Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Þjálfuð til að vitna

Þjálfuð til að vitna

Þjálfuð til að vitna

„Þér munuð verða vottar mínir í Jerúsalem og allri Júdeu, í Samaríu og allt til endimarka jarðarinnar.“ — POSTULASAGAN 1:8.

1, 2. Hvaða verkefni hafði Pétur og hver fékk honum það?

„JESÚS frá Nasaret . . . bauð oss að prédika fyrir lýðnum og vitna, að hann er sá dómari lifenda og dauðra, sem Guð hefur fyrirhugað.“ (Postulasagan 10:38, 42) Með þessum orðum skýrði Pétur postuli fyrir Kornelíusi og fjölskyldu hans að hann hefði fengið það verkefni að prédika.

2 Hvenær fékk Jesús lærisveinum sínum þetta verkefni? Pétur var líklega að hugsa um það sem hinn upprisni Jesús sagði rétt áður en hann steig upp til himna. Jesús sagði trúföstum lærisveinum sínum við það tækifæri: „Þér munuð verða vottar mínir í Jerúsalem og allri Júdeu, í Samaríu og allt til endimarka jarðarinnar.“ (Postulasagan 1:8) En Pétur hafði vitað um hríð að sem lærisveinn Jesú yrði hann að tala við aðra um trú sína á hann.

Þjálfun í þrjú ár

3. Hvaða kraftaverk vann Jesús og hvað bauð hann Pétri og Andrési?

3 Nokkrum mánuðum eftir skírn sína árið 29 prédikaði Jesús þar sem bræðurnir Pétur og Andrés unnu sem fiskimenn á Galíleuvatni. Þeir höfðu stritað alla nóttina en ekkert veitt. Jesús sagði þeim samt sem áður: „Legg þú út á djúpið, og leggið net yðar til fiskjar.“ Þeir gerðu það sem Jesús sagði og „fengu þeir þá mikinn fjölda fiska, en net þeirra tóku að rifna“. Pétur varð óttasleginn þegar hann sá þetta kraftaverk en Jesús róaði hann með því að segja: „Óttast þú ekki, héðan í frá skalt þú menn veiða.“ — Lúkas 5:4-10.

4. (a) Hvernig bjó Jesús lærisveinana undir það að vitna? (b) Hvernig yrði boðunarstarf lærisveina Jesú í samanburði við það sem hann gerði sjálfur?

4 Pétur og Andrés yfirgáfu báta sína umsvifalaust og fylgdu Jesú. Hið sama er að segja um Jakob og Jóhannes Sebedeussyni. Í næstum þrjú ár fóru þeir með Jesú í trúboðsferðir og fengu þjálfun í að boða trúna. (Matteus 10:7; Markús 1:16, 18, 20, 38; Lúkas 4:43; 10:9) Þegar þessu tímabili lauk 14. nísan árið 33 sagði Jesús þeim: „Sá sem trúir á mig, mun einnig gjöra þau verk, sem ég gjöri. Og hann mun gjöra meiri verk en þau.“ (Jóhannes 14:12) Lærisveinar Jesú áttu eftir að vitna rækilega líkt og hann en í mun víðtækari mæli. Eins og þeir gerðu sér fljótlega grein fyrir áttu þeir og allir væntanlegir lærisveinar að vitna meðal ,allra þjóða‘ allt til „enda veraldar“. — Matteus 28:19, 20.

5. Hvernig getum við haft gagn af þeirri þjálfun sem Jesús veitti fylgjendum sínum?

5 Við lifum við ,endalok veraldar‘. (Matteus 24:3) Ólíkt fyrstu lærisveinunum getum við ekki verið með Jesú og fylgst með honum prédika fyrir fólki. Við getum samt haft gagn af þjálfuninni, sem hann veitti, með því að lesa í Biblíunni um boðunaraðferðir hans og þau fyrirmæli sem hann gaf fylgjendum sínum. (Lúkas 10:1-11) En í þessari grein verður fjallað um annað sem Jesús sýndi lærisveinum sínum fram á að væri mikilvægt — að hafa rétta afstöðu til boðunarstarfsins.

