Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Talaðu orð Guðs af djörfung

Talaðu orð Guðs af djörfung

Talaðu orð Guðs af djörfung

„Far þú og spá þú hjá lýð mínum.“ — AMOS 7:15.

1, 2. Hver var Amos og hvaða upplýsingar eru gefnar um hann í Biblíunni?

ÞJÓNN JEHÓVA hitti eitt sinn prest í boðunarstarfinu. ,Hættu að prédika! Snáfaðu burt!‘ öskraði presturinn. Hvað gerði þessi þjónn Guðs? Lét hann undan prestinum eða hélt hann áfram að tala orð Guðs með djörfung? Þú getur kynnt þér það af því að hann sagði frá reynslu sinni í bók sem ber nafn hans. Þetta er Amosarbók í Biblíunni. En áður en við kynnum okkur samskipti Amosar og prestsins nánar skulum við fá svolitlar upplýsingar um Amos.

2 Hver var Amos? Hvar bjó hann og hvenær var hann uppi? Svörin er að finna í Amosi 1:1. Þar stendur: „Orð Amosar, sem var einn af fjárhirðunum í Tekóa . . . á dögum Ússía Júdakonungs og á dögum Jeróbóams Jóassonar, Ísraelskonungs.“ Amos bjó í bænum Tekóa í Júda, sextán kílómetra suður af Jerúsalem. Hann var uppi undir lok níundu aldar f.o.t. þegar Ússía var konungur í Júda og Jeróbóam 2. í tíuættkvíslaríkinu Ísrael. Amos var fjárhirðir en í 14. versi í 7. kaflanum kemur fram að hann hafi ‚ræktað mórber‘ auk hjarðmennskunnar. Vinna hans var því að hluta til árstíðabundin. Starfið fólst í því að stinga í mórberin og var það gert til að flýta þroska þeirra. Þetta var lýjandi vinna.

„Far þú og spá“

3. Hvers vegna er gott að kynna sér líf og starf Amosar ef okkur finnst við ekki hæf til að prédika?

3 Amos sagði hreinskilnislega: „Ég er enginn spámaður, og ég er ekki af spámannaflokki.“ (Amos 7:14) Hann var hvorki sonur spámanns né lærður sem spámaður. Engu að síður valdi Jehóva Amos, af öllum sem bjuggu í Júda, til að starfa fyrir sig. Hann valdi ekki voldugan konung, lærðan prest eða auðugan höfðingja. Það er hughreystandi til þess að vita. Við erum kannski ekki hátt sett í þjóðfélaginu eða mikið menntuð. En ætti okkur að finnast við óhæf til að prédika orð Guðs? Engan veginn. Jehóva getur gert okkur hæf til að segja frá boðskap sínum — jafnvel á erfiðum svæðum. Það er einmitt það sem hann gerði fyrir Amos og þess vegna er fróðlegt fyrir alla sem langar til að tala orð Guðs af djörfung að kynna sér líf og starf þessa hugrakka spámanns.

4. Hvers vegna var ekki auðvelt fyrir Amos að spá í Ísrael?

4 Jehóva sagði Amosi: „Far þú og spá þú hjá lýð mínum Ísrael.“ (Amos 7:15) Þetta var krefjandi verkefni. Tíuættkvíslaríkið Ísrael bjó við frið, öryggi og velmegun á þeim tíma. Margir áttu bæði ,vetrarhús‘ og ,sumarhús‘ sem voru gerð úr dýru „höggnu grjóti“ en ekki venjulegum leirsteini. Sumir áttu húsgögn greypt fílabeinsskreytingum og drukku vín sem var framleitt í ,yndislegum víngörðum‘. (Amos 3:15; 5:11) Fyrir vikið voru margir landsmenn sjálfumglaðir og sinnulausir. Starfssvæði Amosar var kannski ekki ósvipað því svæði þar sem sum okkar boða fagnaðarerindið núna.

5. Hvaða ranglæti stunduðu sumir Ísraelsmenn?

5 Það var ekki rangt í sjálfu sér af Ísraelsmönnum að eiga efnislega hluti. Sumir sönkuðu hins vegar að sér auði með óheiðarlegum hætti. Hinir ríku ,kúguðu hina snauðu‘ og ,misþyrmdu hinum fátæku‘. (Amos 4:1) Voldugir kaupmenn, dómarar og prestar lögðust á eitt um að ræna hina fátæku. Förum aftur í tímann um stund og fylgjumst með atferli þessara manna.

