Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Dæmisagan um dýrmætu perluna

Dæmisagan um dýrmætu perluna

Dæmisagan um dýrmætu perluna

„Menn [leita] himnaríkis kappsamlega, og þeir, sem keppast eptir því, hrífa það til sín.“ — MATTEUS 11:12, Biblían 1859.

1, 2. (a) Hvaða sjaldgæfa eiginleika lýsti Jesús í einni af dæmisögum sínum um Guðsríki? (b) Hvað sagði Jesús í dæmisögunni um dýrmætu perluna?

VEISTU um eitthvað sem þú metur svo mikils að þú gæfir allt sem þú átt til að eignast það? Þó að fólk helgi sig einhverju markmiði eins og að öðlast auðæfi, völd eða frægð og frama er sjaldgæft að það finni eitthvað sem er svo dýrmætt að það sé tilbúið til að láta allt annað af hendi fyrir það. Jesús Kristur talaði um þennan sjaldgæfa en lofsverða eiginleika í einni af mörgum umhugsunarverðum dæmisögum um Guðsríki.

2 Þetta er dæmisagan um dýrmætu perluna sem Jesús sagði lærisveinum sínum í einrúmi. Hann sagði: „Himnaríki [er] líkt kaupmanni, sem leitaði að fögrum perlum. Og er hann fann eina dýrmæta perlu, fór hann, seldi allt, sem hann átti, og keypti hana.“ (Matteus 13:36, 45, 46) Hvað vildi Jesús að áheyrendur sínir lærðu af þessari líkingu? Og hvernig getum við notið góðs af því sem Jesús sagði?

Dýrmætar perlur

3. Hvers vegna voru fínar perlur svona verðmætar til forna?

3 Frá fornu fari hafa perlur verið mikils metnar sem skartgripir. Fram kemur í einni heimild að rómverski fræðimaðurinn Plíníus eldri hafi sagt að perlur væru „dýrmætastar allra verðmæta“. Ólíkt gulli, silfri og mörgum tegundum gimsteina eru perlur gerðar af lifandi verum. Vitað er að ákveðnar ostrutegundir geta breytt aðskotahlutum eins og sandkornum í gljáandi perlur með því að hjúpa þá kalklögum. Til forna voru fínar perlur aðallega fengnar úr Rauðahafinu, Persaflóa og Indlandshafi en þessi höf voru langt frá Ísrael. Þetta er án efa ástæðan fyrir því að Jesús talaði um kaupmann „sem leitaði að fögrum perlum“. Það kostar mikla vinnu að finna virkilega dýrmætar perlur.

4. Hvert er aðalinntakið í dæmisögu Jesú um kaupmanninn?

4 Þó að perlur hafi löngum kostað mikið var peningaverðmæti þeirra greinilega ekki aðalinntakið í dæmisögu Jesú. Hann var ekki að líkja Guðsríki við verðmæta perlu heldur beindi athyglinni að kaupmanni „sem leitaði að fögrum perlum“ og viðbrögðum hans þegar hann fann eina slíka. Kaupmaður, sem ferðaðist til að kaupa perlur, var ekki eins og hver annar kaupmaður heldur var hann kunnáttumaður á sínu sviði og hafði næmt auga fyrir fegurð og fíngerðum eiginleikum sem gerðu perluna einstaka. Hann myndi þekkja ósvikna perlu þegar hann sæi hana og léti ekki blekkjast af lélegri eða falsaðri perlu.

5, 6. (a) Hvað er sérstaklega eftirtektarvert í sambandi við kaupmanninn í dæmisögu Jesú? (b) Hvað lærum við um kaupmanninn af dæmisögunni um fólgna fjársjóðinn?

