Leitum dýrmætu perlunnar nú á tímum
Leitum dýrmætu perlunnar nú á tímum
„Þetta fagnaðarerindi um ríkið verður prédikað um alla heimsbyggðina öllum þjóðum til vitnisburðar.“ — MATTEUS 24:14.
1, 2. (a) Hvernig hugsuðu Gyðingar á dögum Jesú um Guðsríki? (b) Hvað gerði Jesús til að veita gleggri skilning á Guðsríki og með hvaða árangri?
GYÐINGAR höfðu brennandi áhuga á Guðsríki þegar Jesús kom til jarðarinnar. (Matteus 3:1, 2; 4:23-25; Jóhannes 1:49) En í fyrstu skildu flestir þeirra ekki til fulls hve mikið vald það færi með og hvernig því yrði beitt. Þeir áttuðu sig ekki heldur á því að það yrði himnesk stjórn. (Jóhannes 3:1-5) Jafnvel sumir fylgjendur Jesú skildu hvorki til fulls hvað Guðsríki væri né hvað þeir yrðu að gera til að hljóta þá blessun að verða meðstjórnendur Krists. — Matteus 20:20-22; Lúkas 19:11; Postulasagan 1:6.
2 Jesús var þolinmóður við lærisveina sína og kenndi þeim margt þegar fram liðu stundir, þar á meðal dæmisöguna um dýrmætu perluna sem fjallað var um í greininni á undan. Þannig kenndi hann þeim hversu mikilvægt væri að leggja sig allan fram um að leita himnaríkis. (Matteus 6:33; 13:45, 46; Lúkas 13:23, 24) Þetta hlýtur að hafa snert hjörtu þeirra djúpt þar sem þeir urðu skömmu síðar hugrakkir og óþreytandi boðberar fagnaðarerindisins og prédikuðu allt til endimarka jarðarinnar eins og kemur skýrt fram í Postulasögunni. — Postulasagan 1:8; Kólossubréfið 1:23.
3. Hvað sagði Jesús um Guðsríki og okkar tíma?
3 En hvernig er þessu farið nú á tímum? Milljónir manna fá að heyra um þá blessun sem bíður þeirra í jarðneskri paradís undir stjórn Guðsríkis. Í spádómi sínum um „endalok veraldar“ tiltók Jesús sérstaklega: „Þetta fagnaðarerindi um ríkið verður prédikað um alla heimsbyggðina öllum þjóðum til vitnisburðar. Og þá mun endirinn koma.“ (Matteus 24:3, 14; Markús 13:10) Hann sagði einnig að þetta gríðarstóra verkefni yrði unnið þrátt fyrir miklar hindranir, erfiðleika og jafnvel ofsóknir. En hann lofaði þeim: „Sá sem staðfastur er allt til enda, mun hólpinn verða.“ (Matteus 24:9-13) Allt þetta kallar á fórnfýsi og hollustu eins og kaupmaðurinn í dæmisögu Jesú sýndi. Er til fólk nú á dögum sem sýnir slíka trú og leitar Guðsríkis af kappi?
Gleðin af því að finna sannleikann
4. Hvaða áhrif hefur sannleikurinn um Guðsríki á fólk nú á tímum?
4 Kaupmaðurinn í dæmisögu Jesú var himinlifandi yfir því að finna það sem hann áleit vera „dýrmæta perlu“. Þessi gleði fékk hann til að gera allt sem í hans valdi stóð til að eignast hana. (Hebreabréfið 12:1) Sannleikurinn um Guð og ríki hans hrífur og hvetur einnig fólk nú á tímum. Þetta minnir á orð bróður A. H. Macmillans sem skrifaði í bókinni Faith on the March um leit sína að Guði og fyrirætlun hans með mennina. Hann sagði: „Það sem ég fann finna þúsundir manna enn þá á hverju ári. Og þetta er fólk eins og ég og þú vegna þess að það er af öllum þjóðum, kynþáttum og þjóðfélagsstéttum og á öllum aldri. Sannleikurinn fer ekki í manngreinarálit. Hann laðar að sér alls konar fólk.“
5. Hvaða góða árangur sýnir skýrslan fyrir þjónustuárið 2004?
5 Sannleiksgildi þessara orða sannast af því að fagnaðarerindið um Guðsríki hvetur á hverju ári hundruð þúsunda hjartahreinna einstaklinga til að vígja líf sitt Jehóva og helga Opinberunarbókin 7:9.
