Höfuðþættir Dómarabókarinnar
Orð Jehóva er lifandi
Höfuðþættir Dómarabókarinnar
HVERNIG bregst Jehóva við þegar fólk hans snýr baki við honum og fer að tilbiðja falsguði? Hvað nú ef fólk hans óhlýðnast honum æ ofan í æ og leitar ekki ásjár hans fyrr en í nauðirnar rekur? Sér Jehóva þeim fyrir undankomuleið þegar svo er komið? Dómarabókin svarar þessum mikilvægu spurningum og fleirum. Spámaðurinn Samúel lauk við að rita bókina um árið 1100 f.o.t. en hún nær yfir hér um bil 330 ára sögu, allt frá því að Jósúa lést fram til þess að fyrsti konungurinn var settur til valda í Ísrael.
Dómarabókin er hluti af hinu kröftuga orði Guðs, boðskap hans, og er afar verðmæt fyrir okkur. (Hebreabréfið 4:12) Frásagnir hennar veita okkur innsýn í persónuleika Jehóva og við getum dregið af henni lærdóma sem styrkja trú okkar og hjálpa okkur að höndla „hið sanna líf“, það er að segja eilíft líf í nýjum heimi sem Guð hefur lofað. (1. Tímóteusarbréf 6:12, 19; 2. Pétursbréf 3:13) Bókin segir frá því hvernig Jehóva kom fólki sínu margoft til bjargar og það er forsmekkur af því hvernig sonur hans, Jesús Kristur, á eftir að bjarga fólki hans í framtíðinni.
HVERS VEGNA VAR ÞÖRF FYRIR DÓMARA?
Eftir að Ísraelsmenn hafa sigrað konunga Kanaanlands undir forystu Jósúa taka ættkvíslirnar landið til eignar, hver sitt erfðaland. Hins vegar hrekja þeir ekki alla íbúa landsins á brott. Þessi mistök reynast þeim dýrkeypt.
Kynslóðin, sem kom eftir daga Jósúa, ‚þekkti ekki Jehóva né þau verk er hann hafði gert fyrir Ísrael‘. (Dómarabókin 2:10) Ísraelsmenn stofna til hjúskapar við Kanaaníta og þjóna guðum þeirra með þeim afleiðingum að Jehóva selur þá í óvinahendur. En þegar kúgunin þyngist hrópa Ísraelsmenn til Guðs og biðja hann hjálpar. Það er í þessu trúar-, þjóðfélags- og stjórnamálaumhverfi sem Jehóva vekur upp hvern dómarann á fætur öðrum til að bjarga þjóð sinni undan oki óvinanna.
Biblíuspurningar og svör:
1:2, 4 — Af hverju fær Júda fyrst ættkvísla að taka úthlutað eignarland sitt? Að öllu jöfnu hefði þessi heiður átt að koma í hlut Rúbeníta en Rúben var frumgetinn sonur Jakobs. Í spádómi Jakobs á dánarbeði hans kom hins vegar fram að Rúben ætti ekki að verða öðrum fremri því að hann hafði fyrirgert frumburðarréttinum. Símeon og Leví höfðu framið grimmdarverk og afkomendur þeirra áttu að dreifast um Ísrael. (1. Mósebók 49:3-5, 7) Júda var fjórði sonur Jakobs svo að hann var næstur í röðinni. Afkomendur Símeons lögðu Júdamönnum lið og fengu nokkur lítil svæði sem voru dreifð um landsvæði Júda. * — Jósúabók 19:9.
1:6, 7 — Hvers vegna voru þumalfingur og stórutær höggnar af sigruðum konungum? Sá sem missti þumalfingur og stórutær var ófær um að gegna hernaði. Hvernig var hægt að munda sverð eða spjót án þumalfingurs eða halda góðu jafnvægi án stórutánna?
Lærdómur:
2:10-12. Við verðum að stunda reglubundið biblíunám til að ‚gleyma ekki velgjörðum Jehóva‘. (Sálmur 103:2) Foreldrar þurfa að brýna sannleikann í orði Guðs fyrir börnum sínum. — 5. Mósebók 6:6-9.
2:14, 21, 22. Það er ástæða fyrir því að Jehóva leyfir að þjóð sín þjáist þegar hún óhlýðnast. Hann gerir það til að aga hana, fága og hvetja til að snúa aftur.
JEHÓVA VEKUR UPP DÓMARA
Hin hrífandi saga af hetjudáðum dómaranna hefst með því að Otníel fer í hernað gegn konungi í Mesópótamíu, sem hafði kúgað Ísraelsmenn í átta ár, og sigrar hann. Ehúð dómari sýnir mikið hugrekki og drepur Eglón, hinn gildvaxna konung í Móab. Samgar er frækinn dómari sem fellir 600 Filista með broddstaf einan að vopni. Debóra spákona hvetur Barak til að fara gegn öflugum her Sísera. Barak leggur til atlögu með léttvopnað, tíu þúsund manna lið og gersigrar óvininn með stuðningi Jehóva. Jehóva kallar Gídeon til að fara gegn Midíanítum með 300 manna lið og veitir honum sigur.
