Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Er lífið dýrmætt eða lítils virði?

Er lífið dýrmætt eða lítils virði?

Er lífið dýrmætt eða lítils virði?

„Maðurinn er skapaður eftir Guðs mynd. Þegar manneskja er svipt lífi er því verið að gera að engu það dýrmætasta og helgasta sem til er.“ — The Plain Man’s Guide to Ethics, eftir William Barclay.

‚ÞAÐ dýrmætasta sem til er.‘ Lítur þú þannig á lífið? Margir eru greinilega ósammála rithöfundinum eftir hegðun þeirra að dæma. Ofbeldismenn hafa miskunnarlaust svipt fjölda manns lífi í eiginhagsmunaskyni án nokkurs tillits til annarra. — Prédikarinn 8:9.

Mannslífið lítils metið

Fyrri heimsstyrjöldin er skýrt dæmi um það. Sagnfræðingurinn A.J.P. Taylor segir að hvað eftir annað hafi „mönnum verið fórnað til einskis“ meðan á þessum skelfilegu átökum stóð. Herforingjar reyndu að ávinna sér frægð og frama og fóru með hermenn eins og þeir væru einskis virði og þeim mætti hiklaust fórna til að ná því markmiði. Meira en hálf milljón manna féll í orustunni um Verdun í Frakklandi. Hernaðarlega „var ekkert að vinna og engu að tapa. Það var einungis verið að fórna mannslífum og hljóta heiður.“ — The First World War.

Slík lítilsvirðing fyrir lífinu er enn algeng. Fræðimaðurinn Kevin Bales bendir á að á síðari tímum hafi „skyndileg mannfjölgun orðið til þess að milljónir fátækra og varnarlausra manna [hafi] flætt inn á vinnumarkaðinn um heim allan“. Þeir horfa fram á ævilanga lífsbaráttu í hörðum viðskiptaheimi þar sem „lífið er lítils virði“. Bales segir að þeir sem notfæra sér fólkið komi fram við það eins og þræla — „einnota verkfæri til að græða á“. — Disposable People.

„Eftirsókn eftir vindi“

Margar aðrar ástæður eru fyrir því að fólki í milljónatali finnst það vera einskis virði og aðframkomið — að öllum sé sama hvort það lifi eða deyi. Auk styrjalda og óréttlætis er mannkynið þjakað af hungursneyðum, þurrkum, sjúkdómum, ástvinamissi og ótalmörgu öðru. Fólk veltir því fyrir sér hvort lífið sé þess virði að lifa því. — Prédikarinn 1:8, 14.

Auðvitað búa ekki allir við örbirgð og angist. En jafnvel þeir sem komast hjá mestu eymdinni taka undir með Salómon konungi í Forn-Ísrael sem spurði: „Hvað fær þá maðurinn fyrir allt strit sitt og ástundun hjarta síns, er hann mæðist í undir sólinni?“ Að athuguðu máli komast margir að þeirri niðurstöðu að margt af því sem þeir hafa gert sé „hégómi og eftirsókn eftir vindi“. — Prédikarinn 2:22, 26.

„Er þetta allt og sumt?“ spyrja margir þegar þeir líta yfir farinn veg. Hve mörgum finnst við ævilokin þeir vera ‚saddir lífdaga‘ eins og ættföðurnum Abraham fannst? (1. Mósebók 25:8) Flestir finna fyrir stöðugu tilgangsleysi. Lífið þarf samt ekki að vera tilgangslaust. Líf hvers og eins er dýrmætt í augum Guðs og hann vill að við lifum innihaldsríku og ánægjulegu lífi. Hvernig getur það orðið að veruleika? Sjáum hvað næsta grein hefur að segja um það.