Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Paradís — verður þú þar?

Paradís — verður þú þar?

Paradís — verður þú þar?

„Mér er kunnugt um mann, hann tilheyrir Kristi, sem . . . var hrifinn upp í Paradís.“ — 2. KORINTUBRÉF 12:2-4.

1. Hvaða loforð Biblíunnar finnst mörgum heillandi?

PARADÍS. Manstu hvernig þér leið þegar þú heyrðir í fyrsta sinn að Guð hefði lofað jarðneskri paradís? Þú manst kannski eftir því þegar þú lærðir að ,augu hinna blindu myndu upp lúkast, eyru hinna daufu opnast‘ og eyðimörkin yrði gróskumikil og fögur. Eða þegar þú lærðir um spádóminn þar sem sagt er að úlfurinn myndi búa hjá lambinu og pardusdýrið liggja hjá kiðlingnum. Fannst þér ekki hrífandi að lesa í Biblíunni um að ástvinir þínir yrðu reistir upp frá dauðum og hefðu þá von að búa í þessari paradís um ókomna framtíð? — Jesaja 11:6; 35:5, 6; Jóhannes 5:28, 29.

2, 3. (a) Hvaða biblíulegi grundvöllur er fyrir von þinni? (b) Hvaða annan grundvöll höfum við?

2 Þú hefur fulla ástæðu til að trúa loforðum Biblíunnar um þessa paradís. Þú treystir til dæmis orðum Jesú sem hann sagði við staurfesta illvirkjann: ,Þú skalt vera með mér í Paradís.‘ (Lúkas 23:43) Þú treystir loforðinu: „Eftir fyrirheiti hans væntum vér nýs himins og nýrrar jarðar, þar sem réttlæti býr.“ Þú treystir einnig því loforði að Guð muni þerra tár okkar, að dauðinn verði ekki framar til og að harmur, vein og kvöl muni taka enda. Þetta merkir að jarðnesk paradís verður aftur að veruleika. — 2. Pétursbréf 3:13; Opinberunarbókin 21:4.

3 Annar grundvöllur að þessari von er andlega paradísin sem Guð hefur skapað og leitt fólk sitt inn í. Kristnir menn um allan heim eru hluti af þessari paradís. Hugtakið „andleg paradís“ getur virst óljóst og erfitt að skilja. En slík paradís var sögð fyrir og hún er til í raun og veru.

Sýn um paradís

4. Um hvaða sýn er talað í 2. Korintubréfi 12:2-4 og hver sá hana að öllum líkindum?

4 Taktu eftir hvað Páll postuli skrifaði í þessu sambandi: „Mér er kunnugt um mann, hann tilheyrir Kristi, sem . . . var hrifinn burt allt til þriðja himins. Og mér er kunnugt um þennan mann, — hvort það var í líkamanum eða án líkamans, veit ég ekki, Guð veit það —, að hann var hrifinn upp í Paradís og heyrði ósegjanleg orð, sem engum manni er leyft að mæla.“ (2. Korintubréf 12:2-4) Páll er nýbúinn að verja postuladóm sinn í versunum á undan. Auk þess talar Biblían ekki um neinn annan sem hafði slíka reynslu, og Páll er sá sem segir frá henni. Það var því líklega Páll sem sá þessa sýn. Inn í hvaða „Paradís“ fór hann í þessari yfirnáttúrlegu upplifun? — 2. Korintubréf 11:5, 23-31.

5. Hvað sá Páll ekki og hvers konar „Paradís“ var þetta þar af leiðandi?

5 Samhengið gefur ekki tilefni til að ætla að ,þriðji himinninn‘ sé lofthjúpur jarðar, himingeimurinn eða einhverjir samhliða alheimar sem stjarneðlisfræðingar halda fram að séu til. Í Biblíunni er talan þrír oft notuð til að lýsa áherslu, krafti eða auknum styrk. (Prédikarinn 4:12; Jesaja 6:3; Matteus 26:34, 75; Opinberunarbókin 4:8) Það sem Páll sá í sýninni var því hátt upp hafið, andlegt.