Umhyggja fyrir fólki

6, 7. Hvaða eiginleiki Jesú gerði þjónustu hans áhrifaríka og hvernig getum við líkt eftir honum?

6 Hvers vegna var boðunarstarf Jesú svona áhrifaríkt? Ein ástæðan fyrir því er sú að hann bar umhyggju fyrir fólki og hafði einlægan áhuga á því. Sálmaritarinn sagði fyrir að Jesús myndi „aumkast yfir bágstadda og snauða“. (Sálmur 72:13) Hann uppfyllti greinilega þennan spádóm. Í Biblíunni er sagt svo frá einu atviki: „Er hann sá mannfjöldann, kenndi hann í brjósti um þá, því þeir voru hrjáðir og umkomulausir eins og sauðir, er engan hirði hafa.“ (Matteus 9:36) Jafnvel stórsyndugt fólk skynjaði umhyggju hans og laðaðist að honum. — Matteus 9:9-13; Lúkas 7:36-38; 19:1-10.

7 Við getum að sama skapi vitnað með áhrifaríkum hætti ef við berum slíka umhyggju fyrir fólki. Áður en við förum út í boðunarstarfið gæti verið gott að taka sér smástund til að hugleiða hversu brýna þörf fólk hefur fyrir það sem við erum að færa því. Hugsaðu um vandamál fólks sem aðeins Guðsríki getur leyst. Vertu staðráðinn í að vera jákvæður í garð allra þar sem þú veist ekki hverjir hlusta á boðskapinn. Næsti einstaklingur, sem þú talar við, gæti hafa verið að biðja Guð um að senda einhvern á borð við þig til að hjálpa sér.

Knúin af kærleika

8. Af hvaða hvötum boða fylgjendur Jesú fagnaðarerindið?

8 Fagnaðarerindið, sem Jesús boðaði, fjallaði um að vilji Jehóva yrði að veruleika, að nafn hans yrði helgað og drottinvald hans upphafið en það eru mikilvægustu málin sem varða mannkynið. (Matteus 6:9, 10) Þar eð Jesús elskaði föður sinn varðveitti hann ráðvendni sína allt til enda og vitnaði rækilega um Guðsríki sem kemur öllu þessu til leiðar. (Jóhannes 14:31) Fylgjendur Jesú nú á dögum eru kappsamir í boðunarstarfinu af því að sama hvöt býr að baki hjá þeim. Jóhannes postuli sagði: „Í þessu birtist elskan til Guðs, að vér höldum hans boðorð,“ eins og það að boða fagnaðarerindið og gera menn að lærisveinum. — 1. Jóhannesarbréf 5:3; Matteus 28:19, 20.

9, 10. Hvern elskum við líka og hvernig hvetur það okkur til að vitna rækilega?

9 Jesús sagði fylgjendum sínum: „Ef þér elskið mig, munuð þér halda boðorð mín. Sá sem hefur boðorð mín og heldur þau, hann er sá sem elskar mig.“ (Jóhannes 14:15, 21) Kærleikur til Jesú ætti því að hvetja okkur til að boða sannleikann og gera allt annað sem Jesús bauð okkur. Þegar Jesús birtist eitt sinn eftir upprisu sína hvatti hann Pétur: „Gæt þú lamba minna. . . . Ver hirðir sauða minna. . . . Gæt þú sauða minna.“ Af hvaða hvötum átti Pétur að gera þetta? Jesús gaf það til kynna þegar hann spurði Pétur endurtekið: „Elskar þú mig? . . . Elskar þú mig? . . . Elskar þú mig?“ Já, kærleikur Péturs til Jesú myndi knýja hann til að vitna rækilega, finna ,sauði‘ hans og vera síðan andlegur hirðir þeirra. — Jóhannes 21:15-17.

