Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hve dýrmætt er líf þitt?

Hve dýrmætt er líf þitt?

Hve dýrmætt er líf þitt?

Á SAMA tíma og fjölda mannslífa var fórnað í Evrópu í fyrri heimstyrjöldinni var ótrúlega mikið gert til þess að bjarga mannslífum á Suðurskautslandinu. Ensk-írski landkönnuðurinn Ernest Shackleton og félagar hans urðu að þola miklar hörmungar þegar skip þeirra, Endurance, lenti í hafísbreiðu, laskaðist og sökk. Shackleton tókst að koma mönnum sínum í skjól — ef skjól mætti kalla — á Elephanteyju í Suður-Atlantshafi. Þeir voru eigi að síður í mikilli hættu.

Shackleton var ljóst að eina von þeirra um að komast lífs af var að senda eftir hjálp til hvalstöðvar á eynni Suður-Georgíu. Leiðin þangað var 1100 kílómetrar og hann hafði aðeins 6,7 metra langan björgunarbát sem var bjargað úr Endurance. Útlitið var ekki gott.

Shackleton og fámennur hópur komst samt til Suður-Georgíu 10. maí árið 1916 eftir 17 skelfilega daga. Vegna gífurlegs sjógangs neyddust þeir til að lenda röngu megin á eynni. Þeir urðu að fara fótgangandi 30 kílómetra leið yfir ókönnuð og snæviþakin fjöll áður en þeir komust á ákvörðunarstað. Það ólíklega gerðist. Þó að útlitið hafi verið svart komust Shackleton og félagar hans á leiðarenda, í frosthörku og án viðeigandi klifurútbúnaðar og björguðu að lokum öllum skipbrotsmönnunum. Hvers vegna lagði Shackleton á sig þetta gífurlega erfiði? Ævisagnaritarinn Roland Huntford segir: „Honum var efst í huga að bjarga lífi allra manna sinna.“

,Einskis þeirra verður vant‘

Hvað forðaði mönnum Shackletons frá algerri örvinglun þar sem þeir áttu napurlega vist á Elephanteyju en hún er 30 kílómetrar í þvermál og ekkert nema „ís og hrikalegir og illfærir klettar“? Þeir treystu því að leiðtogi þeirra efndi loforð sitt um að bjarga þeim.

Líkt er á komið fyrir mannkyninu nú á tímum og yfirgefnu mönnunum á Elephanteyju. Margir búa við svo slæmar aðstæður að með ólíkindum er og þurfa að berjast fyrir lífinu. Þeir geta samt treyst því fullkomlega að Guð „frelsar hinn bágstadda“ undan kúgun og þjáningum. (Jobsbók 36:15) Þú getur verið viss um að líf hvers einasta manns er dýrmætt í augum Guðs. „Ákalla mig á degi neyðarinnar, og ég mun frelsa þig,“ segir skaparinn, Jehóva Guð. — Sálmur 50:15.

Áttu erfitt með að trúa því að skaparanum finnist þú vera dýrmætur þar sem þú ert aðeins einn af milljörðum manna á jörðinni? Taktu þá eftir hvað spámaðurinn Jesaja skrifaði um milljarða stjarna í milljörðum vetrarbrauta hins víðáttumikla alheims í kringum okkur. Við lesum: „Hefjið upp augu yðar til hæða og litist um: Hver hefir skapað stjörnurnar? Hann, sem leiðir út her þeirra með tölu og kallar þær allar með nafni. Sökum mikilleiks kraftar hans og af því að hann er voldugur að afli verður einskis þeirra vant.“ — Jesaja 40:26.

Skilurðu hvaða þýðingu þetta hefur? Í Vetrarbrautinni, sem sólkerfi okkar er aðeins hluti af, eru að minnsta kosti 100 milljarðar stjarna. Hve margar aðrar vetrarbrautir eru til? Enginn veit það með vissu en sumir giska á að þær séu um 125 milljarðar. Fjöldi stjarnanna er því yfirþyrmandi! Í Biblíunni er okkur sagt að skapari alheimsins þekki samt hverja einustu stjörnu með nafni.

