Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Fylgjum fordæmi Jesú

Fylgjum fordæmi Jesú

Fylgjum fordæmi Jesú

„Ég hef gefið yður eftirdæmi, að þér breytið eins og ég breytti við yður.“ — JÓHANNES 13:15.

1. Hvers vegna er Jesús fyrirmynd kristinna manna?

AÐEINS einn maður í sögu mannkynsins hefur verið syndlaus alla ævi. Maðurinn er Jesús. Allir aðrir menn hafa syndgað. (1. Konungabók 8:46; Rómverjabréfið 3:23) Þess vegna líta sannkristnir menn svo á að Jesús sé þeim fullkomin fyrirmynd. Skömmu fyrir dauða sinn, 14. nísan árið 33, sagði Jesús sjálfur að fylgjendur sínir ættu að líkja eftir sér. Hann sagði: „Ég hef gefið yður eftirdæmi, að þér breytið eins og ég breytti við yður.“ (Jóhannes 13:15) Þetta var síðasta kvöldið sem Jesús átti með fylgjendum sínum og þá nefndi hann nokkur dæmi um hvernig þeir gætu líkt eftir honum. Í þessari grein ætlum við að taka sum þeirra til umfjöllunar.

Auðmýkt er mikilvæg

2, 3. Á hvaða vegu var Jesús fullkomið fordæmi í auðmýkt?

2 Þegar Jesús hvatti fylgjendur sína til að feta í fótspor sín átti hann einkum og sér í lagi við auðmýkt. Oftar en einu sinni hafði hann ráðlagt þeim að vera lítillátir. Kvöldið 14. nísan sýndi hann hve auðmjúkur hann var með því að þvo fætur postula sinna. Síðan sagði hann: „Fyrst ég, sem er herra og meistari, hef nú þvegið yður um fæturna, þá ber yður einnig að þvo hver annars fætur.“ (Jóhannes 13:14) Eftir það sagði hann postulunum að fylgja fordæmi sínu. Þetta var afbragðsfordæmi í auðmýkt.

3 Páll postuli segir okkur að Jesús hafi ,verið í Guðs mynd‘ áður en hann kom til jarðar. Engu að síður svipti hann sig öllu og varð lítilmótlegur maður. Og það sem meira er, hann „lægði sjálfan sig og varð hlýðinn allt til dauða, já, dauðans á krossi“. (Filippíbréfið 2:6-8) Veltu þessu aðeins fyrir þér. Jesús, næstæðsta veran í alheiminum, féllst á að verða lægri englunum, fæðast sem hjálparvana hvítvoðungur, vaxa úr grasi hlýðinn ófullkomnum foreldrum og loks að deyja eins og fyrirlitinn glæpamaður. (Kólossubréfið 1:15, 16; Hebreabréfið 2:6, 7) Hvílík auðmýkt! Getum við líkt eftir „hugarfari“ Jesú og ræktað með okkur slíkt ,lítillæti‘? (Filippíbréfið 2:3-5) Já, en það er ekki auðvelt.

4. Hvað gerir menn stolta en hvers vegna er stolt hættulegt?

4 Stolt er andstæða lítillætis. (Orðskviðirnir 6:16-19) Stolt varð Satan að falli. (1. Tímóteusarbréf 3:6) Það skýtur auðveldlega rótum í mannshjartanu og er erfitt að uppræta. Fólk er hreykið af landi sínu, kynþætti, eignum, menntun, afrekum, þjóðfélagsstöðu, útliti, íþróttahæfileikum og mörgu öðru. En ekkert af þessu er mikilvægt í augum Jehóva. (1. Korintubréf 4:7) Ef þessir hlutir gera okkur stolt skaða þeir samband okkar við hann. „Drottinn er hár og sér þó hina lítilmótlegu og þekkir hinn drambláta í fjarska.“ — Sálmur 138:6; Orðskviðirnir 8:13.