sig því að gera vilja hans. Þjónustuárið 2004, sem spannaði tímabilið frá september 2003 til ágúst 2004, var engin undantekning. Á þessum 12 mánuðum létu 262.416 skírast niðurdýfingarskírn til tákns um vígslu sína til Jehóva. Vottar Jehóva héldu 6.085.387 vikuleg biblíunámskeið í 235 löndum til að hjálpa fólki af öllum þjóðfélagsstéttum og ýmsum þjóðernum, ættbálkum og tungum að meðtaka hinn lífgandi sannleika frá orði Guðs. —6. Hver er ástæðan fyrir aukningunni í áranna rás?
6 Hvað gerði allt þetta mögulegt? Það leikur enginn vafi á því að Jehóva dregur þetta hjartahreina fólk til sín. (Jóhannes 6:65) Engu að síður má ekki vanmeta fórnfýsi og þrotlausa vinnu þeirra sem hafa lagt mikið á sig fyrir Guðsríki. Macmillan skrifaði 79 ára að aldri: „Allt frá því að ég lærði fyrst um þau loforð, sem Biblían veitir sjúku og deyjandi mannkyni, hefur von mín á þau ekki dofnað. Frá þeirri stundu var ég staðráðinn í að fræðast meira um það sem Biblían kennir svo að ég gæti hjálpað öðrum sem sóttust eins og ég eftir þekkingu á hinum alvalda Guði, Jehóva, og fögrum fyrirætlunum hans með mannkynið.“
7. Hvaða dæmi er einkennandi fyrir gleði og eldmóð þeirra sem finna sannleika Biblíunnar?
7 Þjónar Jehóva nú á tímum sýna sama eldmóð. Tökum sem dæmi Danielu frá Vín í Austurríki. Hún segir: „Guð hefur verið besti vinur minn frá því að ég var barn. Mig hafði alltaf langað til að vita hvað hann héti því að ‚Guð‘ var of ópersónulegt fyrir mig. En ég þurfti að bíða til 17 ára aldurs þar til vottar Jehóva bönkuðu á dyrnar. Þeir útskýrðu allt sem ég vildi vita um Guð. Loksins hafði ég fundið sannleikann og það var frábært! Ég var svo glöð að ég fór að prédika fyrir öllum.“ Eldmóður hennar varð fljótlega til þess að skólafélagarnir fóru að gera grín að henni. „Mér fannst hins vegar eins og ég væri að sjá biblíuspádóm uppfyllast,“ segir Daniela „vegna þess að ég hafði lært að Jesús hefði sagt að fylgjendur sínir yrðu hataðir og ofsóttir sakir nafns hans. Ég var svo hamingjusöm og snortin.“ Fljótlega vígði Daniela Jehóva líf sitt, lét skírast og fór að vinna að því markmiði að verða trúboði. Eftir að hún giftist fóru hún og Helmut, eiginmaður hennar, að prédika fyrir Afríkubúum, Kínverjum, Filippseyingum og Indverjum í Vín. Núna eru þau trúboðar í Suðvestur-Afríku.
Þeir gefast ekki upp
8. Á hvaða gefandi hátt hafa margir sýnt kærleika sinn til Guðs og tryggð við ríki hans?