10 Við þekkjum ekki Jesú í eigin persónu eins og Pétur gerði. Við höfum engu að síður góðan skilning á því sem hann gerði fyrir okkur. Við erum snortin af þeim mikla kærleika sem fékk hann til að „deyja fyrir alla“. (Hebreabréfið 2:9; Jóhannes 15:13) Okkur er eins innanbrjósts og Páli þegar hann skrifaði: „Kærleiki Krists knýr oss . . . Hann er dáinn fyrir alla, til þess að þeir, sem lifa, lifi ekki framar sjálfum sér, heldur honum.“ (2. Korintubréf 5:14, 15) Við sýnum að kærleikur Jesú er okkur mikils virði og að við elskum hann með því að vinna af alúð að því verkefni að bera rækilega vitni. (1. Jóhannesarbréf 2:3-5) Við viljum alls ekki vera skeytingarlaus um boðunarstarfið rétt eins og við álitum fórn Jesú lítils virði. — Hebreabréfið 10:29.

Einbeittu þér að því sem máli skiptir

11, 12. Í hvaða tilgangi kom Jesús til jarðar og hvernig sýndi hann að hann hafði réttar áherslur?

11 Jesú sagði þegar hann stóð frammi fyrir Pontíusi Pílatusi: „Til þess er ég fæddur og til þess er ég kominn í heiminn, að ég beri sannleikanum vitni.“ (Jóhannes 18:37) Jesús lét ekkert draga athygli sína frá því að bera sannleikanum vitni. Það var það sem Guð ætlaðist fyrir með hann.

12 Satan reyndi Jesú á þessu sviði. Stuttu eftir skírn Jesú bauðst Satan til að gera hann að stórmenni í heiminum og gefa honum „öll ríki heims og dýrð þeirra“. (Matteus 4:8, 9) Síðar vildu Gyðingar gera hann að konungi. (Jóhannes 6:15) Sumir velta kannski fyrir sér hverju Jesús hefði getað komið til leiðar ef hann hefði þegið þessi boð. Þeir álykta ef til vill sem svo að Jesús hefði getað gert margt gott fyrir mannkynið ef hann hefði orðið konungur hér á jörð. En Jesús hugsaði ekki þannig. Hann einbeitti sér að því að bera sannleikanum vitni.

13, 14. (a) Hvað auðveldaði Jesú að einbeita sér að því að gera vilja Guðs? (b) Hverju áorkaði Jesús þótt hann ætti lítið?

13 Jesús sóttist ekki heldur eftir auðlegð og það hjálpaði honum að einbeita sér að því að gera vilja Guðs. Fyrir vikið lifði hann ekki í vellystingum. Hann átti ekki einu sinni eigið heimili. Eitt sinn sagði hann: „Refar eiga greni og fuglar himins hreiður, en Mannssonurinn á hvergi höfði sínu að að halla.“ (Matteus 8:20) Þegar Jesús dó var eina verðmæta eign hans, sem getið er um, flíkin sem rómverskir hermenn köstuðu hlut um. (Jóhannes 19:23, 24) Var líf hans þá misheppnað? Engan veginn!

14 Jesús áorkaði meiru en auðugasti velgerðarmaður hefði nokkurn tíma getað gert. Páll sagði: „Þér þekkið náð Drottins vors Jesú Krists. Hann gjörðist fátækur yðar vegna, þótt ríkur væri, til þess að þér auðguðust af fátækt hans.“ (2. Korintubréf 8:9; Filippíbréfið 2:5-8) Þótt fátækur væri gerði Jesús auðmjúkum mönnum kleift að öðlast fullkomið eilíft líf. Við erum honum afar þakklát. Og við gleðjumst stórlega yfir umbuninni sem hann fékk fyrir að einbeita sér að því að gera vilja Guðs. — Sálmur 40:9; Postulasagan 2:32, 33, 36.

15. Hvað er meira virði en auðlegð?

15 Kristnir menn, sem leggja sig fram um að líkja eftir Jesú nú á dögum, sækjast ekki heldur eftir auðlegð því að það gæti truflað einbeitni þeirra. (1. Tímóteusarbréf 6:9, 10) Þeir gera sér grein fyrir að gnægð fjár getur gert lífið þægilegt en þeir vita að eilífa lífið er ekki undir því komið. Þegar kristinn maður deyr eru eignir hans engu verðmætari fyrir hann en flíkin var Jesú þegar hann dó. (Prédikarinn 2:10, 11, 17-19; 7:12) Það eina sem hefur raunverulegt gildi fyrir kristinn mann þegar hann deyr er samband hans við Jehóva og Jesú Krist. — Matteus 6:19-21; Lúkas 16:9.