5 Annað við þennan kaupmann er eftirtektarvert. Venjulegur kaupmaður kannaði líklega fyrst markaðsverðmæti perlunnar til að vita hve mikið hann mætti borga fyrir hana svo að hann græddi á viðskiptunum. Hugsanlega athugaði hann líka hvort eftirspurn væri eftir svona perlu svo að hann gæti selt hana fljótt. Með öðrum orðum vildi hann fá skjótfenginn gróða en ekki eiga perluna. Því er ekki þannig farið með kaupmanninn í dæmisögu Jesú. Hann hugsaði ekki um að græða. Hann var jafnvel tilbúinn til að fórna ,öllu sem hann átti‘ til að eignast það sem hann leitaði að.

6 Flestum kaupmönnum fyndist þetta líklega óviturlegt af kaupmanninum í dæmisögu Jesú. Kænn kaupsýslumaður myndi ekki láta sér til hugar koma að fara út í svona áhættusöm viðskipti. En kaupmaðurinn í dæmisögu Jesú hafði annað verðmætamat. Umbun hans var ekki fjárhagsleg heldur fólst hún í gleðinni og ánægjunni sem fylgir því að eiga svona ómetanlegan grip. Þetta kemur skýrt fram í hliðstæðri líkingu sem Jesús kom með. Hann sagði: „Líkt er himnaríki fjársjóði, sem fólginn var í jörðu og maður fann og leyndi. Í fögnuði sínum fór hann, seldi allar eigur sínar og keypti akur þann.“ (Matteus 13:44) Já, gleðin, sem hlaust af því að finna og eiga fjársjóðinn, fékk manninn til að fórna öllu sem hann átti. Eru til slíkir einstaklingar nú á tímum? Er til fjársjóður sem er verður slíkrar fórnar?

Þeir sem gera sér grein fyrir hve dýrmætt Guðsríki er

7. Hvernig sýndi Jesús að hann gerði sér grein fyrir hve dýrmætt Guðsríki væri?

7 Þegar Jesús sagði dæmisöguna var hann að tala um „himnaríki“. Í guðspjöllunum kemur skýrt fram að Jesús gerði sér grein fyrir hve dýrmætt himnaríki væri. Eftir skírn sína árið 29 fór „Jesús að prédika og segja: ‚Gjörið iðrun, himnaríki er í nánd.‘“ Í þrjú og hálft ár fræddi hann fjölda fólks um Guðsríki. Hann ferðaðist um landið þvert og endilangt og fór „borg úr borg og þorp úr þorpi, prédikaði og flutti fagnaðarerindið um Guðs ríki“. — Matteus 4:17; Lúkas 8:1.

8. Hvað gerði Jesús til að sýna hverju Guðsríki ætti eftir að koma til leiðar?

8 Jesús sýndi einnig hverju Guðsríki mun koma til leiðar með því að gera ótal kraftaverk víða um landið eins og að lækna sjúka, metta hungraða, lægja storma og jafnvel reisa upp dána. (Matteus 14:14-21; Markús 4:37-39; Lúkas 7:11-17) Að lokum sannaði hann hollustu sína við Guð og ríki hans með því að gefa líf sitt og deyja píslarvættisdauða á kvalastaur. Jesús lifði og dó fyrir Guðsríki líkt og kaupmaðurinn gaf allt sem hann átti fyrir „dýrmæta perlu“. — Jóhannes 18:37.

9. Hvaða sjaldgæfa eiginleika sýndu fyrstu lærisveinar Jesú?

9 Auk þess að gera Guðsríki að þungamiðju lífsins safnaði Jesús saman litlum hópi lærisveina. Þessir lærisveinar gerðu sér líka grein fyrir hve dýrmætt Guðsríki væri. Einn af þeim var Andrés en hann hafði áður verið lærisveinn Jóhannesar skírara. Þegar Andrés og annar lærisveinn Jóhannesar skírara, sennilega Jóhannes Sebedeusson, heyrðu Jóhannes skírara segja að Jesú væri „Guðs lamb“ löðuðust þeir strax að Jesú og tóku trú. En þeir létu ekki þar við sitja. Andrés fór tafarlaust til Símonar bróður síns og sagði: „Við höfum fundið Messías!“ Símon (sem var síðar þekktur undir nafninu Kefas eða Pétur) ásamt Filippusi og Natanael, vini Filippusar, gerðu sér líka strax grein fyrir því að Jesús væri Messías. Natanael sagði jafnvel við Jesú: „Þú ert sonur Guðs, þú ert konungur Ísraels.“ — Jóhannes 1:35-49.