6. Hvaða sögulega framvinda veitir innsýn í það sem Páll sá?

6 Eldri biblíuspádómar varpa ljósi á málið. Eftir að þjóð Guðs forðum daga hafði reynst honum ótrú ákvað hann að leyfa Babýloníumönnum að ráðast á Júda og Jerúsalem sem endaði með eyðingunni árið 607 f.o.t., samkvæmt tímatali Biblíunnar. Í spádómi sagði að landið myndi liggja í eyði í 70 ár. Eftir þann tíma myndi Guð leyfa iðrandi Gyðingum að snúa heim og endurreisa sanna tilbeiðslu. Það varð að veruleika frá árinu 537 f.o.t. (5. Mósebók 28:15, 62-68; 2. Konungabók 21:10-15; 24:12-16; 25:1-4; Jeremía 29:10-14) Landið sjálft lagðist í eyði þessi 70 ár, þar óx villigróður og það varð bæli sjakala. (Jeremía 4:26; 10:22) Engu að síður hafði eftirfarandi loforð verið gefið: „Já, Drottinn huggar Síon, huggar allar rústir hennar. Hann gjörir auðn hennar sem Eden og heiði hennar sem aldingarð [eða paradís, Sjötíumannaþýðingin] Drottins.“ — Jesaja 51:3.

7. Hvað átti að eiga sér stað eftir 70 ára landauðn?

7 Þetta gerðist eftir að 70 árin voru liðin. Ástandið breyttist til hins betra með blessun Jehóva. Sjáðu þetta fyrir þér: „Eyðimörkin og hið þurra landið skulu gleðjast, öræfin skulu fagna og blómgast sem lilja. Þau skulu blómgast ríkulega og fagna af unaði og gleði. . . . Þá mun hinn halti létta sér sem hjörtur og tunga hins mállausa fagna lofsyngjandi, því að vatnslindir spretta upp í eyðimörkinni og lækir á öræfunum. Sólbrunnar auðnir skulu verða að tjörnum og þurrar lendur að uppsprettum. Þar sem sjakalar höfðust áður við, í bælum þeirra, skal verða gróðrarreitur fyrir sef og reyr.“ — Jesaja 35:1-7.

Endurreist og umbreytt þjóð

8. Hvernig vitum við að 35. kafli Jesajabókar beinir athyglinni að fólki?

8 Hvílík umbreyting! Frá auðn til paradísar. Þessi og aðrir áreiðanlegir spádómar sýndu líka fram á að breyting yrði á þjóðinni, sambærileg breyting og þegar auðn verður gróskumikil. Hvers vegna getum við sagt það? Jesaja beindi athyglinni að ,hinum endurkeyptu Drottins‘ sem myndu snúa heim í land sitt með ,fögnuði og gleði‘. (Jesaja 35:10) Þetta átti ekki við landið heldur fólkið. Jesaja bar líka fram eftirfarandi spádóm um fólkið sem sneri heim til Síonar: „Þeir munu kallaðir verða réttlætis-eikur, plantan Drottins . . . Því eins og jörðin lætur gróður sinn koma upp . . . svo mun hinn alvaldi Drottinn láta réttlæti og frægð upp spretta í augsýn allra þjóða.“ Jesaja sagði líka um fólk Guðs: „Þá mun Drottinn stöðugt leiða þig . . . og styrkja bein þín, og þá munt þú verða sem vökvaður aldingarður.“ (Jesaja 58:11; 61:3, 11; Jeremía 31:10-12) Það yrði því breyting á Gyðingunum, sem sneru heim, rétt eins og ástand landsins myndi færast í betra horf.