Við hræðumst ekki andstöðu

16. Hvernig brást Jesús við andstöðu?

16 Andstaða dró ekki athygli Jesú frá því að bera sannleikanum vitni. Hann lét ekki hugfallast þó að hann vissi að þjónustu hans á jörð myndi ljúka með fórnardauða. Páll sagði um Jesú: „Vegna gleði þeirrar, er beið hans, leið hann þolinmóðlega á krossi, mat smán einskis og hefur nú setst til hægri handar hásæti Guðs.“ (Hebreabréfið 12:2) Taktu eftir að Jesús „mat smán einskis“. Hann hafði ekki áhyggjur af því hvað andstæðingum fannst um hann. Hann einbeitti sér að því að gera vilja Guðs.

17. Hvað getum við lært af þolgæði Jesú?

17 Páll bendir á þolgæði Jesú til að hvetja kristna menn og segir: „Virðið hann fyrir yður, sem þolað hefur slíkan fjandskap gegn sér af syndurum, til þess að þér þreytist ekki og látið hugfallast.“ (Hebreabréfið 12:3) Það getur vissulega verið þreytandi að verða fyrir andstöðu og háði dag eftir dag. Það getur reynt mikið á okkur að standast freistingar heimsins. Ef til vill eru ættingjar okkar óánægðir með okkur og vilja að við látum „verða eitthvað úr okkur“. Við erum hins vegar staðráðin í að láta Guðsríki skipa fyrsta sætið í lífinu og við leitum til Jehóva eftir stuðningi líkt og Jesús gerði. — Matteus 6:33; Rómverjabréfið 15:13; 1. Korintubréf 2:4.

18. Hvaða góða lærdóm getum við dregið af því sem Jesús sagði við Pétur?

18 Þegar Jesús fór að segja lærisveinunum frá væntanlegum dauða sínum kom vel í ljós að hann vildi ekki láta neitt trufla sig. Pétur hvatti Jesú til að hlífa sér og sagði við hann: „Þetta má aldrei fyrir þig koma.“ Jesús neitaði að hlusta á nokkuð sem gæti veikt þann ásetning hans að gera vilja Jehóva. Hann sneri baki við Pétri og sagði: „Vík frá mér, Satan, þú ert mér til ásteytingar, þú hugsar ekki um það, sem Guðs er, heldur það, sem manna er.“ (Matteus 16:21-23) Við skulum ávallt vera jafn-ákveðin í að hafna hugsunarhætti manna og láta vilja Guðs stýra skrefum okkar.

Guðsríki veitir raunveruleg gæði

19. Hver var mikilvægasti þátturinn í þjónustu Jesú þó að hann hafi unnið mörg kraftaverk?

19 Jesús gerði mörg kraftaverk til að sýna fram á að hann væri Messías. Hann reisti fólk jafnvel upp frá dauðum. Þessi verk drógu að fólk en Jesús kom ekki til jarðar eingöngu til að vinna líknarstarf. Hann kom til að bera sannleikanum vitni. Hann vissi að kraftaverkin, sem hann vann, gerðu ekki varanlegt gagn. Jafnvel þeir sem hann hafði reist upp frá dauðum dóu aftur. Enginn maður gat hlotið eilíft líf nema Jesús bæri sannleikanum vitni. — Lúkas 18:28-30.

20, 21. Hvernig sýna sannkristnir menn jafnvægi þegar kemur að því að vinna góðverk?

20 Nú á dögum reyna sumir að líkja eftir góðverkum Jesú með því að reka sjúkrahús eða hjálpa fátækum með öðrum hætti. Sumir leggja mikið í sölurnar og einlægni þeirra er hrósverð. En hjálp þeirra er í besta falli tímabundin. Aðeins Guðsríki getur veitt hjálp sem hefur varanlegt gildi. Vottar Jehóva einbeita sér þess vegna að því að bera sannleikanum um Guðsríki vitni.