Knúnir til verka

10. Hvernig brugðust lærisveinarnir við kalli Jesú þegar hann kom aftur til þeirra nokkrum mánuðum eftir að hann hitti þá fyrst?

10 Líkja má hrifningunni, sem Andrés, Pétur, Jóhannes og hinir lærisveinarnir fundu fyrir þegar þeir komust að því að Jesús væri Messías, við spennuna sem kaupmaðurinn upplifði þegar hann fann dýrmætu perluna. En hvað gerðu þeir eftir það? Í guðspjöllunum er ekki mikið sagt um það sem þeir gerðu eftir að þeir hittu Jesú í fyrsta sinn. Flestir þeirra hafa greinilega haldið áfram sínu daglega lífi. En um hálfu eða heilu ári síðar hitti Jesús aftur þá Andrés, Pétur, Jóhannes og Jakob, bróður Jóhannesar, þar sem þeir voru við veiðar við Galíleuvatn. * Þegar Jesús sá þá sagði hann: „Komið og fylgið mér, og mun ég láta yður menn veiða.“ Hvernig brugðust þeir við? Matteusarguðspjall segir um Pétur og Andrés: „Þegar í stað yfirgáfu þeir netin og fylgdu honum.“ Við lesum um Jakob og Jóhannes: „Þeir yfirgáfu jafnskjótt bátinn og föður sinn og fylgdu honum.“ Lúkasarguðspjall bætir við að þeir hafi ‚yfirgefið allt og fylgt honum‘. — Matteus 4:18-22; Lúkas 5:1-11.

11. Hver er líklega ástæðan fyrir því að lærisveinarnir brugðust svona fljótt við kalli Jesú?

11 Voru skjót viðbrögð lærisveinanna bara skyndiákvörðun? Síður en svo. Jafnvel þótt þeir hafi snúið sér aftur að fiskveiðum eftir að þeir hittu Jesú fyrst leikur enginn vafi á því að það sem þeir höfðu séð og heyrt hafði mikil áhrif á huga þeirra og hjarta. Þar sem liðið var hálft eða næstum heilt ár hafa þeir haft nægan tíma til að hugsa um það sem gerðist. En núna var komið að því að taka ákvörðun. Yrðu þeir eins og kaupmaðurinn sem varð svo ánægður að hafa fundið dýrmætu perluna að hann fór tafarlaust og gerði það sem hann þurfti til að geta keypt hana? Já, það sem þeir höfðu séð og heyrt hafði hreyft við þeim. Þeir gerðu sér grein fyrir því að það væri kominn tími til að hefjast handa. Þeir hikuðu því ekki við að yfirgefa allt og verða lærisveinar Jesú eins og fram kemur í frásögunni.

12, 13. (a) Hvernig brugðust margir við sem hlustuðu á Jesú? (b) Hvað sagði Jesús um trúfasta lærisveina sína og hvað gefa orð hans til kynna?

12 Þessir trúföstu lærisveinar voru mjög ólíkir mörgum sem nefndir eru síðar í guðspjöllunum. Þeir voru ófáir sem Jesús læknaði og mettaði en héldu samt áfram að sinna sínu daglega amstri. (Lúkas 17:17, 18; Jóhannes 6:26) Sumir færðust meira að segja undan þegar Jesús bauð þeim að gerast fylgjendur sínir. (Lúkas 9:59-62) Trúfastir lærisveinar Jesú voru allt öðruvísi og Jesús sagði um þá: „Frá dögum Jóhannesar skírara og til þessa leita menn himnaríkis kappsamlega, og þeir, sem keppast eptir því, hrífa það til sín.“ — Matteus 11:12, Biblían 1859.