8 Trúboðsstarf er ein leið fyrir fólk Jehóva að sýna kærleika sinn til hans og tryggð við Guðsríki. Þeir sem gerast trúboðar eru tilbúnir til að ferðast til fjarlægra staða vegna Guðsríkis líkt og kaupmaðurinn í dæmisögu Jesú. Þessir trúboðar ferðast auðvitað ekki til að finna fagnaðarerindið um ríkið heldur til að flytja það fólki víða um heim og kenna og hjálpa því að verða lærisveinar Jesú Krists. (Matteus 28:19, 20) Í mörgum löndum þurfa þeir að glíma við mjög mikla erfiðleika. En þeir hljóta ríkulega umbun fyrir þolgæði sitt.
9, 10. Hvað upplifa trúboðar í fjarlægum löndum eins og Mið-Afríkulýðveldinu?
9 Sem dæmi má nefna að í Mið-Afríkulýðveldinu voru 16.184 viðstaddir minningarhátíðina um dauða Krists sem er um sjöfalt fleiri en boðberarnir í landinu. Þar sem víða er ekkert rafmagn sinnir fólk yfirleitt dagsverkunum utandyra í skugga trés. Þar þykir því sjálfsagt að trúboðarnir sinni starfi sínu á sama hátt og haldi biblíunámskeið utan dyra í skugga trjáa. Það er ekki aðeins bjartara og svalara úti heldur
fylgir því einnig annar kostur að vera utan dyra. Fólkið er mjög hrifið af Biblíunni og þar þykir jafneðlilegt að ræða um trúmál eins og að tala um veðrið eða íþróttir í öðrum menningarsamfélögum. Oft taka vegfarendur eftir því sem á sér stað og slást í hópinn.10 Þegar trúboði nokkur hélt biblíunámskeið utan dyra kom að ungur maður sem bjó hinum megin götunnar. Þar sem enginn hafði heimsótt hann bað hann trúboðann að koma heim til sín og leiðbeina sér við biblíunám. Trúboðinn varð auðvitað fúslega við óskinni og ungi maðurinn tekur núna örum framförum. Í landinu er algengt að lögreglumenn stöðvi votta Jehóva á götunni. Það er hins vegar ekki í þeim tilgangi að sekta þá heldur til að biðja um nýjustu eintök Varðturnsins og Vaknið! eða til að þakka þeim fyrir grein sem þeir höfðu sérstaklega gaman af.
11. Hvað finnst gamalreyndum trúboðum um starf sitt þrátt fyrir prófraunir?
11 Margir sem byrjuðu í trúboðsstarfi fyrir 40 eða 50 árum þjóna enn trúfastlega á starfssvæðinu. Þeir sýna okkur öllum svo sannarlega gott fordæmi í trú og þolgæði. Hjón nokkur hafa þjónað saman í ein 42 ár sem trúboðar í þremur löndum. Eiginmaðurinn segir: „Það hafa komið upp erfiðleikar. Við þurftum til dæmis að berjast við malaríu í 35 ár. En við sáum aldrei eftir því að hafa gerst trúboðar.“ Eiginkonan bætir við: „Við höfum alltaf haft svo mikið sem við getum verið þakklát fyrir. Boðunarstarfið veitir okkur mikla gleði og það er auðvelt að hefja biblíunámskeið. Í hvert sinn sem við sjáum nemendurna koma á samkomur og kynnast hver öðrum finnst okkur eins og við séum á fjölskyldusamkomu.“
Þeir mátu „allt vera tjón“
12. Hvernig er hægt að sýna að maður geri sér grein fyrir hve mikils virði Guðsríki er?
12 Þegar kaupmaðurinn fann dýrmæta perlu „fór hann, seldi allt, sem hann átti, og keypti hana“. (Matteus 13:46) Þessi fúsleiki til að fórna því sem telst verðmætt er einkennandi fyrir þá sem gera sér grein fyrir hve mikils virði Guðsríki er. Páll postuli var einn af þeim sem myndi hljóta dýrð með Kristi í Guðsríki en hann sagði: „Ég [met] allt vera tjón hjá þeim yfirburðum að þekkja Krist Jesú, Drottin minn. Sakir hans hef ég misst allt og met það sem sorp, til þess að ég geti áunnið Krist.“ — Filippíbréfið 3:8.
