Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Sættir leiða til góðs

Sættir leiða til góðs

Sættir leiða til góðs

ED LÁ banaleguna og Bill hataði hann. Tveimur áratugum áður hafði Ed tekið ákvörðun sem leiddi til þess að Bill missti vinnuna og það olli vinaslitum. Nú reyndi Ed að biðja um fyrirgefningu svo að hann gæti dáið í friði. En Bill neitaði að hlusta á hann.

Þegar Bill nálgaðist dauðann næstum 30 árum síðar sagði hann frá því hvers vegna hann hefði ekki veitt fyrirgefningu. „Ed hefði ekki þurft að gera það sem hann gerði besta vini sínum. Mig langaði bara ekki til að sættast eftir tuttugu ár. . . . Það var ef til vill rangt af mér en þannig var mér innanbrjósts.“ *

Persónulegur ágreiningur endar ekki alltaf svona sorglega en honum fylgir oft sársauki og beiskja. Setjum svo að einhver sé í sporum Eds. Þegar hann áttar sig á að ákvörðun hans hafi valdið skaða gæti hann fengið samviskubit og honum fundist hann hafa misst óskaplega mikið. Honum sárnar samt þegar hann hugleiðir hve félagi hans mat vináttu þeirra lítils. Hann fleygði henni eins og hverju öðru rusli.

Sá sem lítur á málið frá sjónarhóli Bills sér sjálfan sig sem saklaust fórnarlamb og honum gæti sárnað stórlega og fundist sér misboðið. Að hans áliti vissi fyrrverandi vinur hans betur og gæti hafa valdið honum skaða viljandi. Þegar upp kemur ágreiningur milli tveggja manna er hvor um sig oft á tíðum sannfærður um að hann hafi á réttu að standa og allt sé hinum að kenna. Upp frá því fara þessir fyrrverandi vinir í stríð ef svo má segja.

Þeir berjast með þögninni. Annar snýr sér undan þegar hinn gengur fram hjá og þeir hunsa hvor annan þegar þeir hittast í margmenni. Þeir fylgjast flóttalega hvor með öðrum úr fjarlægð eða stara kuldalegum og hatursfullum augum hvor á annan. Þegar þeir tala saman er það í styttingi eða þeir hreyta ónotum sem særa eins og hnífstungur.

Þeir virðast vera á öndverðum meiði en eru líklega um leið sammála að einhverju leyti. Þeir viðurkenna ef til vill að þeir eigi í miklum erfiðleikum og vináttuslit góðra vina séu dapurleg. Hvor um sig líður líklega kvalir vegna særinda sem grafa um sig og báðir vita að eitthvað ætti að gera til að láta gróa um heilt milli þeirra. En hvor stígur fyrsta skrefið til að bæta rofið vináttusamband og semja frið? Hvorugur er fús til þess.

Fyrir tvö þúsund árum deildu postular Jesú stundum hart sín á milli. (Markús 10:35-41; Lúkas 9:46; 22:24) Eftir eina slíka deilu spurði Jesús: „Hvað voruð þér að ræða á leiðinni?“ Þeir þögðu skömmustulegir og enginn þeirra svaraði. (Markús 9:33, 34) Kennsla Jesú varð til þess að þeir náðu aftur sáttum. Ráðleggingar hans, svo og nokkurra lærisveinanna, hjálpa fólki enn í dag að leysa ágreining og endurheimta glataða vináttu. Sjáum hvernig það er hægt.

Leggðu þig fram um að ná sáttum

„Ég vil ekki tala við þessa manneskju. Ég vil ekki sjá hana framar.“ Hafir þú talað þannig um einhvern verður þú að gera eitthvað í málunum eins og eftirfarandi ritningastaðir sýna.

Jesús kenndi: „Sértu því að færa fórn þína á altarið og minnist þess þar, að bróðir þinn hefur eitthvað á móti þér, þá skaltu skilja gjöf þína eftir fyrir framan altarið, fara fyrst og sættast við bróður þinn.“ (Matteus 5:23, 24) Hann sagði einnig: „Ef bróðir þinn syndgar gegn þér, skaltu fara og tala um fyrir honum, og sé það ykkar einna í milli.“ (Matteus 18:15) Orð Jesú leggja áherslu á nauðsyn þess að þú eigir frumkvæðið að því að tala út um málið tafarlaust, hvort sem þú hefur sært einhvern eða einhver hefur móðgað þig. Þú ættir að gera það með „hógværð“. (Galatabréfið 6:1) Markmiðið með samtalinu er að leita sátta en ekki að sjá virðingu sinni borgið með því að réttlæta eigin gerðir eða knýja fram afsökunarbeiðni. Hafa þessi biblíulegu ráð tilætluð áhrif?