Lögmál Guðs var brotið

6. Hvernig hafa ísraelskir kaupmenn landa sína að féþúfu?

6 Komum fyrst við á markaðstorginu. Óheiðarlegir kaupmenn ,minnka mælinn, hækka verðið og selja aðeins úrganginn úr korninu‘. (Amos 8:5, 6) Þeir svindla á viðskiptavinunum með því að láta þá fá minna en þeir borga fyrir, setja upp of hátt verð og selja lélega vöru. Hinir fátæku þurfa síðan að selja sig sem þræla þegar kaupmennirnir hafa rúið þá inn að skinni. Kaupmennirnir kaupa þá svo „fyrir eina ilskó“. (Amos 8:6) Hugsaðu þér. Þessir ágjörnu kaupmenn meta landa sína ekki meir en skópar! Hvílík auðmýking fyrir bágstadda og hvílíkt brot á lögmáli Guðs! Kaupmennirnir gæta þess hins vegar að halda ,hvíldardaginn‘. (Amos 8:5) Þeir eru trúræknir á yfirborðinu.

7. Hvernig tókst kaupmönnum Ísraels að brjóta lög Guðs?

7 Hvernig komast kaupmennirnir upp með að brjóta lögmál Guðs sem segir: „Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig“? (3. Mósebók 19:18) Þeim tekst það vegna þess að dómararnir, sem eiga að framfylgja lögunum, eru vitorðsmenn þeirra við glæpaverkin. Dómararnir þiggja ,mútur og halla rétti hinna fátæku í borgarhliðinu‘ þar sem réttað er í málum. Þeir svíkja hina fátæku fyrir mútur í stað þess að vernda þá. (Amos 5:10, 12) Dómararnir eru líka sekir um að hunsa lögmál Guðs.

8. Hvaða breytni þykjast óguðlegir prestar ekki sjá?

8 Hvað gera prestar Ísraels meðan á þessu stendur? Til að komast að því þurfum við að heimsækja annan stað. Taktu eftir hvaða syndir prestarnir líða „í húsi Guðs síns“. Guð segir fyrir munn Amosar: „Faðir og sonur ganga til kvensniftar til þess að vanhelga mitt heilaga nafn.“ (Amos 2:7, 8) Hugsaðu þér. Ísraelskir feðgar fremja kynferðislegt siðleysi með sömu musterisvændiskonunni. Og þessir óguðlegu prestar láta sem þeir sjái ekki siðleysið! — 3. Mósebók 19:29; 5. Mósebók 5:18; 23:17.

9, 10. Hvernig brutu Ísraelsmenn lögmál Guðs og hvaða hliðstæðu má sjá nú á dögum?

9 Jehóva nefnir aðra synd sem þessir menn drýgja: „Þeir liggja á veðteknum klæðum hjá hverju altari og drekka sektarvín í húsi Guðs síns.“ (Amos 2:8) Prestarnir og fólkið almennt hunsuðu líka ákvæðið í 2. Mósebók 22:26, 27 sem segir að skila verði veðteknu klæði fyrir sólsetur. En þeir nota veðtekin klæði sem teppi til að flatmaga á meðan þeir halda veislur og drekka til heiðurs falsguðum. Og fyrir peningana, sem þeir hafa sektað hina fátæku um, kaupa þeir vín til að drekka við falstrúarhátíðir. Þeir eru sannarlega orðnir fjarlægir hreinni tilbeiðslu!

10 Blygðunarlaust brjóta Ísraelsmenn tvö mestu boðorð lögmálsins — að elska Jehóva og að elska náungann. Jehóva sendi því Amos til að fordæma þá fyrir ótrúmennskuna. Þjóðir heims, þeirra á meðal í kristna heiminum, eru spilltar líkt og Ísrael fortíðar. Meðan sumir hafa það gott verða aðrir fyrir fjárhagslegu og tilfinningalegu tjóni vegna þess hvernig stjórnmálamenn, leiðtogar falstrúarbragða og siðlausir og óheiðarlegir stjórnendur stórfyrirtækja koma fram. En Jehóva er umhugað um þá sem þjást og langar til að leita hans. Þess vegna hefur hann látið þjóna sína nú á tímum vinna verk svipað því sem Amos vann — að prédika orð sitt djarfmannlega.

11. Hvað má læra af fordæmi Amosar?

11 Þar sem margt er líkt með starfi okkar og Amosar er mjög gagnlegt að kynna sér fordæmi hans. Við sjáum af starfi hans (1) hvað við eigum að prédika, (2) hvernig við eigum að prédika og (3) hvers vegna andstæðingar geta ekki stöðvað boðunarstarfið. Við skulum skoða hvert atriði fyrir sig.

Hvernig getum við líkt eftir Amosi?

12, 13. Hvernig sýndi Jehóva vanþóknun sína á Ísraelsmönnum og hvernig brugðust þeir við?