Verum auðmjúk meðal trúsystkina okkar

5. Hvers vegna þurfa öldungar að vera lítillátir?

5 Þátttaka okkar og árangur í þjónustu Jehóva ætti ekki einu sinni að gera okkur stolt og heldur ekki störf okkar í söfnuðinum. (1. Kroníkubók 29:14; 1. Tímóteusarbréf 6:17, 18) Því meiri sem ábyrgðin er þeim mun lítillátari þurfum við að vera. Pétur postuli brýndi það fyrir öldungum að ,drottna ekki yfir söfnuðinum, heldur vera fyrirmynd hjarðarinnar‘. (1. Pétursbréf 5:3) Öldungar eru útnefndir til að vera þjónar og öðrum til fyrirmyndar en ekki drottnarar og meistarar. — Lúkas 22:24-26; 2. Korintubréf 1:24.

6. Á hvaða sviðum þurfa kristnir menn að vera auðmjúkir?

6 Öldungar eru ekki þeir einu sem þurfa að vera auðmjúkir. Pétur skrifaði ungum mönnum sem eru ef til vill stoltir af því að vera hraustir og skarpir í hugsun samanborið við þá sem eldri eru: „Skrýðist allir lítillætinu hver gagnvart öðrum, því að ,Guð stendur gegn dramblátum, en auðmjúkum veitir hann náð‘.“ (1. Pétursbréf 5:5) Það er afar brýnt að allir séu lítillátir eins og Kristur. Við þurfum að vera auðmjúk til að boða fagnaðarerindið, einkum þegar við finnum fyrir sinnuleysi eða óvild á starfssvæðinu. Það krefst auðmýktar að þiggja ráðleggingar eða að einfalda líf okkar til að geta tekið meiri þátt í boðunarstarfinu. Auk þess þurfum við auðmýkt ásamt trú og hugrekki þegar við verðum fyrir slæmri umfjöllun, þegar reynt er að beita lögum gegn okkur eða við erum ofsótt grimmilega. — 1. Pétursbréf 5:6.

7, 8. Hvernig getum við lært að vera auðmjúk?

7 Hvernig getur einstaklingur unnið bug á stolti, ,verið lítillátur og metið aðra meira en sjálfan sig‘? (Filippíbréfið 2:3) Hann þarf að líta sjálfan sig sömu augum og Jehóva gerir. Jesús sagði eftirfarandi um það viðhorf sem við ættum að hafa: „Eins skuluð þér segja, þá er þér hafið gjört allt, sem yður var boðið: ‚Ónýtir þjónar erum vér, vér höfum gjört það eitt, sem vér vorum skyldir að gjöra.‘“ (Lúkas 17:10) Mundu að ekkert sem við getum gert kemst í samjöfnuð við það sem Jesús gerði. Samt var Jesús auðmjúkur.

8 Við getum líka beðið Jehóva um hjálp til að læra að líta sjálf okkur réttum augum. Við getum beðið eins og sálmaritarinn: „Kenn mér góð hyggindi og þekkingu, því að ég trúi á boð þín.“ (Sálmur 119:66) Jehóva hjálpar okkur að vera skynsöm og sjá sjálf okkur í réttu ljósi og hann umbunar okkur auðmýktina. (Orðskviðirnir 18:12) Jesús sagði: „Hver sem upp hefur sjálfan sig, mun auðmýktur verða, en sá sem auðmýkir sjálfan sig, mun upp hafinn verða.“ — Matteus 23:12.

Að elska hið rétta og hata hið ranga

9. Hvernig leit Jesús á rétt og rangt?

9 Þrátt fyrir að Jesús hafi verið 33 ár meðal ófullkominna manna var hann „án syndar“. (Hebreabréfið 4:15) Sálmaritarinn sagði í spádómi um Messías: „Þú elskar réttlæti og hatar ranglæti.“ (Sálmur 45:8; Hebreabréfið 1:9) Kristnir menn leggja sig fram um að líkja eftir Jesú á þessu sviði. Þeir vita ekki aðeins muninn á réttu og röngu heldur hata þeir hið ranga og elska hið rétta. (Amos 5:15) Þetta hjálpar þeim að berjast gegn meðfæddri tilhneigingu til að syndga. — 1. Mósebók 8:21; Rómverjabréfið 7:21-25.