Jehóva notar Jefta til að frelsa Ísrael úr hendi Ammoníta. Tóla, Jaír, Íbsan, Elón og Abdón eru einnig í hópi þeirra 12 manna sem dæma Ísrael. Samson er síðasti dómarinn en hann berst gegn Filistum.
Biblíuspurningar og svör:
4:8 — Af hverju leggur Barak svona mikið upp úr því að spákonan Debóra fylgi sér á stríðsvöllinn? Greinilegt er að Barak treystir sér ekki til að fara einn gegn her Sísera. Sé spákonan með í för hafa hann og menn hans vissu fyrir því að þeir njóti leiðsagnar Guðs og það gefur þeim sjálfstraust. Það er ekki merki um veikleika heldur sterka trú að Barak skuli leggja svona mikla áherslu á að Debóra sé með í förinni.
5:20 — Hvernig börðust stjörnurnar af himni fyrir Barak? Biblían lætur ósagt hvort hér sé átt við stuðning engla, lofsteinaregn sem vitringar Sísera hafa túlkað sem ógæfumerki eða kannski stjörnuspár sem Sísera lét gera en rættust ekki. Hvað sem við er átt skarst Guð í leikinn með einum eða öðrum hætti.
7:1-3; 8:10 — Hvers vegna sagði Jehóva að 32.000 manna lið Gídeons væri of fjölmennt gegn 135.000 manna óvinaher? Það var vegna þess að Jehóva ætlaði að veita Gídeon og mönnum hans sigur. Hann vildi ekki að þeir ímynduðu sér að þeir hefðu sigrað Midíaníta í eigin krafti.
11:30, 31 — Var Jefta með mannfórn í huga þegar hann gaf þetta heit? Slík hugsun hlýtur að hafa verið fjarri honum vegna þess að í lögmálinu stóð: „Eigi skal nokkur finnast hjá þér, sá er láti son sinn eða dóttur ganga gegnum eldinn.“ (5. Mósebók 18:10) Jefta hafði samt sem áður í huga manneskju en ekki dýr því að ólíklegt var að Ísraelsmenn hefðu inni á heimilum sínum dýr sem nota mátti til fórnar. Auk þess var ekkert sérstakt að fórna dýri. Jefta gerði sér fulla grein fyrir því að það gæti verið dóttir hans sem kæmi á móti honum út úr húsinu. ‚Brennifórnin‘ myndi felast í því að viðkomandi manneskja yrði algerlega helguð þjónustunni í helgidómi Jehóva.
Lærdómur:
3:10. Til að okkur takist að gera trúarlegum viðfangsefnum góð skil þurfum við að treysta á anda Jehóva en ekki mannlega visku. — Sálmur 127:1.
3:21. Ehúð beitti sverðinu fimlega og sýndi hugrekki. Við þurfum að vera leikin í að beita „sverði andans, sem er Guðs orð“. Það þýðir að við þurfum að nota Biblíuna með hugrekki í boðunarstarfinu. — Efesusbréfið 6:17; 2. Tímóteusarbréf 2:15.
6:11-15; 8:1-3, 22, 23. Við lærum þrennt af hæversku Gídeons: (1) Þegar okkur er boðið að taka að okkur þjónustuverkefni ættum við að hugleiða hvaða ábyrgð það hefur í för með sér en ekki einblína á upphefðina eða virðinguna sem kann að fylgja því. (2) Það er viturlegt að vera hæverskur í samskiptum við þá sem eru deilugjarnir. (3) Ef við erum hæversk hugsum við ekki meira en góðu hófi gegnir um stöður.
6:17-22, 36-40. Við verðum líka að vera gætin og megum ekki ‚trúa sérhverjum anda [„innblásnum orðum“, NW]‘ heldur reyna orðin, ‚hvort þau séu frá Guði‘. (1. Jóhannesarbréf 4:1) Það er skynsamlegt af nýútnefndum safnaðaröldungi að ráðfæra sig við reyndari öldung til að fullvissa sig um að ráðleggingar, sem hann ætlar að gefa, séu örugglega byggðar á orði Guðs.
6:25-27. Gídeon gætti þess að ergja ekki andstæðinga sína að óþörfu. Við ættum að haga orðum okkar þannig í boðunarstarfinu að við móðgum ekki viðmælendur okkar að nauðsynjalausu.
7:6. Við ættum að vera árvökur og aðgætin í þjónustu Jehóva, rétt eins og hinir 300 menn Gídeons.
9:8-15. Það væri heimskulegt að sýna hroka og girnast embætti eða völd.
11:35-37. Gott fordæmi Jefta hefur vafalaust hjálpað dóttur hans að byggja upp sterka trú og fórnfýsi. Foreldrar geta gefið börnum sínum sams konar fordæmi nú á tímum.
11:40. Hrós er hvetjandi fyrir alla sem leggja sig fúslega fram í þjónustu Jehóva.
13:8. Foreldrar ættu að biðja Jehóva að leiðbeina sér við kennslu barnanna og fylgja handleiðslu hans. — 2. Tímóteusarbréf 3:16.