„Á yður eru jafnvel höfuðhárin öll talin“

Sumir gætu mótmælt og sagt að það sé ekki endilega það sama að þekkja milljarða stjarna með nafni — eða milljarða manna —  og láta sér annt um þær hverja fyrir sig. Hægt er að skrá milljarða mannanafna í tölvu með nægilegu minni en engum dettur í hug að tölvan láti sér annt um nokkurn þeirra. Í Biblíunni er hins vegar sýnt fram á að Jehóva Guð þekki ekki aðeins nöfnin á milljörðum manna heldur beri hann einnig umhyggju fyrir hverjum og einum. Pétur postuli skrifaði: „Varpið allri áhyggju yðar á hann, því að hann ber umhyggju fyrir yður.“ — 1. Pétursbréf 5:7.

Jesús Kristur sagði: „Eru ekki tveir spörvar seldir fyrir smápening? Og ekki fellur einn þeirra til jarðar án vitundar föður yðar. Á yður eru jafnvel höfuðhárin öll talin. Verið því óhræddir, þér eruð meira verðir en margir spörvar.“ (Matteus 10:29-31) Tökum eftir að Jesús sagði ekki aðeins að Guð vissi hvað yrði um spörvana og mennina heldur sagði hann einnig: „Þér eruð meira verðir en margir spörvar.“ Hvers vegna ert þú meira verður? Vegna þess að þú ert skapaður „eftir Guðs mynd“ og getur ræktað og sýnt siðferðilega, vitsmunalega og andlega eiginleika sem endurspegla háleita eiginleika hans. — 1. Mósebók 1:26, 27.

„Afrakstur vitsmuna“

Láttu ekki blekkjast af fullyrðingum manna sem neita því að skapari sé til. Þeir halda því fram að þú hafir orðið til af völdum ópersónulegra og blindra náttúruafla. Þeir fullyrða að þú sért alls ekki skapaður „eftir Guðs mynd“, að þú sért ekkert öðruvísi en öll önnur dýr á jörðinni — að spörvunum meðtöldum.

Finnst þér skynsamlegt að lífið hafi orðið til af tilviljun eða vegna blindra náttúruafla? Að sögn sameindalíffræðingsins Michaels J. Behe er sú hugmynd algerlega óraunhæf vegna hinna „firnaflóknu lífefnafræðilegu ferla“ sem lífið stjórnast af. Hann segir að lífefnafræðin sanni svo að ekki verði um villst að „undirstöðuþættir lífsins á jörðinni . . . séu afrakstur vitsmuna“. — Darwin’s Black Box — The Biochemical Challenge to Evolution.

Biblían segir okkur að lífið á jörðinni sé á öllum stigum afrakstur vitsmuna. Hún segir okkur að uppspretta þessara vitsmuna sé Jehóva Guð, skapari alheimsins. — Sálmur 36:10; Opinberunarbókin 4:11.

Þrátt fyrir að við verðum að búa í heimi sem er fullur af kvölum og þjáningum skaltu ekki láta það hindra þig í að trúa að til sé skapari og hönnuður jarðarinnar og lífsins á henni. Hafðu í huga tvenn grundvallarsannindi. Í fyrsta lagi var Guð ekki valdur að ófullkomleikanum sem er alls staðar í kringum okkur. Í öðru lagi hefur skaparinn góðar og gildar ástæður fyrir því að leyfa ófullkomleikann um stundar sakir. Eins og oft hefur verið rætt um í þessu riti hefur Jehóva Guð leyft hið illa um takmarkaðan tíma til að útkljá í eitt skipti fyrir öll hið siðferðilega deilumál sem kom upp í byrjun þegar mannkynið hafnaði drottinvaldi hans. * — 1. Mósebók 3:1-7; 5. Mósebók 32:4, 5; Prédikarinn 7:29; 2. Pétursbréf 3:8, 9