Ernest er yfirmaður á fjölmennum vinnustað. * Í mörg ár hefur starfið krafist þess að hann réði fram úr viðkvæmum málum hjá alls konar fólki og héldi uppi friðsamlegum starfsanda meðal þess. Hann hefur séð hve snögglega persónulegar deilur geta komið upp. Hann segir: „Mig hefur stundum greint á við aðra. Þegar það gerist sest ég niður með þeim og ræði vandamálið. Farðu strax til þeirra. Hittu þá augliti til auglitis með það að markmiði að friðmælast. Það bregst aldrei.“

Alicia á vini sem koma frá ólíku menningarumhverfi og hún segir: „Stundum segi ég eitthvað og eftir á hef ég á tilfinningunni að ég hafi móðgað einhvern. Ég fer og biðst afsökunar. Það getur verið að ég biðjist afsökunar oftar en þörf krefur en þótt ég hafi ekki móðgað neinn líður mér samt betur. Ég veit þá að enginn misskilningur er á ferðinni.“

Að sigrast á hindrunum

Friðarumleitanir í persónulegum deilum ná samt oft ekki fram að ganga vegna þess að ýmislegt getur staðið í veginum. Hefurðu nokkurn tíma sagt: „Hvers vegna verð ég að vera fyrri til að leita sátta? Þetta var honum að kenna.“ Eða hefurðu einhvern tíma ætlað að gera út um málið og viðmælandinn segir bara: „Ég á ekkert vantalað við þig?“ Sumir svara á þessa leið vegna þess að þeim hefur liðið illa. Í Orðskviðunum 18:19 segir: „Erfiðara er að ávinna svikinn bróður en að vinna rammbyggða borg, og deilur slíkra manna eru sem slagbrandar fyrir hallardyrum.“ Hugsaðu út í hvernig hinum líður. Ef hann snýr við þér bakinu reyndu þá aftur eftir smátíma. Þá getur verið að hin „rammbyggða borg“ sé opin og hægt sé að taka ‚slagbrandinn‘ frá dyrunum og leiðin til sátta opnist.

Annað sem kemur í veg fyrir sættir gæti tengst sjálfsvirðingu. Sumum finnst auðmýkjandi að biðjast afsökunar eða jafnvel að tala við andstæðinginn. Sjálfsvirðing á vissulega rétt á sér. En hvort eykur það sjálfsvirðinguna eða dregur úr henni að hafna sáttaumleitun? Gæti verið að bak við sjálfsvirðinguna leyndist stolt?

Biblíuritarinn Jakob sýnir fram á að samband sé á milli þrætugirni og stolts. Eftir að hafa lýst ‚stríðum‘ og ‚sennum‘, sem sumir kristnir menn háðu sín á milli, segir hann enn fremur: „Guð stendur í gegn dramblátum, en auðmjúkum veitir hann náð.“ (Jakobsbréfið 4:1-3, 6) Hvernig kemur dramb og stolt í veg fyrir sættir?

Stolt villir um fyrir fólki og lætur því finnast að það sé betra en aðrir. Dramblátum finnst sem þeir hafi rétt til að dæma um siðferði náungans. Á hvern hátt? Þegar deilumál koma upp finnst þeim oft að andstæðingnum sé ekki viðbjargandi. Stolt fær suma til þess að álíta að þeir sem eru á annarri skoðun eigi ekki skilið að fá nokkra athygli, hvað þá heldur einlæga afsökunarbeiðni. Þeir sem líta stórt á sig láta deilur oft viðgangast í stað þess að leysa þær.

Stolt hindrar oft á tíðum sáttaleiðina líkt og vegtálmi hindrar umferð á þjóðvegi. Ef þú áttar þig á því að þú stendur í veginum fyrir að sættir náist þá gæti verið að stolti væri um að kenna. Hvernig getur þú sigrast á stolti? Með því að rækta með þér hið gagnstæða, auðmýkt.