14:16, 17; 16:16. Það getur spillt sambandi við aðra manneskju að beita hana þrýstingi með gráti og nöldri. — Orðskviðirnir 19:13; 21:19.
FLEIRI AFBROT Í ÍSRAEL
Í síðasta hluta Dómarabókarinnar er að finna tvær athyglisverðar frásögur. Sú fyrri segir frá manni sem hét Míka. Hann gerði sér skurðgoð og hafði í húsi sínu og réð til sín levíta sem prest. Eftir að Danítar höfðu eytt borgina Laís, öðru nafni Lesem, reistu þeir nýja borg og nefndu hana Dan. Þeir tóku skurðgoð Míka og prest hans og komu sér upp eigin trúardýrkun í Dan. Ljóst er að Laís er unnin áður en Jósúa deyr. — Jósúabók 19:47.
Hinn atburðurinn á sér stað skömmu eftir að Jósúa er dáinn. Hópur karlmanna í borginni Gíbeu í Benjamínslandi fremur gróft kynferðisafbrot sem verður þess valdandi að ættkvíslinni er næstum útrýmt. Aðeins 600 karlmenn eru eftir. Gerðar eru ráðstafanir til að ná í konur handa þeim þannig að þeim fjölgar á ný. Í stjórnartíð Davíðs eru vopnfærir menn af ættkvísl Benjamíns orðnir næstum 60.000. — 1. Kroníkubók 7:6-11.
Biblíuspurningar og svör:
17:6; 21:25 — Ýtti það ekki undir stjórnleysi að ‚hver maður skyldi gera það sem honum vel líkaði‘? Svo þarf ekki að vera því að Jehóva gerði margt til að leiðbeina þjóðinni. Hann gaf henni lögmálið og prestastéttina til að fræða hana um vilja sinn. Æðsti presturinn gat notað úrím og túmmím til að fá vitneskju um vilja Guðs í mikilvægum málum. (2. Mósebók 28:30) Í hverri borg voru öldungar sem gátu veitt mönnum góð ráð. Ísraelsmaður, sem notfærði sér þetta, hafði góðan vegvísi til að leiðbeina samvisku sinni. Það var honum til góðs ef hann „gjörði það, er honum vel líkaði“ með þessum hætti. Hins vegar fór illa fyrir þeim sem hunsuðu lögmálið, hegðuðu sér eins og þeim sýndist og höguðu tilbeiðslu sinni eftir eigin geðþótta.
20:17-48 — Hvers vegna leyfði Jehóva Benjamínítum að sigra hinar ættkvíslirnar tvisvar, þó svo að það væru þeir sem ættu refsingu skilið? Með því að láta hinar trúu ættkvíslir verða fyrir miklum missi í fyrstu lét Jehóva reyna á það hve ákveðnar þær væru í að uppræta illskuna úr Ísrael.
Lærdómur:
19:14, 15. Ógestrisni Gíbeumanna var merki um alvarlegan siðferðisbrest. Kristnir menn eru hvattir til að ‚stunda gestrisni‘. — Rómverjabréfið 12:13.
Frelsunin fram undan
Innan skamms mun ríki Guðs í höndum Jesú Krists eyða illum heimi og frelsa hreinskilna og grandvara menn. (Orðskviðirnir 2:21, 22; Daníel 2:44) Þá ‚farast allir óvinir Jehóva en þeir sem elska hann verða sem sólaruppkoman í ljóma sínum‘. (Dómarabókin 5:31) Við skulum sýna að við elskum Jehóva með því að fara eftir því sem við höfum lært af Dómarabókinni.
Frásagan af dómaratímanum sýnir aftur og aftur fram á þann grundvallarsannleika að það er til blessunar að hlýða Jehóva en hefur ægilegar afleiðingar að óhlýðnast honum. (5. Mósebók 11:26-28) Það er ákaflega mikilvægt að hlýða opinberuðum vilja Guðs af heilu hjarta. — Rómverjabréfið 6:17; 1. Jóhannesarbréf 2:17.
[Neðanmáls]
^ gr. 5 Levítarnir fengu ekki erfðaland í fyrirheitna landinu, utan 48 borga sem voru dreifðar um landið.
[Kort á blaðsíðu 19]
(Sjá uppraðaðann texta í blaðinu)
„Drottinn vakti upp dómara, og þeir frelsuðu þá úr höndum þeirra, er þá rændu.“ — Dóm- arabókin 2:16.
DÓMARAR
1. Otníel
2. Ehúð
3. Samgar
4. Barak
5. Gídeon
6. Tóla
7. Jaír
8. Jefta
9. Íbsan
10. Elón
11. Abdón
12. Samson
DAN
MANASSE
NAFTALÍ
ASSER
SEBÚLON
ÍSSAKAR
MANASSE
GAÐ
EFRAÍM
DAN
BENJAMÍN
RÚBEN
JÚDA
[Mynd á blaðsíðu 20]
Hvað lærum við af því að Barak skyldi leggja mikla áherslu á að Debóra færi með sér á stríðsvöllinn?