13 Hvað gefa orðin „leita“ og „keppast“ til kynna? Biblíuorðabókin Vine’s Expository Dictionary of Old and New Testament Words segir um grísku sögnina sem þessi orð eru dregin af: „Sögnin gefur til kynna mikla kappsemi.“ Biblíufræðingurinn Heinrich Meyer segir einnig um þetta vers: „Þannig er lýst þessari áköfu og brennandi kappsemi gagnvart hinu komandi messíasarríki . . . Svo ákafur og brennandi (ekki lengur rólegur og eftirvæntingarfullur) er áhuginn á ríkinu.“ Líkt og kaupmaðurinn gerðu þessir fáeinu lærisveinar sér fljótt grein fyrir hvað væri virkilega dýrmætt og þeir voru fúsir til að fórna öllu sem þeir áttu fyrir Guðsríki. — Matteus 19:27, 28; Filippíbréfið 3:8.

Fleiri taka þátt í leitinni

14. Hvernig undirbjó Jesús postulana fyrir boðun Guðsríkis og með hvaða árangri?

14 Þegar fram liðu stundir kenndi og hjálpaði Jesús öðrum að leita Guðsríkis. Hann byrjaði á því að velja 12 úr hópi lærisveina sinna til að verða postular eða sendimenn. Jesús gaf þeim nákvæmar leiðbeiningar um boðunarstarfið og varaði þá við erfiðleikunum sem voru fram undan. (Matteus 10:1-42; Lúkas 6:12-16) Næstu tvö árin eða svo fóru þeir með Jesú í boðunarferðir um landið og áttu náið samband við hann. Þeir hlustuðu á það sem hann kenndi, urðu vitni að kraftaverkunum og fylgdust með fordæmi hans. (Matteus 13:16, 17) Allt þetta hefur án efa snert þá svo djúpt að þeir leituðu Guðsríkis af kappi og heilum huga eins og kaupmaðurinn.

15. Yfir hverju höfðu fylgjendur Jesú raunverulega ástæðu til að gleðjast að sögn Jesú?

15 Auk postulanna 12 „kvaddi Drottinn til aðra, sjötíu og tvo að tölu, og sendi þá á undan sér, tvo og tvo, í hverja þá borg og stað, sem hann ætlaði sjálfur að koma til“. Hann greindi þeim einnig frá prófraunum og erfiðleikum sem biðu þeirra og sagði þeim að segja við fólkið: „Guðs ríki er komið í nánd.“ (Lúkas 10:1-12) Þegar lærisveinarnir komu aftur voru þeir himinlifandi og sögðu við Jesú: „Herra, jafnvel illir andar eru oss undirgefnir í þínu nafni.“ En það kom þeim kannski á óvart að Jesús skyldi segja þeim að jafnvel enn meiri gleði biði þeirra vegna þess að þeir leituðu Guðsríkis af kappi. Hann sagði þeim: „Gleðjist samt ekki af því, að andarnir eru yður undirgefnir, gleðjist öllu heldur af hinu, að nöfn yðar eru skráð í himnunum.“ — Lúkas 10:17, 20.

16, 17. (a) Hvað sagði Jesús trúföstum postulum sínum síðasta kvöldið sem hann var með þeim? (b) Hvaða gleði og fullvissu veittu orð Jesú postulunum?

16 Síðasta kvöldið sem Jesús var með postulunum, 14. nísan árið 33, innleiddi hann kvöldmáltíð Drottins og bauð þeim að halda hana. Þetta kvöld sagði hann þeim 11 sem eftir voru: „Þér eruð þeir sem hafið verið stöðugir með mér í freistingum mínum. Og yður fæ ég ríki í hendur, eins og faðir minn hefur fengið mér, að þér megið eta og drekka við borð mitt í ríki mínu, sitja í hásætum og dæma tólf ættkvíslir Ísraels.“ — Lúkas 22:19, 20, 28-30.