Gerðu hið gagnstæða

Í Biblíunni er hvatt til að sýna auðmýkt. „Laun auðmýktar, ótta Drottins, eru auður, heiður og líf.“ (Orðskviðirnir 22:4) Í Sálmi 138:6 lesum við um viðhorf Guðs til auðmjúkra og stoltra manna: „Því að Drottinn er hár og sér þó hina lítilmótlegu og þekkir hinn drambláta í fjarska.“

Margir leggja auðmýkt að jöfnu við auðmýkingu. Valdhafar heimsins virðast hafa þá skoðun. Stjórnmálaleiðtogar hafa ekki kjark til að viðurkenna auðmjúklega yfirsjónir sínar þótt heilu þjóðirnar lúti vilja þeirra. Það er fréttnæmt að heyra valdhafa segja „fyrirgefðu“. Þegar fyrrverandi opinber embættismaður baðst nýlega afsökunar fyrir að valda stórfelldu slysi komst það í fréttirnar.

Auðmýkt er það að vera hógvær eða lítillátur, andstæða þess að vera stoltur eða drambsamur. Auðmýkt lýsir því hvað manneskjunni finnst um sjálfa sig, ekki hvað öðrum finnst um hana. Það er ekki auðmýkjandi að viðurkenna mistök og biðjast auðmjúklega afsökunar. Þvert á móti er það til álitsauka. Í Biblíunni segir: „Ofmetnaður hjartans er undanfari falls, en auðmýkt er undanfari virðingar.“ — Orðskviðirnir 18:12

Fyrirlesari nokkur sagði um stjórnmálamenn sem biðjast ekki afsökunar á yfirsjónum sínum: „Því miður virðast þeir halda að slík játning gefi til kynna veikleika. Veikgeðja og óöruggt fólk segir sjaldan ‚fyrirgefðu‘. Göfuglynt fólk og kjarkmikið gerir sig ekki að minni manni með því að segja ‚ég gerði mistök‘.“ Þetta á einnig við um aðra en stjórnmálamenn. Leggir þú þig fram um að láta stolt víkja fyrir auðmýkt eykur það verulega líkurnar á að persónuleg deilumál þín endi á friðsaman hátt. Lítum á hvernig fjölskylda komst að raun um sannleiksgildi þess.

Misskilningur olli spennu milli Julie og Williams, bróður hennar. William varð svo reiður út í Julie og Joseph, eiginmann hennar, að hann sleit öllu sambandi við þau. Hann skilaði meira að segja öllum gjöfum sem Julie og Joseph höfðu gefið honum á umliðnum árum. Eftir því sem mánuðirnir liðu kom biturleiki í stað innileikans sem ríkt hafði áður með systkinunum.

Joseph ákvað að fara eftir því sem stendur í Matteusi 5:23, 24. Hann reyndi að nálgast mág sinn með hógværð og sendi honum fleiri en eitt bréf þar sem hann baðst afsökunar á að hafa sært hann. Hann hvatti eiginkonu sína til að fyrirgefa bróður sínum. Með tímanum skildi William að Julie og Joseph óskuðu einlæglega að sættir næðust og afstaða hans mildaðist. William og kona hans hittu Julie og Joseph. Allir báðust fyrirgefningar, féllust í faðma og endurnýjuðu vinskapinn.

Langi þig til að leysa ágreining milli þín og einhvers annars skaltu sýna þolinmæði, fara eftir því sem Biblían kennir og reyna að ná sáttum. Jehóva hjálpar þér. Það sem Guð sagði Ísraelsmönnum til forna mun reynast þér vel: „Æ, að þú vildir gefa gaum að boðorðum mínum, þá mundi heill þín verða sem fljót.“ — Jesaja 48:18.

[Neðanmáls]

^ gr. 3 Byggt á bókinni The Murrow Boys — Pioneers on the Front Lines of Broadcast Journalism eftir Stanley Cloud og Lynne Olson.

^ gr. 12 Sumum nöfnum hefur verið breytt.

[Myndir á blaðsíðu 7]

Að biðjast fyrirgefningar leiðir oft til þess að friðsæl samskipti komast á aftur.