Guð, og yfir þá, sem hlýða ekki fagnaðarerindinu um Drottin vorn Jesú.“ (2. Þessaloníkubréf 1:6-8) Það er réttlátt af Guði að endurgjalda þeim dóm sem verðskulda hann fyrir að hafa valdið smurðum þjónum hans þrengingum. Dómurinn er óumflýjanlegur vegna þess að hinir óguðlegu komast ekki lífs af þegar ‚Jesús opinberast í logandi eldi með englum máttar síns‘. Dómur Guðs verður líka markviss að því leyti að Jesús lætur hegningu „koma yfir þá, sem þekkja ekki Guð, og yfir þá, sem hlýða ekki fagnaðarerindinu“. Og það verður hughreystandi fyrir guðhrædda menn, sem líða þrengingu, að sjá dómi Guðs fullnægt.

Von fyrir ráðvanda menn

23. Hvaða von og hughreystingu er hægt að sækja í Amosarbók?

23 Spádómur Amosar felur í sér unaðslegan boðskap huggunar og vonar fyrir réttsinnað fólk. Eins og boðað var í bók Amosar eyddi Jehóva ekki fólki sínu algerlega forðum daga. Um síðir safnaði hann saman þeim Júda- og Ísraelsmönnum, sem teknir höfðu verið til fanga, sendi þá aftur heim og veitti þeim öryggi og velmegun í landi þeirra. Hvað þýðir það fyrir okkur? Við getum verið viss um að þegar Jehóva fullnægir dómi finnur hann óguðlega hvar sem þeir fela sig og hann finnur jafnframt þá sem hann telur verðskulda miskunn, hvar sem þeir búa á jörðinni.

24. Hvaða blessun hafa nútímaþjónar Jehóva hlotið?

24 Hvernig er búið að trúum þjónum Jehóva meðan þeir bíða þess að hann fullnægi dómi sínum yfir óguðlegum? Jehóva veitir okkur andlega velmegun í ríkum mæli. Tilbeiðsla okkar er laus við lygar og rangfærslur sem eru sprottnar af falskenningum kristna heimsins. Jehóva hefur líka gefið okkur andlega fæðu í miklum mæli. En mundu að þessum góðu gjöfum Jehóva fylgir mikil ábyrgð. Hann ætlast til þess að við vörum aðra við komandi dómi hans. Við viljum gera allt sem í okkar valdi stendur til að leita að þeim sem hneigjast til eilífs lífs. Okkur langar til að hjálpa eins mörgum og við getum til að eiga hlut í andlegri velmegun okkar og lifa af þegar dómi Guðs yfir óguðlegum verður fullnægt í náinni framtíð. Til að njóta alls þessa verðum við auðvitað að hafa rétt hjartalag. Það kemur líka skýrt fram í spádómi Amosar eins og við munum sjá í næstu grein.

Hvert er svarið?

• Hvernig sjáum við af spádómi Amosar að dómar Jehóva eru alltaf verðskuldaðir?

• Hvernig sýnir Amos fram á að dómur Guðs er óumflýjanlegur?

• Hvernig sést af Amosarbók að dómur Guðs er markviss?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 24, 25]

Ísraelsríkið komst ekki undan dómi Guðs.

[Mynd á blaðsíðu 26]

Leifar Ísraels- og Júdamanna sneru heim úr útlegð í Babýlon árið 537 f.o.t.