10. Hvaða viðhorf sýnum við ef við ,gerum illt‘ og iðrumst ekki?

10 Jesús sagði við faríseann Nikódemus: „Hver sem illt gjörir hatar ljósið og kemur ekki til ljóssins, svo að verk hans verði ekki uppvís. En sá sem iðkar sannleikann kemur til ljóssins, svo að augljóst verði, að verk hans eru í Guði gjörð.“ (Jóhannes 3:20, 21) Veltu þessu fyrir þér: Jóhannes sagði að Jesús væri „hið sanna ljós, sem upplýsir hvern mann“. (Jóhannes 1:9, 10) Jesús sagði hins vegar að við hötum ljósið ef við ,gerum illt‘, það er að segja hluti sem eru vanþóknanlegir Guði. Geturðu ímyndað þér að hata Jesú og það sem hann kenndi? Það er engu að síður það sem iðrunarlausir syndarar gera. Þeir líta kannski ekki þannig á málið en Jesús gerir það augljóslega.

Að læra að líta rétt og rangt sömu augum og Jesús

11. Hvað er mikilvægt að gera til að læra að líta rétt og rangt sömu augum og Jesús?

11 Við þurfum að skilja vel hvað er rétt og rangt í augum Jehóva. Þennan skilning fáum við aðeins með námi í orði Guðs, Biblíunni. Þegar við nemum ættum við að biðja eins og sálmaritarinn: „Vísa mér vegu þína, Drottinn, kenn mér stigu þína.“ (Sálmur 25:4) En mundu að Satan getur blekkt. (2. Korintubréf 11:14) Hann getur dulbúið hið ranga og látið það líta út fyrir að vera rétt í augum kristinna manna sem gæta sín ekki. Við þurfum þess vegna að hugleiða vandlega það sem við lærum og fara samviskusamlega eftir ráðleggingum hins ,trúa og hyggna þjóns‘. (Matteus 24:45-47) Með því að nema, biðja og hugleiða það sem við lærum getum við þroskast og verið meðal þeirra „sem jafnt og þétt hafa tamið skilningarvitin til að greina gott frá illu“. (Hebreabréfið 5:14) Þá verður okkur eðlilegt að hata hið ranga en elska hið rétta.

12. Hvaða ráðlegging í Biblíunni hjálpar okkur að forðast hið ranga?

12 Ef við hötum það sem rangt er leyfum við ekki að löngun í hið ranga festi rætur í hjarta okkar. Jóhannes postuli skrifaði mörgum árum eftir dauða Jesú: „Elskið ekki heiminn, ekki heldur þá hluti, sem í heiminum eru. Sá sem elskar heiminn, á ekki í sér kærleika til föðurins. Því að allt það, sem í heiminum er, fýsn holdsins og fýsn augnanna og auðæfa-oflæti, það er ekki frá föðurnum, heldur er það frá heiminum.“ — 1. Jóhannesarbréf 2:15, 16.

13, 14. (a) Hvers vegna er hættulegt fyrir kristinn mann að fara að elska heiminn? (b) Hvernig getum við komið í veg fyrir að við förum að elska þá hluti sem í heiminum eru?

13 Sumir hugsa kannski sem svo að það sé nú ekki allt rangt sem er í heiminum. Hvað sem því líður getur heimurinn og það sem hann hefur upp á að bjóða auðveldlega dregið athygli okkar frá þjónustunni við Jehóva. Auk þess er ekkert í heiminum til þess gert að styrkja samband okkar við Guð. Ef við förum að elska það sem í heiminum er, jafnvel hluti sem eru í sjálfu sér ekki rangir, erum við á hættulegri braut. (1. Tímóteusarbréf 6:9, 10) Auk þess er heimurinn uppfullur af slæmum hlutum sem geta spillt okkur. Ef við horfum á kvikmyndir eða sjónvarpsþætti sem ganga út á ofbeldi, efnishyggju eða kynferðislegt siðleysi gæti okkur farið að þykja það ásættanlegt, og síðan freistandi. Ef við umgöngumst fólk, sem leggur mesta áherslu á að auka lífsgæðin og hagnast á viðskiptum, gæti það líka orðið aðalmarkmið okkar. — Matteus 6:24; 1. Korintubréf 15:33.