12 Við sem erum vottar Jehóva einbeitum okkur að því að prédika Guðsríki og gera menn að lærisveinum. (Matteus 28:19, 20; Markús 13:10) En við vekjum einnig athygli á viðvörunum Jehóva Guðs, rétt eins og Amos boðaði að Guð myndi fullnægja dómi yfir hinum óguðlegu. Vanþóknun Jehóva á Ísrael kemur til dæmis margoft fram í Amosi 4:6-11. Hann lét þá ,skorta mat‘, ,synjaði þeim um regn‘, sló þá með „korndrepi og gulnan“ og sendi þeim „drepsótt“. Varð þetta Ísraelsmönnum hvöt til að iðrast? „Þó hafið þér ekki snúið yður til mín,“ sagði Guð. Ísraelsmenn höfnuðu honum hvað eftir annað.

13 Jehóva refsaði iðrunarlausum Ísraelsmönnum en fyrst fengu þeir spádómlega viðvörun. Í samræmi við það sagði hann: „Drottinn Guð gjörir ekkert án þess að hann hafi opinberað þjónum sínum, spámönnunum, ráðsályktun sína.“ (Amos 3:7) Jehóva sagði Amosi að gefa út lokaviðvörun, líkt og hann hafði á sínum tíma opinberað Nóa að flóð væri yfirvofandi og sagt honum að vara við því. Því miður höfnuðu Ísraelsmenn þessum boðskap frá Guði og breyttu ekki um stefnu.

14. Hvað er líkt með okkar tímum og Amosar?

14 Þú ert áreiðanlega sammála því að margt sé ótrúlega líkt með okkar tímum og Amosar. Jesús sagði fyrir að ýmsar hörmungar myndu eiga sér stað á endalokatímanum. Hann sagði líka fyrir að prédikað yrði um allan heim. (Matteus 24:3-14) En flestir hunsa tákn tímanna og boðskapinn sem þjónar Guðs prédika, rétt eins og gerðist á dögum Amosar. Það hefur sömu afleiðingar fyrir þá og það hafði fyrir iðrunarlausa Ísraelsmenn forðum daga. „Ver viðbúinn að mæta Guði þínum,“ sagði Jehóva í varnaðartón. (Amos 4:12) Ísraelsmenn mættu Guði þegar hann fullnægði dómi yfir þeim með því að láta assýrska herinn sigra þá. Óguðlegur heimur nútímans mun „mæta Guði“ í Harmagedón. (Opinberunarbókin 16:14, 16) En meðan þolinmæði Jehóva varir hvetjum við eins marga og mögulegt er: „Leitið Drottins, til þess að þér megið lífi halda.“ — Amos 5:6.

Stöndumst andstöðu líkt og Amos

15-17. (a) Hver var Amasía og hvernig brást hann við boðun Amosar? (b) Um hvað sakaði Amasía Amos?

15 Amos er okkur ekki aðeins fyrirmynd um hvað við eigum að boða heldur einnig hvernig við eigum að gera það. Þetta kemur skýrt fram í 7. kafla en þar segir frá prestinum sem nefndur var í byrjun greinarinnar. Þetta var „Amasía prestur í Betel“. (Amos 7:10) Borgin Betel var miðstöð fráhvarfstrúar Ísraelsmanna en hún var meðal annars fólgin í kálfadýrkun. Amasía var því prestur ríkistrúarinnar. Hvernig brást hann við djarfmannlegum yfirlýsingum Amosar?

16 Amasía sagði Amosi: „Haf þig á burt, vitranamaður, flý til Júdalands! Afla þér þar viðurværis og spá þú þar! En í Betel mátt þú eigi framar koma fram sem spámaður, því að hér er konunglegur helgidómur og ríkismusteri.“ (Amos 7:12, 13) Amasía sagði því í reynd: ,Farðu heim! Við höfum okkar eigin trú.‘ Amasía reyndi einnig að fá yfirvöld til að banna starf Amosar. Hann sagði Jeróbóam konungi öðrum: „Amos kveikir uppreisn gegn þér mitt í Ísraelsríki.“ (Amos 7:10) Hann sakaði Amos um landráð og sagði konungi: „Svo hefir Amos sagt: ‚Jeróbóam mun fyrir sverði falla og Ísrael mun herleiddur verða burt úr landi sínu.‘“ — Amos 7:11.