9. Hvaða „Paradís“ sá Páll og hvenær varð hún að veruleika?

9 Þessi sögulega fyrirmynd hjálpar okkur að skilja það sem Páll sá í sýn. Það tengist kristna söfnuðinum sem hann kallaði „Guðs akurlendi“ og söfnuðurinn átti að vera frjósamur. (1. Korintubréf 3:9) Hvenær átti sýnin að uppfyllast? Páll kallaði það sem hann sá ,opinberun‘ og því átti hún að uppfyllast í framtíðinni. Hann vissi að eftir dauða sinn myndi mikið fráhvarf eiga sér stað. (2. Korintubréf 12:1; Postulasagan 20:29, 30; 2. Þessaloníkubréf 2:3, 7) Á meðan fráhvarfsmenn réðu ríkjum og virtust skyggja á sannkristna menn var varla hægt að líkja þeim við blómlegan garð. En sönn tilbeiðsla átti eftir að verða upphafin að nýju í fyllingu tímans. Fólk Guðs myndi endurheimta sinn fyrri sess þannig að ,réttlátir gætu skinið sem sól í ríki föður þeirra‘. (Matteus 13:24-30, 36-43) Þetta varð að veruleika fáeinum árum eftir að Guðsríki var stofnsett á himnum. Á þeim tíma, sem liðinn er, hefur orðið augljóst að fólk Guðs býr í andlegri paradís sem Páll sá fyrir í þessari sýn.

10, 11. Hvers vegna getum við sagt að við séum í andlegri paradís þó að við séum ófullkomin?

10 Við vitum auðvitað að við erum ófullkomin og það kemur okkur ekki á óvart að vandamál komi upp endrum og sinnum, eins og gerðist hjá kristnum mönnum á dögum Páls. (1. Korintubréf 1:10-13; Filippíbréfið 4:2, 3; 2. Þessaloníkubréf 3:6-14) En hugsaðu um andlegu paradísina sem við búum í núna. Við höfum læknast í andlegum skilningi þegar hugsað er til þess spillta ástands sem við eitt sinn vorum í. Við erum andlega vel nærð ólíkt því sem áður var. Fólk Guðs stritar ekki á andlega skrælnuðu landi heldur hefur það velþóknun hans og yfirgnæfanlega blessun. (Jesaja 35:1, 7) Í stað þess að vera í andlegu niðamyrkri erum við í ljósi þar sem við erum frjáls og höfum velþóknun Guðs. Margir sem voru nánast heyrnarlausir gagnvart spádómum Biblíunnar hafa heyrt og skilið það sem hún segir. (Jesaja 35:5) Til dæmis hafa milljónir votta Jehóva um heim allan farið yfir spádóm Daníels vers fyrir vers. Síðan grandskoðuðu þeir hvern kafla Jesajabókar. Er þessi endurnærandi andlega fæða ekki sönnun fyrir því að við búum í andlegri paradís?

11 Hugsaðu líka um breytingarnar í fari einlægra manna af ýmsum uppruna. Þeir hafa kappkostað að skilja orð Guðs og fara eftir því. Þeir hafa unnið að því að losa sig við dýrslega eiginleika sem þeir höfðu áður. Þú hefur ef til vill gert það með góðum árangri sem og trúsystkini þín. (Kólossubréfið 3:8-14) Þegar þú sækir samkomur hjá vottum Jehóva ertu því með fólki sem er orðið friðsamara og vingjarnlegra. Það er vissulega ekki fullkomið en varla er hægt að líkja því við grimm ljón eða gráðug villidýr. (Jesaja 35:9) Um hvað ber þessi friðsami félagsskapur vitni? Að við búum við andlegt ástand sem við köllum réttilega andlega paradís. Og andlega paradísin er forsmekkur af jarðneskri paradís sem við fáum að búa í ef við erum Guði trú.

12, 13. Hvað verðum við að gera til að vera áfram í andlegu paradísinni?