17 Postularnir hljóta að hafa fyllst gleði og ánægju þegar þeir heyrðu Jesú segja þessi orð. Nú var þeim boðinn mesti heiður sem nokkur maður getur fengið. (Matteus 7:13, 14; 1. Pétursbréf 2:9) Líkt og kaupmaðurinn höfðu þeir fórnað miklu til þess að fylgja fordæmi Jesú og leita Guðsríkis. Núna voru þeir fullvissaðir um að fórnirnar, sem þeir höfðu fært, væru ekki til einskis.

18. Hverjir auk postulana 11 áttu eftir að njóta góðs af Guðsríki?

18 Postularnir, sem voru með Jesú þetta kvöld, voru ekki þeir einu sem nutu góðs af Guðsríki. Vilji Jehóva var að 144.000 yrðu aðilar að sáttmálanum um Guðsríki og stjórnuðu með Jesú Kristi í hinu dýrlega himneska ríki. Jóhannes postuli sá einnig í sýn ‚mikinn múg, sem enginn gat tölu á komið . . . Þeir stóðu frammi fyrir hásætinu og frammi fyrir lambinu . . . Og þeir hrópa hárri röddu: Hjálpræðið heyrir til Guði vorum, sem í hásætinu situr, og lambinu.‘ Þetta eru jarðneskir þegnar ríkisins. * — Opinberunarbókin 7:9, 10; 14:1, 4.

19, 20. (a) Hvað stendur fólki af öllum þjóðum til boða? (b) Um hvaða spurningu verður fjallað í næstu grein?

19 Skömmu áður en Jesús steig upp til himna sagði hann við trúfasta fylgjendur sína: „Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður, sonar og heilags anda, og kennið þeim að halda allt það, sem ég hef boðið yður. Sjá, ég er með yður alla daga allt til enda veraldar.“ (Matteus 28:19, 20) Þar af leiðandi yrði fólk af öllum þjóðum lærisveinar Jesú Krists. Það myndi einnig beina huga sínum að Guðsríki, hvort sem það horfði fram til himneskra eða jarðneskra launa, líkt og kaupmaðurinn beindi huga sínum að dýrmætu perlunni.

20 Orð Jesú bera með sér að fræðslustarfinu yrði haldið áfram „allt til enda veraldar“. Eru enn til einstaklingar eins og kaupmaðurinn sem eru tilbúnir til að fórna öllu fyrir Guðsríki? Fjallað verður um þessa spurningu í næstu grein.

[Neðanmáls]

^ gr. 10 Hugsanlegt er að Jóhannes Sebedeusson hafi fylgt Jesú og orðið vitni að sumu sem hann gerði eftir að þeir hittust fyrst. Það kann að vera ástæðan fyrir því að hann gat lýst því svo vel í guðspjalli sínu. (Jóhannes, 2.-5. kafli) Engu að síður sneri hann sér aftur að fiskveiðum um tíma áður en kallið frá Jesú kom.

^ gr. 18 Nánari skýringu má finna í 10. kafla bókarinnar Þekking sem leiðir til eilífs lífs, gefin út af Vottum Jehóva.

Geturðu útskýrt?

• Hvert er aðalinntakið í dæmisögunni um kaupmanninn?

• Hvernig sýndi Jesús að hann gerði sér grein fyrir hve dýrmætt Guðsríki væri?

• Hvað fékk Andrés, Pétur, Jóhannes og aðra til að bregðast tafarlaust við kalli Jesú?

• Hvaða frábæra tækifæri býðst fólki af öllum þjóðum?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 10]

Þeir yfirgáfu allt og fylgdu Jesú.

[Mynd á blaðsíðu 12]

Áður en Jesús fór til himna sagði hann fylgjendum sínum að gera menn að lærisveinum.