17 Með þessum fáu orðum sagði Amasía þrennt sem var villandi. Hann sagði: „Svo hefir Amos sagt.“ En Amos sagði aldrei að spádómarnir væru frá sér heldur sagði alltaf: „Svo segir Drottinn.“ (Amos 1:3) Amos var líka sakaður um að hafa sagt: „Jeróbóam mun fyrir sverði falla.“ En eins og kemur fram í Amosi 7:9 spáði hann: „Ég [Jehóva] vil rísa gegn Jeróbóams ætt með reiddu sverði.“ Jehóva hafði boðað að þessi ógæfa skyldi koma yfir „ætt“ Jeróbóams, það er að segja afkomendur hans. Amasía fullyrti enn fremur að Amos hefði sagt: „Ísrael mun herleiddur verða.“ En Amos hafði einnig boðað að þeir Ísraelsmenn, sem sneru sér til Guðs, myndu hljóta blessun hans. Ljóst er að Amasía hagræddi sannleikanum til að reyna að fá boðunarstarf Amosar opinberlega bannað.

18. Hvað er hliðstætt með aðferðum Amasía og aðferðum presta nú á tímum?

18 Tókstu eftir hve margt er líkt með aðferð Amasía og þeim aðferðum sem andstæðingar fólks Jehóva nota nú á dögum? Prestar, prelátar og patríarkar okkar tíma reyna margir hverjir að hindra boðunarstarf þjóna Jehóva, rétt eins og Amasía reyndi að þagga niður í Amosi. Amasía ásakaði Amos ranglega um landráð. Sumir prestar bera sömuleiðis rangar sakir á Votta Jehóva og segja þá ógna þjóðaröryggi. Prestar leita einnig til pólitískra bandamanna sinna þegar þeir ofsækja þjóna Jehóva, rétt eins og Amasía leitaði hjálpar konungs til að berjast gegn Amosi.

Andstæðingar geta ekki stöðvað boðunarstarfið

19, 20. Hvernig brást Amos við andstöðu Amasía?

19 Hvernig brást Amos við andstöðu Amasía? Fyrst segir hann við prestinn: „Þú segir: ‚Þú mátt eigi spá gegn Ísrael.‘“ Hugrakkur spámaður Guðs hélt óhikað áfram að tala það sem Amasía vildi alls ekki heyra. (Amos 7:16, 17) Amos var óhræddur. Hann er okkur frábær fyrirmynd! Við óhlýðnumst ekki Guði með því að hætta að tala orð hans, jafnvel í löndum þar sem menn eins og Amasía standa fyrir grimmilegum ofsóknum. Við höldum áfram að kunngera: „Svo segir Drottinn,“ líkt og Amos gerði. Og andstæðingar okkar geta aldrei stöðvað boðunarstarfið vegna þess að „hönd Drottins“ Jehóva er með okkur. — Postulasagan 11:19-21.

20 Amasía mátti auðvitað vita að hótanir sínar yrðu til einskis. Amos var búinn að segja hvers vegna enginn jarðarbúi gæti komið í veg fyrir að hann talaði, en það er þriðja atriðið sem við ræðum um. Samkvæmt Amosi 3:3-8 varpaði spámaðurinn fram nokkrum spurningum og líkingum til að sýna fram á að ekkert gerist án orsakar. Síðan skýrir hann þetta og segir: „Hafi ljónið öskrað, hver skyldi þá ekki óttast? Hafi Drottinn Guð talað, hver skyldi þá ekki spá?“ Amos segir áheyrendum sínum með öðrum orðum: „Ég get ekki annað en prédikað orð Jehóva þegar hann segir mér að gera það, rétt eins og þið getið ekki annað en hræðst þegar þið heyrið ljónsöskur.“ Guðsótti eða djúp lotning fyrir Jehóva knúði Amos til að tala.

21. Hver eru viðbrögð okkar við fyrirmælum Guðs um að boða fagnaðarerindið?

21 Jehóva segir okkur líka að prédika. Viðbrögð okkar eru þau að tala orð Jehóva af djörfung, líkt og Amos og fylgjendur Jesú á fyrstu öld gerðu. (Postulasagan 4:23-31) Hvorki ofsóknir, sem andstæðingar hvetja til, né sinnuleysi þeirra sem við prédikum fyrir þagga niður í okkur. Vottar Jehóva um heim allan eru kappsfullir eins og Amos og halda áfram að boða fagnaðarerindið af djörfung. Það er verkefni okkar að vara fólk við yfirvofandi dómi Jehóva. Hvað felst í þessum dómi? Því er svarað í greininni á eftir.

Hverju svarar þú?

• Við hvaða aðstæður vann Amos það verk sem Guð fól honum?

• Hvað eigum við að prédika, líkt og Amos?

• Hvernig ættum við að líta á boðunarstarfið?

• Af hverju geta andstæðingar okkar ekki stöðvað boðunarstarfið?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 19]

Amos, sem ræktaði mórber, var valinn til að vinna verk Guðs.

[Myndir á blaðsíðu 21]

Boðar þú boðskap Jehóva djarfmannlega líkt og Amos?