12 Við megum samt ekki líta fram hjá einu. Guð sagði við Ísraelsmenn: „Þér [skuluð] varðveita allar þær skipanir, sem ég legg fyrir þig í dag, til þess að þér verðið sterkir, komist inn í og fáið til eignar land það, er þér haldið nú yfir til.“ (5. Mósebók 11:8) Í 3. Mósebók 20:22, 24 er talað um þetta sama land: „Varðveitið því allar setningar mínar og öll lög mín og haldið þau, svo að landið, sem ég mun leiða yður inn í, til þess að þér byggið það, spúi yður ekki. Fyrir því sagði ég yður: ‚Þér skuluð eignast land þeirra, og ég vil gefa yður það til eignar, land sem flýtur í mjólk og hunangi.‘“ Já, Ísraelsmenn þurftu að eiga gott samband við Jehóva Guð til að fá að búa í fyrirheitna landinu. Það var sökum óhlýðni þeirra að Guð leyfði Babýloníumönnum að sigra þá og flytja þá burt.

13 Við erum ef til vill ánægð með margt í andlegu paradísinni. Umhverfið er fallegt og kyrrlátt. Við höfum frið við kristna menn sem hafa lagt sig fram um að losa sig við dýrslega eiginleika. Þeir kappkosta að vera vingjarnlegir og hjálpsamir. En meira þarf til en gott samband við þetta fólk til að fá að vera áfram í þessari paradís. Við þurfum að hafa gott samband við Jehóva og gera vilja hans. (Míka 6:8) Við komum sjálfviljug inn í þessa andlegu paradís en við gætum villst út úr henni, eða verið vísað út úr henni, ef við leggjum okkur ekki fram um að varðveita sambandið við Guð.

14. Hvað hjálpar okkur að vera áfram í andlegu paradísinni?

14 Við fáum mikilvæga hjálp með því að halda áfram að styrkjast af orði Guðs. Taktu eftir myndmálinu í Sálmi 1:1-3: „Sæll er sá maður, er eigi fer að ráðum óguðlegra . . . heldur hefir yndi af lögmáli Drottins og hugleiðir lögmál hans dag og nótt. Hann er sem tré, gróðursett hjá rennandi lækjum, er ber ávöxt sinn á réttum tíma, og blöð þess visna ekki. Allt er hann gjörir lánast honum.“ Biblíutengd rit trúa og hyggna þjónshópsins veita okkur líka andlega fæðu í andlegu paradísinni. — Matteus 24:45-47.

Sjáðu paradís betur fyrir þér

15. Hvers vegna gat Móse ekki leitt Ísraelsmenn inn í fyrirheitna landið en hvað sá hann?

15 Athugum annað sem veitir innsýn í paradís. Eftir að Ísraelsmenn höfðu reikað um í eyðimörkinni í 40 ár leiddi Móse þá á Móabsheiðar, austur af Jórdanánni. Jehóva leyfði Móse ekki að leiða Ísraelsmenn yfir Jórdan sökum mistaka sem honum höfðu orðið á. (4. Mósebók 20:7-12; 27:12, 13) Móse sárbændi Guð: „Æ, leyf mér að fara yfir um og sjá landið góða, sem er hinumegin Jórdanar.“ Þegar Móse fór upp á Pisgatind og sá hluta af landinu hlýtur hann að hafa gert sér grein fyrir að þetta var ,gott land‘ þó svo að hann færi ekki inn í það. Hvernig heldur þú að landið hafi verið? — 5. Mósebók 3:25-27.

16, 17. (a) Hvernig var fyrirheitna landið fyrr á tímum ólíkt því sem það er nú? (b) Hvers vegna getum við verið viss um að fyrirheitna landið hafi eitt sinn verið eins og paradís?

16 Ef þú ímyndar þér að landið hafi verið eins og það er núna hugsarðu kannski um þurra sanda, grýttar eyðimerkur og steikjandi hita. En ástæða er til að ætla að á biblíutímanum hafi landið verið mjög frábrugðið því sem það er núna. Jarðræktarfræðingurinn Walter C. Lowdermilk sagði í tímaritinu Scientific American að landið hafi verið eyðilagt með „þúsund ára misnotkun“. Hann skrifaði: „,Eyðimörkin‘, sem breiddist út um áður frjósamt landið, var af manna völdum en ekki náttúrunnar.“ Rannsóknir hans benda líka til þess að „landið hafi áður verið sveitaparadís“. Það var því misnotkun mannanna sem eyðilagði þessa „sveitaparadís“. *

17 Þegar þú hugsar um það sem þú hefur lesið í Biblíunni gerirðu þér ef til vill grein fyrir hve rökrétt þessi niðurstaða er. Rifjaðu upp hvað Jehóva fullvissaði þjóðina um fyrir milligöngu Móse: „Land það, er þér haldið nú yfir til, til þess að taka það til eignar, [er] fjallaland og dala, og drekkur vatn af himnum þegar rignir, land, sem Drottinn Guð þinn annast.“ — 5. Mósebók 11:8-12.

