Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvernig getum við greint rétt frá röngu?

Hvernig getum við greint rétt frá röngu?

Hvernig getum við greint rétt frá röngu?

HVER hefur vald til að ákveða hvað sé rétt og hvað sé rangt? Þessi spurning vaknaði í upphafi mankynssögunnar. Samkvæmt 1. Mósebók ákvað Guð að tré nokkurt, sem óx í Edengarðinum, skyldi vera „skilningstréð góðs og ills“. (1. Mósebók 2:9) Hann bannaði fyrstu hjónunum að borða ávexti þess. En óvinur Guðs, Satan djöfullinn, gaf í skyn að ef þau borðuðu af trénu myndu augu þeirra „upp ljúkast“ og þau myndu verða „eins og Guð og vita skyn góðs og ills“. — 1. Mósebók 2:16, 17; 3:1, 5; Opinberunarbókin 12:9.

Adam og Eva þurftu að taka ákvörðun — áttu þau að beygja sig undir lífsreglur Guðs varðandi gott og illt eða setja sér eigin lífsreglur? (1. Mósebók 3:6) Þau ákváðu að óhlýðnast Guði og borða af trénu. Hvað fólst í þessum einfalda verknaði? Með því að neita að virða mörkin, sem Guð setti, lýstu þau yfir að þeim og afkomendum þeirra myndi farnast betur ef þau settu sér eigin mælikvarða á rétt og rangt. Hvernig hefur mannkyninu gengið að taka sér vald Guðs að þessu leyti?

Skiptar skoðanir

Í alfræðibókinni Encyclopædia Britannica er fjallað um helstu hugsuði sögunnar og sagt að allt frá dögum gríska heimspekingsins Sókratesar fram á 20. öld hafi „sífellt verið deilt um hvernig eigi að skilgreina gæsku og hver sé mælikvarðinn á rétt og rangt“.

Tökum sófistana sem dæmi. Þeir voru hópur grískra kennara, sem var áberandi á fimmtu öld fyrir okkar tímatal, og kenndu að mælikvarðinn á rétt og rangt ákvarðaðist af viðhorfi almennings. Einn þessara kennara sagði: „Það sem þykir rétt og gott í hverri borg er rétt og gott fyrir þá borg svo framarlega sem borgarbúar álíta svo vera.“ Samkvæmt þessum mælikvarða ætti Jodie, sem fjallað var um í fyrri greininni, að halda peningunum, því að það hefðu sennilega flestir gert í „borg“ hans eða byggðarlagi.

Immanúel Kant, kunnur 18. aldar heimspekingur, lét aðra skoðun í ljós. Í tímaritinu Issues in Ethics segir: „Immanúel Kant og aðrir hans líkar . . . lögðu áherslu á rétt einstaklingsins til að taka eigin afstöðu.“ Samkvæmt heimspeki Kants er það Jodie algerlega í sjálfsvald sett hvort hann heldur peningunum svo framarlega sem hann brýtur ekki á rétti annarra. Hann ætti ekki að láta skoðun almennings móta lífsreglur sínar.

Hvaða ákvörðun tók Jodie í þessu máli? Hann valdi þriðja kostinn. Hann fór eftir kenningum Jesú Krists, en kristnir menn og ýmsir aðrir hafa borið lof á siðgæðismælikvarða hans. Jesús kenndi: „Allt sem þér viljið, að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra.“ (Matteus 7:12) Konunni til mikillar undrunar afhenti Jodie henni dollarana 82.000. Þegar Jodie var spurður hvers vegna hann hefði ekki tekið peningana sagðist hann vera vottur Jehóva og bætti við: „Ég átti ekkert í þessum peningum.“ Hann tók orð Jesú alvarlega sem eru skráð í Matteusi 19:18: „Þú skalt ekki stela.“

Er viðhorf almennings öruggur leiðarvísir?