13. Hvernig sýndi maður í Tékklandi kærleika sinn til Guðsríkis?
13 Nú á tímum eru einnig margir tilbúnir að gera miklar breytingar á lífi sínu til að öðlast þær blessanir sem Guðsríki veitir. Í október 2003 rakst til dæmis sextugur skólastjóri í Tékklandi á biblíunámsbókina Þekking sem leiðir til eilífs lífs. Eftir að hafa lesið hana hafði hann tafarlaust samband við Votta Jehóva á staðnum og bað um biblíunámsskeið. Hann
tók miklum framförum í trúnni og fór fljótlega að sækja allar samkomur. Hann hafði hugsað sér að bjóða sig fram sem borgarstjóra og reyna síðan að verða þingmaður en kaus að beina kröftum sínum að boðun Guðsríkis í staðinn. Hann sagði: „Ég gat látið nemendur mína fá mörg biblíunámsrit.“ Hann táknaði vígslu sína til Jehóva með vatnsskírn á móti í júlí 2004.14. (a) Hvað hefur fagnaðarerindið fengið milljónir manna til að gera? (b) Hvaða umhugsunarverðu spurninga gætum við öll spurt okkur?
14 Milljónir manna um heim allan hafa brugðist við fagnaðarerindinu á svipaðan hátt. Þeir hafa yfirgefið þetta illa heimskerfi, afklæðst gamla persónuleikanum, sagt skilið við fyrrverandi félaga sína og gefið veraldleg markmið upp á bátinn. (Jóhannes 15:19; Efesusbréfið 4:22-24; Jakobsbréfið 4:4; 1. Jóhannesarbréf 2:15-17) Hvers vegna gera þeir allt þetta? Vegna þess að þeir meta blessanirnar, sem Guðsríki færir, meira en nokkuð annað sem þetta heimskerfi hefur upp á að bjóða. Hefur fagnaðarerindið sömu áhrif á þig? Hvetur það þig til að gera nauðsynlegar breytingar á lífsstíl þínum, gildismati og markmiðum til að samræmast kröfum Jehóva? Ef þú gerir það nýturðu ríkulegra blessana bæði nú og í framtíðinni.
Hápunktur uppskerustarfsins nálgast
15. Hvað var sagt fyrir að þjónar Guðs myndu gera á hinum síðustu dögum?
15 Sálmaritarinn skrifaði: „Þjóð þín kemur sjálfboða á valdadegi þínum.“ Þeir sem hafa boðið sig fram eru meðal annars „dögg æskuliðs“ Jehóva og „mikill her“ kvenna „sem sigur boða“. (Sálmur 68:12; 110:3) Hver hefur árangurinn orðið á hinum síðustu dögum af dugnaði og fórnfýsi þjóna Jehóva, bæði karla og kvenna, ungra sem aldinna?
16. Nefndu dæmi um hvernig þjónar Guðs leggja sig fram við að hjálpa öðrum að læra um Guðsríki.
16 Systir á Indlandi, sem er brautryðjandi eða boðberi í fullu starfi, velti fyrir sér hvernig hjálpa mætti þeim rúmlega tveimur milljónum heyrnarlausra, sem eru í landinu, að læra um Guðsríki. (Jesaja 35:5) Hún ákvað að skrá sig á táknmálsnámskeið í Bangalore. Þar gat hún sagt mörgum heyrnarlausum frá fagnaðarerindinu og biblíunámshópar voru myndaðir. Eftir fáeinar vikur fóru á annan tug áhugasamra að sækja samkomur í ríkissalnum. Síðar hitti hún í brúðkaupsveislu ungan heyrnarlausan mann frá Kalkútta sem sýndi mikinn áhuga á að vita meira um Jehóva og spurði margra spurninga. En það var úr vöndu að ráða. Ungi maðurinn átti að fara aftur til Kalkútta, um 1600 kílómetra í burtu, til að byrja í háskóla en þar voru engir vottar sem kunnu táknmál. Með mikilli þrautseigju tókst honum að telja pabba sinn á að leyfa sér að fara í skóla í Bangalore í staðinn svo að hann gæti haldið biblíunámi sínu áfram. Hann tók miklum framförum í trúnni og eftir um það bil ár vígði hann Jehóva líf sitt. Hann hélt síðan biblíunámskeið fyrir marga heyrnarlausa, þar á meðal æskuvin. Deildarskrifstofan á Indlandi gerir núna ráðstafanir til að brautryðjendur geti lært táknmál til að sinna þessum hópi.