21 Sannkristnir menn vinna auðvitað góðverk. Páll skrifaði: „Þess vegna skulum vér, meðan tími er til, gjöra öllum gott og einkum trúbræðrum vorum.“ (Galatabréfið 6:10) Þegar erfiðleikar steðja að eða neyð ber að dyrum hikum við ekki við að gera nágrönnum og trúsystkinum gott. Engu að síður einbeitum við okkur fyrst og fremst að því sem mestu máli skiptir — að bera sannleikanum vitni.

Lærum af fordæmi Jesú

22. Hvers vegna prédika kristnir menn fyrir náunganum?

22 Páll skrifaði: „Já, vei mér, ef ég boðaði ekki fagnaðarerindið.“ (1. Korintubréf 9:16) Hann var ekki kærulaus gagnvart því að boða fagnaðarerindið af því að boðunarstarfið hafði eilíft líf í för með sér fyrir hann og áheyrendur hans. (1. Tímóteusarbréf 4:16) Við lítum þjónustu okkar sömu augum. Við viljum gera náunganum gagn. Við viljum sýna kærleika okkar til Jehóva. Við viljum sýna að við elskum Jesú og kunnum að meta hinn mikla kærleika hans til okkar. Þess vegna boðum við fagnaðarerindið og lifum ,ekki framar í mannlegum fýsnum, heldur lifum við tímann, sem eftir er, að vilja Guðs‘. — 1. Pétursbréf 4:1, 2.

23, 24. (a) Hvaða lærdóm getum við dregið af undraverða fiskaflanum? (b) Hverjir vitna rækilega nú á dögum?

23 Við líkjum eftir Jesú með því að missa ekki sjónar á því sem mestu máli skiptir þegar fólk hæðist að okkur eða hafnar boðskapnum reiðilega. Við getum lært af kraftaverkinu sem Jesús gerði þegar hann bauð Pétri og Andrési að fylgja sér. Við sjáum að ef við hlýðum Jesú og leggjum net okkar, ef svo má að orði komast, þó að veiðivon sé ekki mikil gæti árangurinn orðið góður. Margir kristnir veiðimenn hafa náð góðum afla eftir margra ára starf á „fiskimiðum“ þar sem veiðivon virtist lítil. Aðrir hafa getað flutt sig á gjöfulli mið og náð inn góðum afla þar. Hvað svo sem við gerum hættum við ekki að leggja netin. Við vitum að Jesús hefur enn ekki sagt boðunarstarfinu lokið nokkurs staðar á jörðinni. — Matteus 24:14.

24 Núna eru meira en sex milljónir votta Jehóva önnum kafnar í boðunarstarfinu í yfir 230 löndum. Í Varðturninum 1. febrúar 2005 á erlendum málum er að finna skýrslu um starf þeirra á þjónustuárinu 2004. Héðan í frá verður ársskýrslan birt í því tölublaði. Þessi skýrsla sýnir að Jehóva blessar boðunarstarfið ríkulega. Þann tíma, sem eftir er af þessu heimskerfi, skulum við halda áfram að fara eftir sterkri hvatningu Páls: „Prédika þú orðið, gef þig að því.“ (2. Tímóteusarbréf 4:2) Höldum áfram að bera rækilega vitni þangað til Jehóva segir að þessu starfi sé lokið.

Geturðu svarað?

• Hvernig getum við haft gagn af þeirri þjálfun sem Jesús veitti lærisveinum sínum?

• Hvernig leit Jesús á fólkið sem hann prédikaði fyrir?

• Hvað hvetur okkur til að vitna rækilega?

• Hvernig getum við einbeitt okkur að því að gera vilja Guðs eins og Jesús?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 15]

Boðunarstarf okkar verður árangursríkt ef við berum umhyggju fyrir fólki, líkt og Jesús.

[Mynd á blaðsíðu 16]

Jesús kom til jarðar fyrst og fremst til að bera sannleikanum vitni.

[Myndir á blaðsíðu 17]

Vottar Jehóva einbeita sér að því að bera rækilega vitni.