14 Ef við höfum hins vegar yndi af orði Jehóva hverfur mesti glansinn af „fýsn holdsins og fýsn augnanna og auðæfa-oflæti“. Og ef við umgöngumst þá sem setja hagsmuni Guðsríkis í fyrsta sæti verðum við eins og þeir, það er að segja við förum elska það sem þeir elska og forðast það sem þeir forðast. — Sálmur 15:4; Orðskviðirnir 13:20.

15. Hvernig styrkir það okkur að elska réttlæti og hata ranglæti líkt og Jesús gerði?

15 Þar sem Jesús hataði ranglæti og elskaði réttlæti átti hann auðveldara með að beina sjónum sínum til ,gleðinnar sem beið hans‘. (Hebreabréfið 12:2) Þannig getur það líka verið hjá okkur. Við vitum að „heimurinn fyrirferst og fýsn hans“. Allar nautnir í heiminum eru aðeins stundlegar. „En sá, sem gjörir Guðs vilja, varir að eilífu.“ (1. Jóhannesarbréf 2:17) Jesús gerði vilja Guðs og opnaði þannig leiðina fyrir menn til að öðlast eilíft líf. (1. Jóhannesarbréf 5:13) Líkjum öll eftir honum og njótum góðs af ráðvendni hans.

Að standast ofsóknir

16. Hvers vegna hvatti Jesús fylgjendur sína til að elska hver annan?

16 Jesús tiltók annað sem lærisveinar hans áttu að líkja eftir þegar hann sagði: „Þetta er mitt boðorð, að þér elskið hver annan, eins og ég hef elskað yður.“ (Jóhannes 15:12, 13, 17) Það eru margar ástæður fyrir því að kristnir menn elska trúsystkini sín. Þegar Jesús sagði þetta var hann fyrst og fremst að hugsa um hatur heimsins á þeim. Hann sagði: „Ef heimurinn hatar yður, þá vitið, að hann hefur hatað mig fyrr en yður. . . . Þjónn er ekki meiri en herra hans. Hafi þeir ofsótt mig, þá munu þeir líka ofsækja yður.“ (Jóhannes 15:18, 20) Já, kristnir menn eru líka ofsóttir eins og Jesús. Þeir þurfa að bindast sterkum kærleiksböndum en það hjálpar þeim að standast hatrið.

17. Hvers vegna hatar heimurinn sannkristna menn?

17 Hvers vegna myndi heimurinn hata kristna menn? Vegna þess að „þeir eru ekki af heiminum“ frekar en Jesús. (Jóhannes 17:14, 16) Þeir eru hlutlausir gagnvart hernaði og stjórnmálum og þeir fara eftir meginreglum Biblíunnar með því að virða heilagleika lífsins og lifa eftir háleitum siðferðisreglum. (Postulasagan 15:28, 29; 1. Korintubréf 6:9-11) Meginmarkmið þeirra eru andleg en ekki veraldleg. Þeir búa í heiminum en nota hann ekki til hins ýtrasta eins og Páll benti á. (1. Korintubréf 7:31) Sumir hafa að vísu dáðst að háleitu siðgæði votta Jehóva. En vottar Jehóva gera ekki tilslakanir til að fá aðdáun eða viðurkenningu annarra. Fyrir vikið skilja fæstir í heiminum þá og margir hata þá.

18, 19. Hvernig fylgja kristnir menn fordæmi Jesú þegar þeir verða fyrir andstöðu og ofsóknum?

18 Postular Jesú urðu vitni að áköfu hatri heimsins þegar Jesús var handtekinn og líflátinn, og þeir sáu hvernig hann brást við þessu hatri. Trúarlegir andstæðingar hans komu í Getsemanegarðinn til að handtaka hann. Pétur reyndi að verja hann með sverði en Jesús sagði við hann: „Slíðra sverð þitt! Allir, sem sverði bregða, munu fyrir sverði falla.“ (Matteus 26:52; Lúkas 22:50, 51) Fyrr á tímum höfðu Ísraelsmenn barist með vopnum gegn óvinum sínum. En núna hafði orðið breyting á. Guðsríki var „ekki af þessum heimi“ og hafði engin landamæri að verja. (Jóhannes 18:36) Pétur átti bráðlega að verða hluti af andlegri þjóð og þeir sem hana mynduðu áttu að eiga þegnrétt á himnum. (Galatabréfið 6:16; Filippíbréfið 3:20, 21) Fylgjendur Jesú myndu því bregðast við hatri og ofsóknum eins og hann — óttalaust en friðsamlega. Þeir myndu leggja málin í hendur Jehóva og treysta því að hann gæfi þeim styrk til að standast. — Lúkas 22:42.