18. Hvaða hugmynd hlýtur Jesaja 35:2 að hafa gefið Ísraelsmönnum í útlegðinni um fyrirheitna landið?

18 Gróðursæld og fegurð fyrirheitna landsins var slík að það þurfti ekki annað en að nefna suma staði til að kalla fram í hugann paradísarumhverfi. Það er augljóst af spádóminum í 35. kafla Jesaja sem rættist fyrst þegar Ísraelsmenn sneru heim frá Babýlon. Jesaja spáði: „Þau skulu blómgast ríkulega og fagna af unaði og gleði. Vegsemd Líbanons skal veitast þeim, prýði Karmels og Sarons. Þau skulu fá að sjá vegsemd Drottins og prýði Guðs vors.“ (Jesaja 35:2) Skírskotunin til Líbanons, Karmels og Sarons hlýtur að hafa kallað fram ánægjulega og fagra mynd í hugum Ísraelsmanna.

19, 20. (a) Lýstu Saron eins og það var fyrr á tímum. (b) Hvernig getum við styrkt paradísarvonina?

19 Lítum á Saron sem var slétta milli Samaríufjalla og hafsins mikla eða Miðjarðarhafsins. (Sjá mynd á bls. 10.) Svæðið var þekkt fyrir fegurð og gróðursæld. Það var vatnsríkt og hentaði því vel sem beitiland en í norðri var eikarskógur. (1. Kroníkubók 27:29; Ljóðaljóðin 2:1; Jesaja 65:10) Í Jesaja 35:2 var því sögð fyrir endurreisn og spáð að land myndi blómgast og verða eins og paradís. Þetta er einnig spádómur um fagra andlega paradís í samræmi við það sem Páll sá síðar í sýn. Þessi og fleiri spádómar styrkja vonina um jarðneska paradís.

20 Við getum orðið þakklátari fyrir andlegu paradísina, sem við búum í, og styrkt vonina um jarðneska paradís með því að glöggva okkur betur á því sem við lesum í Biblíunni. Í frásögnum og spádómum Biblíunnar eru oft nefndir ákveðnir staðir. Langar þig til að sjá betur fyrir þér hvar þessir staðir eru og hvernig þeir tengdust öðrum svæðum? Í næstu grein verður fjallað um hvernig þú getur gert það og haft gagn af.

[Neðanmáls]

^ gr. 16 Denis Baly segir í bókinni The Geography of the Bible: „Gróðurfarið hlýtur hafa tekið miklum breytingum síðan á biblíutímanum.“ Hver er ástæðan? „Fólkið þurfti á viði að halda til upphitunar og húsbygginga og því . . . hjó það niður tré sem gerði landið berskjalda fyrir vægðarlausu veðrinu. Þessi röskun á umhverfinu hafði þær afleiðingar að veðurfarið . . . varð smám saman meginorsök eyðingarinnar.“

Manstu?

• Hvers konar „Paradís“ sá Páll postuli í sýn?

• Hver var fyrsta uppfyllingin á 35. kafla Jesaja og hvernig tengist hún því sem Páll sá í sýninni?

• Hvernig getum við orðið þakklátari fyrir andlegu paradísina og styrkt von okkar um jarðneska paradís?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 10]

Saronsléttan, gróðursælt svæði í fyrirheitna landinu.

[Rétthafi]

Pictorial Archive (Near Eastern History) Est.

[Mynd á blaðsíðu 11]

Móse sá að landið var gott.