Sumir myndu eflaust segja að það hafi verið heimskulegt af Jodie að vera svona heiðarlegur. En viðhorf almennings er ekki traustur leiðarvísir. Tökum dæmi. Ef þú hefðir búið í þjóðfélagi þar sem barnafórnir voru almennt viðurkenndar, eins og algengt var í sumum samfélögum fyrr á tímum, hefði það þá réttlætt þennan sið? (2. Konungabók 16:3) Eða ef þú hefðir fæðst þar sem mannát var álitið dyggð, hefði þá ekki verið neitt athugavert við að borða mannakjöt? Siðvenja er ekki endilega rétt þótt hún sé vinsæl. Fyrir löngu var varað við þeirri blekkingu í Biblíunni og sagt: „Þú skalt ekki fylgja fjöldanum til illra verka.“ — 2. Mósebók 23:2.

Jesús Kristur nefndi aðra ástæðu fyrir því að það væri varhugavert að nota almenningsálitið sem mælikvarða á rétt og rangt. Hann benti á að Satan væri „höfðingi heimsins“. (Jóhannes 14:30; Lúkas 4:6) Satan notfærir sér aðstöðu sína til að afvegaleiða „alla heimsbyggðina“. (Opinberunarbókin 12:9) Ef þú notar almenningsálitið sem mælikvarða á rétt og rangt gætir þú tamið þér viðhorf Satans til siðferðismála sem myndi auðvitað hafa hörmulegar afleiðingar.

Getur þú treyst eigin dómgreind?

Á hver og einn þá að ákveða sjálfur hvað sé rétt og rangt? „Reiddu þig ekki á eigið hyggjuvit,“ segir í Biblíunni. (Orðskviðirnir 3:5) Hvers vegna ekki? Vegna þess að allt mannkynið hefur fengið alvarlegan galla í arf sem getur brenglað dómgreindina. Þegar Adam og Eva gerðu uppreisn gegn Guði tóku þau upp lífsreglur eigingjarna svikarans Satans og völdu hann sem andlegan föður. Afkomendur þeirra fengu síðan ákveðinn eðlisþátt í arf — svikult hjarta sem getur greint hvað er rétt en hefur tilhneigingu til að gera hið ranga. — 1. Mósebók 6:5; Rómverjabréfið 5:12; 7:21-24.

Í siðfræðikaflanum í alfræðibókinni Encyclopædia Britannica segir: „Það kemur ekki á óvart að fólk skuli láta stjórnast af eigin hagsmunum þótt það viti hvað er siðferðilega rétt. Það hefur reynst þrautin þyngri að láta vestræna siðfræði vekja með fólki löngun til að breyta rétt.“ Í Biblíunni er þetta réttilega orðað þannig: „Svikult er hjartað fremur öllu öðru, og spillt er það. Hver þekkir það?“ (Jeremía 17:9) Myndir þú treysta manni sem væri þekktur fyrir bæði svik og spillingu?

Þótt fólk trúi alls ekki á Guð getur það verið siðferðilega heiðvirt og tamið sér góðar og heiðarlegar lífsreglur. Þessar göfugu lífsreglur, sem eru fólki eðlislægar, endurspegla oft siðgæðismælikvarða Biblíunnar. Enda þótt þetta fólk afneiti tilvist Guðs sýnir afstaða þess að því er eðlislægt að endurspegla persónuleika hans. Þetta staðfestir það sem Biblían opinberar, að mannkynið var upphaflega skapað „eftir Guðs mynd“. (1. Mósebók 1:27; Postulasagan 17:26-28) Páll postuli segir: „Þeir sýna, að krafa lögmálsins er rituð í hjörtum þeirra.“ — Rómverjabréfið 2:15.

Að sjálfsögðu er eitt að vita hvað er rétt og annað að hafa siðferðisþrek til að gera það sem er rétt. Hvernig fær fólk slíkt siðferðisþrek? Þar sem hjartað stjórnar gerðum okkar þurfum við að glæða með okkur kærleika til höfundar Biblíunnar, Jehóva Guðs, til að öðlast þennan styrk. — Sálmur 25:4, 5.

