Orðastríð — hvers vegna eru þau skaðleg?
Orðastríð — hvers vegna eru þau skaðleg?
„Af hverju koma stríð og af hverju sennur meðal yðar?“ — JAKOBSBRÉFIÐ 4:1.
BIBLÍURITARINN Jakob beindi þessari spurningu hvorki til hermanna í hersveitum Rómar, sem voru þá í landvinningastríði, né var hann að kanna hvað lægi að baki skæruhernaði gyðingahópsins Sicarii á fyrstu öldinni, mannanna með rýtingana. Jakob hafði í huga deilur manna á milli vegna þess að þær eru skaðlegar eins og stríð. Athugum eftirfarandi biblíufrásögur.
Synir ættföðurins Jakobs hötuðu Jósef bróður sinn svo mikið að þeir seldu hann í þrældóm. (1. Mósebók 37:4-28) Öldum síðar reyndi Sál Ísraelskonungur að drepa Davíð. Af hverju? Af því að hann var öfundsjúkur út í Davíð. (1. Samúelsbók 18:7-11; 23:14, 15) Evodía og Sýntýke, kristnar konur á fyrstu öldinni, spilltu friðnum innan heils safnaðar með þrætum sínum. — Filippíbréfið 4:2.
Þegar nær dró okkar dögum jöfnuðu menn ágreining sín á milli með því að heyja einvígi og gerðu út um málin með sverðum eða byssum. Annar einvígismannanna var oft á tíðum drepinn eða limlestur. Þeir sem eiga í illdeilum núna láta sér yfirleitt nægja að hafa nöpur og meinhæðin orð að vopni. Árásir í orði eru særandi og spilla mannorði þótt blóði sé ekki úthellt. Þeir saklausu taka oft út þjáningar í þessum „stríðum“.
Lítum á hvað átti sér stað þegar biskupakirkjuprestur nokkur ásakaði annan prest fyrir að misnota fjármuni kirkjunnar. Deilur þeirra urðu opinberar og söfnuðurinn, sem þeir þjónuðu, klofnaði. Sumir í söfnuðinum neituðu að mæta í guðþjónustu þegar presturinn, sem þeir voru á móti, sá um hana. Gagnkvæm fyrirlitning safnaðarfólksins var slík að það virti ekki hvort annað viðlits þegar það sótti guðþjónustur í kirkjunni. Deilurnar mögnuðust þegar presturinn, sem ákærði hinn, var sjálfur sakaður um kynferðisbrot.
Erkibiskupinn af Kantaraborg höfðaði til samvisku beggja prestanna og kallaði átökin „krabbamein“ og „hneyksli sem vanvirti nafn Drottins“. Árið 1997 sættist annar prestanna á að láta af störfum. Hinn hélt embættinu uns hann varð að hætta störfum vegna þess að hann var kominn á tilskilinn eftirlaunaaldur. Hann sat sem fastast fram á síðustu stundu og lét af embætti á 70 ára afmælisdeginum, 7. ágúst 2001. Í blaðinu The Church of England Newspaper var þess getið að dagurinn, sem hann fór á eftirlaun, væri hátíðisdagur „heilags“ Victriciusar. Hver var „heilagur“ Victricius? Hann var biskup á fjórðu öld sem var að sögn hýddur fyrir að neita að berjast í hernum. Í blaðinu var bent á hve ólík viðhorf þessir menn höfðu en þar stóð: „[Eftirlaunapresturinn] var ekki á því að neita að berjast innan kirkjunnar.“
Þessir prestar hefðu getað komist hjá því að skaða sjálfa sig og aðra hefðu þeir farið eftir ráðleggingunni í Rómverjabréfinu 12:17, 18: „Gjaldið engum illt fyrir illt. Stundið það sem fagurt er fyrir sjónum allra manna. Hafið frið við alla menn að því leyti sem það er unnt og á yðar valdi.“
En hvað gerir þú ef einhver móðgar þig? Knýr gremjan þig til að fara í orðahnippingar við hann? Eða forðast þú napuryrði og heldur sáttaleiðinni opinni? Ef þú særir einhvern hunsarðu þá manneskjuna og vonar að það gleymist með tíð og tíma? Eða ertu fljótur að biðjast afsökunar? Hvort sem þú biðst afsökunar eða fyrirgefur öðrum líður þér betur þegar þú reynir að friðmælast. Ráð Biblíunnar geta hjálpað okkur að leysa jafnvel langvarandi ágreining eins og sýnt er fram á í næstu grein.