„Hann bjargar hinum snauða, er hrópar á hjálp“

Lífið er að sjálfsögðu dásamleg gjöf þótt margir þurfi að búa við ömurlegar aðstæður. Við gerum allt sem við getum til þess að varðveita það. Lífið í framtíðinni, sem Guð lofar, verður annað og meira en lífsbarátta við erfiðar og kvalafullar aðstæður — eins og áhöfn Shackletons háði á Elephanteyju. Fyrirætlun Guðs er að frelsa okkur úr núverandi ástandi þjáninga og tilgangsleysis svo að við getum „höndlað hið sanna líf“ sem hann ætlaði sköpunarverum sínum frá upphafi. — 1. Tímóteusarbréf 6:19.

Guð mun gera þetta allt af því að hvert og eitt okkar er dýrmætt í augum hans. Hann kom því til leiðar að Jesús Kristur, sonur hans, færði lausnarfórnina sem þurfti til að leysa okkur undan synd, ófullkomleika og dauða sem við tókum í arf frá foreldrum mannkynsins, Adam og Evu. (Matteus 20:28) Jesús sagði: „Svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf son sinn eingetinn, til þess að hver sem á hann trúir . . . hafi eilíft líf.“ — Jóhannes 3:16.

Hvað ætlar Guð að gera fyrir þá sem lifa núna við sársauka og kúgun? Í innblásnu orði Guðs segir um son hans: „Hann bjargar hinum snauða, er hrópar á hjálp, og hinum þjáða, er enginn liðsinnir. Hann aumkast yfir bágstadda og snauða, og fátækum hjálpar hann. Frá ofbeldi og ofríki leysir hann þá.“ Hvers vegna ætlar hann að gera þetta? Vegna þess að „blóð þeirra [eða líf] er dýrmætt í augum hans“. — Sálmur 72:12-14.

Öldum saman hefur mannkynið stritað undir byrði syndar og ófullkomleika, rétt eins og það hafi ,stunið‘ vegna sársauka og þjáninga. Guð leyfði þetta ástand aðeins af því að hann vissi að hann gæti ráðið bót á hverjum þeim skaða sem hlytist af því. (Rómverjabréfið 8:18-22) Það líður ekki á löngu þar til hann „endurreisir alla hluti“ fyrir atbeina ríkis síns í höndum sonarins Jesú Krists. — Postulasagan 3:21; Matteus 6:9, 10.

Í því felst að þeir sem hafa þjáðst og dáið á liðnum tíma verða reistir upp. Þeir eru öruggir í minni Guðs. (Jóhannes 5:28, 29; Postulasagan 24:15) Bráðlega öðlast þeir líf „í fullri gnægð“ — fullkomið líf að eilífu í paradís á jörð án sársauka og þjáninga. (Jóhannes 10:10; Opinberunarbókin 21:3-5) Allir geta notið lífsins að fullu og ræktað þá dásamlegu eiginleika og hæfileika sem einkenna þá sem eru skapaðir „í Guðs mynd“.

Verður þú til staðar til að njóta þess lífs sem Jehóva hefur lofað? Það er undir sjálfum þér komið. Við hvetjum þig til að nýta þér allt sem Guð hefur gert til að slík blessun verði að veruleika. Útgefendur þessa rits munu með ánægju hjálpa þér til þess.

[Neðanmáls]

^ gr. 17 Nákvæma umfjöllun um þetta efni er að finna í 8. kafla bókarinnar Þekking sem leiðir til eilífs lífs sem heitir „Hvers vegna leyfir Guð þjáningar?“ Bókin er gefin út af Vottum Jehóva.

[Mynd á blaðsíðu 5]

Skipbrotsmennirnir treystu því að Shackleton stæði við loforð sitt um að bjarga þeim.

[Rétthafi]

© CORBIS

[Mynd á blaðsíðu 6]

„Þér eruð meira verðir en margir spörvar.“