Styrkur til að breyta rétt

Til að læra að elska Guð verðum við fyrst að gera okkur grein fyrir því að boð hans eru sanngjörn og gagnleg. Jóhannes postuli sagði: „Í þessu birtist elskan til Guðs, að vér höldum hans boðorð. Og boðorð hans eru ekki þung.“ (1. Jóhannesarbréf 5:3) Biblían hefur til dæmis að geyma hagnýt ráð fyrir ungt fólk sem hjálpa því að greina rétt frá röngu þegar það tekur afstöðu til þess hvort það eigi að drekka áfengi, neyta fíkniefna eða stunda kynlíf fyrir hjónaband. Biblían getur hjálpað hjónum að jafna ágreining og gefur foreldrum leiðsögn við barnauppeldið. * Siðferðisreglur Biblíunnar gagnast jafnt ungum sem öldnum óháð þjóðfélagsstöðu þeirra, menntun eða menningarumhverfi.

Orð Guðs veitir okkur styrk til að fara eftir lífsreglum hans á sama hátt og næringarrík fæða veitir okkur þrek til að vinna. Jesús líkti orðum Guðs við nærandi brauð. (Matteus 4:4) Hann sagði einnig: „Minn matur er að gjöra vilja þess, sem sendi mig, og fullna verk hans.“ (Jóhannes 4:34) Jesús nærðist á orði Guðs og fékk þannig styrk til að standast freistingar og taka viturlegar ákvarðanir. — Lúkas 4:1-13.

Í byrjun gæti þér fundist erfitt að næra hugann á orði Guðs og tileinka þeir lífsreglur hans. Þegar þú varst á barnsaldri hefur þér eflaust fundist einhver hollur matur vondur á bragðið. Þú þurftir að venjast því að borða þennan holla mat til að vaxa og dafna. Það getur líka tekið þig tíma að læra að meta lífsreglur Guðs. Ef þú heldur þér við efnið fer þér að þykja vænt um þær og þú færð andlegan styrk. (Sálmur 34:9; 2. Tímóteusarbréf 3:15-17) Þú lærir að treysta á Jehóva og þig fer að langa til að ‚gera gott‘. — Sálmur 37:3.

Sennilega lendir þú aldrei í sömu sporum og Jodie. Þú tekur engu að síður siðferðilegar ákvarðanir á hverjum degi, stórar sem smáar. Þess vegna er þessi hvatning í Biblíunni: „Treystu Drottni af öllu hjarta, en reiddu þig ekki á eigið hyggjuvit. Mundu til hans á öllum þínum vegum, þá mun hann gjöra stigu þína slétta.“ (Orðskviðirnir 3:5, 6) Þú nýtur góðs af því núna að læra að treysta Jehóva og það veitir þér líka möguleika á að lifa að eilífu, því hlýðni við Jehóva Guð leiðir til lífs. — Matteus 7:13, 14.

[Neðanmáls]

^ gr. 18 Hagnýtar leiðbeiningar frá Biblíunni um þessi og önnur mikilvæg mál má finna í bókunum Spurningar unga fólksins — svör sem duga og Fjölskyldulíf þitt gert hamingjuríkt sem Vottar Jehóva gefa út.

[Innskot á blaðsíðu 6]

Ósýnileg öfl geta haft áhrif á afstöðu almennings.

[Myndir á blaðsíðu 5]

Í aldanna rás hafa hugsuðir deilt um hvað sé rétt og hvað rangt.

SÓKRATES

KANT

KONFÚSÍUS

[Credit line]

Kant: Úr bókinni The Historian’s History of the World; Sókrates: Úr bókinni A General History for Colleges and High Schools; Konfúsíus: Sung Kyun Kwan háskóli, Seúl, Kóreu.

[Myndir á blaðsíðu 7]

Biblían hjálpar okkur að greina rétt frá röngu og vekur auk þess með okkur löngun til að breyta rétt.