19 Pétur skrifaði mörgum árum síðar: „Kristur leið einnig fyrir yður og lét yður eftir fyrirmynd, til þess að þér skylduð feta í hans fótspor. . . . Hann illmælti eigi aftur, er honum var illmælt, og hótaði eigi, er hann leið, heldur gaf það í hans vald, sem réttvíslega dæmir.“ (1. Pétursbréf 2:21-23) Eins og Jesús varaði við hafa kristnir menn mátt sæta hörðum ofsóknum í áranna rás. Bæði á fyrstu öld og á okkar tímum hafa kristnir menn fylgt fordæmi Jesú og sýnt af sér þolgæði, trúfesti og friðsemd. (Opinberunarbókin 2:9, 10) Við skulum öll vera friðsöm og ráðvönd eins og þeir þegar við lendum í sambærilegum aðstæðum. — 2. Tímóteusarbréf 3:12.

,Íklæðist Drottni Jesú Kristi‘

20-22. Á hvaða hátt ,íklæðast kristnir menn Drottni Jesú Kristi‘?

20 Páll skrifaði söfnuðinum í Róm: „Íklæðist . . . Drottni Jesú Kristi, og alið ekki önn fyrir holdinu, svo að það verði til að æsa girndir.“ (Rómverjabréfið 13:14) Kristnir menn klæðast Jesú Kristi eins og flík ef svo má að orði komast. Þeir leggja sig fram um að líkja eftir eiginleikum hans og verkum þannig að þeir verði spegilmynd meistara síns þótt ófullkomnir séu. — 1. Þessaloníkubréf 1:6.

21 Við getum ,íklæðst Jesú Kristi‘ ef við kynnumst lífi hans og reynum eftir fremsta megni að lifa eins og hann lifði. Við líkjum eftir honum á ýmsa vegu. Hann var auðmjúkur og elskaði bræður sína. Hann var ekki hluti af heiminum, hann var þolgóður í þjáningum og elskaði réttlætið en hataði ranglætið. Við ,ölum ekki önn fyrir holdinu‘, það er að segja að við látum ekki lífið snúast um að ná veraldlegum markmiðum eða að fullnægja holdlegum löngunum. Við spyrjum heldur þegar við tökum ákvörðun eða leysum vandamál: „Hvað hefði Jesús gert í þessari aðstöðu? Hvað hefði hann viljað að ég gerði?“

22 Að síðustu líkjum við eftir Jesú með því að ,prédika fagnaðarerindið‘ af kappi. (Matteus 4:23; 1. Korintubréf 15:58) Kristnir menn fylgja fordæmi hans líka að þessu leyti. Næsta grein tekur þetta atriði til umfjöllunar.

Geturðu útskýrt?

• Hvers vegna er auðmýkt mikilvæg fyrir kristinn mann?

• Hvernig getum við lært að líta rétt og rangt sömu augum og Jesús?

• Á hvaða hátt líkja kristnir menn eftir viðbrögðum Jesú við andstöðu og ofsóknum?

• Hvernig er hægt að ,íklæðast Drottni Jesú Kristi‘?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 8]

Jesús setti fullkomið fordæmi í auðmýkt.

[Mynd á blaðsíðu 10]

Kristinn maður þarf að vera auðmjúkur á öllum sviðum lífsins, þar á meðal í boðunarstarfinu.

[Mynd á blaðsíðu 11]

Satan getur látið óviðeigandi skemmtun virðast boðlega fyrir kristinn mann.

[Mynd á blaðsíðu 12]

Bróðurkærleikurinn styrkir okkur þegar við verðum fyrir andstöðu.