17. Hvað finnst þér sérstaklega hvetjandi við skýrsluna fyrir þjónustuárið 2004?
17 Skýrsluna um starf Votta Jehóva fyrir þjónustuárið 2004 er að finna í Varðturninum 1. febrúar 2005 á erlendum tungumálum. Gefðu þér stutta stund til að skoða hana og þá sérðu að þjónar Jehóva um alla jörðina leggja sig mjög mikið fram við að leita að ‚dýrmætu perlunni‘ nú á tímum.
„Leitið fyrst ríkis hans“
18. Hvað tók Jesús ekki fram í dæmisögunni um kaupmanninn og hvers vegna ekki?
18 Ef við snúum okkur aftur að dæmisögu Jesú um kaupmanninn veitum við því athygli að Jesús sagði ekkert um það hvernig kaupmaðurinn ætlaði að sjá fyrir sér eftir að hafa selt allt sem hann átti. Sumir spyrja kannski: Hvernig ætlaði kaupmaðurinn að fá mat, föt og húsaskjól núna þegar hann hafði ekkert upp á að hlaupa? Hvaða gagn hafði hann af þessari dýrmætu perlu? Þetta eru rökréttar spurningar út frá efnislegum sjónarhóli. En Jesús hvatti lærisveina sína: „Leitið fyrst ríkis hans og réttlætis, þá mun allt þetta veitast yður að auki.“ (Matteus 6:31-33) Aðalatriðið í dæmisögunni er að við þurfum að sýna Guði heilshugar hollustu og leita Guðsríkis af kappi. Hvað getum við lært af þessu?
19. Hvað getum við lært öðru fremur af dæmisögu Jesú um dýrmætu perluna?
19 Hvort sem við höfum nýlega lært um fagnaðarerindið eða höfum leitað Guðsríkis og sagt öðrum frá blessunum þess í áratugi verðum við að halda áfram að láta líf okkar snúast um Guðsríki. Við lifum á erfiðum tímum en við höfum ríkar ástæður fyrir því að trúa að það sem við keppum að sé raunverulegt og óviðjafnanlegt, líkt og perlan sem kaupmaðurinn fann. Heimsatburðir og uppfylltir biblíuspádómar eru sannfærandi sannanir fyrir því að við lifum við ,endalok veraldar‘. (Matteus 24:3) Við skulum því líkja eftir kaupmanninum með því að leita Guðsríkis af kappi og gleðjast yfir því að fá þann heiður að boða fagnaðarerindið. — Sálmur 9:2, 3.
Manstu?
• Hvað hefur stuðlað að aukningu meðal sannra tilbiðjenda í áranna rás?
• Hvaða viðhorf sýna þeir sem þjóna sem trúboðar?
• Hvaða breytingar hefur fólk gert vegna fagnaðarerindisins?
• Hvaða mikilvæga lærdóm getum við dregið af dæmisögu Jesú um dýrmætu perluna?
[Spurningar]
[Mynd á blaðsíðu 14]
„Sannleikurinn . . . laðar að sér alls konar fólk.“ — A. H. Macmillan
[Mynd á blaðsíðu 15]
Daniela og Helmut prédikuðu fyrir erlendum málhópum í Vín.
[Myndir á blaðsíðu 16]
Trúboðar hljóta ríkulega blessun líkt og kaupmaðurinn í dæmisögu Jesú.
[Mynd á blaðsíðu 17]
„Þjóð þín kemur sjálfboða á valdadegi þínum.“